Ósiðlegir gjörningar og róttækar launhelgar

Sólveig Guðmundsdóttir, doktorsnemi í almennri bókmenntafræði, fjallar hér um grein sem hún birtir í Ritinu:1/2017 sem kom út fyrr á þessu ári. Þema þess er dulspeki.

Hópur nýframúrstefnulistamanna sem kenndi sig við aksjónisma starfaði í Vín á sjötta áratugnum og urðu þeir alræmdir fyrir list sem brýtur bannhelgar samfélagsins og storkar hefðum og almennu velsæmi. Markarof þeirra beinast sér í lagi gegn andlausri menningarpólitík og afturhaldssemi Austurríkis eftirstríðsáranna. Lítið hefur þó verið ritað um þennan umdeilda hóp á íslenskri tungu. Í greininni vík ég sjónum mínum að gjörningi Hermann Nitsch, Abreaktionsspiel, þar sem fléttast saman ólíkar orðræður á borð við klám, dulspeki, kaþólsk helgihald, sálgreining og lífhyggja. Þessar orðræður eru rannsakaðar eins og þær birtast í verkinu og kannað hvaða hlutverki þær gegna innan fagurfræðilegs verkefnis og menningarlegs andófs aksjónismans. Þungamiðja greiningarinnar liggur á gagnvirku og margslungnu sambandi kláms og dulspeki og hvernig það birtist í gjörningnum. Aðgerð Nitsch er lýsandi dæmi um hvernig klám er samtvinnað helgisiðum og dulrænum táknmyndum en í verkinu má greina viðsnúning á kaþólskum helgisiðum og um leið tilvísanir í dulspekihefðir og -gjörninga á borð við satanisma og kynlífsgaldur. Með því að rýna í orðræðu kláms og dulspeki saman opnast ný merkingarvídd í verkinu.

Notast er við aðferðir sögulegrar orðræðugreiningar og er gjörningurinn settur í menningarlegt samhengi austurrísks samfélags á eftirstríðsárunum, einkum með það í huga að sýna í hverju ögrun aksjónistanna gagnvart ríkjandi gildum var fólgin. Aðgerðin dregur fram þann margbrotna og fjölbreytta orðræðuvef sem er að finna í verkum aksjónistanna og þau ólíku hlutverk sem orðræðurnar leika innan andófs þeirra og fagurfræði.

Í upphafi greinarinnar er Abreaktionsspiel lýst í þeim tilgangi að glöggva skilning lesanda á verkinu og útleggja í hverju klámfengi þess var fólgin. Þá verður stuttlega farið yfir samband kláms og listar, áður en athygli er beint að tengslum kláms við aksjónismann. Þaðan verður sjónum vikið að dulspekinni og hlutverki kynlífs innan dulrænna hefða. Þó klámið sé sett í forgrunn er einnig nauðsynlegt að gera sér grein fyrir stöðu og virkni kynlífs í orðræðu dulspekinnar almennt, enda má hér finna þýðingarmikinn vísi að skörun kláms og dulspeki í starfsemi akjónismans. Í kjölfarið kemur greining á Abreaktionsspiel, þar sem horft er til satanisma og kynlífsgaldurs, ástundunar þar sem kynlíf, klám og dulspeki mætast.

Að endingu vík ég sjónum mínum að lífhyggju eins og hún birtist í verkinu og úrvinnslu aksjónistanna á kenningum Wilhelms Reich. Þrátt fyrir að meginviðfangsefni greinarinnar sé gjörningur Nitsch, þá á er dæmi tekið úr skrifum Otto Muehls, þar sem áhrif sálgreinandans koma fram með einna skýrustum hætti. Innskotið þjónar að auki þeim tilgangi að draga fram þá einstöku blöndu kláms, dulspeki og andófs sem birtist víða í aksjónismanum

Um höfundinn
Sólveig Guðmundsdóttir

Sólveig Guðmundsdóttir

Sólveig er doktorsnemi í almennri bókmenntafræði.

[fblike]

Deila