Mitt kóngsríki fyrir hest ….

Mikið lof hefur verið borið á sýningu Borgarleikhússins á Ríkharði III og það er engin furða. Þetta er afbragðsgóð sýning. Leikstjórnarsigur fyrir Brynhildi Guðjónsdóttur og  leiksigur fyrir Hjört Jóhann Jónsson.  Í þetta sinn er Shakespeare sýndur í nýrri þýðingu Kristjáns Þórðar Hrafnssonar sem er lipur, skiljanleg og skáldleg í senn og í þetta sinn var framsögn allra leikara svo skýr að jafnvel þungur texti virtist léttur.

Myrkur heimur

Margt hef ég séð fallegt eftir ljósahönnuðinn Björn Bergstein Guðmundsson en þessi sýning sló öllu öðru við. Sviðsmynd Ilmar Stefánsdóttur er mínimalísk, lýsingin kemur til móts við hana og magnar hana upp. Ljós og skuggar leika stórt hlutverk í allri sýningunni. Skáljós úr lækkuðu kösturunum voru skorin af löngum eltiljósum og áferð sýningarinnar var oft eins og hálfrökkvuð bæði vegna sviðsreyks og lýsingar. Minnti á gömul flæmsk málverk.  Stundum mynduðu ljósin veggi og stundum skáru þau rákir í gólfið. Það var þakið svörtum glansandi pappírsræmum sem minntu á hraun, hrafntinnu. En fyrst og fremst undirstrikaði lýsingin hið mannlega myrkur sem William Shakespeare bendir okkur á í þessu fræga verki.

Ríkharður

Sýningasaga Ríkharðs III sem Kate Wilkinson hefur skrifað í RichardIII: A Critical Reader, ber vott um að ímyndunarafli leikhússfólks eru nánast engin takmörk sett þegar kemur að túlkun og skilningi á þessu verki. Það er meðal annars af því að aðalpersónan er snúin gáta. Hvað er í höfðinu á manni sem svívirðir konur og lætur myrða bræður sína og lítil börn þeirra með brosi á vör?  Hvað knýr hann áfram?

„Hinn myrki þríhyrningur“ er það kallað ef þrír geðsjúkdómar koma saman í einni persónu þ.e. siðblinda, narsissismi og valdafíkn (machiavellianismi).  Ætli þetta sé ekki nokkuð góð lýsing á hlutverki Ríkharðs þriðja? Hann skilur ekki orðið „siðferði“, hann elskar ekki sjálfan sig og þar af leiðandi er hann ófær um ást eða samlíðan. Völd er það eina sem getur fyllt upp í tómið innra með honum.  En hann er líka fyndinn og hann heillar bæði konur og karla þó hann eigi að vera mjög bæklaður.  Sjarminn og húmorinn einkenna túlkun og leik Hjartar Jóhanns Jónssonar. Hjá hans Ríkharði er valdabaráttan leikur sem hann dregur áhorfendur inn í.

Konur

Hlutur kvenna er dreginn fram og stækkaður í þessari leikgerð Brynhildar og Hrafnhildar Hagalín. Sigrún Edda Björnsdóttir leikur móður Ríkharðs sem hefur aldrei getað elskað hann. Hún er eins og frosin, valdalaus horfir hún á leik sonarins og harmar gjörðir hans. Mannleg verður hún fyrst þegar þær setjast saman gömlu konurnar, hún og hin kyngimagnaða ekkjudrottningi Margrét sem Kristbjörg Kjeld leikur og Elísabet yngri, 12 ára sem Sólbjört Sigurðardóttir leikur.  Gömlu konurnar staupa sig á vasapela og rekja raunir sínar. Elísabet drottning sem leikin er af Eddu Björgu Eyjólfsdóttur stendur hjá. Lengi hefur hún staðið gegn Ríkharði og það er ömurlegt að sjá hana og Lafði Önnu, sem Þórunn Arna Kristjánsdóttir leikur, falla fyrir honum. Þegar þær hafa gert það brýst hatur hans á konum fram og kóngur sýnir sitt rétta andlit.

Allir leikararnir eru með míkrófóna og það er orðið frekar regla en undantekning á stóra sviðinu og jafnvel minni sviðum í dag. Það er af því að leikarar kunna ekki lengur að láta röddina berast um allt hús, segja sumir, aðrir benda á að tónlistin sem líka er orðinn fasti í sýningunum krefjist þess að leikarar hækki sig og reykurinn sem svo mjög er notaður í sviðsmyndum sé líka fjandsamlegur rödd leikarans. Með míkrófónunum fylgja bæði kostir og ókostir en það er önnur umræða.

Leikhús í leikhúsi

Öll sýningin bendir á sig sem leikhús sem er undirstrikað strax í upphafinu þar sem persónur leiksins ganga kringum Ríkharð sem situr á stól með hjólum og sveiflar hendi eins og hljómsveitarstjóri.  Viðamesti hluti leikmyndarinnar er upphækkaðir áhorfendabekkir þar sem persónur og leikendur taka sér sæti öðru hvoru og horfa á átök milli hinna þátttakendanna og viðbrögð áhorfenda í salnum. Oft hefur þetta verið gert áður en hér er sviðsmyndin notuð hugvitsamlega sem tákn hinna óvirku og samúðarlausu áhorfenda að harmleikjum annarra sem svo mjög einkennir okkar tíma. Ríkharður virðist skemmta sér betur yfir þessum leik en flestir aðrir af því að það er list hans að leggja gildrur fyrir fólk og veiða það í vef sinn. Það er eitthvað dýrslegt við hann þegar hann þeytist yfir sviðið á stólnum eins og kónguló sem finnur að flugan er föst í vefnum. Og þegar menn neita að lúta stjórn hans í lokin tekur óreiðan við. Sjálfur hangir hann niður úr loftinu eins og strengjabrúða sem enginn vill taka að sér. Það er magnað.

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[fblike]

Deila