Kyngervi, karlmennska og kynhögg

Heiðar Bernharðsson fór í Sambíóin Álfabakka að sjá Beauty and the Beast. Hann gaf engar stjörnur.

Nýja leikna Disneyútgáfan um Fríðu og Dýrið, Beauty and the Beast, hefur margt forvitnilegtað segja um kynímyndir og kyngervi karlmennskunnar. Nokkuð sem sjaldséð er í barnvænum kvikmyndum, ekki síst í stórsmellum en myndin hefur slegið í gegn um víða veröld og trónir nú þegar meðal tíu vinsælustu mynda allra tíma.

Ekki er endilega verið að benda á ýkja frumlegan hlut þegar tekið er fram að Beauty and the Beast sé ádeila á karlmennskustaðla 19. og 20. aldarinnar. En í ljósi þessarar nýju úrvinnslu á gömlu ævintýri er mikilvægt að minna á dansinn sem á sér stað í frásögninni á milli tveggja ólíkra (en í senn keimlíkra) karlmennskuímynda. Hér er átt við Gaston (Luke Evans) annars vegar og Dýrið (Dan Stevens) hins vegar, eða, ef titilhlutverkin eru ekki tekin of alvarlega, milli Fríðars og Dýrsins. Í báðum tilvikum er það hvernig þeir klæðast kyngervi sínu og leika karlmennskuhlutverkin sem skilgreinir samfélagslega stöðu þeirra. Það er í krafti karlmennsku sinnar sem Gaston er upphafin og umfaðmaður af samfélaginu, í hinu seinna er það sami hlutur, hvernig Dýrið klæðist karlmennsku sinni, sem gerir það að verkum að honum er úthýst úr sama samfélagi. Túlka má því myndina sem fínskeytta umræðu um það hvaða persónuleikaeinkenni karlmennskunnar eru viðurkennd af samfélaginu og hverjum þeirra er hafnað. Þessi strengur myndarinnar verður ekki síst forvitnilegur ef horft er til þess hversu keimlík kyngervin eru í tilviki beggja, aðeins munar smáatriðum, en þau skipta sköpum.

Gaston og Dýrið eru báðir í senn dýrslegir og siðmenntaðir. En á meðan dýrsleg drápsþörf og ofbeldisvald Gastons (hann stærir sig af því að skjóta varnarlaus í dýr í bakið og uppáhalds minningar hans eru úr liðnum stríðum) eru hyllt sem hátindur siðmenntaðrar karlmennsku, þá er óhulin dýrsleg bræði og skapköst (sem og ásjóna) Dýrsins talin fráhrindandi og hættuleg (hann kúgar og níðist á þjónum sínum og þorpsbúar geta vart beðið þess að „lóga“ honum) . Á meðan Gaston er hvattur til ofbeldisverka og minntur á fyrri ofbeldisverk honum til yndisauka (hann er á einum tímapunkti minntur á stríðið og sældarlegt bros yfirtekur reiðiskeifuna sem áður prýddi andlit hans) þá er Dýrið hvatt til að finna gleði og hamingju í öllu ókarlmannlegri afkima siðmenningarinnar, þ.e.a.s. í bókum og ferðalögum, og í rómönsum. Hann reynir að finna milliveginn og tekur upp á því að lesa enskar arfsögur um Lanselott og Gunnivör. Er þar um að ræða riddarasögu sem státar af hraustum körlum með sverð (og konum auðvitað), en er á sama tíma ein rómantískasta flétta umliðinna árþúsunda.

Gaston er hvattur – og verðlaunaður fyrir – að stilla sér upp í hlutverki karlruddans á meðan Dýrið er hrakið frá henni, með því að vera hrakið úr samfélaginu. Því vega Gaston og Dýrið salt. Samfélag sem fyrirlítur annan en hyllir hinn á skýrlega í stökustu erfiðleikum með að skilgreina eftirsóknarverða karlmennskuímynd; í gegnum það ganga þversagnir.

Dýrinu tekst þó aldrei að finna milliveginn sem hann sækist eftir. Hann birtist áhorfendum sem persóna á vogarskál og – það sem verra er – honum mistekst ítrekað að halda jafnvægi. Annað hvort er hann Dýrið (ofbeldisfullt villidýr) eða hann er bókstaflega Draumaprinsinn. Slík umskipti eiga sér stað tvisvar. Hið fyrra á sér stað þegar hann tilkynnir að hann sé ekki dýr og hið síðara þegar hann er bókstaflega drepinn fyrir það að vilja ekki bana andstæðingi sínum. Er þó hægt að líta á það sem fullkomin endi? Það að hann sverji af sér eina tegund ofbeldis þýðir ekki að hann taki ekki upp aðra. Píslardauði Dýrsins þýðir einungis að hann hefur svarið af sér ákveðnar öfgar karlmennskuhlutverksins en honum er engu að síður mögulegt (og frjálst) að fylgja í spor Gastons og taka við af honum sem holdgervingur karlmennskunnar. Endalok myndarinnar gefa einmitt sterklega í skyn að svo verði.

Gaston felur bræði sína og tilfinningaleysi og lætur hana renna í sín ofbeldisverk á meðan Dýrið felur reiði sína ekki fyrir neinum. Hægt að segja að hann bókstaflega krýni sig hornum reiði sinnar. Ofbeldisverk Dýrsins bitna hins vegar á persónum sem áhorfendur hafa litla sem enga samúð með, nokkuð sem auðveldar samsömun áhorfenda. Er hér rétt að taka fram að þótt ekki hafi verið minnst á það fyrr liggur andlegt ofbeldi eins og rauður þráður í gegnum myndina, enda báðum karlpersónunum, Gaston og Dýrinu, afar „laus höndin“ á huglæga sviðinu. Segja má að það séu forréttindi karlmennskunnar sem gefa þeim báðum „athafnafrelsi“ hvað þetta varðar og lausan tauminn. Karlmennskuviðmiðin sem fjallað er um í myndinni eru þess eðlis að ástæðulaust þykir að sýna almenna tillitssemi eða hafa aðgát í nærveru sálar (sbr. taumlausa níðslu Gaston á vini sínum LeFou og skepnuskap Dýrsins í garð þjóna sinna og Fríðu (sem hér er leikin af Emmu Watson)). Er þar við að bæta að samsæri þjóna Dýrsins gegn Fríðu – en örlög þeirra velta á tilfinningasambandi hennar við Dýrið – skírskotar gjarnan til mansals. Þjónarnir í myndinni birtast í gervi lifandi húsgagna og eiga þau öll bókstaflega líf sitt undir því að þeim takist að „gera Fríðu út“, líkt og hvert annað mansalsfórnarlamb, og að hún „þjónusti“ Dýrið.

Lykilatriðið í þessu sambandi er að litlu munar milli karlmannanna tveggja sem eru í brennidepli í myndinni. Þeir eru tvær hliðar á sömu mynt. Það að mörkin milli þeirra eru harla óljós hefur reynst öðrum innblástur er kvikmyndað hafa ævintýrið. Í útgáfu Jean Cocteau á Fríðu og Dýrinu (1946) eru Gaston (sem heitir reyndar Avenant) og Dýrið leiknir af sama leikaranum (Jean Marais). Báðir eru skapofsamenn, beita andlegu ofbeldi til að ná sínu fram – og líkamlegu þegar samskiptakúgun bregst. Tvífaraminnið má í nýju myndinni jafnvel lesa sem eins konar kynslóðaleg kyndilskipti, þar sem hermennska og sjálfgefin réttlæting manndrápa fyrri kynslóða eru ekki lengur ásættanlegir skapgerðarþættir eða hegðunarmynstur. Undirferli og yfirborðskennd herramennska tekur við hjá næstu kynslóð. Villt eðli er tamið, en ákveðin tegund af ofbeldi er ennþá tengd karlmennskunni. Jafnvel mætti segja að kynhöggskarlmennska (e. lumbersexual) samtímans sé nýjasta birtingarmynd langvarandi og yfirstandandi tilraunar samfélagsins til að fella nýtísku nærgætni að gamaldags vígamennsku.

Heimasvæði Engra stjarna.

Um höfundinn
Heiðar Bernharðsson

Heiðar Bernharðsson

Heiðar Bernharðsson er með BA próf í kvikmyndafræði og meðlimur Engra stjarna.

[fblike]

Deila