Portrett af Þúfugörðum

Hildur Bjarnadóttir
Vistkerfi lita
Kjarvalsstaðir
03.09.2016 – 08.01.2017
Sýningarstjóri:
Ólöf K. Sigurðardóttir
Þegar litið er yfir vestursal Kjarvalsstaða mæta áhorfendum hljóðlát og föllituð verk Hildar Bjarnadóttur  á sýningunni Vistkerfi lita, þar sem stórir jurtalitaðir silkidúkar hanga niður úr loftinu og á veggjunum má sjá smágerð ofin málverk gægjast á milli dúkanna. Sýningin er framhald af rannsóknarvinnu listamannsins sem var við doktorsnám í Listaakademíunni í Björgvin og Miðstöð listrannsókna í Noregi frá 2012-2015. Afraksturinn var settur upp á sýningunni Litir tengsla í Bergen Kjøtt í Noregi á síðasta ári en auk þess gefur að líta ný verk unnin á þessu ári.[i]

Hið margslungna samband (lista)manns og náttúru kemur upp í hugann þegar verkin er gaumgæfð. Listamaðurinn sækir bæði hugmyndafræðilegan og efnislegan efnivið fyrir verk sín í landskika í Þúfugörðum í Flóa, sem hún eignaðist fyrir fáeinum árum. Hildur hefur helgað sér land þar sem vaxa fjölmargar jurtir, svo sem engjarós, blóðberg, maríustakkur, lokasjóður, krossmaðra, mjaðjurt, mýrarsóley o.fl., sem hún hefur hlúð að og girt af svo það megi vaxa og dafna án ágangs búfjár. Líkt og bóndinn yrkir land sitt til framleiðslu, lítur Hildur til með plöntunum, sýður úr þeim jurtalit og litar bæði silkidúka og ullarþráð til listsköpunar. Í ofnu málverkin notar Hildur einnig akrýllitaðan hörþráð sem hún vefur með ullarþræðinum og innsiglar þannig tvö kerfi; hið manngerða litakerfi sem tengja má iðnaði og hinn náttúrulega lit jurtaríkisins.

klófífa / common cottongrass, 2015 og gulmaðra / yellow bedstraw, 2016. Jurtalitað silki
klófífa / common cottongrass, 2015 og gulmaðra / yellow bedstraw, 2016. Jurtalitað silki. Ljósmynd: Aldís Arnardóttir.

Stærð verkanna á sér efnislega ástæðu, ef svo má segja, stærri verkin lituð úr jurtum sem gnótt er af, en þau minni úr fágætari tegundum sem vísar til vistkerfis staðarins eins og heiti sýningarinnar gefur til kynna
Verkin hafa keimlíkt yfirbragð en þegar nánar er aðgætt skera þau sig hvert frá öðru. Silkiverkin eru misstór, hvert og eitt  litað með einum jurtalit og ber nafn hans. Stærð verkanna á sér efnislega ástæðu, ef svo má segja, stærri verkin lituð úr jurtum sem gnótt er af, en þau minni úr fágætari tegundum sem vísar til vistkerfis staðarins eins og heiti sýningarinnar gefur til kynna. Sum verkin eru nánast gólfsíð eins og gulmaðra, (15) sem hefur gulbrúnt skýjað yfirbragð og aflangt form sem myndast úr tveimur stórum dúkum og með mjóum renningum til annarrar hliðar sem mynda komposition í anda naumhyggju. Önnur verk hanga hátt frá gólfi sýningarsalarins og áhorfandinn getur gengið undir þau, t.d. ljósdrappaða verkið klófífa (40). Áhorfandinn getur leikið sér með sjónarhorn og afstöðu verkanna í sýningarrýminu sem á stundum kallar fram og ýkir ólíka náttúruliti með áberandi hætti. Dökkyrjótt yfirbragð lokasjóðs (24) kallast til að mynda fallega á við  sterkgult verk, mjaðjurt, frá árinu 2016 (25).

Lokasjóður / yellow rattle, 2016 og mjaðjurt / meadowsweet, 2016. Jurtalitað silki.
Lokasjóður / yellow rattle, 2016 og mjaðjurt / meadowsweet, 2016. Jurtalitað silki. Ljósmynd: Aldís Arnardóttir.

Upphengi sýningarinnar vinnur með kröftugum og afgerandi arkitektúr í lofti Kjarvalsstaða. Yfirbragðið er létt og svífandi, merkingar eru látlausar, ýmist á veggjum eða gólfi og taka enga athygli frá verkunum á sýningunni. Silkiverkin mynda líka innsetningu í sýningarrýminu sem tekur utan um áhorfandann, skermar hann stundum af og vekur upp hugrenningatengsl um náttúruna, hann er um stund í einrúmi milli þúfna undir berum himni.

Til vinstri: það heyrist í hafinu þegar vindurinn blæs frá suðri / you can hear the ocean when the wind is blowing from the south, 2015. Túnsúra, fjalldalafífill, hvönn, krossmaðra, lokasjóður, baldursbrá, brennisóley, mjaðjurt, krossmaðra. Ofið, ull, hör, jurtalitur, akrýlmálning. Miðjumynd: þriðja rýmið / third space, 2016 Vallarsveifgras, blóðberg, fjalldalafífill, mjaðjurt, hvönn, blávingull. Ofið, ull, hör, jurtalitur, akrýlmálning. Til hægri: samkoma ólíkra heima / meeting of different worlds, 2016 Túnsúra, blágresi, lokasjóður, húsapuntur, baldursbrá, mjaðjurt, grasvíðir, hreindýrakrókar. Ofið, ull, hör, jurtalitur, akrýlmálning.
Til vinstri: það heyrist í hafinu þegar vindurinn blæs frá suðri / you can hear the ocean when the wind is blowing from the south, 2015. Túnsúra, fjalldalafífill, hvönn, krossmaðra, lokasjóður, baldursbrá, brennisóley, mjaðjurt, krossmaðra. Ofið, ull, hör, jurtalitur, akrýlmálning. Miðjumynd: þriðja rýmið / third space, 2016 Vallarsveifgras, blóðberg, fjalldalafífill, mjaðjurt, hvönn, blávingull. Ofið, ull, hör, jurtalitur, akrýlmálning. Til hægri: samkoma ólíkra heima / meeting of different worlds, 2016 Túnsúra, blágresi, lokasjóður, húsapuntur, baldursbrá, mjaðjurt, grasvíðir, hreindýrakrókar. Ofið, ull, hör, jurtalitur, akrýlmálning. Ljósmyndir: Aldís Arnardóttir.

Lífshættir nútímamannsins ógna lífríki náttúrunnar hraðar en margir eru tilbúnir að horfast í augu við. Listamaðurinn vinnur efnivið í verkin á sýningunni í hægu ferli og róar þann hraða sem einkennir nútímasamfélag.
Ofnu málverkin hafa oft og tíðum ljóðræna titla sem vísa í veðurfar og mót ólíkra heima, t.d. þokudumbungur  (2) og það heyrist í hafinu þegar vindurinn blæs frá suðri (15). Verkið samkoma ólíkra heima (11) er ofið með mismunandi grænum tónum sem liggja lóðrétt í verkinu sem brotnir er upp með rauðum, gulum og ljóslituðum þráðum. Titillinn vísar líka til víxlverkunar náttúrunnar og hins manngerða og við verðum vitni að nálgun listamannsins og samtali við málverkahefðina. Eða eins og segir í sýningarskrá: „(v)erkin verða hugleiðingar um eðli málverksins í gegnum efnivið þess, vinnuaðferðir og uppruna litanna.“[ii] Titill verksins þriðja rýmið (13) tengist heimspekilegum hugsunum fræðimanna um rými og stað. Þriðja rýmið er lifandi rými þar sem sameinast raunverulegt, kortlagt rými og ímyndað rými.[iii] Samruni Þúfugarða sem ákveðins staðar á landakorti og jarðarinnar Þúfugarða sem gefur listamanninum rými til listsköpunar birtist í listaverkinu sem skynjun eða fagurfræðilega upplifun af stað.

Á sýningunni heldur Hildur áfram rannsóknarvinnu sinni á hinu tvíbenta sambandi manns og náttúru en hún hefur unnið með tengsl ákveðins staðar, umhverfis og náttúru á síðastliðnum árum, t.d. á sýningunni Samræmi í Hafnarborg árið 2011. Lífshættir nútímamannsins ógna lífríki náttúrunnar hraðar en margir eru tilbúnir að horfast í augu við. Listamaðurinn vinnur efnivið í verkin á sýningunni í hægu ferli og róar þann hraða sem einkennir nútímasamfélag. Tengsl hins manngerða og náttúrulega renna saman í verkum Hildar, þau bera með sér efni landsins og um leið færir hún áhorfandanum innileg landslagsverk af ákveðnum stað – portrett af Þúfugörðum.

Ljósmynd ofan við grein: Yfirlitsmynd frá sýningu. Aldís Arnardóttir.[line]
[i] Ólöf K. Sigurðardóttir. „Formáli“, Colors of belonging / Litir tengsla / Hildur Bjarnadóttir. Norwegian artistic research fellowship Programme, Bergen academy of art and design, Listasafn Reykjavíkur, 2016, 13.
[ii] Sama heimild.
[iii] Hér eru hugmyndir Soja um rými reifaðar með nokkurri einföldun. Sjá nánar í: Soja, Edward W. Thirdspace, Journeys to Los Angeles and Other Real-and Imagined Places. Malden: Black Publishing Press, 1996.

Um höfundinn
Aldís Arnardóttir

Aldís Arnardóttir

Aldís er sjálfstætt starfandi listfræðingur og sýningarstjóri. Hún útskrifaðist með MA gráðu í listfræði við Háskóla Íslands árið 2014 og hafði áður lokið þaðan BA prófi í listfræði með menningarfræði sem aukagrein. Hún hefur sinnt rannsóknarverkefnum tengdum myndlist og kennslu og hlaut nýverið styrk frá starfslaunasjóði sjálfstætt starfandi fræðimanna til rannsóknar á landlist á Íslandi.

[fblike]

Deila