Andlit norðursins

Ragnar Axelsson
Andlit norðursins. Ísland, Færeyjar, Grænland
Crymogæa, 2016.
Formála ritaði Mary Ellen Mark. Stuttur inngangur eftir Ragnar Axelsson.
Endurútgáfa á verki frá 2004 en nokkuð aukin.
Ritið Andlit norðursins. Ísland, Færeyjar, Grænland er byggt upp af ljósmyndum og stuttum textum. Höfundurinn er Ragnar Axelsson ljósmyndari, einn þekktasti mannlífs- og landslagsljósmyndari hér á landi nú um stundir. Bókin er glæsilegur gripur, afar vel úr garði gerð. Brotið er allstórt og myndirnar njóta sín vel. Meiri hluti myndanna hefur þegar birst í eldri útgáfu en nokkuð af yngri myndum hafa bæst við. Ritið er þrískipt með myndum frá Íslandi, Færeyjum og Grænlandi í þessari röð og svipað hlutfall mynda frá hverju landi.

Ísland, Færeyjar og Grænland eru ólík lönd á margan hátt: umhverfi, stærð, aðstæður og fólk er með sitt hverju mótinu. Engu að síður er margt líkt og höfundur þessara lína fagnar því að þrátt fyrir ólíkindin sé fjallað um þessi lönd sem náskyld og um margt svipuð. Það var og er einmitt líka raunin og um aldir var litið á þessi svæði sem eitt, furðulönd í fjarska norðursins, handan siðmenningarinnar. Það er sá tónn sem Ragnar slær.

andlit-nordur
Ein af myndunum í bókinni, af Valtý í Bröttuhlíð.

Um aldir var litið á þessi svæði sem eitt, furðulönd í fjarska norðursins, handan siðmenningarinnar. Það er sá tónn sem Ragnar slær.
Ragnar fjallar um horfinn heim. Beinlínis. Mörg þeirra sem birtast í verkinu, jafnvel flest, hafa yfirgefið þessa tilveru. Eru horfin á braut. En meðan þau lifðu, á ofanverðri 20. öld, voru þau líka hluti liðinnar tilveru: fólk sem bjó á heimsenda, hafði orðið eftir, gat ekki farið og vildi ekki. Náttúrufólk sem bjó að sínu og því sem Skaparinn skaffaði. Sjómenn og bændur við erfið kjör, einhvern veginn fólk sem var eitt á móti heiminum og endalausum óveðrum. Ragnar fjallar um fólkið sem er að hverfa, hefur varla síma, ef það á bíl er bíllinn forn. Fólk í sveitum og við sjávarsíðuna sem þraukar, tekst á við erfiðleikana, æðrulaust. Lattelepjandi mannskapurinn er víðs fjarri, ungt, menntað fólk í borgum og bæjum á hér ekki heima.

Ragnar fjallar um karlmennskuna. … Þetta er sérstaklega áberandi í íslenska hlutanum. Þar birtist varla kona
Ragnar fjallar um karlmennskuna. Það er karlmennska að þrauka, kvarta ekki, vera sáttur við sitt, fara ekki neitt. Vera. Þetta er sérstaklega áberandi í íslenska hlutanum. Þar birtist varla kona: Karlar sem eru einir, harðir og þrautseigir, eins og hundarnir og hestarnir. Þeir slá enn með orfi og ljá. Takast á við óveður í göngum, leggja allt á sig til að bjarga fé til byggða eins og Fjalla-Bensi. Sinna skepnum, smala og veiða. Náttúrufólkið andstætt siðmenningunni. Hið manngerða er líka á hverfanda hveli. Slitið, að niðurlotum komið, eins og karlarnir, a.m.k. margir hverjir. Elli og einsemd fylgja kulda og vosbúð. Ógnþrungin náttúran í bakgrunni og umhverfis.

Myndin af Færeyjum er heldur mildari en sú af Íslandi; það eru Færeyjar líka. Lítil þorp og bæir, minni barátta og meiri ró, veiðiskapur og búskapur við nauman kost. Einnig ungt fólk, jafnvel ungabörn. Gamall tími en ekki eins niðurníddur og á Íslandi. Ellin samt ráðandi, einir karlar, karlmenni og fáar konur.

Umfjöllunin um Grænland er svipuð og þó ekki. Náttúran er hörð, enn harðari en hjá grönnunum í suðri og austri, ís og snjór. Lífið er veiðiskapur. En fólkið er yngra. Mennirnar eru á besta aldri, hörkumenn. Enn fáar konur en fleiri börn. Við fáum innsýn í þorpin, upplifum ísinn, veiðiskapinn, hundana, bráðina.

Textinn er knappur, við fáum ekki miklar upplýsingar, stundum þó stuttar sögur, karlmannlegar sögur. Textinn virðist stundum misvísandi, sbr. bls. 120 þar sem fyrirsögnin er „Suðurland 1991“ en myndefnið er frá 2011. Fleiri dæmi eru um þetta (bls. 107). Ég áttaði mig ekki á því fyrr en eftir leiðbeiningar að rekja má saman myndir og texta í efnisyfirliti en slík rakning er alls ekki ljós. Eftir slíka hjálp áttar maður sig líka á tölusetningu með textaklausum, að þær vísa til mynda annars staðar í bókinni. Heppilegt hefði verið að ganga frá þessu á aðgengilegri hátt.

Þetta er heimur sem var og er vinsælt sagnaefni, um dirfsku, úthald, karlmennsku.
Andlit norðursins er glæsilegt verk. Myndirnar eru afar áhrifaríkar og túlka vel þau svið og svæði sem ljósmyndarinn hefur heillast af. Þar birtist heimur á hverfanda hveli, eða horfinn með öllu. Þetta er heimur sem var og er vinsælt sagnaefni, um dirfsku, úthald, karlmennsku. Um að sigrast á erfiðleikum, takast á við náttúruna, líkt og landkönnuðir í norðri gerðu fyrrum. En efnið er ekki síður um einmanaleika, hræðslu við nútímann og sorg yfir því að vera skilinn eftir.

Andlit norðursins? Jú, vissulega og þessa mynd af norðrinu – eða hinu ysta norðri – hafa margir sem búa fjarri þessum slóðum. Þessi andlit eru algeng staðalmynd af Íslandi, Grænlandi og Færeyjum framandleikans. Við sem búum á þessum slóðum höfum líka gert hana að eigin sjálfsmynd, eina af mörgum og sumir auglýsendur, t.d. 66°Norður hafa nýtt sér hana með góðum árangri.

En andlit norðursins eru fjölmörg sem betur fer og hafa lengi verið. Sú mynd sem hér birtist er ein þeirra en myndirnar  gætu líka verið allt öðru vísi.
En andlit norðursins eru fjölmörg sem betur fer og hafa lengi verið. Sú mynd sem hér birtist er ein þeirra en myndirnar  gætu líka verið allt öðru vísi. Þær gætu hafa einkennst af æsku, gleði, hreinleika, auðlegð, nútíma, framtíð, frelsi eða þá sinnuleysi, spillingu, heimsku, mengun og helsi. Eða einhverju allt öðru. Sjónarhornin eru  fjölmörg.

„Allir eru með facebook á Grænlandi“, var mér sagt nýlega. Það gat ég staðfest þegar ég þurfti að ná sambandi fyrir stuttu við fólk í nyrstu byggðum landsins. Einfaldast með facebook. Þar eru einmitt andlit norðursins í samtímanum. Þau eru á facebook.

Um höfundinn
Sumarliði R. Ísleifsson

Sumarliði R. Ísleifsson

Sumarliði R. Ísleifsson er sagnfræðingur og lektor í Hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands. Hann hefur m.a. rannsakað ímyndir Íslands og Grænlands frá miðöldum til miðrar 19. aldar.

[fblike]

Deila