Að ganga út fyrir sitt gólf. Orðræða um konur

Kvenfyrirliting á sér langa sögu og það er grunnt á henni. Hún birtist til dæmis í því að konur eru sniðgengnar og þaggaðar, talaðar niður, vitsmunir þeirra dregnir í efa, þær eru sagðar snaróðar, röddin í þeim er ómöguleg, þær stjórnast af tilfinningum en ekki karllegri rökvísi. Þær eru dæmdar af útlitinu, eru ýmist svo ljótar að enginn (karlmaður) vill líta við þeim eða tálkvendi sem vefja (rökvísum!) körlum um fingur sér. Í slíkri umræðu er stutt í sorakjaftinn þar sem konan breytist í kynfæri sín, enda er hún, eins og Simone de Beauvoir skrifaði eftirminnilega í Hinu kyninu (f. Le Deuxième Sexe, 1949), ávallt líkamleg, hún er kynferðið sjálft, „the sex“. Kona, segir Beauvoir, „hefur eggjastokka, leg. Þetta eru einstakir eiginleikar sem hneppa hana í prísund huglægni“ á meðan eistu karla virðast ekki skipta nokkru máli af því að þeir eru viðmiðið og „sjálfsveran“ en konur eru „hitt kynið“ sem ávallt er skilgreint út frá kynferði sínu.[1]

Við höfum látið okkur dreyma um að kvenfyrirlitning, og hreint kvenhatur, myndi heyra sögunni til. Svo er alls ekki, eins og samræðurnar á Klausturbarnum í nóvember 2018 eru til vitnis um. Þar deleruðu fimm karlar og ein kona úr hópi alþingismanna um samstarfsfólk sitt í anda þess sem lýst er hér að ofan.

Sumir spyrja kannski hvers vegna í ósköpunum þingkonan hafi tekið þátt í þessu en við því er einfalt svar, sem sjá má í orðræðum allra tíma: Ef þú styður valdið og hina karllegu orðræðu þá þiggurðu ákveðið vald og viðurkenningu sjálf en ruggar aldrei bátnum. Styðjandi kvenleiki er það kallað og ég hef fjallað um í t.d. bók minni Nútímans konur frá 2011.[2]

Útlit kvenna og líkami, konan sem kynið, virðist alltaf notað gegn þeim. Þessi fyrirsögn úr samræðum Klausturþingmanna er þó ekki sú versta.

Í sjálfu sér þarf ekki að koma á óvart að þessi umræða komi upp núna. Konur hafa látið til sín heyra, ekki síst nú undanfarið ár með #metoo byltingunni. Sumir karlar skilja þetta ekki, finnst sér ógnað, og síðustu vikur og jafnvel mánuði, hefur heyrst að nóg sé komið af frásögnum kvenna af kynferðislegu áreiti og ofbeldi, af kúgun og þöggun. Því er fleygt í umræðunni að karlar séu hræddir við að tala við konur eða til kvenna af ótta við að vera sakaðir um að segja óviðurkvæmilega hluti. Jafnvel má skilja að það sé konum að kenna, af því þær tala of mikið, segja of mikið, en ekki körlunum sjálfum og feðraveldinu sem þeir þó eru hluti af. Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir blaðamaður á Stundinni skrifaði nýverið um hluta þessarar orðræðu í greininni „Réttur reiðra karla“.

Hér má kannski staldra aðeins við og skilgreina hugtakið feðraveldi, sem var lykilhugtak í femínískum fræðum um og upp úr 1970, en hefur gengið í endurnýjun lífdaga og er nú notað, bæði á fræðilegum vettvangi og í almennri umræðu, til þess að fanga hugmyndakerfið og þær félagslegu venjur, hefðir og iðkanir, sem liggja til grundvallar kynjamismun. Þar hafa konur og kvenleiki ávallt verið settar undir áhrifavald karla og hins karllega.[3] Feðraveldið hefur, eins og sagnfræðingurinn Judith M. Bennett hefur fært rök fyrir, ótrúlega hæfni til þess að laga sig að nýjum tímum og hugmyndum og slá til baka.[4] Þannig endurnýjar það sífellt vald sitt, sækir styrk til reiðra karla sem óttast orð og vald kvenna. Það er einmitt það sem við sjáum gerast víða um heim um þessar mundir.

Í bókinni A History of Women in 100 Objects (2018), bls. 59-61, er m.a. sagt frá þessu fyrirbæri, eins konar járnbeisli eða gríma, Scold‘s Bridle eða „pilsvargabeislið“, með stykki sem gekk inn í munninn. Þessu var beitt í Bretlandi á þá sem höfðu verið dæmdir fyrir að móðga eða skammast í öðrum, allt frá 16. öld og fram undir lok þeirrar 18., jafnvel fram á 19. öld. Staðreyndin er sú að pilsvargabeislinu var einkum beitt á konur sem ekki létu að stjórn, töluðu of mikið, þóttust vera eitthvað. Stundum voru það eiginmennirnir sem kærðu. Eins og segir í áðurnefndri bók þá er þetta fyrirbæri táknmynd sögulegrar kúgunar á konum – og lýsir þar með einnig hve mjög raddir kvenna ógna karllegu valdi. Myndin er tekin úr A History of Women in 100 Objects.

Allir þekkja forseta Bandaríkjanna sem metur konur út frá útliti, hefur enda stært sig af því að grípa í „píkuna“ á þeim. Í Ungverjalandi, hafa öfgahægrimenn náð völdum og tala gegn réttindum kvenna og hinsegin fólks. Þar í landi er ráðist að kynjafræðum og rannsóknum á því sviði og stjórnmálamenn tala um að konur finni sitt sanna sjálf í því að verða mæður. Um þetta, og hinar and-femínísku popúlísku hreyfingar, hefur sagnfræðingurinn Andrea Pető, prófessor við Central European University í Búdapest skrifað og talað, meðal annars hér á landi. Og nú í vikunni skrifaði þekktasti kenningasmiður kynjasögunnar, bandaríski sagnfræðingurinn Joan W. Scott, um stöðu mála í Ungverjalandi (og akademískt frelsi) í áhugaverðu bloggi.

Konur hafa í gegnum tíðina boðið feðraveldinu byrginn, eins og Christine de Pizan gerir í riti sínu Bókin um borg kvennanna, snemma á 15. öld.

Á Íslandi getum við séð bergmál andófsradda kvenna í ritum eins og Ræðum Hjálmars á Bjargi frá 1820 þar sem stúlkan Helga „gellur“ við þegar faðir hennar og bróðir eiga vitsmunalegar samræður um hjónabandið og hefur ýmislegt að segja um stöðu stúlkna sem séu „margar seldar, rétt sem fénadur, undir misjafna yfirdrottnun, opt þess fyrsta ruddamennis, sem býdst, hversu ílla sem ega kann vid vort géd, af ótta fyrir, ad vær annars visnum strax upp til kérlínga.“ Faðir hennar færir þá rök fyrir því að þetta sé besta fyrirkomulagið. Í Helgu heyrist ekki meir.[5] Svo má nefna að góðar húsmæður áttu ekki að fara milli bæja að óþörfu, eins Björn Halldórsson í Sauðlaukssdal, skrifaði undir lok 18. aldar í leiðbeiningabók sinni um fyrirmyndarhúsfreyjuna Arnbjörgu.

Guðmundur Einarsson prestur á Beiðabólsstað á Skógarströnd, sem fyrstur setti fram þá hugmynd opinberlega að stofna kvennaskóla á Íslandi (1847), sagði að „sumir“ myndu „segja um þetta mál, að stúlkurnar og konurnar geti gengið á sitt gólf, þær gangi út fyrir það, þó þessi fyrirhöfn, þetta dekur sé ekki.“ Í þessum orðum má annars vegar sjá það viðhorf að konur skuli halda sig innan ákveðinna viðurkenndra marka, og hins vegar að konur létu reyna á þessi mörk og gengu út fyrir „sitt gólf“. Með öðrum orðum, skiptu sér af því sem talið var að kæmi þeim ekki við. Töluðu kannski of mikið.[6]

Erfitt gat verið fyrir konur að stíga inn í hina karllegu orðræðu sem var ríkjandi hér á landi á síðari hluta 19. aldar. Konur skrifuðu ekki opinberlega í blöð eða tímarit fyrr en kom fram um 1870, fyrst svolítið til stuðnings kvennaskólum en um kvenfrelsi eftir 1880. Skáldkonur sem höfðu gefið út bækur sínar voru teljandi á fingrum annarrar handar þegar kom fram um aldamótin 1900. Verk þeirra voru oftar en ekki töluð niður, eins og Helga Kress hefur skrifað um, m.a. í bók sinni Stúlku.[7]

Í blaðagreinum tókust kvenfrelsiskonur 19. aldar á við ríkjandi orðræður og spegla þannig þau viðhorf, og þau orð, sem notuð eru um konur. Þær voru sagðar ókvenlegar, kallaðar „paríur“ og „rauðir pólitíkusar“, segir Bríet Bjarnhéðinsdóttir í sínum fræga fyrirlestri árið 1887, eru ómyndir, andstæða við ímyndina um hið kvenlega. Um þetta var rætt og ritað fram og til baka í blöðum þess tíma og raunar langt fram á 20. öld.

Sendibréf kvenna og æviminningar frá 19. öld og upphafi 20. aldar bera líka vitni um orðræðu þar sem konur voru talaðar niður. Jafnvel sendibréf þeirra þykja „aldrey … merkileg eða standa háttskrifuð hjá karlmönnonum“, skrifar kona 1865.

Austfirsk athafnakona sem datt í hug að mennta sig og koma á fót kvennaskóla á Austurlandi um 1890 kallar hugmyndir sínar „mannalæti“, „loftbyggingu“, „heilaköst“, „braml“, „dirfsku“, „miklu brekin.“ Hversu mörg orð er hægt að finna til að tala niður eigin hugmyndir?

Þessar orðræður spegla í senn sjálfsmynd kvenna og viðhorf til þeirra. Þær eru aldar upp við það að þær eigi ekki að hafa opinbera rödd og þurfa að afsaka það að stíga fram, hafa skoðun, að detta í hug að þær gætu mögulega haft eitthvað að segja.

Á alþingi um aldamótin 1900 er þessa umræðu líka að finna þar sem þingmenn landsins ræða fjálglega um hlutverk og eðli kvenna, hvort þær geti hugsað rökrétt, hvort þær breytist í karlkonur stigi þær út fyrir hefðbundið hlutverk kvenna sem mæður og húsmæður, hvort karlar neyðist þá til að fara inn á heimilin og breytist í konur. Allt er öfugt við það sem á að vera, sögðu sumir og var mikið niðri fyrir. „Konan er góð guðsgjöf til síns brúks“, sagði einn þeirra árið 1911, þegar rætt var um rétt kvenna til menntunar og embætta, en átti ekki erindi í þau störf sem væru frá guði ætluð körlum einum. Og hana nú. Þetta kallaði Bríet Bjarnhéðinsdóttir „klámmeiningar“.

Og þetta hélt áfram svo gott sem alla 20. öld, hvað sem leið formlegum réttindum kvenna. Enn voru hindranir sem gerðu konum erfitt fyrir að fá viðurkenningu sem fullgildir þegnar og þátttakendur í samfélaginu. Þessar hindranir voru hugarfarslegar og kerfislægar, bæði hjá konum og körlum.  Þetta má lesa um í bókum eins og Veröld sem ég vil eftir Sigríði Th. Erlendsdóttur (1993). Þar er rakin saga Kvenréttindafélags Íslands og saga kvennabaráttunnar. Jafnframt í Á rauðum sokkum (2011), þar sem rauðsokkur segja frá. Og bók Kristínar Jónsdóttur um Kvennaframboðið og Kvennalistann, „Hlustaðu á þína innri rödd“ (2007). Ekki má gleyma blöðum og tímaritum kvenna, þar sem þær lýstu óánægju sinni; sögubókum þar sem konur sáust ekki. Og auðvitað skáldskap og listum. Þar réði karlremban oft ríkjum en einstaka konur sluppu í gegn.

Veggir, glerþök, hindranir brustu þegar nýja hreyfingin spratt fram um 1970 og sagði hingað og ekki lengra. Konum fjölgaði í störfum utan heimilis, þær sóttu í háskóla, tókust á hendur embætti sem þær höfðu ekki gengt áður. Stelpustuð var á níunda áratugnum, því hvað sem leið premanenti, kinnalit og hárlakki, og herðapúðunum stóru, þá sýndist okkur sem þá vorum ungar að okkur væru allir vegir færir. Að við stæðum jafnfætis körlunum.

En smám saman hefur runnið upp fyrir okkur að þannig er það ekki að öllu leyti. Hvað sem líður réttlátum og réttsýnum körlum sem skilja að kvenfrelsi er ekki ógn við þá heldur leið að betri heimi fyrir okkur öll, eru þeir of margir sem enn lifa í heimi kvenfyrirlitningar þótt þeir reyni að halda lokinu á þeim suðupotti, svona oftast. Það sem þeir virðast þola verst eru konur sem neita að gangast undir skilyrði styðjandi kvenleika og viðurkenna vald karla og yfirburði, verða skraut við arm þeirra. Þeir óttast sterkar konur, konur með rödd, konur sem láta ekki segja sér fyrir verkum. Mest af öllu óttast þeir gáfur kvenna.

Tröllabaninn Mary Beard svaraði fyrir sig með því að kafa í söguna og sýna djúpar rætur kvenfyrirlitningar svart á hvítu.

Mary Beard, prófessor við Háskólann í Cambridge, sjónvarpskona og pistlahöfundur hjá Times Literary Supplement, hefur einmitt skrifað um þetta hugmyndakerfi í samhengi við rödd kvenna sem er aldrei alveg nógu góð, hvorki hvernig hún hljómar né það sem konur segja. Forsagan er sú að eftir að Beard, sem er sérfræðingur í rómverskri sögu og hefur gefið út fjölda metsölubóka, tók þátt í spurningaþætti hjá BBC árið 2013 varð hún fyrir skriðu netníðs þar sem hæðst var að útliti hennar, rödd, framkomu – fyrir utan allar ógeðslegu kynferðislegu vísanirnar (sem minna óneitanlega sumar á umræðurnar á Klausturbarnum).[8]

Beard lét þetta ekki buga sig heldur gerði það sem sagnfræðingar gera best. Hún leitaði í söguna og dró saman ýmis dæmi um þá eldgömlu hefð að segja konum að halda kjafti og vera sætar. Fyrst hélt hún fyrirlestra sem slógu í gegn en voru síðan gefnir út á bók árið 2017 undir heitinu Women and Power og nú í haust, 2018, í uppfærðri útgáfu með nýjum #metoo eftirmála. Beard lýsir því hvernig tungumálið, hið röklega mál, var táknmynd karlmannsins og valds hans. Hún rekur dæmi úr fornbókmenntum og til okkar daga. Bæði þar sem þaggað er niður í konum, bókstaflega þegar skorin er úr þeim tungan í t.d. Ummyndunum Óvíðs (sem var hluti af klassískum lærdómi pilta allra tíma, Bessastaðaskólapiltarnir okkar lásu Óvíð), og þegar þeim er sagt að þegja, eins og þegar Telemakkus segir móður sinni Penelópu að nú hafi hann orðið, hún skuli halda sér til hlés (í biðinni eftir Ódysseifi). Og svo er það þetta með rödd kvenna sem er of skræk eða hvell, skortir hinn djúpa karlmannlega tón (gleymum ekki stúlkunni Helgu sem „gall“ við 1820). Beard spyr af hverju konur þurfi að greiða hærra verð fyrir að tala opinberlega og færir fyrir því rök að þessi hluti menningarsögu okkar, þöggun kvenraddarinnar hafi enn áhrif á það hvernig við hugsum um raddir kvenna. Bæði í hinni eiginlegu merkingu að tala og hinni óeiginlegu að kona hafi vald.

Bók Birgitte Possing um rökin sem notuð voru gegn réttindum kvenna selst eins og heitar lummur í Danmörku. Önnur prentun er í þessum skrifuðu orðum á leið úr prentsmiðju.

Að lokum má nefna að nú í haust kom út í Danmörku bók eftir sagnfræðinginn Birgitte Possing, Argumenter imod kvinder, þar sem hún rekur 170 ára sögu þess að tala gegn kvenfrelsi og jafnrétti. Ég held það að það sé kominn tími til að við tökum þessa sögu til skoðunar hér á landi. Orðræður gegn konum, það að tala konur niður, gera lítið úr þeim, þagga þær og jaðra, eru aldagamlar og lifa enn góðu lífi.

[1] Hér er vísað til íslenskrar þýðingar Torfa H. Tuliniusar á inngangi Hins kynsins: Simone de Beauvoir, „Hitt kynið – Inngangur“, Simone de Beauvoir. Heimspekingur, rithöfundur, femínisti. Ritstj. Irma Erlingsdóttir og Sigríður Þorgeirsdóttir. Reykjavík: Rannsóknastofa í kvennafræðum, 1999,  bls. 25–46. Tilv. af bls. 28–29.

[2] Erla Hulda Halldórsdóttir, Nútímans konur. Menntun kvenna og mótun kyngervis á Íslandi 1850-1903. Sagnfræðistofnun, Háskólaútgáfan og RIKK, 2011.

[3] Um feðraveldi og kynjakerfið (patriarchy og gender order) sjá t.d. í Jane Pilcher og Imelda Whelehan, 50 Key Concepts in Gender Studies, London: Sage, epr. 2008.

[4] Judith M. Bennett, History Matters. Patriarchy and the Challenge of Feminism. Manchester: Manchester University Press, 2006.

Bennett hélt lykilfyrirlestur á þingi norrænna kvenna- og kynjasögufræðinga, sem haldið var við Háskóla Íslands 2008. Viðtal við hana birtist í tímaritinu Sögu árið 2009:, „Sagnfræðin, femínisminn og feðraveldið“,  http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=399235&pageId=7002731&lang=is&q=Bennett

[5] Ræður Hjálmars á Bjargi kom er höfundarverk Magnúsar Stephensen. Frumútgáfuna má lesa á baekur.is, http://baekur.is/is/bok/000255781/Raedur_Hjalmars_a en einnig má benda á útgáfu með inngangi frá 1999: Magnús Stephensen. Ræður Hjálmars á Bjargi fyrir börnum sínum um fremd, kosti og annmarka allra stétta, og um þeirra almennustu gjöld og tekjur. Örn Hrafnkelsson bjó til prentunar. Reykjavík: Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands/Háskólaútgáfan, 1999. Um þetta efni fjallaði ég í bók minni Nútímas konur.

[6] Um þetta og önnur dæmi sem hér eru nefnd má lesa í Nútímans konum.

[7] Sjá í Nútímans konum, bls. 194 o. áfr. Sjá jafnframt Helga Kress, „Kona og skáld – Inngangur“, Stúlka. Ljóð eftir íslenskar konur. Helga Kress valdi efnið og bjó til prentunar. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 1997.

[8] Auðvelt er að leita að greinum um málið (og um fleiri svæsnar árásir á Beard) á netinu en hér er ein í New York Times frá 2016. https://www.nytimes.com/2016/04/17/fashion/mary-beard-against-internet-trolling.html

Um höfundinn
Erla Hulda Halldórsdóttir

Erla Hulda Halldórsdóttir

Erla Hulda er dósent í kvenna- og kynjasögu við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands.

[fblike]

Deila

 
 

[fblike]

Deila