Ástarljómi gullnu áranna

Rósa Ásgeirsdóttir fór á RIFF og sá Candelaria. Hún gaf engar stjörnur.

Candelaria er ein af nokkrum Suður-Amerískum kvikmyndum sem sýndar voru á RIFF kvikmyndahátíðinni í ár. Kvikmyndin, sem er leikstýrt af hinum kólumbíska Johnny Hendrix, gerist í mikilli krepputíð á Kúbu á tíunda áratugnum, en efnahagsörðugleikar þjóðarinnar stöfuðu ekki síst af falli Sovétríkjanna. Þegar langvarandi fjárhagslegur bakhjarl byltingarinnar hvarf af sjónarsviðinu urðu áhrif jafn langvarandi viðskiptabanns Bandaríkjanna á Kúbu enn sársaukafyllri. Sögusvið myndarinnar mótast þannig af kalda stríðinu og endalokum þess. Þrátt fyrir grimma staðsetningu myndarinnar í veraldlegum og sögulegum skilningi er andi hennar léttur. Hana mætti flokka sem rómantíska gamandrama og fylgir að einhverju leyti uppskriftinni að slíkri mynd en í staðinn fyrir myndarlegt ungt par sem á framtíðina fyrir sér er fylgst með krumpuðum eldri borgurum sem hafa verið gift í áratugi. Áhersla er lögð á ástríðu þeirra og kynferði, en í kvikmyndum (sem víðar) er oft forðast að ræða slíka hluti í sambandi við fólk sem komið er yfir ákveðinn aldur.

Candelaria (Veronica Lynn) og Victor Hugo (Alden Knigth) eru barnlaus hjón á sjötugsaldri í Havana–borg. Þau þjást af matarskorti og afleiddum heilsubresti og gremjan yfir ástandinu hefur áþreifanleg áhrif á samband þeirra. Candelaria, sem syngur með hljómsveit á kaffihúsum á kvöldin, finnur upptökuvél meðan hún er á vakt í dagvinnu sinni sem þerna. Hún tekur hana með sér heim í von um að geta selt hana. Hjónin fara að fikta við tökuvélina og verður til þess að þau fara að sjá hvort annað í nýju ljósi og endurvekja ástríðuna sín á milli. Ferlið festa þau á filmu.

Candelaria og Victor verða eins og unglingar á ný, ástfangnir í fyrst sinn. Nýfundna ástríðan leyfir þeim að gleyma erfiðleikunum um stundarsakir og setur lífið í nýtt samhengi. Hugo bregður á það ráð að selja verðmætar eigur í þeim tilgangi að geta veitt ástinni sinni það sem um langt skeið hefur skort, góðan mat. Að hans mati er um tvennt að velja í aðstæðum sem þessum: „Deyja úr nostalgíu eða deyja úr hungri.“

Candelaria veltir fyrir sér aðstæðum þar sem útgönguleiðir skortir og hvert neyðin getur leitt mann. Framvinda myndarinnar lýsir því hvernig Candelaria og Victor Hugo, sem telja sig vera virðulegt fólk, leiðast í auknum mæli út í ólöglega starfsemi. Í byrjun er það einn og einn stolinn vindlakassi sem Victor tekur með sér úr vinnunni og selur. Síðan er það upptökuvélin sem Candelaria stelur, en til að þjófnaðurinn gangi upp þarf hún að segja yfirmanni sínum ósatt. Þegar upptökuvélinni er síðan aftur stolið, en nú frá gömlu hjónunum, ásamt öllum myndböndum þeirra, og kemst í hendur á einum stærsta glæpamanni borgarinnar eru hjónin skyndilega orðin aðalleikarar og framleiðendur í neðanjarðar erótískum iðnaði.

Allt þetta eru þau samt reiðubúinn til að gera, og láta yfir sig ganga, svo að þeirra „gullnu ár“ taki á sig örlítinn ljóma.

Fyrir þann sem horfir utan frá getur það virst sem aldurinn stýri þessari ákvörðun en fyrir söguhetjurnar er um að ræða aldurslausa lífsspeki sem á við alla í aðstæðum sem þeirra. Candelaria segir að þau gætu dáið úr hungri á morgun, verið kramin undir biluðu ljósakrónunni í loftinu fyrir ofan hjónarúmið eða fallið af fleka á flóttaleið frá eyjunni og drukknað. Lífið er hverfult og í ljósi þess er skylda að njóta hvers augnabliks.

Kúbversk menning leikur stórt hlutverk í Candelaria og þá sérstaklega tónlistarmenningin. Candelaria er söngkona og hreinlega geislar í hvert sinn sem hún stígur á svið. Hún klæðist gullfallegum kjólum og leyfir sér að gleyma um stund kreppunni sem ríkir í landinu. Hún á fimm litla hænuunga sem hún elskar eins og eigin börn og hefur nefnt í höfuðið á lögum á borð við „Dos Gardenias“ og „Silencio“ sem voru hvoru tveggja gerð fræg af Ibrahim Ferrer, sem var einn ástsælasti og vinsælasti söngvari Kúbu. Tónlistin gefur henni líf og lífsvilja í gegnum erfiðleikana. Ekki er erfitt að ímynda sér að það sama hafi átt við um marga þar, og að menningin hafi verið haldreipi á erfiðum tímum.

Það er svo ekki síst aldur aðalpersónanna sem ljær Candelaria sérstakan blæ. Framvindan er sett fram eins og um hverja aðra rómantísku gamanmynd sé að ræða, og áður en langt um líður hefur áhorfandinn einmitt gleymt því að hann sé að horfa á sjötuga einstaklinga að berjast við hungursneyð. En rétt eins og óstöðug og illafest ljósakrónan sem hangir yfir rúmi öldruðu hjónanna táknar dauðann, hvernig hann er ávallt yfirvofandi, þá er ákveðinn harmrænn tónn óumflýjanlegur í myndinni og skapar henni undiröldu sem er í ákveðinni andstöðu við gamansemina.

Um höfundinn
Rósa Ásgeirsdóttir

Rósa Ásgeirsdóttir

Rósa Ásgeirsdóttir er nemandi í kvikmyndafræðum við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

[fblike]

Deila