Guðsbaninn frá Þemískýru

Hallvarður Jón Guðmundsson fór í Sambíóin Álfabakka og sá Wonder Woman. Hann gaf engar stjörnur.

Wonder Woman er fjórða kvikmyndin í röð mynda sem byggja á myndasögum DC Comics og heyra undir hinn „viðbætta söguheim DC“ (e. DC Extended Universe.) Röðin hófst árið 2013 með myndinni Man of Steel en hinar tvær eru Batman v. Superman: Dawn of Justice og The Suicide Squad sem báðar komu út árið 2016 , allar þrjár fengu dræmar viðtökur gagnrýnenda. Það er því gleðiefni að segja frá því að Wonder Woman er fyrsta myndin í kvikmyndaheimi DC sem hiklaust er hægt að mæla með og einnig fyrsta myndasögu-kvikmyndin í langan tíma sem beinlínis tileinkar sér sjónrænan frásagnarmáta myndasagnanna sem hún byggir á. Að horfa á myndina er ekki ólíkt því að fletta hasarblaði.

Það skal tekið fram að undirritaður var einn þeirra fáu sem höfðu gaman af Batman v. Superman: Dawn of Justice sem fór í sýningar snemma árs í fyrra og kom svo út í lengri útgáfu á blu-ray, undirrituðum til yndisauka og flestum öðrum til ama. Myndin var umfangsmikil, goðsagnakennd og á köflum jafnvel tilgerðarleg sem vissulega mætti sjá sem galla en í þessu tilfelli var myndin einungis gölluð vegna þess að leikstjórinn Zack Snyder og hinir mörgu handritshöfundar myndarinnar ætluðu sér of mikið og flugu því of nálægt sólinni. Fáir myndu halda því fram að myndin væri fullkomin, m.a.s. hörðustu verjendur BvS myndu ekki neita því að þursinn Doomsday var einum tölvugerðum skúrki of mikið. En á þessum síðustu og verstu tímum þar sem ómerkilegar hasarmyndir sem miða lágt og ætla sér ekki neitt fylla kvikmyndahúsin, tek ég umfangsmikilli tilgerð opnum örmum.

Ef þetta hljómar eins og verið sé að ávíta með daufu hrósi, þá er það sennilega laukrétt. Einnig var þetta í mínum huga fyrsta Superman-kvikmyndin síðan Superman frá árinu 1978 sem tókst almennilega á við Superman sem goðsagnakennda veru og hvaða afleiðingar það gæti haft fyrir mannlegt samfélag ef guð myndi birtast á meðal vor. En það væri efni í annan ritdóm. Það besta við BvS var sjálf Wonder Woman, ekki síður goðsagnakennd vera en Superman, sem flæddi inn og út úr frásögninni af sjálfsdáðum og bjargaði að lokum deginum. Með Wonder Woman fylgdi einnig besta tónlistarstef myndarinnar, en tónlistina önnuðust þeir Hans Zimmer og Junkie XL; stef Wonder Woman var ómstrítt metal-riff í takt-tegundinni 7/4 spilað á rafmagns-selló. Ekki var hægt að óska sér betri kynningar fyrir sóló-mynd Wonder Woman.

Þetta sama tónlistarstef og þessi goðsagnakennda nálgun á viðfangsefnið heldur áfram í Wonder Woman sem segir sögu prinsessunnar Díönu (Lily Aspel og Emily Carey leika hana sem barn og ungling) sem elst upp á eyjunni Þemýskíra á meðal Amazónanna, kynþátt stríðskvenna sem grísku guðirnir sköpuðu til að vernda mannkynið. Þvert á óskir drottningarinnar Hippólýtu (Connie Nielson), fer dóttir hennar Diana í stríðsþjálfun hjá frænku sinni og hershöfðingjanum Antiope (Robin Wright.) Með árunum verður Diana hin öflugasta stríðskona (sem fullorðin kona er hún leikin af Gal Gadot) og er henni gert kunnugt um hinn eiginlega tilgang Amazónanna, sem er að knésetja og drepa stríðsguðinn Ares með þar til gerðu sverði sem er kallað „guðsbaninn.“ Öllum að óvörum brotlendir þýsk herflugvél úr fyrrri heimsstyrjöldinni við strendur Þemýskíru. Díana bjargar flugmanninum frá drukknun en fast á hælum hans fylgja þýskar herflugvélar en flugmaðurinn er í raun breskur gagnnjósnari að nafni Steve Trevor (Chris Pine). Eftir átök amazónanna og þýsku hermannana ákveður Díana að leggja Steve Trevor lið í stríðinu en hann hvílir á háleynilegum upplýsingum um nýtt þýskt efnavopn. Diana sér stríðið sem afurð stríðsguðsins Ares og ætlar sér að lúskra á honum í eitt skipti fyrir öll.

Myndin er einhvers konar blanda af þremur aðskildum undirgreinum í kvikmyndum. Fyrst ber að nefna að hún er ofurhetjumynd, í öðru lagi er hún stríðsmynd, nánar tiltekið fyrri heimsstyrjaldar-mynd og enn fremur tilheyrir hún þeirri undirgrein stríðsmynda að vera mynd um hóp af hermönnum sem sendir eru í ákveðinn leiðangur (myndir af þessu tagi eru m.a. The Dirty Dozen, Where Eagles Dare og Inglourious Basterds.) Þriðja undirgreinin er svo gamanmyndin um fisk á þurru landi, en stór hluti myndarinnar fjallar um það hvernig Diana fótar sig í samfélagi sem hún hefur enga þekkingu á og á Gal Gadot hrós skilið fyrir að túlka hina bláeygu Díönu jafnvel og hún túlkaði hina veraldarvönu Díönu í BvS.

Greinasamsuðan hangir mjög vel saman og er þessu öllu lipurlega leikstýrt af Patty Jenkins. Efnistökin eru ekki algjörlega ný af nálinni þar sem Thor frá Marvel Studios sagði einnig svipaða sögu af goðsagnakenndri ofurhetju sem er líkt og fiskur á þurru landi í nútímasamfélagi. Captain America: The First Avenger var einnig saga um ofurhetju í miðju stríði.

Myndin skiptist í tvo hluta, þó fyrri hlutinn sé reyndar talsvert styttri en sá seinni. Fyrri hlutinn gerist á Þemýskíru og þar erum við stödd í algjörlega goðsagnakenndu umhverfi. Leikstíllinn er mun leikrænni og samtölin yfirfull af fallegum setningum sem engin venjuleg manneskja myndi láta út úr sér. Þegar atburðarrásin færist til fyrri heimsstyrjaldar breytist tónn myndarinnar. Litapalettan verður hlýlegri og minnir á útlit gamalla hasarblaða.

Þar sem myndin vaknar virkilega til lífsins er í hasar-atriði sem gerast í svokölluðu „einskis manns landi“ – það er að segja, svæði í skotgrafahernaði þar sem allt líf hefur verið þurrkað út – í hinu stríðshrjáða Þýskalandi. Þessi sena, þar sem Wonder Woman brýst fyrst fram á sjónarsviðið í fullum skrúða, er meistaralega vel gerð og notast við langar óklipptar myndatökur og hægmyndatöku til að leggja áherslu á hasar-pósurnars sem Wonder Woman bregður sér í. Þetta eina atriði notar frásagnarmyndmál myndasagna til að segja okkur allt sem við þurfum að vita um aðal söguhetjuna okkar, hún er guðleg vera með mikinn líkamlegan styrk en einnig sterka siðferðiskennd.

Myndin toppar í raun aldrei þetta atriði þó hinar hasarsenurnar séu um margt vel heppnaðar. Það hefur verið hvimleiður galli flestra ofurhetju-mynda að hinn skuldbundni lokabardagi ofurhetjunnar og aðal skúrksins er iðulega langdreginn og lítið spennandi en lokabardagi Wonder Woman og stríðsguðsins Ares nær að halda áhorfandanum við efnið að hluta til með því að byggja hann á helsta söguþráðs-viðsnúning (e. plot twist) myndarinnar. Helsti vankantur þessarar annars ágætu kvikmyndar er að handritið reiðir sig gjarnan of mikið á klisjur og verða hlutar myndarinnar því aðeins minna skemmtilegir. Til móts við handritið höfum við hinsvegar tónlist Rupert Gregson-Williams sem er hetjuleg og grípandi. Tónlistin gefur mörgum atriðum frásagnarlega vigt sem handritið gefur þeim ekki.

Wonder Woman hefur nú þegar vakið mikla lukku meðal áhorfenda, þá ekki síst vegna þess að þetta er ein fyrsta ofurhetjumyndin sem fjallar um kvenhetju og þykir undirrituðum það nær ótrúlegt að það hafi tekið svona langan tíma að koma Wonder Woman – eða annarri kvenofurhetju – á hvíta tjaldið. Seint á áttunda áratugnum var reyndar gerð sjónvarpsþáttaröð um þessa sömu persónu. Á síðustu árum hafa ofurhetjumyndir verið að taka sig alvarlega í síauknum mæli og eru DC-myndirnar einna mest sekar um það. Þrátt fyrir að vera þjökuð af formúlukenndu handriti, galli sem hrjáir allflestar ofurhetjumyndir, er Wonder Woman mjög skemmtileg og aðgengileg ævintýramynd með einni mjög sterkri hasarsenu sem mun lifa lengi í manna minni.

Heimasvæði Engra stjarna.

Um höfundinn
Hallvarður Jón Guðmundsson

Hallvarður Jón Guðmundsson

Hallvarður Jón Guðmundsson er nemandi í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands.

[fblike]

Deila