Bókin Survival on the Edge: Seawomen of Iceland, eftir mannfræðinginn dr. Margaret Willson, kom út hjá University of Washington Press, í Seattle, Bandaríkjunum, á síðasta ári.

Með einstökum hætti rekur höfundur sögu Íslenskra sjókvenna frá Þuríði formanni á Stokkseyri til Sigrúnar stýrimanns frá Djúpavogi og nokkurra enn yngri kvenna. Margrét samvefur reynsluheim Íslenskra sjókvenna og eigin reynslu því sjálf sótti hún sjóinn sem ung kona við strendur Ástralíu. Frásagnarmáti bókarinnar er athyglisverður því Willson skrifar í fyrstu persónu og rekur í inngangi bókarinnar hvatann að því að hún fékk áhuga á efninu, hvernig var að hefja rannsókn á efni sem lítið hafði verið skoðað og aðferðir sínar við gagnaöflun. Í máli hennar kemur glöggt fram að þrátt fyrir að hafa gjarnan fengið þau svör að fáar konur hafi stundað sjó frá hinum eða þessu bæjarfélaginu þá hafi alla jafna allt annað komið á daginn og þær séu fjölmargar Íslensku konurnar sem sótt hafa sjóinn, þótt þær hafi ekki gert sjóskókn að ævistarfi sínu.

Í texta bókarinnar tekst Willson með athyglisverðum hætti að flétta saman ítarlega heimildavinnu og vitnisburð Íslenskra kvenna af eigin reynslu, ásamt tilvísunum í fjöldan allan af þjóðsagnakenndum frásögnum um sjósókn þeirra á ólíkum tímum. Hún leitar víða fanga og nýtir sér jafnt varðveittar sjóferðabækur sem og stökur og kvæði, s.s. eftir Ólínu Andrésardóttur, frá 1924, þar sem segir: „þær saumuðu, spunnu, styrðu skeið, / þeim var kunnug láar leið / lögð yfir grunna svæðin breið“ (bls. 40), til að varpa ljósi á margbrotið lífshlaup kvenna um aldir.

Í fyrsta kafla bókarinnar, „Survival on the edge, a hidden history“ (bls. 23-53), leggur Willson upp í ferðalag um Ísland og byrjar á Snæfellsnesi, – í Dritvík og við Breiðafjörð. Hún rekur byggðasögu svæðisins, segir frá lifnaðar- og atvinnuháttum, einokun Dana, harðindum og nauðung ýmiskonar. Hún heimsækir þá staði sem fjallað er um og fléttar saman eigin upplifun og reynslu kvennanna sem hún er að fjalla um í rannsókn sinni. Hún furðar sig á fjöldanum því „hundruðir kvenna höfðu sótt sjóinn“ (bls. 53), sérstaklega á vestur- og suðurlandi á 18. og 19. öld. Örlagatrú, erfiði, atgervi og úthald verður henni tíðrætt um í örðum kafla bókarinnar (bls. 53-80), enda eiginleikar sem jafnt konur og karlar þurftu að búa yfir til að lifa af. „Róðu betur, kæri karl, / kenndu ei brjóst um sjóinn / harðar taktu herðafall / hann er á morgun gróinn“, segir í kvæði eftir Björgu Einarsóttur, frá miðri 16. öld, og Willson vísar til máli sínu til staðfestingar. Hún rekur sögur fjölmargra nafngreindra kvenna og veltir upp spurningunni um hvernig á því standi að flestar þeirra – utan Þuríði og e.t.v. Látra Björgu – séu fallnar í gleymsku. Hún nýtir svo uppgrafnar upplýsingar og vitnisburði um æviskeið viðkomandi kvenna til að bregða ljósi á ýmsar tegundir útgerðarhátta, aðbúnað sæfarenda, vosbúð og elju þeirra sem í hlut áttu.
Í þriðja kafla bókarinnar gerir Willson byggðaþróun á Íslandi á nítjándu og fyrri hluta tuttugustu aldar ítarleg skil. Flutningur fólks úr sveitum til þorpa, umskipti í sjávarútvegi, framfarir í skipasmíðum, uppbygging fiskvinnslustöðva, réttindabarátta sjómanna og fiskverkafólks o.fl. setur hún í samhengi við fækkun kvenna í sjómannastétt. Auk þess sem almenningsálitið hafði sitt að segja, en hún vísar til fjölda niðrandi ummæla um sjókonur sem óhæfar mæður, skjækur, hálfkarla og kaldlyndra hörkutóla.

Í seinni hluta bókarinnar teflir Wilson því næst fram hverjum vitnisburðinum á fætur öðrum og varpar ljósi á sögu sem fáir þekkja. Hún gerir grein fyrir atvinnuþátttöku kvenna til sjós á 20. öld og segir um leið frá ferðum sínum um landið og aðferðum við að grafa upp lítt þekktar sögur og upplýsingar. Í síðasta kafla bókarinnar gerir hún svo kvótakerfinu skil og fjallar sérstaklega um verksmiðjuútgerð. Hún veltir upp spurningum um kynjuð viðhorf til hinna ýmsu atvinnuvega og hvort fleiri eða færri konur muni í framtíðinni sækjast eftir plássum til sjós. Lokaorðin sækir hún til viðmælenda síns, Ingu Fanneyjar, en þau hverfast um að rétt eins og gróður á Íslandi berjist í sífellu við að halda lífi og þannig hafi málum verið háttað með konur til sjós um aldir.

Í bók sinni tekst Margaret Willson að skapa það sem Níels Einarsson kallar: „Captivating read due to the breath of knowledge the author conveys through her personal style“ og það sem Kristín Loftsdóttir telur vera „newly told story of empowerment“ og „beautifully written and empirically rich ethnography“. Prófessor Charles Menzies, frá University of British Columbia, í Kanada, kemst svo að þeirri niðurstöðu að bókin sé; „a fabulous book, part memoir, part ethnography“. Hann bendir því næst á að: „Too often the presence of women at sea has been treated as an exception to be explained, but in this book the history and reality of seawomen is treated as fact and the stories follow from that. It´s about time!“.

Með orðum Unnar Dísar Skaptadóttur tekst Margaret Willson „með líflegum sögum sínum að glæða Íslenskar sjókonur lífi“, eins og segir á bókarkápu og víst er að í bók sinni um Íslenskar sjókonur gerir höfundurinn mikið úr því sem fræðimaðurinn Michael Faucoult skilgreindi sem staðbundna þekkingu og útskýrði að fæli í sér vald og áhrif þess eða þeirra sem hafa hana á takteinum. Í samfléttaðri ferðasögu sinni um útgerðarstaði á Íslandi, um völundarhús lítt kunnra heimilda og flækjuverk áður óskráðra frásagna af Íslenskum sjókonum sviptir höfundur bókarinnar Survival on the Edge: Seawomen of Iceland (2016) hulunni af einstakri reynslu og þekkingu fjölda kvenna sem aðrir hafa ekki á valdi sínu og legið hefur í þagnarbrunni (!) allt of lengi.

Um höfundinn
Hólmfríður Garðarsdóttir

Hólmfríður Garðarsdóttir

Hólmfríður Garðarsdóttir er prófessor í spænsku við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands. Í rannsóknum sínum hefur hún lagt áherslu á bókmenntir Rómönsku Ameríku og um þessar mundir vinnur hún að nýrri bók um málefni minnihlutahópa við Karíbahafsströnd Mið-­Ameríkuríkja. Sjá nánar

[fblike]

Deila