Ör – Auður Ava Ólafsdóttir
Benedikt – 2016

Þann 15. febrúar síðastliðinn hlaut Ör eftir Auði Övu Ólafsdóttur íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fagurbókmennta. Óhætt er að segja að verkinu hafi verið vel tekið jafnvel áður en þessi tiltekna rós rataði í hnappagatið. Í aðdraganda hátíðanna voru dómar í dagblöðum og útvarpi almennt afar lofsamlegir. Í Fréttablaðinu fyrir jól sagði Magnús Guðmundsson Ör vera „verk um mannlega reisn og tilgang“ og að hér væri á ferðinni „[s]tór og þroskuð skáldsaga“ sem auk þess væri „ótvírætt eitt af bestu verkum Auðar Övu“. Í Víðsjá lýsti Vera Knútsdóttir Öri sem „listilega vel skrifaðri“ og „djúpvitri“ skáldsögu. Síðastnefndu ummælin verða að teljast sérlega lofsamleg því vandi er að finna lofsyrði sem skáka hróstvenndinni djúphygli og listfengi.

Steinunn Inga Óttarsdóttir ræðir Ör í Kvennablaðinu og telur reyndar „örlítið vanta upp á“ svo skáldsagan sé afgerandi vel heppnuð, og vísar Steinunn þar til ákveðinnar fjarlægðar söguhöfundar frá efni sínu. Engu að síður er ritdómurinn á heildina jákvæður og segir m.a.: „orðin eru tilvalin, samhengið áreynslulaust, boðskapurinn fagur, textinn ljúfur og tilgerðarlaus, ljóðið svo nærri; allt smellur saman eins og ör sem hittir í mark.“ Þetta getur nú ekki talist amaleg umsögn. Þess má reyndar geta að tilnefning Auðar í fyrra til Íslensku bókmenntaverðlaunanna var önnur tilnefning hennar á tiltölulega skömmum tíma; árið 2012 var það Undantekningin sem skilaði henni slíkri upphefð.

Hafði ég þegar minnast á að Ör hafi einnig verið meðal mest seldu skáldsagna síðasta árs? Það liggur við að hægt sé að draga fram hugtakið sigurganga í þessu samhengi.

Á ákveðnum tímapunkti í jólabókaflóðinu var enda sem lofsöngurinn umhverfis bókina – og gengi Auðar Övu sem rithöfundar – væru orðin svo einróma og yfirgnæfandi að dálítið viðtökulegt bakslag átti sér stað og sá varð helgimyndabrjótur sem staldraði við og gagnrýndi bókina.

Vatnalilja á brjóstinu

Ör er sögð í fyrstu persónu og sögumaðurinn heitir Jónas Ebeneser. Rétt er að taka strax fram að lesendur og hollvinir Afleggjarans, skáldsögu Auðar frá 2007 – en aðdáendur þeirrar bókar er víða að finna – eru líklegir til að taka þessari nýju skáldsögu Auðar með opnum örmum, bæði vegna þess að nýja skáldsagan er útaf fyrir sig afar vel heppnuð, raunar frábær, en svo eru margvíslegar tengingar milli bókanna tveggja og mikill endurómur, líkt og Auður sé markvisst að þróa áfram aðferðir, tónbeitingu og ákveðin söguhöfundarviðhorf sem settu mark sitt á bókina frá 2007.

Jónas er fráskilinn þúsundþjalasmiður sem á fyrstu síðum verksins fer á húðflúrstofu og fær sér hvítt húðflúr af vatnalilju yfir hjartað. Fram kemur að algengt sé að fólk kjósi að hylja slæma áverka, til að mynda ör, með sérstaklega hönnuðum húðflúrum og það er einmitt það sem Jónas er að gera. Vatnalilja er dóttir hans en þegar sagan hefst hefur fyrrum eiginkona hans nýlega tilkynnt honum að hann sé ekki líffræðilegur faðir Vatnalilju, hún hafi valið hann til að ganga annars manns barni í föðurstað. Þetta er reiðarslag.

Í einhverjum skilningi finnst Jónasi eins og þarna hafi hann tapað undirstöðunum í lífi sínu, það er svo sem ekki margt annað sem virðist ganga vel – þótt honum gangi svo sem ekkert illa heldur – og það sem vegur þyngst er kannski að honum finnst hann standa eftir einn í heiminum þegar hann hefur verið sviptur líffræðilegu tengingunni við barnið sitt – sem er auðvitað kolrangt hjá honum eins og kemur fram síðar í verkinu. En þegar sagan hefst er Jónas í myrkasta hellinum (eða í maga hvalsins) og lesandi kemst því fljótt á snoðir um það að hann hyggst stytta sér aldur.

Hér er því öðrum þræði á ferðinni bók um tilvistarkrísu og þunglyndi í sinni alvarlegustu mynd, og Jónas gefur sér viku áður en til framkvæmda komi. Þá má jafnframt sjá hvernig unnið er með stef sem einnig má finna í Afleggjaranum þar sem flókið og krísuskotið samband sögumanns við dóttur sína er líkt og hér aflvaki frásagnarinnar.

Rústir

Af tillitssemi við sína nánustu ákveður Jónas að stytta sér ekki aldur heimavið – honum hrýs hugur við að ímynda sér hvað það myndi gera dóttur hans (fyrrum dóttur?) að koma að líki hans í íbúðinni. Nei, hann getur ekki leyft því að gerast. Ráðið er að koma sér í örugga fjarlægð og til þess dugar ekkert minna en flugferð á ókunnugar slóðir. Og það er ekki úrdráttur – Jónas heldur viljandi á afar framandi slóðir, hann kaupir flugmiða til ónefnds lands einhvers staðar fyrir austan okkur, í öðrum menningarheimi. Sú hugsun hvarflar að lesanda að með ferðalaginu og heimshornaflakkinu sé Jónas líkt og að taka æfingarhring, að hita upp fyrir óafturkræfa tilfærslu inn í handanheima eftirlífsins.

Skáldsögunni er skipt í tvo hluta og hvörfin sem eiga sér stað með áðurnefndu ferðalagi skilja þar á milli. Þarna gengur frásögnin jafnframt í gegnum eins konar hamskipti. Ávarp, tónn og efnistök breytast með róttækum hætti.

Inn í ákvörðun Jónasar um áfangastað spilaði áhugi móður hans á átökum og styrjöldum í mannkynssögunni, þannig að haldið var til lands þar sem borgarastyrjöld hafði nýlega geisað. Jónas lendir með öðrum orðum í landi sem er eins og stórt svöðusár, og enn fossblæðir þótt það sé kannski stundum með ósýnilegum hætti.

Stríðandi fylkingar hafa lagt niður vopnin en allt er í rúst í landinu sem Jónas heimsækir, umhverfið, byggingar og fólkið, og fjölmargar lífshættulegar gildrur minna á nýafstaðin átökin, líkt og jarðsprengjusvæði innan og utan borgarmarkanna.

Ofdekraðar væntingar þess sem lifir höggþéttri tilvist

Mismunurinn á verustað og aðbúnaði gæti því ekki verið meiri. Úr hlýjum og öruggum – ja, kannski ekki hlýjum – faðmi eylandsins í norðri, þar sem enn eimir eftir af norrænu velferðarsamfélagi, er förinni heitið til lands þar sem ómennskunni hefur verið sleppt lausri og lífi þegnanna umbreytt í áralanga martröð.

Höfundur teflir hér býsna djarft. Fyrri hluta bókarinnar er stefnt í hættu, held ég að megi segja, í sama mund og ávarp verksins, skírskotanir þess og efnistök taka áðurnefndum hamskiptum. Hætt er nefnilega við að tilvistarkrísa skandínavans verði hér dæmd og léttvæg fundin sem skammdegisþunglyndi og allsnægtarblús; ofdekraðar væntingar þess sem lifir höggþéttri tilvist. Að svo sé afhjúpast kannski ekki á niðdimmum haustnóttum þegar Ibsen og Strindberg eru nálægir, sjávarsaltið er í nösunum og einstaklingurinn getur látið hugan reika í heimspekilegum vangaveltum. Andspænis ofangreindum hörmungum er hins vegar auðvelt að skynja eða túlka erfiðleika Jónasar og fyrirhugað sjálfsvíg sem innantómt prjál og stæla, barnalæti í fullorðnum manni sem ætti að vita betur.

Frásögninni stefnt í hættu

Hættan sem Auður stofnar frásögninni er að fyrri hluti skáldsögunnar þoli illa eða ekki ómælanlega þyngd og byrði hörmunganna í þeim seinni. Ennfremur óttast lesandinn að Jónas öðlist meðvitund um það hversu hlægileg hans vandamál eru í samanburði við eftirköst borgarastríðs, þjóðarmorðs og nauðgunarbúða. Óttast vegna þess að „þroski“ af slíku tagi væri verri en meðvitundar– og skilningsleysi fyrra tilvistarstigsins. Í slíkri „sviðsmynd“ væri síðari hluta skáldsögunnar stillt upp sem eins konar heilsubótarferð fyrir Jónas sem þurfti aðeins dálitinn katastrófutúrisma til að stilla viðmiðin upp á nýtt og setja góssenlandið Ísland í perspektíf. Þar með væri jafnframt látið af sjálfsvígshugsunum.

Slík saga væri náttúrlega engum bjóðandi, en að sama skapi fækkar mögulegum útgönguleiðum söguhöfundar, skyldi maður ætla.
Auður teflir djarft en hún uppsker í samræmi við það. Höfundur stillir ekki upp auðveldum samanburðarlíkönum heldur lyftir frásögninni upp þannig að skáldsagan sem heild svífur hátt yfir tvenndarhyggjunni sem rædd er hér að ofan, og það er gert með heimspekilegu viðhorfi, vitsmunalegri úrvinnslu, miklum húmor og gegnheilli afstöðu þar sem möguleika hugverunnar á tilvistarlegri reisn er haldið til haga, hvort sem vitundin sem um ræðir sprettur úr öryggi og velsæld eða hörmungum og stríði.

Tilvistarlegir glímukappar bókmenntanna

Jafn gegnheilt er það viðhorf textans að andspænis þjáningu sé þögnin sá helsti virðingarvottur sem utanaðkomandi getur sýnt, þögnin og það að gera eitthvað, hversu lítið sem það er, leggja þannig sitt af mörkunum til að laga og rétta við veruleika hvurs skynsemis– og siðferðisfestingar eru augljóslega hrokknar úr skorðum. Vel getur verið að það sé tilgangslaust og grimmdin og myrkrið sigri, eða séu löngu búin að sigra, en það skiptir ekki máli. Þótt skammgóður vermir sé af því að búa til gildi og viðhalda þeim fylgir slíkri hegðun ákveðinn vonarbjarmi.

Ör er merk og mögnuð skáldsaga, hún kallar fram tilvistarlegar vangaveltur af þessu tagi af því að fengist er við miklar spurningar og vandmeðfarnar í textanum. Auður er lipur og snörp, fljót að færa sig úr stað og er þannig ólík höfundum sem mása og blása undan þyngslum eigin djúphygli, í staðinn er hún kvik og athugul, húmórísk þar sem öðrum hættir til að vera melódramatískir eða sjálfbirgingslegir. Þegar upp er staðið er það sem skiptir máli einfaldlega að Ör er afar gott skáldverk og í verkum sínum er Auður á sérstaklega forvitnilegri vegferð.

Um höfundinn
Björn Þór Vilhjálmsson

Björn Þór Vilhjálmsson

Björn Þór Vilhjálmsson er dósent í almennri bókmenntafræði og kvikmyndafræði. Sérsvið hans eru skörun og samræða kvikmynda og bókmennta, tækni og menning, nýmiðlar af ýmsum toga, og íslensk kvikmyndasaga. Sjá nánar

[fblike]

Deila