Blaðað í ljóðunum hans Hjartar

Fyrir rúmu ári kom út Ljóðasafn Hjartar Pálssonar (Reykjavík: Dimma, 2016) allt síðan þá hef ég verið að blaða í bókinni að vísu með löngum hléum. Safnið hefur að geyma fimm eldri ljóðabækur Hjartar, verðlaunaljóðið „Nótt frá Svignaskarði“ (2007) og loks áður óútgefna „bók“, Ísleysur. Því er hér saman komið heildarsafn af ljóðum skáldsins eins og ástatt var um það á öndverðu ári 2016. — Vonandi á þó enn sitthvað eftir að bætast við.

Áhugavert er að höfundur hefur breytt allnokkru í tveimur fyrstu bókum sínum. Munar þar mestu að ljóðaflokkurinn „Sveigur á aðventu“ sem birtist í annarri bókinni, Fimmstrengjaljóð (1977), hefur verið ortur upp. Efnisins vegna og sökum þess að í millitíðinni las höfundurinn guðfræði og tók prestsvígslu er um áhugavert rannsóknarefni að ræða sem bíður betri tíma.

Auðvitað kennir margra grasa þegar hálfs fimmta áratugar langur skáldferill er þannig gerður upp. Er þá aðeins tekið tillit til þess að fyrsta bókin, Dynfaravísur, kom út 1972. Elstu ljóðin eru ugglaust nokkuð eldri en það.

Víða — ekki síst framan af — gætir áberandi rómantíkur. Í litlu næturljóði í Dynfaravísum segir þannig:

Á kvöldin þegar úti er orðið hljótt
og allir nema ég og þögnin sofa
en kertaljósið logar milt og rótt
uns létt ég anda á skar um miðja nótt
er máninn skín á milli skýjarofa
— þá heyri ég vindinn guða á gluggann minn
og gegnum þrönga smugu læðast inn
með angan svalrar moldar milli tjalda.
(Bls. 30)

Þegar kvæðinu vindur frekar fram víkur rómantíkin þó fyrir tilverufræðilegri glímu:

Og eitthvað lýstur hug minn hratt og kalt:
Þaðan komstu, þangað áttu að hverfa.
Það er allt. (Bls. 30)

Þetta síðara erindi veldur því að moldarlyktin sem leitar á í þögninni og myrkrinu fær nýjan undirtón en lokastefið kallast á við lokaorð kristinnar útfarar: Af moldu ertu kominn, af moldu skaltu aftur verða — en hvað svo: er það allt eða hvað?

Dynfaravísur er þó alls ekki rómantísk bók í heild sinni. Þvert á móti er þar að finna bálkinn „Úr heimshornasyrpu“ sem hefur að geyma ljóð eins og „Klukkurnar í Nagasakí“. Þar segir meðal annars svo:

Þar sem börnin voru að leikjum steig upp súla himinhá
frá heimsins brennifórn. Á augabragði
urðu menn og hús að dufti. Hin græna jörð varð grá
og gufur upp af öskuhaugum lagði.
(Bls. 48)

Auk þess hefur flokkurinn að geyma ljóðin „Grikkland“, „Belfast“, „Bratislava“, „Víetnam“, „Biafra“ og „Pakistan“. Kvöl, þjáning og barátta ofanverðrar 20. aldar er því alls ekki langt undan.

Löngu síðar eða í Ísleysum (2016) er að finna ljóðið „Ég er að hugsa um skógana“. Þar er lágvaxinn birkiskógurinn í Fnjóskadalnum kveikja ljóðsins en þar eru æskuslóðir skáldsins. Þetta er þó ekki nostalgískt ljóð. Í öðru erindi þess segir:

Ég er að hugsa um skógana
ég er að hugsa um skógana sem ekki mega hverfa
ég er að hugsa um rányrkjuna
ég er að hugsa um súrt regn
ég er að hugsa um eyðingu ósonlagsins
ég er að hugsa um gróðurhúsaáhrifin
ég er að hugsa um nakið landið sem fýkur burt
— og samt verður að höggva
samt verður að grisja
vegna jafnvægis náttúrunnar
vegna jarðarinnar
vegna lísins.
Ég er að hugsa um skógana
ég er að hugsa um menningu skóganna
sem má ekki hverfa.
Hún hefur rætur sem geta slitnað.
Hún er úr tré en ekki steini.
(Bls. 301)

Lokaljóðið í safninu lýsir kínverskri vatnslitamynd þar sem stöðugt ljósblárri og ljósblárri dalir opnast hver af öðrum sem vekur hugrenningatengslin:

Þú ert einn á ferð
inn í altæka kyrrð
þar sem hulið er öllum
hvort einhver býr

Lengra þangað
inn í þögnina og blámann

Mörg ljóð Hjartar Pálssonar eru áleitin bæði í núinu og þegar framtíðin og eilífðin leita á. Er hið jarðneska stríð okkar allt eða býr einhver í þögninni og blámanum? Verðum við að mold eða munum við af mold upp rísa eins og prestarnir segja í útförunum?

Um höfundinn
Hjalti Hugason

Hjalti Hugason

Hjalti Hugason er prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hann hefur stundað rannsóknir á ýmsum sviðum íslenskrar kirkjusögu og kirkjuréttar en auk þess ritað um trú, samfélag og menningu á ýmsum vettvangi. Sjá nánar

[fblike]

Deila