Mynd af bókakápu

Um þá sem syrgja

Ása Marin
Og aftur deyr hún
Björt bókaútgáfa, 2016
Ása Marin Hafsteinsdóttir hefur verið iðin við að skrifa en eftir hana liggja kennslubækur, ljóðabækurnar Búmerang og Að jörðu, stök ljóð og sögur og tvær skáldsögur. Hennar fyrsta skáldsaga, Vegur vindsins – buen camino, kom út á síðasta ári. Sú fjallar um konu að nafni Elísa sem stendur á krossgötum í lífi sínu og byggir bókin að hluta á reynslu Ásu Marinar sjálfrar af því að ganga Jakobsveginn. Nú er nýútkomin komin Og aftur deyr hún, raunsæ skáldsaga um ástvini ungrar konu, Öldu, sem fellur frá langt um aldur fram.

Alda virðist hafa lifað hamingjusögmu lífi. Hún var ung og falleg, hæfileikarík og metnaðargjörn og var í góðri vinnu þar sem hún naut virðingar. Foreldrar hennar sýndu henni ást og stuðning og af vinum átti hún nóg. Reyndar átti hún hvorki eiginmann né barn en það var enn tími til þess. Samt hafði hún gert þetta. Samt hafði hún svipt sig lífi. Móðir hennar, Þórkatla, á eftir með að trúa því:

Alda var alltaf svo hress og ánægð með tilveruna. Þremur kvöldum fyrir dánardaginn hafði hún komið í mat til þeirra hjóna. Þá kjaftaði á henni hver tuska og þau Hjalti höfðu rætt það eftir að hún fór að Alda hlyti að vera ástfangin, það geislaði svo af henni. Skýjaborgir um álitlegan tengdason, giftingu og barnabörn hrundu og í staðinn fékk hún útför. Hvers konar guð svíkur trúaða konu á þann hátt? (11)

Þórkatla tekst á við sorgina með afneitun og því að fara í jarðarfarir annars ungs fólks, fylgjast með því hvernig aðrir foreldrar takast á við að missa barnið sitt. Faðir Öldu vill ekki dvelja við fortíðina heldur einfaldlega halda áfram og hvæsir „Svona var þetta og svona gerist“ (25).

Á heildina litið er Og aftur deyr hún skáldsaga um þá sem syrgja, þá sem verða eftir þegar aðalpersónan er farin yfir móðuna miklu.
Foreldrar Öldu eru þó ekki það áhugaverðasta eða það sem fær mest rými í sögunni, fremur er það vinkona hennar, Rúna, sem heldur athygli lesenda og svo Geir, ástmaður Öldu, sem er giftur maður í afspyrnu óhamingjusömu hjónabandi. Rúna er, eins og Alda var, ung og einhleyp en virðist ekki hafa notið lífsins með sama hætti og Alda og í raun lifað að nokkru leyti í gegnum vinkonu sína. Rúna laumast inn á heimili Öldu til að minnast vinkonu sinnar og finnur þar fyrir tilviljun dagbækur hennar sem ná mörg ár aftur í tímann. Hún tekur bækurnar með sér heim og les þær spjaldanna á milli. Rúnu til mikilla vonbrigða er varla minnst á hana sjálfa í dagbókunum og hún kemst að því að vinátta þeirra virðist ekki hafa verið Öldu jafn mikilvæg eða hugleikin og henni sjálfri. Við lestur dagbókanna kemst hún þó að því hvaða hug Alda bar til hennar og uppgötvar svolítið mikilvægt varðandi sjálfa sig. Dauði Öldu markar þannig bæði endalok og visst upphaf hvað Rúnu varðar.

Geir hafði verið mikill spaði á yngri árum sem óð í kvenfólki en einhverra hluta vegna endaði hann með Lilju, myndarlegri og fínni konu, en hann hefur aldrei raunverulega elskað hana. Fyrst lék hann hinn elskandi eiginmann en smátt og smátt varð leikurinn þreyttur. Að lokum vildi hann fá sannfæringu á því að hann væri enn sami kvennaljómi og á árum áður og skrapp niður í bæ. Nokkru síðar hitti hann svo Öldu sem ekki aðeins veitti honum athygli heldur féll fyrir honum og hann fyrir henni.

Lilja hefur aldrei hitt Öldu og veit varla af tilvist hennar. Engu að síður hefur Alda haft mikil áhrif á líf hennar, bæði lífs og liðin. Öfugt við eiginmann sinn elskaði Lilja og dáði Geir þegar þau fyrst giftust, var stolt af myndarlega eiginmanni sínum og því lífi sem þau byggðu upp saman. Smám saman dofnaði þó glansmyndin og áhugi Geirs fjaraði út. Í fyrstu reyndi Lilja að snúa þróuninni við, gera allt til að halda í eiginmanninn en hún gafst smám saman upp. Þegar saga hefst er Lilja dauðleið á sýndarhjónabandinu og vill losna úr því; búin að gefa upp alla von um hamingjuríka ævi með eiginmanninum og sér skilnað í hillingum.

Og aftur deyr hún er ekki drifin áfram af atburðum heldur persónum og tilfinningum þeirra.
Og aftur deyr hún er ekki drifin áfram af atburðum heldur persónum og tilfinningum þeirra. Alda er miðjan sem allt snýst um en engu að síður er hún fjarlægust lesendum enda kynnast þeir henni aldrei á lífi, fá að aðeins að heyra upphafnar lýsingar ástvina hennar á henni og lesa dagbókarbrot frá hennar yngri árum. Vegna þess hversu fjarlæg hún er náði ég aldrei viðlíka tengingu við hana og hinar persónurnar, einkum þó Geir, Lilju og son þeirra, unglingspiltinn Ölver. Rúna nær ekki sömu tökum á lesendunum enda fær hún minna rými í sögunni en fjölskyldan, enda ein á móti þremur.

Tilfinningalíf fjölskyldunnar er ansi flókið. Lilja hefur sveiflast öfganna á milli og er reið, bitur og gjörsamlega búin að fá nóg. Hún er meira að segja reiðubúin að gefa upp forræðið á Ölveri til að geta skapað sér nýtt og spennandi líf. Geir nýtur bæði vorkunnar og andúðar lesenda sem skilja sorg hans og finna til með honum en ásaka hann þó um leið fyrir að hafa gengið að eiga konu sem hann elskaði ekki og verið í hjónabandi af hálfum huga, ásamt því að halda framhjá Lilju. Eftir því sem líður á söguna verður sök Geirs meiri en Alda og Lilja hljóta sífellt meiri vorkunnar lesenda. Sonurinn Ölver virðist líka saklaust fórnarlamb í bitrum deildum foreldra sinna. Hann syrgir þá tíð þegar foreldrar hans voru hamingjusamir og minnist þess með söknuði þegar þau fóru saman út að borða – nú er honum einfaldlega réttur peningur og hann beðinn að redda sér sjálfur.

Persónurnar í sögunni mynda skemmtilegar andstæður en eru um leið heldur staðlaðar og viðbrögð þeirra og tilsvör stundum óþarflega ýkt.
Persónurnar í sögunni mynda skemmtilegar andstæður en eru um leið heldur staðlaðar og viðbrögð þeirra og tilsvör stundum óþarflega ýkt. Sú persóna sem hefur þó hvað mesta breidd, og er um leið áhugaverðust, er hinn ungi Ölver, sem reynist langt í frá allur þar sem hann er séður. Textinn er vel skrifaður og Ásu Marin lætur bæði vel að lýsa aðstæðum og skrifa samtöl. Textinn er oft skemmtilega ljóðrænn en stundum eru lýsingar ögn tilgerðarlegar, svo sem þegar því er lýst hvernig Geir líður þegar Alda er dáin. Á heildina litið er Og aftur deyr hún skáldsaga um þá sem syrgja, þá sem verða eftir þegar aðalpersónan er farin yfir móðuna miklu. Þetta er áhugaverð skáldsaga um hversdagslega atburði sem tengjast venjulegu fólki og í lokin er að finna óvænta flækju sem hristir upp í lesandanum.

Um höfundinn
Helga Birgisdóttir

Helga Birgisdóttir

Helga Birgisdóttir er doktorsnemi í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands en doktorsverkefni hennar fjallar um barnabókmenntir. Helga hefur skrifað greinar, haldið fyrirlestra og kennt námskeið á sviði nútímabókmennta, einkum þó á sviði barnabókmennta og afþreyingarbókmennta.

[fblike]

Deila