Sagan bankaði uppá, fórst þú til dyra?

Um Þetta breytir öllu: kapítalisminn gegn loftslaginu eftir Naomi Klein

Þegar ég fékk bókina í hendurnar var það fyrsta sem ég hugsaði að þetta væri heilmikill doðrantur og þar sem málefnið er auk þess mikilvægt fylltist ég frestunaráráttu gagnvart því að byrja að lesa. Það er svipað eins og með loftslagsbreytingar almennt, maður á það til að fresta því að horfast í augu við þær og strúta einfaldlega vandann (Naomi Klein viðurkennir í innganginum að hafa sjálf gert það lengi vel). En um leið og lesturinn hófst varð ég glaður að hafa byrjað því Naomi Klein skrifar skýrt og kemur sér strax að kjarna málsins. Hann er sá að til þess að koma í veg fyrir ofhitnun plánetunnar þurfum við að gera róttækar breytingar á samfélagsgerðinni og óbreytt ástand er ekki valkostur.

Naomi Klein.

Naomi Klein nær svo að halda lesandanum við efnið með stanslausri runu af áhugaverðri pólítískri greiningu og frásögnum af ýmsum átakasvæðum. Bókinni svipar að þessu leyti til fyrri bóka hennar, eins og t.d. No Logo og Shock Doctrine, en hún segir að loftslagsbreytingar séu nú mál málanna sem geti sameinað ólíka hópa aktívista. Greining Klein er í grunninn einföld: þróun kapítalismans hefur allt frá því James Watt fann upp á gufuvélinni verið nátengd jarðefnaeldsneyti og arðbærustu fyrirtæki heims eru olíufyrirtækin, og ef við viljum minnka notkun jarðefnaeldsneytis þá þarf að takast á við olíufyrirtækin sem eru grunnstoðir kapítalismans. Þarna stendur hnífurinn í kúnni og það sést ágætlega á því hvernig málin hafa þróast frá því að bókin kom fyrst út árið 2014. Trump var kosinn forseti Bandaríkjanna út á það meðal annars að lofa því að endurreisa kolaiðnaðinn og hann skipaði forstjóra olíurisans ExxonMobil sem utanríkisráðherra (þó að sá hafi reyndar nú þegar verið rekinn eins og svo margir aðrir).

Hún bendir jafnframt á að samningar um aðgerðir í loftslagsmálum hafa mistekist vegna þess að þeir voru gerðir nánast samtímis og stórir fríverslunarsamningar um hnattvædd frjáls viðskipti. Þeir alþjóðasamningar hafa iðulega haft forgang og núllað út loftslagssamningana. Hún segir það hafa reynst alger tímasóun að reyna markaðslausnir á vandanum og það hafi verið helstu mistök umhverfisverndarhreyfinga undanfarna áratugi að treysta á þær. Það kaldhæðnislega við loftslagsvandann er að þeir sem munu finna fyrir verstu afleiðingum eru þeir sem nú þegar hafa það verst, þ.e.a.s fólk í þriðja heiminum og jaðarsettir hópar á Vesturlöndum. Þess vegna telur Naomi Klein að rétta lausnin felist í því að fjöldahreyfingar venjulegs fólks sem mun verða fyrir barðinu á loftslagsbreytingum lýsi yfir neyðarástandi til að bjarga jörðinni.

Hreyfingin fyrir loftslagsréttlæti verður að hennar mati að standa fyrir eitthvað meira en bara nei við losun. Til að hún geti haft áhrif og sameinað venjulegt fólk í baráttunni verður hún á sama tíma að vera drifkraftur fyrir ýmsar breytingar til hins betra í heiminum. Þau mál sem hún nefnir helst í því samhengi eru að endurreisa staðbundin hagkerfi, efla lýðræði og ná valdi úr höndum stórfyrirtækja, bæta almenningssamgöngur, endurheimta eignarhald á grunnþjónustu og margt fleira. Hún segir að það verði að nýta þetta neyðarástand til að gera jákvæðar breytingar svo að hægt verði að tryggja venjulegu fólki viðunandi lífsskilyrði í breyttum heimi á sama tíma og tekist er á við loftslagsvandann. Annars munu aðrir nota tækifærið til að skera allt niður í drasl og skapa samfélag ójafnaðar, stigveldis og aðskilnaðar ríkra og fátækra.

Klein skiptir bókinni í þrjá hluta. Í þeim fyrsta greinir hún stjórnmálastandið og hvers vegna loftslagsvísindi hafa lent í grýttum jarðvegi hjá mörgum stjórnmálamönnum. Í stuttu máli segir hún að það sé vegna þess að íhaldsmenn hafi fljótt áttað sig á því að til þess að leysa loftslagsvandann þyrfti að grípa til aðgerða sem falla ekki að hugmyndafræði óhefts markaðsfrelsis, og því hafi margir kosið að afneita loftslagsvandanum til að þurfa ekki að gera málamiðlanir með kapítalismann. Klein segir að þó séu aðrir sem viðurkenna vandann en sjá í honum tækifæri fyrir þróuð iðnríki á norðurhveli til að ná yfirburðarstöðu í heiminum vegna þess að það eru ríki sunnar á hnettinum sem munu verða fyrir mestum skaða. Frá því að bókin kom út hefur ríkisstjórn Bandaríkjanna að því er virðist tekið upp þessa seinni afstöðu þó að enn sé haldið í það hálmstrá að afneita vandanum.

Klein telur að þörf sé á því að fólk að nái stjórn yfir sínum eigin orkumálum. Vegna þess að hagnaðarkrafan ræður öllum ákvörðunum einkafyrirtækja munu þau eingöngu skipta yfir í endurnýjanlega orkugjafa ef sannað er að þau græði meira á því. Til þess að geta tekið sameiginlega ákvörðun um að skipta yfir í vistvæna orku þarf að ná aftur pólítiskri stjórn á orkumálum og Klein segir frá dæmum í Þýskalandi þar sem fólk hefur náð að almannavæða orkufyrirtæki á ný. Til eru áætlanir um hvernig væri hægt að skipta smám saman yfir í hreina orku, en hún segir að þær áætlanir verði ekki framkvæmdar nema almenningur hafi völd til að segja nei og setja bann við vinnslu kola og olíu. Varðandi spurninguna hver ætti að borga fyrir orkuskiptin segir hún að sá sem mengar mest eigi að borga og því ætti að nota hagnað jarðefnaeldsneytisfyrirtækja til að byggja upp nauðsynlega innviði fyrir vistvænt orkukerfi.

Í öðrum hluta fjallar Klein um meintar galdralausnir á vandanum sem hafa verið fyrirferðarmiklar í opinberri umræðu en hún sýnir fram á að þær eru einungis tálsýnir. Hún leggur áherslu á að stór umhverfisverndarsamtök hafi gert mistök með því að tala fyrir markaðslausnum á vandanum, eins og t.d. kolefniskvóta. Það hefur skapað samkrull mengandi fyrirtækja og umhverfisverndarsamtaka þar sem grænhreyfingar verða þátttakendur í viðskiptum þar sem þær selja fyrirtækjum umhverfisvæna ímynd. Jafnframt blæs hún á vonir um að einhverjir ríkir kallar muni bjarga heiminum. Þegar litið er yfir ákvarðanatökur viðskiptamanna sem hafa í orðu kveðnu gengið til liðs við loftslagshreyfinguna þá hafa þeir í raun alltaf látið hagnaðarsjónarmið ráða sínum ákvörðunum og ekki sett miklar fjárhæðir í þróun umhverfisvænnar tækni. Hræsnin er mikil þegar litið er til þess að í raun virðast menn eins og Richard Branson fyrst og fremst vekja athygli á sjálfum sér og bæta ímynd sína til þess að þeir fái skjól til að halda áfram losun í stórum stíl. Hugmyndir um jarðarmótun fá líka falleinkunn hjá Klein. Hún telur að í besta falli gæti hjúpur af brennisteinsögnum í lofthjúpnum virkað sem tímabundinn plástur, en svo þyrfti að líkja eftir risastóru eldgosi á hverju ári til að kæla jörðina og ef svo kæmi risaeldgos í alvörunni færi allt úr böndunum. Öll líkön sýna auk þess að áhrifin af mótun loftslagsins yrðu ólík eftir svæðum, t.d. ef kæla ætti Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku um nokkrar gráður myndi það leiða til gríðarlegra þurrka og hungursneyðar í kjölfarið í löndum nær miðbaugi.

Í þriðja og lengsta hlutanum snýr Klein sér að því sem hún bindur mestar vonir við að beri árangur. Það er skipulagning fjöldahreyfingar venjulegs fólks um allan heim gegn jarðefnaeldsneytisiðnaðinum. Hún leitar meðal annars fyrirmynda hjá infæddum íbúum Kanada og Bandaríkjanna sem hafa barist gegn olíu og gasleit og gegn lagningu olíu- og gasleiðslna um sín landssvæði. Hún segir að auki frá baráttu fólks gegn vinnslu jarðefnaeldsneytis á ýmsum stöðum þar sem umhverfinu er ógnað af loftslagsbreytingum eða þar sem landið þar sem fólkið býr hefur verið skilgreint sem fórnarsvæði fyrir olíuvinnslu. Upphaf hreyfingarinnar sem hún kallar Tálmey (e. Blockadia) rekur Klein til mótmæla gegn olíuvinnslu við óseyrar Nígerfljóts í upphafi 10. áratugarins. Þar vannst einn af fyrstu sigrunum gegn olíufyrirtækjum þegar Ogoni fólkinu tókst að stöðva alla vinnslu olíu á sínu landi þrátt fyrir að stjórnvöld í Nígeríu og olíufyrirtæki hafi brugðist hart við mótmælendum, hernum hafi verið beitt og fólk myrt úti á götu.

Að baki frásögnunum í bókinni liggur greinilega mikil rannsóknarvinna og það er sérstaklega áhugavert að heyra sögur af fólki frá svæðum sem venjulega rata ekki mikið í fréttirnar. Röksemdafærslur Klein eru sannfærandi en þó spyr maður sig hvort það sé kannski fullmikil bjartsýni að halda að aktívistar gegn olíuvinnslu muni hafa hnattræn áhrif. Boðskapur Klein er  sá að það eina sem gæti bjargað plánetunni frá því að stikna er ef upp rís hreyfing fólks um allan heim. Slík fjöldahreyfing þyrfti að vera stærri en áður þekkist en ætti sér fyrirmynd í þeim mannréttindahreyfingum sem áður hafa náð árangri, t.d. hreyfingunni gegn þrælahaldi á nítjándu öld. Það er líklega eina mannréttindahreyfingin sem hefur leitt til breytinga með neikvæð áhrif á hagvöxt af svipaðri stærðargráðu og aðgerðir vegna loftslagsbreytinga myndu hafa. Það voru margir sem töpuðu miklu þegar þrælahald var bannað og með hliðstæðum hætti eru það hinar neikvæðu efnahagslegu afleiðingar fyrir hagsmunaaðila í jarðefnaeldsneytisiðnaði sem gera baráttuna fyrir loftslaginu erfiða.

Þýðing Jóhannesar Ólafssonar á Þetta breytir öllu er mjög vel gerð og það er frábært framtak hjá Sölku að gefa út bókina á Íslandi. Þó að ýmislegt hafi gerst í málaflokknum frá því að enska útgáfa bókarinnar kom út árið 2014 þá breytir það því ekki að grundvallaratriðin í greiningu Naomi Klein standa enn. Nýlegar fréttir af því að Íslendingar séu Evrópumethafar í losun kolefnis á mann eru sláandi áminning um að við erum ekki undanskilin vandanum. Það væri óskandi að fleiri tækju sér til fyrirmyndar þá aktívista um allan heim sem Klein fjallar um í bók sinni og leggðu sitt af mörkum í fjöldahreyfingunni fyrir betri heimi. Bókin endar einmitt á þessari áleitnu spurningu til lesandans: Sagan bankaði upp á, fórst þú til dyra?

Um höfundinn
Atli Antonsson

Atli Antonsson

Atli Antonsson er doktorsnemi í almennri bókmenntafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

[fblike]

Deila