Sanntrúaður villutrúarmaður

Peter Rollins, Sanntrúaði villutrúarmaðurinn og aðrar torræðar sögur. Íslensk þýðing Þorvaldur Víðisson. Reykjavík: Skálholtsútgáfan, 2018, 167 bls.

Við lestur Sanntrúaða villutrúarmannsins kom mér í hug spurning sem ég var spurður fyrir löngu: Hvað mundi gerast ef fornleifafræðingar finndu gröf með jarðneskum leifum sem væri hægt að sýna fram á með fullkomnu öryggi að væru af Jesú frá Nazaret? Spurningin lýtur að því hvaða afleiðingar það hefði ef hægt væri að afsanna sögnina um páskadagsmorguninn, upprisuna og tómu gröfina algerlega hlutlægt. Auðvitað man ég ekki hverju ég svaraði þá en ég veit hverju ég mundi svara núna: Það mundi engu breyta. Páfinn í Róm mundi ekki leggja niður stafinn, kirkjum yrði ekki lokað, Agnes biskup mundi ekki skila inn krossinum. Sannleikurinn er sá að kirkjan og kristnin eru löngu orðin að vel smurðri eilífðarvél sem mundi áreiðanleg malla áfram þrátt fyrir slíka uppákomu.

Peter Rollins

Helsti kostur Sanntrúaða villutrúarmannsins er að höfundurinn ræðst að þessum mekanisma og sýnir fram á að nú á dögum fylla margir sem aðrir líta á sem sanntrúaða í raun þann flokk sem Kristur átti löngum í útistöðum við og gagnrýndi hvað harðast, þ.e. eru farísear. Oft er litið svo á að það að vera kristinn, trúaður eða hvað svo sem við viljum kalla það sé að halda uppi orðræðu af ákveðnu tagi, aðhyllast fastmótað kerfi hugmynda og skoðana, hugsanlega líka ákveðna heimsmynd og samfélagssýn og síðan ekki söguna meir. Höfundurinn, Peter Rollins (f. 1973) heimspekingur frá Norður-Írlandi, gagnrýnir á hinn bóginn þessa mjög svo hugrænu afstöðu í trúmálum og heldur því fram að trúin felist í einhverju allt, allt öðru. Hér verður ekki gerð fyllri grein fyrir skoðunum hans  í þessu efni en áhugasömum látið eftir að kynna sér málið. Þó skal bent á að þegar á upphafssíðu bókarinnar lýsir hann viðfangi trúarinnar eða hinu heilaga sem „hyldýpi hins óræða“. Þar með sver hann sig í ætt við svokallaða apófatíska eða neikvæða guðfræði. Samkvæmt henni er aðeins mögulegt að „lýsa“ guðdóminum með útilokunum, þ.e. með því að staðhæfa hvað eða hvernig „hann“ er ekki. Á hinn bóginn megna engin orð eða mennskar hugsanir að skilgreina hvað eða hvernig „hann“ sé. Líklega er trúarskilningur af því tagi óralangt frá hugmyndum þeirra sem helst gagnrýna trú og trúarbrögð nú á dögum. Raunar er þessi afstaða til trúarinnar líka framandi fyrir mörgum sem telja sig trúaða.

Sanntrúaði villutrúarmaðurinn hefur að geyma 33 sögur sem höfundur ætlar sjálfur að gegna sama hlutverki og dæmisögur eða að vera myndræn dæmi um þann boðskap sem höfundur eða sagnamaður vill miðla. Sumar sagnanna eru líka tilbrigði við nokkrar af þekktustu dæmisögum Krists. Vafasamt er að mögulegt sé að flokka allar sögurnar sem dæmisögur enda hikar höfundurinn við að kalla sögur sínar því nafni. Það stafar þó ekki af formi sagnanna heldur óttast hann að sögurnar muni ekki rísa undir því hlutverki sem hann greinilaga ætlar dæmisögum, þ.e. að koma á gagngerum breytingum í lífi lesenda eða áheyrenda. Hugsanlega má kalla sögurnar torræðar eins og gert er í íslensku þýðingunni. Á frummálin kallast þær impossible tales og kannski lýsir það þeim best.

Sögurnar byggjast flestar á sagnheimi Nýja testamentisins eða a.m.k. aðstæðum í austurlöndum nær. Örfáar þeirra geta þó verði teknar úr næsta umhverfi höfundarins en þó tæpast okkar eigin reynsluheimi. Þegar best tekst til nær höfundur að koma lesandanum á óvart t.d. með að breyta alkunnri biblíusögu með óvæntum snúningi í lokin eða með því að láta sögupersónur skipta um hlutverk. Þá er líka áhrifaríkt þegar hann tekur sér stöðu með sögupersónu sem oftast er úti í kuldanum — eins og t.d. Júdas Ískaríót — og knýr lesanda til að taka afstöðu með honum.

Hverri sögu fylgir höfundur svo eftir með að eigin sögn „stuttum“ skýringum sem í flestum tilvikum eru þó lengri en sögurnar sjálfar. Deila má um hvort þetta sé kostur eða galli. Að mati þessa lesanda hér hefði bókin orðið sterkari án túlkananna. Einnig má benda á að skýringarnar eru alla jafna mun tormeltari en sögurnar sjálfar. Það kann þó að stafa af því að þýðandinn sé of bundinn af orðaröð og setningabyggingu frumtextans sem verður stundum ankanalegt á íslensku.

Hér verður ekki farið út í að endursegja, túlka eða vængstýfa einstakar sögur á annan hátt. Þær njóta sín best ef þær fá að tala fyrir sig sjálfar. Þó skal vikið að einu stefi sem fram kemur í bókinni og hefur verið nokkuð í umræðunni hér upp á síðkastið. Þar á ég við sambandið milli iðrunar og fyrirgefningar.

Allt frá Hruni hefur traust og vantraust, endurheimt glataðs trausts og sáttargjörð verið ofarlega á baugi í íslensku samfélagi. Í því sambandi kemur fyrirgefning óhjákvæmilega við sögu. Á síðustu misserum hefur svo fyrirgefning og iðrun mjög komið til tals t.d. í tenglum við #metoo og samskipti gerenda og þolenda og nú síðast í umræðum um Klaustur-skandalinn og stöðu kjörinna fulltrúa.

Flest lítum við svo á að í mannlegum samskiptum skipti miklu að þeir sem verður alvarlega á í messunni, fyrirgera trausti og spilla eðlilegum samskiptum, komist til sjálfra sín, horfist í augu við gerðir sínar, játi þær og leitist við að endurnýja tengslin að því marki sem mögulegt er. Þetta kallast iðrun, játning og fyrirgefningarbeiðni á klassísku málfari guðfræðinnar. Oft virðist litið svo á að sá sem biðst fyrirgefningar eigi einhvers konar heimtingu á henni af hendi þolanda. Þó hefur í vaxandi mæli verði lögð áhersla á að slík fyrirgefningarkrafa feli í raun í sér nýtt ofbeldistæki í höndum gerenda.  Því hefur verið lögð þung áhersla á iðrunina, gagnrýnið sjálfsmat, sem forsendu fyrirgefningar þegar hún á að hafa raunhæfa merkingu.

Í fleiri en einni af sínum torræðu sögum veltir Peter Rollins vöngum yfir þessu sambandi og hefur endaskipti á hlutunum. Hann vill frekar líta svo á að iðrunin sé afleiðing fyrirgefningar en ekki forsenda hennar. Þetta sjónarhorn ögraði mér og ég spurði hvort þetta væri ekki einum of langt gengið og í raun skaðlegt viðhorf í þeim félagslega veruleika sem við höfum búið við að undanförnu. Ég verð þó líklega að viðurkennar að þarna sé höfundurinn ekki að ræða um iðrun og fyrirgefningu í mannlegum samskiptum heldur í samskiptum okkar við „hyldýpi hins óræða“. Sagan „Blinda“ á bls. 121–122 bregður frekara ljósi á það sem hér er átt við.

Þegar Peter Rollins tekst best upp virka þessar „torræðu“ sögur hans vissulega líkt og klassískar dæmisögur: ögra vanahugsun og opna nýjar víddir.

Um höfundinn
Hjalti Hugason

Hjalti Hugason

Hjalti Hugason er prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hann hefur stundað rannsóknir á ýmsum sviðum íslenskrar kirkjusögu og kirkjuréttar en auk þess ritað um trú, samfélag og menningu á ýmsum vettvangi. Sjá nánar

[fblike]

Deila