Þorsteinn frá Hamri
Núna
Mál og menning, 2016
Þorsteinn frá Hamri er án vafa eitt ástsælasta skáld samtímans en eftir hann liggja tugir ljóðabóka allt frá árinu 1958. Út er komin ný ljóðabók eftir Þorstein sem ber hinn stuttta og hnitmiðaða titil Núna. Titillinn kallast á við kápumyndina sem vísar einnig til tímans en á allt annan hátt. Titillinn gefur til kynna að lesandinn sé hér og nú en kápumyndin sýnir aftur á móti þverskurð af gömlum og þurrum trjábol. Árhringirnir vekja upp tilfinningu um háan aldur og langa sögu. Hvernig er annars hægt að skilgreina núið öðruvísi en í samhengi við fortíðina? Núna er um leið fortíðin.

Ljóðin eru flest stutt
og ljúf aflestrar; að opna bókina er eins og að fá sér konfektmola sem maður
veit að er góður
Ljóðabókin er látlaus og falleg þó að kápan sé ef til vill aðeins áleitnari en innihaldið. Ljóðin eru flest stutt og ljúf aflestrar; að opna bókina er eins og að fá sér konfektmola sem maður veit að er góður, kemur ekki óþægilega á óvart og skilur ekki eftir biturt eftirbragð. Bókin skiptist í tvo hluta en síðari hlutinn er raunar aðeins fjögur ljóð sem tengjast. Í fyrri hlutanum eru ljóð af ýmsu tagi og eins og góðri ljóðabók sæmir er hægt að lesa hana frá upphafi til enda eða einfaldlega opna hana á blaðsíðu af handahófi og lesa það sem verður fyrir augum hverju sinni.

Í bókinni birtast kunnugleg einkenni Þorsteins, náttúran er eins og rauður þráður en birtingarmynd hennar fjölskrúðug. Á bls. 12 og 13 standa til að mynda ljóðin Skýin lágu svo lágt og Sólsetur en þau draga upp ólíkar myndir sem ráðast meðal annars af veðurfari. Hvort sem það er tilviljun eða ekki birtast tré og laufblauð víða og kallast um leið á við kápumyndina. Í fæstum ljóðanna er náttúran aðalpersóna heldur fremur maðurinn í náttúrunni og hvernig náttúran hefur áhrif á ólíklegustu hugsanir og aðstæður. Þetta einkenni birtist á fallegan og myndrænan hátt í ljóðinu Gestaboð (bls. 26), einu af eftirlætis ljóðum mínum í bókinni:

Stundum er sem þau orð
sem huganum einkum
þóknast að þiggja til skrafs

berist mér af fjalli,
útskögum,
eyjum …

Er nokkuð sem gæti
nært til þrifa slík orð,

sérlunduð orð,
móleit, veðruð og myrk
eða ljóðstafaglöð af litlu –

í þessu flaumósa, falbjóðandi,
hástemmda og háskalega samkvæmi?

Ljóðin eru rík af vísunum í aðrar bókmenntir en einnig þjóðtrú og menningararf. Sum ljóðin virðast beinlínis ort með ákveðin skáld í huga sem nefnd eru undir titli eins og Sigfús Daðason, Sigurður Breiðfjörð og Snorri Sturluson en af upptalningunni má sjá hve langt höfundur ferðast í tíma og rúmi. Í ljóðinu Arfleifð teflir hann saman á skemmtilegan hátt þremur ólíkum bókmennta- og þjóðsagnapersónum, Gretti sterka, djáknanum á Myrká og Dísu í dalakofanum. Þessar þrjár persónur kalla fram í hugann óvænt ferðalag um íslenska menningarsögu.

Í öðrum hluta bókarinnar, Manstu, er aðeins annars konar stemning en í fyrri hluta hennar. Ljóðin fjögur eru merkt með rómverskum númerum sem gefur til kynna að þau eigi saman. Í fyrsta ljóðinu kemur nokkuð glettin lýsing á manni sem virðist sjálfur Óðinn (bls. 51):

fáskiptinn, fámáll,
en segi hann annars eitthvað

álíta margir
að traust sé sú tíðindasögn;

örfá orð
hef ég heyrt hann mæla!

Hann sagði þau, undan síðhettinum,
við mig …

Enn er það hugmyndin um tímann sem leitar á mann. Hér, líkt og víðar í bókinni, blandast núið fortíðinni með þeim hætti að nýjar myndir birtast á gömlum grunni.
Í næsta ljóði mælir hann í beinni ræðu eins konar spádóm og hugurinn reikar ósjálfrátt aldir aftur í tímann, til spekinnar í eddukvæðum þó að ljóð Þorsteins séu af allt öðrum toga. Enn er það hugmyndin um tímann sem leitar á mann. Hér, líkt og víðar í bókinni, blandast núið fortíðinni með þeim hætti að nýjar myndir birtast á gömlum grunni. Þetta er ákveðinn galdur sem Þorsteinn býr yfir en galdurinn verður ef til vill ekki ljós við fyrstu sýn. Það er einkennandi fyrir textann að hann má lesa endurtekið og ný mynd getur kviknað við hvern lestur. Þetta er bók sem er hægt að lesa, leggja frá sér, láta tíma líða og næst þegar hún er tekin fram lýkst upp annar heimur.

Það gildir um lestur ljóða eins og annan lestur að persóna lesandans hefur áhrif á það hvernig hann skilur textann. En þetta er þó líklega mikilvægari þáttur í lestri ljóða en til dæmis skáldsagna vegna þess hve óræð þau geta verið. Góðar ljóðabækur eru þannig tímalausar vegna þess að lesandinn er aldrei eins. Mig grunar að þetta muni eiga við um ljóð Þorsteins frá Hamri um ókomna tíð. Í þeim leynist miklu stærri heimur en virðist ef til vill í fyrstu sýn og þessi bók er enn ein rósin í hnappagat skáldsins.

Um höfundinn
Þórdís Edda Jóhannesdóttir

Þórdís Edda Jóhannesdóttir

Þórdís Edda Jóhannesdóttir er doktor í íslenskum bókmenntum og stundakennari við Íslensku‐ og menningardeild Háskóla Íslands. Rannsóknarsvið hennar er íslenskar miðaldabókmenntir. Sjá nánar

[fblike]

Deila