Hin gleðilega sjálfsþekking

Í endurminningaritinu Skriftum beinir Pétur Gunnarsson sjónum að sínum yngri árum, sjálfsmyndarsmíðum og tilfinningaólgu áranna fyrir og uppúr tvítugu.
Pétur Gunnarsson
Skriftir. Örlagagletta
JPV, 2016
Frásagnaráherslunum í verki Péturs má skipta í tvennt. Ytri frásögn verksins lýtur að þroska sögumanns og þeim ólíku ferðalögum og tilfærslum sem spila þar inn í. Þegar sagan hefst hefur sögumaður að mestu sagt skilið við æskuheimilið, þessa fyrrum miðju alheimsins, og lifir lífinu innanum skólafélagana og í straumi hinnar nýtilkomnu æskulýðsmenningar. Frá því að vera laus og liðugur söðlar hann um og gerist fjölskyldufaðir. Frá Íslandi liggur leiðin til erlendra menningarþjóða og svo aftur heim. Innri frásögnin snýst um spurningu sem varpað er fram snemma í verkinu, þegar sögumaður veltir fyrir sér hvort hann hafi „strax þá ætlað að verða rithöfundur?“ (41). Það skiptir þó ekki öllu máli að tímasetja nákvæmlega þetta „strax þá“ heldur eru það staksteinarnir og örlagagletturnar á vegferð sögumanns í átt að köllun sinni, bókmenntunum og menningunni, sem skipta máli. Bakgrunnurinn er umbrotaskeið sjöunda og áttunda áratugarins og eitt af einkennum frásagnarinnar er nokkuð hraðar skiptingar í tíma og rúmi, lesanda er haldið á tánum í eins konar myndfléttu minninganna þar sem hefðbundin lögmál tíma og rúms eru höfð að vettugi, heilt ár líður á blaðsíðu og í nokkrum línum er farið heim af djamminu með stúlku, mynd dregin upp af sumrinu sem fylgir, en svo aðeins hægt á haustið eftir í uppsetningu á Herranótt í MR.

Lesanda er haldið á tánum í eins konar myndfléttu minninganna þar sem hefðbundin lögmál tíma og rúms eru höfð að vettugi
Eins og gefur að skilja er hér jafnframt um þroskasögu að ræða. Hin séríslensku kennimerki um framþróun á þroskabrautinni eru auðvitað vel þekkt. Einhvern tíma fer manni að finnast rautt Ópal gott, skömmu síðar stendur maður sjálfan sig að því að vera að hlusta á RÚV. Áður en maður veit af því eru minningagreinarnar svo orðnar aðalatriðið í blöðunum. Einhvers staðar á þessari vegferð, sennilega á milli rauða Ópalsins og RÚV, fer maður að búa. Pétur fer að búa. Svo tekur að fjölga í fjölskyldunni. Sögumaður lýsir hvernig hann klæddist í raun og veru föðurhlutverkinu fyrst eins og hverri annarri vinnuflík, þetta var bara eitthvað sem maður gerði, en svo smátt og smátt og með nær ógreinanlegum hætti tekur afkvæmið yfir öll svið lífsins, og það er gert á máta sem gæti kallað fram vangaveltur um það hvort blómkálsfólkið í Innrás líkamsþjófanna (1956) sé komið í alvörunni, en nú í dularklæðum hvítvoðunga, ef ekki væri fyrir undursamleika þessarar nýju veru.

Staksteinar hinnar íslensku þroskasögu. Mynd: Björn þór
Staksteinar hinnar íslensku þroskasögu. Mynd: Björn Þór Vilhjálmsson.

Kjör voru kröpp, lífið varð flóknara og erfiðara, það var skyndilega enginn tími til að gera neitt, en sögumaður fangar með hlýju hvernig sú hugljómun hálfpartinn læðist að manni að kannski sé enginn öflugri hamingjuvaki í öllum heiminum en að vera almennilegur pabbi. Þegar svo flutt er til útlanda er Pétur meira og minna heimavinnandi, konan er í skóla og hann fylgdi með; eitthvað gagn verður hann að gera. En þetta er nýtt kynhlutverk fyrir karlmenn, þeir voru ekki heima með börnunum meðan konan þvældist guð veit hvert. Þannig var það bara. Kynslóð Péturs er hugsanlega sú fyrsta þar sem karlmaður sem tekur sér fyrir hendur það sem Pétur gerir á sér endurkomu- og viðreisnarvon í samfélagi (karl)manna. Pétur dregur þetta allt saman og kjarnar með gullfallegum hætti: „Stjórnmálin voru svo karllæg – raunar karlæg – að allt sem viðkom uppeldi barna var á öðru tíðnisviði, það heyrðist ekki frekar en tíst í leðurblökum.“ (180)

Viðtökufræðileg vangavelta um viðmið

Hér að ofan er frásagnaraðferð Skrifta lýst sem eins konar endurminningafléttu í ljósi þess að þótt tímaramminn sé skýr er flakkað býsna hraustlega um fjórðu víddina. Bókin er stutt og hraðinn allnokkur og kallar stíllinn þannig fram hugrenningatengsl við sovésku myndfléttuna, einkum þá „vitsmunalegu“ sem kennd er við leikstjórann Sergei Eisenstein. En ljóst er í öllu falli að Pétur hafnar í einhverjum skilningi bæði endurminninga- og sjálfsævisöguflokkununum, og það gerir hann í krafti frumsmíðar sinnar, greinafræðahugtaksins örlagagletta. Þetta er fallegt orð og gagnsætt og kann jafnvel að reynast skemmtileg viðbót við hugtakaflóru ævisagnaritunar. Hver veit, glettni lífsins er í öllu falli þekkt orðasamband og merkingarfræðilega er stutt á milli þess og örlagahugtaksins, máttarvaldsins gráglettna sem Nabokov kallaði McFate í sinni frægustu skáldsögu, en vættin í verkinu sem hneykslaði heimsbyggðina er mun óvægnari en sú sem kvödd er fram í Skriftum, þótt glettur hins dagfarslega lífs séu af ýmsu tagi í frásögn Péturs. Örlagahugtakið fleytir huganum jafnframt í átt að Urði, Verðandi og Skuld, stjórnendum þess eina veraldarvefs sem skiptir kannski raunverulega máli, jafnvel á stafrænum tímum.

Þegar höfundur skilgreinir verk sitt er rétt að leggja við hlustir, það er sjaldan að ástæðulausu.
Þegar höfundur skilgreinir verk sitt er rétt að leggja við hlustir, það er sjaldan að ástæðulausu. Þannig hafa ýmsir velt vöngum yfir mögulegri þýðingu þess að þegar Halldór Laxness gaf út sjálfsævisögurnar sínar fjórar – en svo merkileg var æska þjóðskáldsins að bækurnar fjórar rétt komu Halldóri yfir tvítugt – vildi hann kalla þær essay-roman frekar en sjálfsævisögur. Annað af mikilvirkustu sjálfsævisagnaskáldum liðinnar aldar, Sigurður A. Magnússon, kaus sömuleiðis að auðkenna verk sín sem „uppvaxtarsögur“, en um virkni sjálfsævisöguformsins í samtímabókmenntum ritaði Gunnþórunn Guðmundsdóttir forvitnilega grein í Lesbók Morgunblaðsins fyrir nokkrum árum.[1] Nú kynnu einhverjar spurningar að vakna, jafnvel fleiri en ein. Sú fyrsta kynni að lúta að mismuninum milli hinna hefðbundnu hugtaka (sjálfsævisögunnar og endurminninganna); að hvaða leyti er hann til staðar? Er hér aðeins um skólaspekilegar hártoganir að ræða, fóður fyrir endurframleiðslu akademíunnar á sjálfri sér, eða skiptir það máli ef skáld býr til nýtt hugtak sem mun kannski hvort sem er ala aldurinn á sínum fæðingarstað? Mér er til dæmis ekki kunnugt um að margir höfundar hafi tekið nýstárlega flokkunartilburði Halldórs upp eftir honum, nema ef vera skyldi endurómur þeirra í hugtakinu skáldævisaga, sem komst í dálitla tísku. En vissulega er rétt að mörkin eru ekki alltaf skýr í greinafræðunum og segja má að það hvar verk lendi í flokkunarfræðunum velti síður á vísindalegum mælingum en smekk eða stundarviðhorfum þeirra sem að viðkomandi bók koma, höfundi eða útgefendum. Þó er hægt að benda á nokkur atriði sem geta talist tegundareinkenni.

Þegar skrif eru kennd við endurminningar er til dæmis ekki um jafnmikla skuldbindingu af hálfu höfundar að ræða og í tilviki sjálfsævisögunnar, hvorki hvað umfang né afhjúpunarkröfur varðar.
Þegar skrif eru kennd við endurminningar er til dæmis ekki um jafnmikla skuldbindingu af hálfu höfundar að ræða og í tilviki sjálfsævisögunnar, hvorki hvað umfang né afhjúpunarkröfur varðar. Sjálfsævisagan gefur í skyn að sögð verði saga ævi eða lífshlaups og áherslan færist því um leið á einhvers konar heild, nokkuð sem á sér ekki endilega hliðstæðu í væntingum til endurminningaskrifa. „Andartak andláts míns“ (1994) eftir Maurice Blanchot er örstutt endurminning, tíu blaðsíður í mesta lagi, og ritsmíðin er ennfremur vitnisburður um það að endurminningaformið er almennt lausara í reipunum hvað byggingu, umfang og efnistök varðar en sjálfsævisögur. Þá hefur það lengi tíðkast að endurminningaskrif birtist í tímaritum, og um langt skeið var íslenski útgáfubransinn líkastur samhæfðri vél sem hönnuð var til að slá heimsmet í útgáfu á þáttum og köflum um fólk sem þótti merkilegt í héraði, frá skipstjórum til kynlegra kvista. Ekki var þó um játningar að ræða, en játningaformið er kannski hin upprunalega mynd sjálfsævisögunnar eins og því var beitt af heilögum Ágústínusi og Jean Jacques Rousseau. Raunar vildi Rilke meina að allur skáldskapur væri form játninga af höfundarins hendi, en látum það liggja milli hluta.

Játningar Ágústínusar og Rousseau eru lykiltextar í þróun bókmenntaformsins sem síðar var kennt við sjálfsævisöguna. Bítlana þarf ekki að kynna.
Játningar Ágústínusar og Rousseau eru lykiltextar í þróun bókmenntaformsins sem síðar var kennt við sjálfsævisöguna. Bítlana þarf ekki að kynna.

En ef staldrað er örlítið lengur við örlagaglettuna sem lýsingu á inntaki bókarinnar, sem orði yfir nýja bókmenntagrein, þá hefur hugtakið viðtökufræðileg áhrif umfram það að vekja fagurfræðilega ánægju í krafti áferðar og útsjónarsemi. Glettni er hluti af innihaldslýsingunni, nokkuð sem kemur lesendum Péturs ekki á óvart, og að viðbættum örlögunum er ákveðin þematísk áhersla farin að taka á sig mynd; hér eru í fyrrúmi þær óvæntu vendningar sem lífið tekur og það hversu ráða- og valdalaus við erum andspænis örlögunum – öflunum sem stýra heiminum eða setja hann í uppnám, öflunum sem stýra okkur eða setja í uppnám. Bókmennt sem kennir sig við örlagaglettu er að þessu leytinu til kannski líkleg til að fara hratt yfir sögu, staldra ekki endilega við smáatriðin heldur einmitt stóru kúvendingarnar. Þetta á þó ekki við um Skriftir, þvert á móti, það er ekki síst hið smáa sem skilur eftir sig ummerki á sálinni og ratar þess vegna í endurminningarnar. Í krafti lítillar bókabúðarinnar á Skólavörðustígnum sem verslar með erlendar kiljur, þar á meðal Ulysses eftir Joyce, ferðast Pétur um víðáttur nútímaskáldskapar. Sömuleiðis er andartakið þegar hann sér Sigurð A., þá ritstjóra Lesbókar Morgunblaðsins, í fyrsta sinn honum minnisstætt, svo ekki sé minnst á Bítlaplötuna sem Pétur hlustar á í byrjun sögunnar og upphafi bókar.

Dagar víns og rósa

Við fórum aftur inn, settumst niður, skáluðum
en hann talaði bara um
dýrðardagana, en þeir eru liðnir um leið

Eins og áður segir er sögumaður ekki alfluttur að heiman þegar frásögnin hefst, það gerist síðar, þegar hann byrjar að búa, eins og það var kallað, en æskuheimilið kemur lítið við sögu. Verurými sögumanns framan af eru gangar og stofur menntaskólans, en menntaskólaárin geta vissulega verið dálítið sérstakur tími og margir eiga það til síðar að líta um öxl með trega og eftirsjá. Það er þó ekki endilega viðhorfið hér en dvalið er við þetta tímabil með augljósri velþóknun og sjónmálið er hlýtt. Ljóst virðist jafnframt að Pétur hafi stungið sér á bólakaf í ungdómsmenningu tímabilsins. Hasar í kringum Herranótt er lýst skemmtilega, svo ekki sé minnst á dansleikina og djammið, og svigrúmið sem gafst til að stunda kynlíf svona nokkuð óáreittur ef svo bar undir. Svo er dálítið verið að semja. Segja má líka að borgarmenningin hafi verið sem sniðin að þessari nýju manntegund, hinum stálpaða unglingi, síðunglingnum, furðuveru sem ber ekki með sér snefil af hreinlyndi og ástúð barnsins, en er þvert á móti mannapi á valdi eigin líkamsstarfsemi, sem á sínum verstu stundum slagar í ófrýnileika upp í klassískar ófreskjur hryllingsbókmenntanna. Pétur bendir sjálfur á þetta og líkir því þegar allar varnir brugðust og vitundin gafst upp undir oki kynhvatarinnar við umskipti hins dagfarsprúða Jekyll í næturóveruna herra Hyde í skáldsögu Roberts Louis Stevenson. En þannig hefur æskumenningin kannski virkað öll eftirstríðsárin, hún hefur vígt hverja kynslóðina á fætur annarri inn í forboðna lífsþekkingu og athafnir, og að ákveðnum tíma loknum hefur hin fyrrum sköpulagslausa táningspúpa breyst í misjafnlega heildstæða og velheppnaða menningar-, félags-, og kynveru.

Lestraránægja bókarinnar er ekki síst falin í innsýninni sem verkið gefur í það hlutskipti að vera ung manneskja í Reykjavík
Um það bil þrjátíu árum áður en saga Péturs hefst var háð hugsanlega svakalegasta menningarstríð tuttugustu aldarinnar á Íslandi. Rökþrota en afar hagsmunatengd fastheldni landsbyggðarinnar, gömlu valdablokka bændasamfélagsins, á úrelta framleiðsluhætti og hefðir, og gegnheilt áhugaleysi á úrræðum til að milda grimmileg lífsskilyrði dreifbýlisins, leiddi til gagnárásar breiðfylkingar menntamanna og listamanna úr borginni. Og það er kynslóð Péturs sem baðar sig í sigri „opingáttamannanna“ svokölluðu, og þess fjölbreytta mannlífs og auknu velmegunar sem eftirstríðsárin höfðu í för með sér.[2] Lestraránægja bókarinnar er ekki síst falin í innsýninni sem verkið gefur í það hlutskipti að vera ung manneskja í Reykjavík; hvernig upplifun það var að vera ungur í borg sem á nákvæmlega ekkert skylt við Reykjavík dagsins í dag, óskaáfangastað krútta, lumbersexí hipstera og náttúrunnenda, en var þó ævintýraríki þeirra sem þar ólust upp.

Dýrðin á ásýnd hlutanna

Vísbending er gefin í kynningartextanum á bakkápu bókarinnar um annað af tveimur meginviðfangsefnum textans, en þar er áhugasömum tjáð að Pétur komi færandi hendi með  „lofgjörð um íþróttina að skrifa, kraftaverkið að fanga skynjun, reynslu og tilfinningar í jafn ólíklegt efni og orð.“ Ekki er alveg ljóst af hverju það skyldi koma okkur á óvart að tungumálið hafi reynst tækið sem notað er til að varðveita flókin hugsanaferli og miðla boðskiptum – hvað annað kom til greina eða þótti líklegra til árangurs í þessum efnum? En þetta er útúrdúr. Hugum aftur að skynjuninni sem orð fá fangað. Það er mikilvægt atriði því líkt og titilllinn gefur til kynna eru Pétri skrif hugleikin. En til hvers eru skriftir?

En líkt og þeir sem þekkja lífið á Facebook þá getur orðið ansi snúið að lifa lífi sem maður er sömuleiðis að vakta, varðveita og miðla.
Hér ber að hafa í huga að Skriftir eru ekki fyrsta atrenna Péturs að endurminninga/sjálfsævisöguforminu. Árið 1989 sendi hann frá sér Vasabók og svo Dýrðina á ásýnd hlutanna tveimur árum síðar, og er þar um að ræða minniskompur eða nótubækur höfundarins, bækur sem ávallt voru hafðar við höndina til að hægt væri að hripa þegar nauðsynina bar að og, eins og segir í Vasabók, þá var markmiðið með þessu öllu að „handsama lífið í bók“ (14), alveg eins og myndlistarmaðurinn hraðvirki sem Charles Baudelaire kallaði „málara hins nútímalega lífs“, Eugène Delacroix, lagði allt að veði fyrir augnablikið, hæfnina til að fanga hið hverfula rétt meðan það varði, og bjarga því þannig frá glötun. En líkt og þeir sem þekkja lífið á Facebook vita þá getur orðið ansi snúið að lifa lífi sem maður er sömuleiðis að vakta, varðveita og miðla. Þetta er vandi vasabókahaldarans, eins og Jón Karl Helgason bendir á í umfjöllun um bókina, „togstreitan milli augnabliksins og varðveislu þess [er] ein af þungamiðjum í lífi höfundarins.“ Togstreita þessi er Pétri enn hugleikin:

Rithöfundur in spe þróar snemma með sér afstöðu til lífsins sem er ögn frábrugðin því sem tíðkast. Á meðan aðrir lifa lífinu lifir rithöfundurinn svo að segja á lífinu, lífið er fyrst og fremst yrkisefni [og það sem skipti máli] var reynslan af lífinu, því rithöfundur hefur fram yfir annað fólk að allt sem kemur fyrir hann er yrkisefni og boðið velkomið sem slíkt. Hann hittir aldrei leiðinlegan mann – nema ef vera skyldi annan rithöfund í sömu erindagjörðum. (53, 70)

Og þegar Pétur dáist að því hvernig skólastarf fyrr á öldinni var skrásett glittir í það sem kann að vera hið eina raunverulega gildi bókmennta, handan við handahófskennda og menningarlega mótaða fegurðar- og gæðastaðla. Í gömlum bókum og klöddum marséra fylkingar skólabarna

inn á síðurnar, kladdi eftir kladda með upplýsingum um lestur, skrift, reikning, kristinfræði, hegðun … barna sem fyrir löngu eru komin út úr þjóðfélaginu og heiminum eftir að hafa þjónað um stund sem börn, unglingar, ungt fólk, foreldrar, skattborgarar, ellilífeyrisþegar … En lifna snöggvast líkt og öreindir í öreindahraðli á meðan ég sjónhendi þau […] (130)

Skriftir eru raunbesta og kannski það eina andóf gegn forgengileikanum sem manninum býðst.

Skáldsaga Péturs Gunnarssonar, Punktur punktur komma strik, var kvikmynduð árið 1981 í leikstjórn Þorsteins Jónssonar.
Skáldsaga Péturs Gunnarssonar, Punktur punktur komma strik, var kvikmynduð árið 1981 í leikstjórn Þorsteins Jónssonar.

Gleðilega þekkingarfræðin

Lesandi Skrifta stendur andspænis býsna vafningalausum titli. Skriftir er bók sem mætir í vinnugallanum, líkt og matreiðslubók sem titluð væri Matreiðslubók, gefið er til kynna að á milli spjalda bókarinnar sé enginn óþarfi, orðagjálfur óþekkt. Þá svipar titlinum til þýska orðsins sem gjarnan er notað yfir heildarverk höfunda útgefin að þeim gengnum og að undanfarinni vinnu þar sem reynt er að safna öllu ritmáli viðkomandi aðila saman, „Schriften“. Auðvitað er ekkert slíkt tæmandi verkefni hér á ferðinni en Pétur Gunnarsson lítur engu að síður yfir farin veg, líkt og vaninn er í endurminningum, hann safnar ýmsu saman, hann er nostrari og vandvirkur og fangar þannig skemmtileg ummerki um leiftur fortíðar, og svo er vegið og metið, og hlegið. Enn oftar fær lesandi á tilfinninguna að sögumaður sé brosandi og höfundur hafi verið það líka, fjandakornið, þegar ákveðnar efnisgreinar og kaflar urðu til.

Pétur Gunnarsson hefur einstaklega ljúfa og viðkunnanlega höfundarnærveru í verkum sínum, og Skriftir er þar engin undantekning. Tónninn er langt í frá tregafullur eða melankólískur, lesendur eru ekki staddir í húmi lífsins ljósaskipta heldur í blíðviðri og stillu, síðdegissólin skín og það er gott að vera til. Pétur ræðir þó einnig sársaukafulla hluti en nálgast þá með mikilli nærgætni eins og honum er einum lagið, til dæmis þegar hann lýsir því hvernig hann spyr móður sína spurningar af því taginu sem fólk lifir auðveldlega ævina út án þess að færa í orð ef rétta andartakið kemur ekki. En þarna kom það, og spurningin er um pabba hans, sem var blómlegur maður á yngri árum en þegar hér er komið við sögu hefur hann umbreyst í ofstopamann sem „held[ur] heilu heimili í heljargreipum skapsmuna sinna.“ (155)

Nú hafði ég lesið Freud um hríð og til marks um fjarlægðina sem var komin á foreldrana að í sumardvölinni ‘74 spurði ég mömmu eitt sinn beint út, það var seint um kvöld og allir sofnaðir, en eins og stundum á mærum sólarhringanna opnaðist fyrir umræðu sem vart gæti farið fram í dagsbirtu. Ég spurði hana hvað hefði eiginlega komið fyrir pabba? Og fékk svar sem verður ekki orðað hér en varðar högg sem hitti sálarglerið í æsku uns það hékk uppi á einum saman köngulóarvef brestanna. (162)

Eins og þessi stutta efnisgrein sýnir – ekki síst síðasta setningin – þá er hið nýja verk Péturs völundarsmíð hvað stíl og tungumál varðar, en ég á ennfremur bágt með að sjá hvernig erfiðu viðfangsefni af þessu tagi væri miðlað með meiri reisn og alúð en hér er gert. Öllum málsaðilum er sýnd fyllsta nærgætni, og þó svar móðurinnar sé „ekki orðað hér“ er nóg sagt.

Ýmislegt í texta Péturs kallaði fram hugrenningatengsl (hjá mér í öllu falli) við hin gleðilegu vísindi sem þýski heimspekingurinn Friedrich Nietzsche nefndi svo, Die fröhliche Wissenschaft (1882). Þarna segir Nietzsche fréttirnar af sviplegu andláti Drottins en meiru máli skiptir að um er að ræða fyrsta höfuðrit hans í átt að heimspeki og lífsviðhorfi sem fangað gæti mannlega hamingju og gæfu án vísunar til siðferðisviðmiða og frumspeki, dulbúinnar valdbeitingar og kúgunar. Ef einstaklingurinn getur litið um öxl, brosað og sagt já við lífi sínu, þetta myndi ég allt gera aftur, þá hefur lífi hans verið vel lifað. Göfugra markmið var þýska heimspekingnum ókunnugt um. Það er í þessu samhengi sem kenna má síðustu málsgreinar Skrifta við gleðilega þekkingarfræði:

Sagt er að ævin líði manni fyrir sjónir á andlátsstundinni, en er það ekki full seint? Má ekki búa svo um hnúta að maður geti heimsótt hana að vild og lifað valin augnablik upp aftur? (188)

Eitt af því sem gerir Skriftir jafn heillandi og raun ber vitni er hvernig ákveðinn ljósbjarmi einkennir tungumál og viðhorf söguhöfundar, og mér liggur við að segja að andi lofgjarðar eða jásins sem Nietzsche notaðist við sem mælistiku svífi yfir vötnum. Og tengist þetta allt ástinni, sem er hitt stóra viðfangsefni Péturs í verkinu. Það þarf að vera hægt að hlusta á Bítlana saman en umfram það er fátt að segja, gildismatið og viðmiðin sem stýra makavali verða seint felld í formúlu eða kerfi. Hvernig þessu vandasama ferli vatt fram í lífi Péturs – hvernig hann fann ástina, gæti maður líka sagt – er yndislegur hluti af bókinni. Þótt ástarsambandið við Hrafnhildi sé í vissum skilningi aðeins ein flétta af mörgum, hefst sagan með henni og nærvera hennar í textanum er stöðug. Þegar Pétur kemst einna næst því að tjá það sem fyrir honum liggur í kjarna listsköpunarinnar, þá er hún miðlæg:

Ef lífið væri harmleikur bryti hann gróflega í bága við forskrift Aristótelesar um framvindu innan eins sólarhrings. Ef það væri skólastíll flaskaði það eftirminnilega á upphafi, miðbiki og niðurlagi. Og ef það væri skáldsaga fengi höfundurinn handritið vísast aftur í hausinn. En í endursýn fær allt annan tón, minnið úrvelur augnablik sem standast allar listrænar kröfur. Undarlega fá. Eitt af þeim er áreiðanlega þegar ég kom aftur um vorið siglandi á Rangánni. Það var árla morguns, skipið skreið inn á lognkyrra höfnina, borg drauma minna var nýfarin að rumska og þarna standa þær á kajanum, Hrafnhildur og mamma. (74–75)

Í Skriftum er það samt hvorki tónhæð textans né handagangur í söguframvindunni, hvað þá eitthvað eitt, sem virkar sem skýrt merki um að verið sé að lýsa atburðum svo þrungnum merkingu og mikilvægi að kalla mætti allt sem á eftir kemur eftirköst og afleiðslu. Allt gerist það í stílnum og með höfundarröddinni, og ekkert er sjálfsagt eða auðvelt við það hvernig Pétri tekst að veita kímni og kærleika inn í tungumálið svo að lýsingar á hversdagslegum atburðum bókstaflega ljóma af ástúð, líkt og tilvitnunin hér að ofan er dæmi um. Afrekið felst að hluta til í því sem ekki er gert –veruleikatenging er ekki rofin, flóknir hlutir ekki smættaðir í væmni og klisjur – og svo í því að hafa fundið hjáleið í kringum það gríðarstóra vandamál að ætla að færa í orð það sem engin orð geta náð yfir.[line]

[1] Stórfínan stuttan pistil er að finna á Druslubókavefnum, Þorgerður E. Sigurðardóttir og Þórdís Gísladóttir, „Ævisaga – skáldævisaga – endurminningar – sjálfsævisaga“, Druslubækur og doðrantar, 1. desember 2009.
[2] Sjá í þessu samhengi gagnlega og yfirgripsmikla grein Benedikts Hjartarsonar um menningarátök og pólitík tímabilsins, „Af úrkynjun, brautryðjendum, vanskapnaði, vitum og sjáendum. Um upphaf framúrstefnu á Íslandi“, Ritið, 1/2006.

Um höfundinn
Björn Þór Vilhjálmsson

Björn Þór Vilhjálmsson

Björn Þór Vilhjálmsson er dósent í almennri bókmenntafræði og kvikmyndafræði. Sérsvið hans eru skörun og samræða kvikmynda og bókmennta, tækni og menning, nýmiðlar af ýmsum toga, og íslensk kvikmyndasaga. Sjá nánar

[fblike]

Deila