Getur þú ímyndað þér konur? Femínísk umfjöllun um vísindaskáldskap og apaplánetu

…og ef einhverjum hugnast þá veröld sem ég skóp, og eru reiðubúnir að gerast þegnar mínir, þá mega þeir ímynda sér það, og um leið gerast þeir þegnar mínir, í eigin huga á ég við, í óskum sínum eða ímyndunarafli; en ef þau geta ekki þolað við sem þegnar mínir, þá er þeim velkomið að skapa eigin veröld, og stjórna henni eftir eigin hentugleik. En lát þá hins vegar gæta að því, að gerast ekki óréttlátir valdaræningjar, og svipta mig eigin heimi….

Það eru lokaorð vísindakonu, heimspekings og fyrsta vísindaskáldsagnahöfundarins á veraldarvísu. Það eru lokaorð fyrstu vísindaskáldsögunnar The Blazing World eftir hertogaynjuna af Newcastle, Margaret Lucas Cavendish. Árið 1666 birtist nýr og glóandi heimur úr skauti ímyndunarafls konu. Sá heimur var skapaður í fjötrum feðraveldis 17. aldar, en ímyndunarafl og sköpunarkraftur Cavendish gerði lesendum kleift að losa sig úr þeim viðjum, og halda inn á óbeislaðar lendur vísindaskáldsögunnar. Á ímynduðum slóðum ferðaðist aðalskona frá einum heimi yfir í annan, þar sem hún síðan ríkti sem voldug keistaraynja með perluhúfu á höfði. Þegnar hennar voru dýr sem höfðu mál (e. speech), og á meðal þegnanna voru hinir svokölluðu apamenn; „…og ef einhverjum hugnast þá veröld sem ég skóp, og eru reiðubúnir að gerast þegnar mínir, þá mega þeir ímynda sér það, og um leið gerast þeir þegnar mínir…“. Síðan leið og beið í raunheimum manna og með tímanum varð vísindaskáldsagan einn af hefðbundnum afþreyingarmöguleikum fólks. Nú 351 árum eftir útgáfu fyrstu vísindaskáldsögunnar birtast apamennirnir á nýjan leik, en nú í vísindaskáldskaparkvikmyndinni; Stríð fyrir plánetu apanna (e. War for the Planet of the Apes). Í tilefni af frumsýningu Stríð fyrir plánetu apanna gefst kærkomið tækifæri til að meta stöðu vísindaskáldskaparins á 21. öldinni. Til að gjöra svo, þá er mikilvægt að bera frumhugmyndir fyrsta vísindaskáldsagnahöfundarins Margaret Lucas Cavendish, við hugmyndafræði vísindaskáldskapar samtímans eins og hann birtist í Stríð fyrir plánetu apanna. Þá kemur í ljós framsýni 17. aldar hefðarkonu og afturhaldssemi 21. aldar handritshöfunda, á söguslóðum apa.

Ímyndundaraflið, þessi grunnforsenda algers frelsis, er í senn uppspretta og altari vísindaskáldskaparins. Skáldskapur sem er óháður öllum lögmálum náttúrunnar og ásköpuðum viðmiðum manna. Göngulag skálda sem fara þessa slóð þarf ekki að fylgja gangverki tímans, því sögusviðið er alla jafnan framtíðin. Lesendur/áhorfendur stíga inn í nýja heima höfunda, og fyrir tilstilli eigin ímyndunarafls gerast þeir þegnar þeirra ríkja; „en ef þau geta ekki þolað við sem þegnar mínir, þá er þeim velkomið að skapa eigin veröld“ skrifaði Cavendish í anda ritfrelsisins. En því miður virðist boð hertogaynjunnar hafa fyrirfarist á síðum bókarinnar. Vísindaskáldskapurinn sem í eðli sínu er víðfeðmasti völlur frelsis lista, er þegar betur er að gáð ekki jafn frjáls og ætla mætti. Því raunin er sú, að ímyndunaraflið er húsbóndahollt, og húsbóndinn er feðraveldið.

Þegar kona gerist gagnkunnug þeim heimum sem hafa verið skapaðir á slóðum vísindaskáldsagnahefðarinnar, þegar hún hefur kynnt sér alla staðhætti og umhverfi þeirra heima, þá brestur fljótt von í konubrjósti. Hér eru ekki framtíðarheimar sem sprengja af sér árþúsunda gamla ísfjötra kúgunarvaldsins, heldur gamalkunnug útópía feðraveldisins, skreytt vélmennum og geimverum. Það verður að teljast sorgleg staðreynd þegar að vísindaskáldsagnahöfundar hafa svo takmarkað ímyndunarafl að þeim dettur ekki konur í hug, hvað þá jafnrétti kynjanna. Þeir höfundar eru fastir í sinni sköpun á gamalkunnugum heimum karlkyns hetja, sem í vísindaskáldsögunum takast á við furðuhluti og stökkbreyttar lífverur. Á meðan fylgist konan (í eintölu) agndofa með framþróun mála á meðan hún bíður eftir björgun. Spurningin er þá sú; hvers vegna grundvalla vísindaskáldsagnahöfundar nær undantekningarlaust allar frásagnir sínar á samfélagsgerð feðraveldsins? Og einnig; hvers vegna dettur þeim ekki konur í hug? Á þeim nótum er við hæfi að víkja að söguþræði kvikmyndarinnar Stríð fyrir plánetu apanna, þar sem karlinn í líki manns og apa, er miðja alheimsins.

Árið 1963 kom út bókin Pláneta apanna eftir franska höfundinn Pierre Boulle´s. Sú bók átti eftir að marka tímamót í sögu manna og apa. Í kjölfar útgáfu bókarinnar birtust teiknimyndaseríur, kvikmyndir og bókmenntir er hverfðust um átök manna og „mennskra“ apa á jörðinni. Kvikmyndin Stríð fyrir plánetu apanna (2017) er hluti af þeirri víðfemu útgáfu. Á þessari nýjustu söguslóð manna og apa er lýst hefndarför aðalhetju myndarinnar, hins „mennska“ apa Sesars gegn mannfjanda er gengur undir heitinu Herforinginn. Meginmarkmið Herforingjans er að gera út um apastofninn og um leið gerast hluti af mannkynssögunni. Söguvettvangur apaplánetunnar einkennist annars vegar af eðli dýra og hins vegar af eðli mannsins. Á þeim söguvettvangi grundvalla handritshöfundar meginhugmyndafræði sögunnar, á söguvettvangi þar sem mannfólkið er að missa málið (e. speech) og „apakynið“ er að öðlast mál. Þessi nýskapaði heimur apaplánetunnar er hugarfóstur handritshöfundarins Mark Bomback og leikstjórans Matt Reeves. Heimur sem grundvallaður er í framtíðinni, en hefur jafnframt skýra skírskotun til fortíðarinnar. Sú veröld vitnar um ævafornan hugsunarhátt, sem hér birtist í HD gæðum með Dolby hljóði. Það má segja að Stríð fyrir plánetu apanna sé einskonar nútímaútgáfa af miðaldarhandritinu Konungs skuggsjár (A 243b a fol.), handrit sem þjónaði hlutverki leiðarvísisis fyrir konungssyni um málefni á borð við réttlæti og stjórnspeki. Apaplánetan er pláneta föðurs og sonar, og samfélags sem er undir sambandi þeirra feðga komið. Í upphafi myndarinnar leggur Sesar af stað ásamt nokkrum fræknum karlkyns öpum og órangúta, til að hefna fyrir víg barnsmóður og elsta sonar síns: „Þetta er minn bardagi. Ég mun máske ekki snúa til baka. Gakktu í skugga um að sonur minn viti hver faðir hans var“, sagði Sesar við tengdardóttur sína um leið og hann afhenti henni yngsta son sinn. Síðan hefst ferðalag föruneytis apanna, ferðalag sem gæti allt eins hafa átt sér stað í karlaklefa, því engin kvenmaður eða kvenapi er í sjónmáli. Það þýðir þó ekki að XX litningurinn hafi verið á algjöru undanhaldi. Föruneyti apanna drepur karl, og bjargar síðan litlu dóttur hans. Órangútinn afhendir litlu stúlkunni tuskubrúðu, og í kjölfarið fylgir stúlkan öpunum eftir. Margt er þó á huldu um stúlkubarnið þar sem hún er mállaus. Reyndar heyrðist að segja má aldrei hósti eða stuna frá konum og kvenöpum í myndinni, þannig að þar reyndi ekki á Dolby hljóðsetninguna. Hinsvegar hljómuðu einræður karlmanna og karlapa mikið og hátt, á milli kröftugra sprenginga. Með hliðsjón af þessu má velta vöngum yfir því hvort að ein helsta hugmyndafræði kvikmyndarinnar; mál og málleysi í tengslum við menn og dýr, sé í raun ekki bundið við apa og menn, heldur við karlkynið og kvenkynið? Frá þeirri spurningu, skulum við hverfa aftur að hefndarför Sesars, sem nær loks sögulegu hámarki þegar að förunautarnir ná áfangastað sínum, herbúðum Herforingjans. Þá kemur í ljós fórnarkostnaður leiðtoga er skilur við hjörð sína á ögurstundu; lexía fyrir leiðtoga. Herforinginn er þegar þarna er komið sögu búinn að hneppa apaþjóð Sesars í vinnuánauð, þar á meðal eina eftirlifandi son hans. Föruneyti apanna leggur til atlögu við Herforingjann í herbúðum hans. Í þeim lokaátökum Sesars og Herforingjans, mætast tveir andstæðir feður í mannkynssögunni: „Öll mannskynssagan hefur leitt til þessarar augnabliks“, sagði Herforinginn er hann horfði í mennsk augu Sesars. Herforinginn þráði umfram allt að tilheyra karlaflóru „mannkynssögunnar“, en láðist að leiða hugann að því, að hver foringi þarf sinn eigin sagnaritara; arftakann. Á þessum örlagaríka fundi apa og manna kemur í ljós að Herforinginn var búinn að deyða son sinn í því skyni ná fram eigin pólitískum markmiðum. Þar með voru örlög Herforingjans afráðin. Maðurinn sem myrti son sinn stóð nú frammi fyrir föður sem ætlaði ekki aðeins að hefna fyrir elsta son sinn, heldur einnig bjarga þeim yngsta. Það var fyrirmyndarfaðirinn Sesar sem stóð uppi sem sigurvegari þann daginn, og leiddi þjáða apaþjóð sína á frelsisgrundu. Og í hinu nýja föðurlandi dró Sesar sinn síðasta andardrátt, er hann heyrði á orð órgangúta vinar síns: „Sonur mun vita hver faðir hans var…og hvað Sesar gerði fyrir okkur“.

Stríð fyrir plánetu apanna er sannarlega reist á grunni vísindaskáldsögunnar en líkt og í vísindaskáldsögum almennt þá brjótast höfundar þessa verks ekki meira út fyrir rammann en svo, að feðraveldið í allri sinni dýrð fylgir þeim úr mannheimum yfir í skáldheiminn. Stríð fyrir plánetu apanna er útópía feðraveldisins, heimur þar sem engar konur eru í sjónmáli og erkitýpur kvenna viðhafast í bakgrunni sögunnar. Á plánetu apanna teygja slímugir angar feðraveldisins sig út fyrir samfélagsgerð manna inn í frjálsræði dýraríkisins, þar sem apar verða ekki menn, heldur karlmenn. Í raun má segja að ýktasti en jafnframt ófrumlegasti vísindaskáldskapur kvikmyndarinnar hafi verið fólgin í fjarveru kvenmanna og kvenkyns apa á apaplánetunni. Plánetan skartar mannskepnunni og öpum en endurspeglar ekki raunheiminn sem þessir aðilar spretta úr, þar sem helmingur mannkynsins og reyndar einnig helmingur apa, eru kvenkyns. Skáldskapur vísindasagna gerir reyndar ekki kröfu um slíkt, en af hverju þarf þrástef feðraveldisins úr raunheimum að fylgja sögunni á ímyndaðar grundir kvikmyndarinnar? Í heimi apaplánetunnar bregður fyrir fáum kvenkyns þegnum/erkitýpum kvenna, er bíða berskjaldaðar eftir björgun frá hendi karla. Tilfærsla slíkra björgunaraðgerða á milli heima eru hér sannarlega í vísindaskáldsagnastíl, því í raunheimum eru það konur sem bjarga konum frá kynbundnu ofbeldi, s.s. mannúðarsamtök kvenna vitna um. Vísindaskálskapur 21. aldar af þessu tagi færir okkur aftur í tímann hvað samfélagsgerð manna varðar. Frumleikanum er ekki fyrir að fara í vísindaskáldskap sem byggir á innviðum núverandi valdakerfi feðraveldisins líkt og raunin er í apaplánetunni. Reyndar hefur þessi feðraveldistilfærsla ratað inn í flestar útgáfur vísindaskáldsagna. Ádeiluskáldskapur á feðraveldið fyrirfinnst hins vegar í vísindaskáldskaparhefðinni og kvikmyndin Advantageous (2015) er dæmi um gott verk af þeim toga.  Í myndinni Stríð fyrir plánetu apanna er slíkan boðskap semsagt ekki að finna, einungis gamaldags feðraveldi í allri sinni dýrð. Í stað vel smurðrar tímavélar vísindaskáldsögunnar sem þeysir inn í nýjar víddir, er þvælst um sögusvið aðskilinna sviða kynjanna, sögusvið sem lesendur/áhorfendur hafa fengið nóg af á liðnum árþúsundum.

Vísindaskáldskaparhefðin er gífurlega mikilvæg við sköpun nýrra heima í skáldskap og kvikmyndagerð. Það skáldlega frelsi sem fylgir þeirri hefð er ekki síst mikilvægt í jafnréttisbaráttu kvenna í raunheiminum, í baráttu er miðar að nýjum og réttlátari heimi. Það er sannarlega mögulegt að ímynda sér slíkan heim m.a. fyrir tilstilli vísindaskáldskaparhefðarinnar femínísks vísindaskáldskapar (e. feminist science fiction). Slíkur sköpunarvettvangur án kynjaðra landamæra er sannarlega til margra hluta nýtilegur.  Vettvangur þar sem konur geta til að myndað skundað fram á kvikmyndavöllinn án þess að ferðast um í lífhvolfi feðraveldisins. Í lok þessarar umfjöllunar vil ég sérstaklega hvetja konur, en einnig karla, til að örva ímyndunaraflið og skapa nýja heima innan vísindaskáldsagnarhefðarinnar. Ég hvet höfunda, til að ímynda sér konur. Ég hvet höfunda til að sýna aðgát í nærveru heima: „en ef þau geta ekki þolað við sem þegnar mínir, þá er þeim velkomið að skapa eigin veröld, og stjórna henni eftir eigin hentugleik. En lát þá hins vegar gæta að því, að gerast ekki óréttlátir valdaræningjar, og svipta mig eigin heimi…“. (M.L. Cavendish, The Blazing World).

Nokkrar heimildir:

  • E. Ann Kaplan. Feminism and film. (Oxford University Press, 2000).
  • Ellen Ragnarsdóttir. „Konur eru líka menn… NOT!“, https://hugras.is/2013/02/konur-eru-lika-menn-not/
  • Leiðarvísir fyrir konunga, http://www.arnastofnun.is/page/konungs_skuggsja
  • Margaret Cavendish. The Blazing World. (Penguin Classics, 1994).
  • María Margrét Jóhannsdóttir, „Vísindaskáldskapur eða saga af næsta bæ“, Þjóðmál 5:4 (2009), http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=389286&pageId=6654377&lang=is&q=V%EDsindask%E1ldskapur%20e%F0a%20saga%20af%20n%E6sta%20b%E6
  • Sólveig Ásta Sigurðardóttir. „Af hagsmunahjónabandi bókmennta og kvikmynda“, https://hugras.is/2014/10/af-hagsmunahjonabandi-bokmennta-og-kvikmynda/

Myndefni: Dalrún J. Eygerðardóttir.

Um höfundinn
Dalrún J. Eygerðardóttir

Dalrún J. Eygerðardóttir

Dalrún J. Eygerðardóttir er doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands og meistaranemi í umhverfis- og auðlindafræðum. Hún hefur einnig lokið BA-gráðu í kvikmyndafræði.

[fblike]

Deila