Minningarár í bókmenntum spænskumælandi þjóða

Árið 2018 hefur verið viðburðaríkt í bókmenntaheimi spænskumælandi þjóða vegna ýmiss konar minningardaga höfunda og bókmenntaverka. Af því tilefni verður viðkomandi höfunda minnst hér og rifjuð upp verk þeirra sem hafa verið þýdd á íslensku. Nöfn þeirra heyrast ef til vill ekki oft hér á landi, samt sem áður hefur þó nokkuð verið þýtt eftir þá á íslensku, og á sínum tíma fengu einhverjir þeirra töluverða umfjöllun. Tilgangurinn með þessum pistli er að benda lesendum á þýðingar á verkum höfundanna sem sumar hverjar eru nú ófáanlegar og liggja hálfgleymdar á söfnum, eða í tímaritum og dagblöðum. 

Lítum fyrst til Spánar

Nú eru liðin 60 ár frá því ljóðskáldið og Nóbelsverðlaunahafinn Juan Ramón Jiménez lést. Hann var frá Andalúsíu eins og mörg önnur ljóðskáld Spánar, og er oftast kenndur við módernismann á Spáni í byrjun síðustu aldar. Jiménez sendi frá sér margar ljóðabækur og hafði ómæld áhrif á skáldin sem á eftir honum komu. Ljóð hans eru yfirlætislaus og einkennast af angurværð og depurð; skáldið er í sífelldri leit að fegurðinni og einfaldleikanum. Nokkrir Íslendingar hafa spreytt sig á að þýða ljóð hans. Þau liggja á víð og dreif í tímaritum, dagböðum og bókum, en lítið kver með úrvali af ljóðum hans, Tunglið gyllti ána, kom út árið 2007 í þýðingu Hallbergs Hallmundssonar. Einnig má finna ljóð hans (og annarra spænskra ljóðskálda) í úrvalsritinu Hið eilífa þroskar djúpin sín sem Guðbergur Bergsson tók saman og þýddi 1992. Eitt þekktasta verk Jiménez er þó Platero y yo sem hann sendi frá sér árið 1914. Þetta eru stuttir ljóðrænir textar (136 talsins) um asnann Platero og eiganda hans sem flakka um fæðingaþorp höfundar og nágrenni og ræða saman um það sem ber fyrir augu, umhverfið, viðburði hversdagsins, náttúruna, og þeir tjá drauma sína og þrár. Þetta klassíska verk, sem allir Spánverjar þekkja, kom út á íslensku í þýðingu Guðbergs Bergssonar árið 2000 undir titlinum Platero og ég. Áður (1965) hafði það komið út í styttri útgáfu Guðbergs og enn áður hafði Þórður Einarsson snarað nokkrum þáttum þess á íslensku, og hét sagan þá Glói og ég (1960). Jiménez var einn margra sem flúði Spán eftir spænsku borgarastyrjöldina, en hann dó í útlegð árið 1958 á Púertó Ríkó eftir dvöl í Bandaríkjunum og á Kúbu. Nóbelsverðlaunin hlaut hann árið 1956.

Annars stórskálds Spánar er einnig minnst í ár, en liðin eru 120 ár frá fæðingardegi Federicos García Lorca. Lorca er líklega eitt þekktasta skáld Spánar utan heimalands síns og hvað ástsælast. Hann var sérlega fjölhæfur; samdi leikrit auk ljóða, þar á ofan var hann afbragðs teiknari og tónlistarmaður. Jafnvel þótt hann hafi verið aðeins 38 ára gamall þegar hann var tekinn af lífi í byrjun borgarastyrjaldarinnar liggur fjöldi verka eftir hann. Ljóð hans og leikrit rak nokkuð snemma á fjörur okkar hér á Íslandi og hafa alla tíð vakið áhuga landsmanna. Skáldið Einar Bragi skrifaði til dæmis langa kynningargrein um Lorca og verk hans árið 1954 í Tímarit Máls og menningar. Margir Íslendingar hafa fundið hjá sér þörf til að þýða ljóð hans eins og sjá má á samantekt þeirra í bókinni Gustur úr djúpi nætur. Ljóðsaga Lorca á Íslandi en þar koma við sögu ríflega tveir tugir þýðenda. Fyrsta ljóðabók Lorca til að koma út í heild sinni á íslensku var Tataraþulur (Romancero gitano) árið 1990 í þýðingu Þorgeirs Þorgeirssonar; ári síðar kom svo út þýðing Jóns Halls Stefánssonar á Poeta en Nueva York sem Lorca skrifaði árið 1930, en kom ekki út fyrr en eftir dauða skáldsins. Á íslensku fékk hún heitið Skáld í New York. Romancero gitano hefur einnig verið þýdd úr esperantó á íslensku undir heitinu Sígaunaljóð, 2005. Þekktustu leikverk Lorca hafa verið sett á svið hér á landi, það fyrsta á sjötta áratug síðustu aldar og það síðasta árið 2013. Leikrit hans Yerma kom út á íslensku í tvímála útgáfu árið 2004. Þýðendur voru Karl J. Guðmundsson og Margrét Jónsdóttir.

Benito Pérez Galdós.

Nafnið Benito Pérez Galdós er ekki ýkja þekkt á Íslandi, en það er eitt af stóru nöfnunum í bókmenntum Spánar og hins spænskumælandi heims. Nú eru liðin 175 ár frá fæðingu þessa mikla skáldsagnahöfundar og er þess víða minnst á Spáni. Alls kyns uppákomur og hátíðarhöld munu teygja sig yfir næstu tvö árin, því 100 ára dánarafmæli hans verður árið 2020. Pérez Galdós er einn helsti höfundur spænska realismans. Hann sendi frá sér hverja skáldsöguna á fætur annarri í hálfa öld en sú fyrsta kom út í kringum 1870. Sögusvið nánast allra skáldsagna hans er höfuðborgin Madríd. Sömu persónum bregður oft fyrir í bókum hans, persónugalleríið verður fjölmennara með hverri bókinni og lesandi kynnist ýmsum hverfum og íbúum borgarinnar. Varla er til betri leið til að kynnast tíðaranda Madrídar á síðari hluta nítjándu aldar en sú að lesa bækur hans. Stórvirki hans er skáldsagan Fortunata og Jacinta, sem fjallar um ástarsamband manns við tvær konur af ólíkum stéttum, eiginkonu og ástkonu af lægri stétt. Sjónvarpsþáttaröð var gerð eftir skáldsögunni árið 1980 og var sýnd í sjónvarpi hér á landi tveimur árum síðar við góðar undirtektir. Þá birtist samantekt á höfundinum og verkum hans í Tímanum. Ekkert hefur verið þýtt á íslensku eftir Pérez Galdós utan einnar smásögu sem birtist í Jólablaði Vísis árið 1943. Þýðandi var Þórhallur Þorgilsson sem á þeim tíma sendi frá sér töluvert af þýðingum úr spænsku. Mjög líklegt er að hann hafi þýtt eina skáldsögu Pérez Galdósar, en hún var aldrei gefin út og handritið er glatað.

Lítum því næst suðvestur um haf til Rómönsku-Ameríku

Í ár er aldarafmæli bókarinnar Cuentos de la selva eftir Horacio Quiroga frá Úrúgvæ. Á síðastliðnu ári var þess minnst að 80 ár voru frá dauða þessa höfundar sem oft er nefndur faðir smásögunnar í Rómönsku-Ameríku. Sögurnar í fyrrnefndri bók samdi Quiroga fyrir börn sín þegar hann bjó ásamt þeim í frumskóginum í hinu afskekkta héraði Misiones í Argentínu í byrjun síðustu aldar, en þar stundaði hann sjálfsþurftarbúskap. Dýr eru í aðalhlutverki sagnanna og fjalla þær um samband þeirra við manninn og náttúruna. Til dæmis segir frá risaskjaldbökunni sem kemur fársjúkum manni í frumskóginum til bjargar með því að ferja hann alla leið til borgarinnar. Önnur sagan segir frá því hvernig flamingóarnir fengu lit sinn. Oftast er litið á þetta verk sem barnabók, en réttara er að hún sé bók fyrir börn á öllum aldri, líkt og Litli prinsinn eftir Antoine de Saint-Exupéry (sem reyndar fagnar 75 ára útgáfuafmæli sínu í ár). Bók Quiroga er hægt að lesa á íslensku í þýðingu Guðbergs Bergssonar. Hún kom út árið 1982 undir titlinum Ævintýri úr frumskóginum.

Þá má nefna að nú eru liðin 20 ár frá því ljóðskáldið og ritgerðasmiðurinn Octavio Paz frá Mexíkó lést. Paz er eitt helsta skáld Mexíkó og allrar Rómönsku-Ameríku ef því er að skipta. Hann gerði tilraunir með flest ljóðform síðustu aldar og bjó til heila heimsmynd með ljóðum sínum og ritgerðum, afar víðfeðma og fjölbreytta. Paz nýtti sér menningarstrauma úr öllum álfum heimsins, enda bjó hann lengi á Indlandi og um hríð í Japan. Fyrir verk sitt hlaut hann Nóbelsverðlaun árið 1990. Tvær bækur hafa komið út á íslensku með verkum hans, báðar árið 1993: Úrvalssafn ljóða hans, Allra átta, en þýðendur voru Sigfús Bjartmarsson og Jón Thoroddsen og El laberinto de la soledad eða Völundarhús einsemdarinnar í þýðingu Ólafs Jóhanns Engilbertssonar. Það verk kom út á frummáli 1950 og er eins konar sálfræðileg greining á Mexíkó þar sem höfundur reynir að komast til botns í þjóðarsálinni. Aðrar þýðingar ljóða Paz má finna í tímaritum.

Þá eru einnig liðin 20 ár frá dauða mexíkóska rithöfundarins Elenu Garro. Örlögin höguðu því svo einkennilega til að þessi fyrrverandi hjón, Paz og Garro, sem áttu ekki alltaf sjö dagana sæla, létust á sama ári. Bæði voru þau atkvæðamikil í menningarlífi Mexíkó og settu svip sinn á það. Garro var mikilvirkur smásagnahöfundur og er oft talin með þeim markverðustu sem Mexíkó hefur alið. Hún sendi einnig frá sér leikrit og skáldsögur. Garro var farin að skrifa í töfraraunsæisstíl snemma á sjöunda áratug síðustu aldar og er fyrirrennari þeirrar stefnu, eins og skáldsaga hennar Los recuerdos del porvenir (Minningar framtíðarinnar, 1963) ber vott um. Aðeins tvær smásögur eftir hana hafa verið þýddar á íslensku og er að finna í Heimar mætast. Smásögur frá Mexíkó og í öðru bindi ritraðarinnar Smásögur heimsins sem helgað er Rómönsku-Ameríku.

Fleiri smásagnahöfunda hefur einnig verið minnst í Mexíkó í ár, en víða hefur verið haldið upp á 100 ára fæðingarafmæli Juans José Arreola. Hann skrifaði einkum stutta texta, smásögur og örsögur, og er meðal forvígismanna á því sviði í Rómönsku-Ameríku. Slík ritform hafa löngum verið vinsæl þar í álfu. Mörg verka Arreola vega salt á milli raunveruleika og fantasíu, og má segja að hann hafi ásamt öðrum markað þá braut í bókmenntum álfunnar. Ein smásaga hefur verið þýdd eftir Arreola á íslensku, hana er að finna í fyrrnefndu smásagnasafni frá Mexíkó.  

Mikil gróska í var bókmenntum Mexíkó um miðbik síðustu aldar þegar Arreola sendi frá sér fyrstu verk sín. Annar höfundur sem kom fram á sama tíma var Juan Rulfo. Hann fæddist 1917 og því var 100 ára fæðingarafmæli hans fagnað á árinu sem leið. Þrátt fyrir rýrt höfundarverk vakti það heimsathygli og hafði mikil áhrif á ritun smásagna og bókmennta víða um heim. Nokkrar smásögur hans hafa verið þýddar á íslensku, og er að finna í tímaritum og dagblöðum. Fyrrnefnd tvö úrvalsrit smásagna geyma hvort fyrir sig sögu eftir hann. Guðbergur Bergsson þýddi hina þekktu skáldsögu Pedro Páramo (1955) eða Pétur heiði eins og hún kallast á íslensku og kom hún út 1985.

Gabriela Mistral.

Og fyrst minnst hefur verið á árið 2017 er ekki hægt að líta framhjá chíleanska ljóðskáldinu Gabrielu Mistral sem hlaut Nóbelsverðlaun árið 1945, fyrst rithöfunda Rómönsku-Ameríku, en alls hafa sex höfundar frá spænskumælandi löndum Rómönsku-Ameríku hlotið þann heiður. Á árinu sem leið voru 60 ár liðin frá dauða hennar. Töluvert var skrifað um hana í dagblöðum hér á landi sama ár og hún fékk Nóbelinn, og ári síðar birti Samtíðin samantekt um hana. Ljóð Mistral bárust fyrst hingað í sænskum þýðingum Hjalmars Gullberg, og fyrstu þýðingar á íslensku voru gerðar úr því máli. Málfríður Einarsdóttir var ein þeirra sem spreytti sig á því. Hún birti árið 1951 í Melkorku grein um skáldkonuna og þýðingu sína á ljóði hennar. Fleiri þýðendur hafa lagt sig eftir að snúa ljóðum Mistral, þau hafa birst í tímaritum og dagblöðum, eða eru hluti af ljóðabókum þýðenda. Í tilefni af 45 ára Nóbelsverðlaunum skrifaði Berglind Gunnarsdóttir grein um hana í Lesbók Morgunblaðsins, þar sem ferill hennar er rakinn, auk þess sem þýðing Málfríðar Einarsdóttur er birt.

Og enn getum við haldið áfram. Á síðastliðnu ári var 100 ára fæðingarafmæli Gabriels García Márquez fagnað víða um heim, en ekki síst 50 ára afmæli útgáfu á stórvirki hans Cien años de Soledad (1967) eða Hundrað ára einsemd. Vart þarf að kynna þá bók, ættarsögu Buendía-fjölskyldunnar sem jafnframt er örlagasaga Rómönsku-Ameríku. Bókin hefur glatt ófáa lesendur hér á landi og var endurútgefin fyrir nokkru. Þetta er eitt af fáum ofannefndum verkum sem enn er hægt að nálgast í bókabúðum. Margar aðrar skáldsögur García Márquezar hafa komið út á íslensku þar sem nokkrir þýðendur koma við sögu. Smásögur hans hafa einnig verið þýddar og liggja hér og þar í tímaritum. Nóbelsverðlaunin hlaut García Márquez árið 1982.

Að lokum skal þess getið að í fyrra var 150 ára fæðingarafmæli skáldsins Rubéns Darío frá Níkaragva. Darío er eitt af höfuðskáldum spænskrar tungu og var upphafsmaður módernismans í Rómönsku-Ameríku í lok 19. aldar sem var minnst á í upphafi þessarar samantektar, stefnu sem fluttist síðan til Spánar og hafði sín áhrif á ljóðskáld þar í landi, meðal annars Juan Ramón Jiménez. Sáralítið hefur verið þýtt eftir Rubén Darío á íslensku, en eitt þekktasta ljóð hans (Lo fatal) rataði til okkar árið 1928. Sjötíu árum síðar birtist sama ljóð í nýrri þýðingu ásamt greinargerð um skáldið í Lesbók Morgunblaðsins.

Að lokum

Jafnvel þótt mikið verk sé fyrir höndum og margir spænskumælandi höfundar óþýddir á íslensku, er mesta furða hvað til er. Það væri óskandi að nefnd verk gangi í endurnýjun lífdaga, hvort sem er með lestri þeirra eða endurútgáfu á þeim. Auðvitað hafa mun fleiri verk verið þýdd á íslensku eftir spænskumælandi höfunda, hér hefur aðeins verið minnst á þá höfunda og verk sem eiga einhvers konar afmæli um þessar mundir.

 

Um höfundinn
Kristín Guðrún Jónsdóttir

Kristín Guðrún Jónsdóttir

Kristín Guðrún Jónsdóttir er dósent í spænsku við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands. Rannsóknasvið hennar eru bókmenntir og menning á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna, alþýðudýrlingar Rómönsku-Ameríku, smásögur og örsögur frá Rómönsku-Ameríku. Hún hefur einnig fengist við þýðingar.

[fblike]

Deila