Varnarleysi og grimmd

Jon Fosse
Andvaka
Þýðandi: Hjalti Rögnvaldsson
Dimma, 2016
Við lestur bókar leita á mann ýmsar hugmyndir og bækur sem maður hefur lesið áður blanda sér inn í lestrarupplifunina og móta hana. Þannig dúkkuðu bæði Jólaguðspjallið og Sultur eftir Knut Hamsun upp við lestur á bókinni Andvaka eftir Jon Fosse. Á sama tíma er Andvaka um margt ólík þessum bókum og kannski nóg að Hamsun er Norðmaður eins og Fosse og skrifaði um mann sem ráfaði um norska borg til að sú bók verði ágeng. Aðrar bækur geta haft svipuð áhrif á aðra lesendur sem hafa allt aðra lestrarreynslu að baki.

Í fyrra kom út bókin Morgunn og kvöld eftir Jon Fosse í þýðingu Hjalta Rögnvaldssonar sem var fyrsta íslenska þýðingin á skáldverki eftir Fosse. Aðdáendur Fosse þurftu ekki að bíða lengi eftir næstu bók en Dimma hefur nú gefið út nóvelluna Andvaka sem er fyrsti hluti af þríleik þeim sem Fosse hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir árið 2015 en bókin kom fyrst út árið 2007. Hinir hlutar þríleiksins heita Draumar Ólafs og Kvöldsyfja og ætla má að þeir hlutar komi fljótlega út.

Umkomuleysi þeirra og varnarleysi er algjört og alls staðar mæta þau skilningsleysi og hörku.

Andvaka fjallar um Ása og Öldu og leit þeirra að húsaskjóli í Björgvin. Alda er ólétt og fæðingin innan seilingar. Þau koma alls staðar að lokuðum dyrum og hvergi er pláss fyrir þau, rétt eins og í Jólaguðspjallinu forðum daga. En í þessari sögu eru hvorki fjárhús né jata og enga hjálp að fá. Inn í textann fléttast forsaga Ása og Öldu, hvernig þau kynntust og felldu hugi saman, hvernig hún varð ófrísk aðeins sextán ára, hvernig hann varð munaðarlaus og heimilislaus og þau rekin á dyr af móður Öldu. Umkomuleysi þeirra og varnarleysi er algjört og alls staðar mæta þau skilningsleysi og hörku. Það er komið haust og nóttin leggst yfir, það rignir og þau berjast við þreytu og syfju. Smám saman tekur örvæntingin yfir og þau taka til sinna ráða. Í seinni hluta sögunnar fæðist barnið og sagan endar í óvissu um framtíð þeirra. Lesandinn fær lítið að kynnast öðrum persónum sögunnar fyrir utan Sigvalda, pabba Ása sem vann að hluta til sem fiðluleikari. Sigvaldi var vígður inn í hlutverk fiðluleikarans af pabba sínum og gerir slíkt hið sama við son sinn, Ása. Tónlistin virðist vera það eina í veröldinni sem lyftir Öldu og Ása upp og veitir þeim gleði. Þegar Ási spilar á fiðluna heyrir Alda söng föður síns sem hvarf þegar hún var þriggja ára. Alda heyrir líka fortíð sína og framtíð í tónlistinni. Um miðja bók spjalla þeir feðgar um tónlistina og hvernig hún sefar sorgir. Sigvaldi segir fiðluleikinn ættarfylgju:

[…] en væri maður fiðlari, ja þá væri maður fiðlari, væri það þannig á annað borð, ja þá væri ekkert við því að gera, allajafna, það væri nú sín skoðun, sagði Sigvaldi pabbi, og yrði hann spurður hvað það kæmi málinu við, þá svaraði hann að það snerist yfirleitt um einhverja sorg, sorg yfir einhverju, eða bara sorg, og í fiðluspilinu gæti sorgin sefast og tekið flugið, og flugið gæti breyst í gleði og hamingju […] (bls. 38-39)

Í framhaldi kemur fram í spjalli þeirra hvernig fiðluleikarinn þarf alltaf að gefa af sjálfum sér, vera til fyrir aðra og gera aðra heila en fær aldrei að vera heill sjálfur.

Ási og Alda eru ekki gift og barnið því lausaleiksbarn og það er nóg til að samferðafólk þeirra mætir þeim af hörku og fyrirlitningu. Það eina sem Ási og Alda eiga er tónlistin, hvort annað og barnið. Umkomuleysi þeirra verður til þess að þau þurfa að stela og Ási neyðist til að beita ofbeldi.

Andvaka sker sig í ætt við aðrar öreigabókmenntir og gæti allt eins verið 100 ára bók.
Helstu þættir söguþráðarins eru kunnuglegir og minna á aðrar þekktar bækur sem einkennast af raunsæi. Í bókum Einars Kvarans, Gests Pálssonar og fleiri er lýst svipuðum aðstæðum á tímum raunsæisstefnunnar í lok 19. aldar þar sem samfélagið setur gjarnan elskendum miklar skorður. Bækurnar Ditta mannsbarn og Pelle sigurvegari komu frá hinum danska Martin Andersen Nexö og hinn norski Knut Hamsun skrifaði Sult árið 1890 þar sem aðalpersónan ráfar svöng og allslaus um stræti Kristíaníu (Oslóar). Í íslenskri bókmenntasögu er talað um að félagslegt raunsæi hafi blómstrað á árunum 1930 til 1950 með til dæmis bókum eftir Indriða G. Þorsteinsson og Halldór Laxness. Andvaka sver sig í ætt við aðrar öreigabókmenntir og gæti allt eins verið 100 ára bók. Þannig virðist sagan sprottin úr arfi raunsæis og félagslegs raunsæis en ber líka keim af naívisma og talmálstexta sem einkennist m.a. af endurtekningum. Á sama tíma ómar jólaguðspjallið í huga lesandans og ljær verkinu trúarlega skírskotun.

Söguþráðurinn er nokkuð einfaldur og í raun ekki það sem ber söguna uppi heldur er það stíllinn sem gefur henni sérstakt yfirbragð. Líkt og í bókinni Morgunn og kvöld er textinn einfaldur, hlaðinn endurtekningum og persónurnar dregnar einföldum en sterkum litum. Punktar eru sjaldgæfir og þannig flæðir textinn áfram óhindrað. Textinn fer fram og aftur í tíma, fortíðin og forsaga persónanna sprettur fram og fléttast átakalaust saman við nútíðina. Það er nóg að annað þeirra setjist niður og loki augunum og þá fáum við að sjá í huga þeirra þegar þau rifja upp liðinn atburð.

Andvaka er nánast eins og tónverk þar sem endurtekningar móta taktinn og væri gaman að fá að heyra verkið lesið upp í heild sinni.

Ási og Alda virka einföld og barnaleg en undir kraumar bæði varnarleysi og grimmd og enginn virðist komast undan grimmdinni sem á sér margar birtingarmyndir. Þau eru hvorki marglaga persónur né flóknar og hin einfalda og barnslega orðnotkun í sögunni málar þau fáum en sterkur dráttum. Þau eru blátt áfram og laus við undirferli, þau eru einfaldlega það sem þau eru. Hin barnslega einlægni þeirra gerir þau bæði óslípuð og berskjölduð og eykur á samúð, jafnvel meðaumkun, lesandans. Orðfæri sögumanns minnir á barn, ekki síst hinar miklu endurtekningar. Textinn er laus við allt flúr, tungumálið er berstrípað og eflaust er sú aðferð valin til að auka á nekt persónanna og þar með áhrifamátt söguefnisins. Það er sterk andstæða í ástinni sem þau bera til hvors annars og því viðmóti sem þau mæta frá öðrum. Þau eru þreytt en þurfa að vaka og vera á vakt og þetta ástand skapar mikla spennu.

Sumir segja að sá sem skrifar leikrit skrifi fyrir eyrað. Ekki verður litið hjá því að verkið Andvaka er nánast eins og tónverk þar sem endurtekningar móta taktinn og væri gaman að fá að heyra verkið lesið upp í heild sinni. Jon Fosse hefur skrifað mörg leikrit og hér má sjá hvernig þessi tvö form, leikritið og nóvella, renna saman í eina heild.

Það er gott að vita að vænta megi framhalds af sögunni og þá verður spennandi að vita hvort við fáum að sjá fleiri hliðar á Öldu og Ása og einfaldlega hvað verður um þau. Ég er ekki viss um að þessi stutta nóvella gæti staðið ein og sér og eflaust hægt að líta á hana sem fyrsta kaflann í stærra tónverki. Við bíðum eftir næstu köflum og þá fyrst höfum við heildarmyndina og vitum meira.

Um höfundinn
Sigurlín Bjarney Gísladóttir

Sigurlín Bjarney Gísladóttir

Sigurlín Bjarney Gísladóttir er ljóðskáld og smásagnahöfundur. Hún er einnig doktorsnemi í íslenskum bókmenntum og stundakennari í ritfærni við Íslensku­ og menningardeild Háskóla Íslands.

[fblike]

Deila