Gildismat velmegunarlanda

Þegar önnur mynd þýska leikstjórans Wolfgang Fischer, Styx (2018), var frumsýnd á Kvikmyndahátíðinni í Berlín fyrr á þessu ári hafði hartnær áratugur liðið frá því að hann þreytti frumraun sína á hvíta tjaldinu með spennumyndinni Það sem þú ekki sérð (Was du nicht siehst, 2009). Í Berlín hlaut Styx þrjú verðlaun en henni hefur jafnframt vegnað vel á öðrum kvikmyndahátíðum í kjölfarið, fékk m.a. sérstaka viðurkenningu dómnefndar Gyllta lundans á RIFF fyrr á árinu og var nýverið tilnefnd til Evrópsku háskólakvikmyndaverðlaunanna.

Hér segir frá Rieke (Susanne Wolff), þýskum lækni sem í upphafi myndar leggur af stað í umfangsmikla siglingu um Atlantshafið á seglskútu sinni. Báturinn er nýtískulegur og vel útbúinn en virðist samt heldur smár þegar út á víðáttur hafsins er komið. Rieke er einsömul á ferðalaginu og fyrsti hluti myndarinnar snýst um dagfarslegan veruleika um borð í bátnum. Þótt loftskeytatæki tengi hana við umheiminn þá heyra slík samskipti til undantekninga og það er þögnin sem er mest áberandi. Frásögn myndarinnar dregst í þessum skilningi saman og rennur alfarið inn í heim Rieke um borð í bátnum, þar sem svigrúm til athafna er takmarkað og sjóndeildarhringurinn sem blasir við í myndrammanum markar bókstaflega ytri mörk söguheimsins. En þótt verurými skútunnar telji ekki marga fermetra er forvitnilegt að fylgjast með söguhetjunni og frásögnin dregur fram og leggur áherslu á fumlaust öryggi Rieke og hvernig hún innir af hendi hið flókna siglingaverkefni. Samhliða þessu öðlast áhorfendur skilning á því sem drífur Rieke áfram og í hverju aðdráttarafl úthafssjóferðar sem þessarar kunni að felast. Hún syndir í kringum bátinn í góðviðrinu, hefur undir höndum áhugaverðar bækur sem hún les í rólegheitunum á þilfarinu og virðist almennt vera í jafnvægi og njóta friðar. Siglingataóið er jafnframt í andstöðu við þá mynd sem dregin er upp af starfi hennar og borgarlífinu í upphafskynningu myndarinnar, þar sem hamfarir ægilegs umferðarslyss, áreiti og álag, blikkandi ljós í næturmyrkri, og hróp og köll eru uppistaðan.

Rieke er þó ekki sloppin alveg út úr tilvistarkreppum og krísum hins tæknivædda nútíma heldur reynist fyrsti hluti myndarinnar aðeins vera lognið á undan storminum, að hluta til bókstaflega því annar hlutinn hverfist um sjávarháska sem hún lendir í þegar ofsaviðri skellur nær fyrirvaralaust á. Hér kannast áhorfendur sjávarháskamynda við efnistökin. Það þarf að berjast til og frá um bátinn í regnstakki með storminn í fangið til að bjarga því sem bjargað verður, snúa segli hér og herða svo á festingum þarna – þetta er glíma við náttúruöflin og margt getur farið úrskeiðis. Nýjasta mynd Baltasars Kormáks, Adrift (2018), kemur auðvitað upp í hugann, sem og nýleg mynd með Robert Redford, All is Lost (2013), auk fjölda annarra. Wolfgang Fischer og tökumaðurinn Benedict Neuenfels vinna hins vegar afskaplega vel með skynhrif ofsaveðursins og vanmátt Rieke, hvurs litli bátur er eins og korktappi undir þessum kringumstæðum. Útópískt andrúmsloft fyrsta þriðjungs myndarinnar hverfur vitanlega eins og dögg fyrir sólu, því er rutt af sviðinu með sjónrænu og hljóðrænu rofi óveðursins. Áhorfanda tekur að gruna að flótti Rieke úr sínum iðnvædda, hagsæla en truflandi veruleika sé að mistakast, nokkuð sem þriðji og síðasti hlutinn staðfestir um leið og frásögnin sjálf tekur stefnubreytingu. Þau pólitísku og siðferðilegu álitaefni sem fylgja hnattvæddu samfélagi samtímans skjóta upp í kollinum, og reynast óumflýjanleg, alveg eins og stormurinn.

Þegar gáð er til veðurs daginn eftir og ljóst er að Rieke slapp með skrekkinn og báturinn sömuleiðis blasir óvænt sjón við á sjávarfletinum í nokkur hundruð metra fjarlægð. Það er strandaður og nær sundurryðgaður flutningadallur, sem virðist vera í þann mund að sökkva, en um borð sitja tugir, jafnvel hundruðir manna fastir. Þarna er um að ræða flóttamenn á leið frá meginlandi Afríku til Evrópu sem lent hafa í hrakförum og eru núna í bráðri lífshættu. Rieke bregst við af sömu fagmennsku og einkennt hefur hátterni hennar fram til þessa, hún kannar málið og kallar eftir hjálp. Og það er hérna sem boðskapur og meginerindi myndarinnar – í raun sjálft viðfangsefni hennar – gerir vart við sig, þegar ríflega þrjú korter eru liðin. Seglbáturinn er skýrlega vanmáttugt björgunartæki, Rieke getur ekki bjargað upp í bát til sín nema örfáum áður en honum er stofnað í hættu. Bara það að hún sé á staðnum og sigli í áttina að skipinu blæs flóttafólkinu innistæðulausa vonarglætu í brjóst sem aftur verður til þess að fjölmargir stökkva í sjóinn í von um að synda til hennar. Flestir drukkna en ungur drengur, Kingsley (Gedion Oduor Wekes), kemst þó við illan leik um borð í seglbátinn. Hverfist frásögnin uppfrá þessu annars vegar um það hvernig samskiptum þeirra Rieke og Kingsley vindur fram og svo hins vegar um það hvernig gengur að kalla til björgunarlið. Svarið við síðarnefndu spurningunni er reyndar einfalt, það gengur afskaplega illa. Almanna– og sjóvarnastofnunum er umhugað mjög um þýska lækninn, sama á við um flutningaskip í nágrenninu, en áhugi þessara sömu á örlögum flóttafólksins er miklum mun minni. Mannlegur harmleikur er að eiga sér stað spolkörn frá Rieke, við hundruðum karla, kvenna og barna blasir dauðinn við, og allt án þess að hún geti annað gert en horfa á úr öruggri fjarlægð.

Styx er um margt látlaus og lágstemmd mynd, einkum framan af, en inn í frásögnina er tvinnað sögulegum bakgrunni, þá einkum er tengist arðránssambandi Evrópu við Afríku í gegnum aldirnar, sem og sýn á pólitískt landslag samtímans og yfirstandandi straum flóttamanna til velmegunarlanda. Vel er unnið með þennan þunga undirstraum frásagnarinnar. Handritið, sem skrifað er af Fishcer ásamt Ika Künzel, er markvisst og lipurt, lýsingarorð sem einnig má nota um tæknilega umgjörð myndarinnar. Líkt og bent hefur verið á stendur Rieke í miðju atburðarásarinnar frá upphafi til enda og myndavélin fylgir henni með hlutlausum hætti, en á því eru þó þrjár undantekningar. Þegar hefur verið minnst á borgarskotin og umferðarslysið í upphafi og þurfa þau svosem ekki að koma á óvart, hlutur þeirra í frásögninni er skýr. Óvenjulegra er annað hliðarspor í byrjun myndarinnar, í þetta sinn til Gíbraltar þar sem fylgst er með apa skondrast milli sólbakaðra húsa. Um miðja mynd er svo innskot af paradíslegri náttúru, staðsetning er óljós en kann að vera að ferð Rieke sé heitið þangað. Apinn er óræðari en athygli vekur að ein af bókunum sem Rieke les í siglingunni er eftir Darwin. Skírskotanir sem þessar vekja hugrenningatengsl í samhengi við boðskap myndarinnar, og stækka frásagnarrammann, en ljóst er þó að myndin ætlar sér fyrst og fremst að koma áleiðis gagnrýni á það verðmætamat sem skilgreinir hvít evrópsk líf sem margfalt mikilvægari en þau þeldökku annars staðar frá, sem í raun eru einskis virði.

Um höfundinn
Björn Þór Vilhjálmsson

Björn Þór Vilhjálmsson

Björn Þór Vilhjálmsson er dósent í almennri bókmenntafræði og kvikmyndafræði. Sérsvið hans eru skörun og samræða kvikmynda og bókmennta, tækni og menning, nýmiðlar af ýmsum toga, og íslensk kvikmyndasaga. Sjá nánar

[fblike]

Deila