Breytingar á mannanafnalöggjöf

Innanríkisráðuneytið hefur samið drög að nýju frumvarpi „um breytingar á lögum um þjóðskrá og almannaskráningu“. Samkvæmt þessu frumvarpi myndu lög um mannanöfn falla brott í heild sinni, en inn í nýju lögin kæmu nokkur ákvæði um mannanöfn og skráningu þeirra.
 Ráðuneytið hefur óskað eftir samráði við almenning um þessar breytingar. Með athugasemdunum sem hér fara á eftir er ég að bregðast við þeirri ósk.

Um ákvæði gildandi laga sem falla brott

Í athugasemdum við frumvarpsdrögin eru talin upp í níu liðum þau ákvæði núgildandi manna­nafnalaga sem falla brott. Þessir liðir eru hér teknir upp skáletraðir og gerðar athugasemdir við hvern fyrir sig.

a. Ákvæði um hámarksfjölda nafna.

Engin ástæða, nema e.t.v. praktísk, er til að takmarka hámarksfjölda nafna.

b. Ákvæði um að eiginnafn skuli geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli, megi ekki brjóta í bága við íslenskt málkerfi og skuli ritað í samræmi við al­menn­­ar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.

Framangreind ákvæði eru sett til verndar íslenskri tungu og eru þannig út af fyrir sig góðra gjalda verð. En þau eru öll vandmeðfarin og háð túlkun. Í sjálfu sér geta nánast öll nöfn tekið eignarfallsendingu; það eru helst kvenmannsnöfn sem enda á -e (s.s. Maxine) sem er erfitt að setja eignar­fallsendingu á. Þótt örfáum öðrum nöfnum hafi verið hafnað á þeirri forsendu að þau taki ekki eignarfallsendingu tel ég það hæpna túlkun. Mannanafnanefnd hafnaði t.d. karl­mannsnafninu Ofur m.a. á þessari forsendu, sem og þeirri að það virtist „annaðhvort leitt af atviks­orðinu eða forliðnum ofur“. En engin nauðsyn er að skilja nafnið á þann hátt – hvorug­kyns­nafn­orðið ofur er til, í eignarfalli ofurs.

Við beitingu hefðarákvæðisins hefur mannanafnanefnd komið sér upp ákveðnum vinnulagsreglum. Það er vitaskuld lofsvert og dregur úr hættu á því að sambærileg mál séu afgreidd á mismunandi hátt. En viðmiðin í þessum reglum eru umdeilanleg og eiga sér ekki beina stoð í lögum, þótt þau séu vissulega nefnd í athugasemdum með frumvarpi til gildandi laga.

En viðmiðin í þessum reglum eru umdeilanleg og eiga sér ekki beina stoð í lögum.
Ekki er það síður túlkunaratriði hvort nöfn brjóti í bága við íslenskt málkerfi. Þegar þessu ákvæði hefur verið beitt er oft vísað til þess að í nöfnum komi fyrir hljóð eða hljóðasambönd sem ekki eru í íslensku, en einnig til orðmyndunarfræðilegra atriða. Þannig hefur þríliðuðum nöfnum verið hafnað á grundvelli þessa ákvæðis (t.d. Jónheiðar, Aðalvíkingur). Þar er vísað í um­fjöll­un í athugasemdum með frumvarpi til gildandi laga, en varla er þó hægt að fullyrða að öll slík nöfn brjóti í bága við íslenskt málkerfi (sbr. t.d. Gunnþórunn). Á grundvelli þessa ákvæðis hefur einnig stundum verið hafnað karlmanns- og kvenmannsnöfnum án nefnifallsendingar (t.d. Víking, Svanhild) vegna þess að þau hafa verið talin breyting eða afbökun á nöfnum sem fyrir eru (Víkingur, Svanhildur), en einnig eru dæmi um að slík nöfn hafi verið samþykkt (t.d. Auðberg, Rögnvald) þótt sömu nöfn með nefnifallsendingu séu á mannanafnaskrá (Auðbergur, Rögnvaldur) og er ekki ljóst hver ástæðan er fyrir þessu ósamræmi. Þar að auki hefur mannanafnanefnd stundum hafnað nöfnum á merkingarlegum forsendum með vísan til þessa ákvæðis (t.d. Aðalvíkingur, Reyk­dal; bæði nöfnin voru reyndar samþykkt síðar). Þar tel ég að nefndin fari út á mjög hálan ís.

Í fljótu bragði virðist ritháttur vera algengasta orsök þess að nöfnum er hafnað. Þar er um þrennt að ræða. Sumum nöfnum er hafnað vegna þess að í þeim koma fyrir bókstafir sem ekki teljast til íslenska stafrófsins (einkum c, w og z, sbr. Nicoletta, Werner, Líza). Þetta er í sjálfu sér skýrt viðmið. Sumum nöfnum er hafnað vegna þess að í þeim koma fyrir stafastæður sem ekki eru venjulega ritaðar saman í íslensku, t.d. ia (Emilia), ie (Diego) o.fl. Þarna geta ýmis álitamál komið upp og ekki virðist fullt samræmi í úrskurðum mannanafnanefndar hvað þetta varðar. Þannig er (e)id leyft (Heida, Alida) og ae (Gael) en þær stafa­stæður eru tæpast íslenskulegri en hinar fyrri. Sumum nöfnum er svo hafnað vegna þess að um er að ræða óvenjulegan rithátt á nöfnum sem til eru í málinu (t.d. Dyljá, en hins vegar var Marínó samþykkt þótt Marinó væri fyrir á skrá). Þarna geta líka komið upp ýmiss konar álitamál; ekki er alltaf skýrt hvenær um er að ræða tvenns konar rithátt sama nafns og hvenær er beinlínis um tvö mismunandi (en lík) nöfn að ræða (t.d. var Jósebína samþykkt þótt Jósefína væri fyrir á skrá).

Ég legg áherslu á að í langflestum tilvikum eru úrskurðir mannanafnanefndar ótvírætt réttir og óumdeilanlegir, miðað við þau lög sem henni er gert að starfa eftir. Það sem hér er sagt um umdeilanlega úrskurði nefndarinnar og það sem mér virðist ósamræmi í úrskurðum er ekki sagt henni til hnjóðs, enda er hlutskipti hennar ekki öfundsvert. Þetta er dregið hér fram til að benda á hversu snúin lögin eru í framkvæmd, og hversu vandasamt er að beita þeim á samræmdan og sanngjarnan hátt.

En þrátt fyrir að framangreind ákvæði séu sett til verndar íslenskri tungu eiga erlend mannanöfn tiltölulega greiða leið inn í málið, eins og auðséð er þegar úrskurðir mannanafnanefndar eru skoðaðir. Það skiptir vart sköpum fyrir framtíð tung­unnar hvort haldið er í þær hömlur sem eru á upptöku nýrra erlendra (og innlendra) nafna. Mannanöfn eru svo sérstakur og afmarkaður hluti tungumálsins að ekki er líklegt að þau hafi veruleg áhrif á aðra þætti þess, enda eru nýleg nöfn sem reyna á ákvæði mannanafnalaga flest eða öll mjög sjaldgæf.

Nöfn eru tilfinningamál og nafnréttur manna ríkur, eins og staðfest er með ýmsum dómum.
Hér verður líka að horfa til fleiri þátta. Nöfn eru tilfinningamál og nafnréttur manna ríkur, eins og staðfest er með ýmsum dómum, bæði frá Mannréttindadómstól Evrópu, Héraðs­dómi Reykjavíkur o.fl., og með vísun til t.d. mannréttindasáttmála Evrópu og stjórnarskrár Íslands. Ríkar ástæður verða að vera til þess að sá réttur sé skertur.

c. Ákvæði um að stúlku skuli gefa kvenmannsnafn og dreng karlmannsnafn.

Ekki verða séð nein rök fyrir því að hafa skörp skil milli karlmanns- og kvenmannsnafna. Útilokað er að fella það undir vernd íslenskrar tungu – nöfnin eru að sjálfsögðu jafníslensk (eða óíslensk) hvort sem karlar eða konur bera þau. Ekki er heldur einhlítt að samræmi sé milli kyns nafnbera og málfræðilegs kyns nafns, sbr. Sturla sem er karlmannsnafn en hefur beygingu kvenkynsorða. Fáein nöfn eru eða hafa verið notuð bæði sem karlmanns- og kvenmannsnöfn, t.d. Auður og Blær, og dæmi eru um nöfn sem eru karlmannsnöfn í erlendum tungumálum en kven­manns­nöfn á Íslandi, og öfugt.

Sumt fólk er hvorki fullkomlega karlkyns né kvenkyns, skilgreinir sig hvorki sem karlkyns né kvenkyns, eða vill ekki opinbera kyn sitt eða kynvitund. Engin ástæða er fyrir löggjafann að krefjast þess að allir heiti nafni sem opinberar kyn þeirra, kyn sem fólkið er kannski ekki sátt við. Það þætti vitaskuld fráleit og ósiðleg hugmynd að gá milli fóta fólks til að athuga kyn þess – en við þurfum þess ekki heldur, nafnið er alveg jafn afhjúpandi. Trú er einkamál fólks, stjórnmálaskoðanir og kynhneigð líka, og aldur getur verið viðkvæmt mál. Kyn og kynvitund ætti vitaskuld að falla í sama flokk – vera einkamál fólks, sem það ætti ekki að vera skyldugt til að opinbera með nafni sínu. Þetta er augljóst mannréttindamál og mjög nauðsynlegt að afnema þessi skil og leyfa kynhlutlaus nöfn.

d. Ákvæði um að eiginnöfn megi ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

Í umræðunni hefur því stundum verið haldið fram að þetta ákvæði sé börnum nauðsynleg vernd. Ákvæðið er þó af ýmsum ástæðum erfitt í framkvæmd. Eitt er að það er vitanlega matskennt hvað geti orðið fólki til ama. Vald til að meta það er algerlega lagt í hendur mannanafnanefnd sem er skipuð málfræðingum og lögfræðingum en ekki t.d. sálfræðingum og leikskólakennurum, og nefndin hefur engin viðmið í þessu mati. Því er hætt við að beiting ákvæðisins verði tilviljana­kennd.

Ákaflega erfitt er að segja til um það hvaða nöfn geti orðið mönnum til ama. Slíkt getur ráðist af ýmsum tilviljunum og er háð þjóðfélagsbreytingum og málbreytingum.
Annað er að ákaflega erfitt er að segja til um það hvaða nöfn geti orðið mönnum til ama. Slíkt getur ráðist af ýmsum tilviljunum og er háð þjóðfélagsbreytingum og málbreytingum. Sem dæmi má nefna að sumar persónur, raunverulegar eða skáldaðar, geta fengið á sig svo illt orð að það komi niður á nöfnum þeirra. Gróa og Mörður eru góð dæmi um þetta (eins og bent er á í Nöfnum Íslendinga eftir Guðrúnu Kvaran og Sigurð Jónsson frá Arnarvatni). Auðvitað er engin leið að sjá hvort tiltekið nafn gæti fengið á sig óorð einhvern tíma í framtíðinni af svipuðum ástæðum.

Það eru ekki miklar líkur á að foreldrar vilji gefa börnum sínum nöfn sem gætu orðið þeim til ama, enda hefur sárasjaldan reynt á þetta ákvæði laganna. Þeir sem eru orðnir sjálfráða geta líka breytt nafni sínu. En ef til stendur að gefa barni ósæmilegt eða óviðurkvæmilegt nafn fellur það undir barnaverndarlög þar sem segir m.a. í 1. grein: „Allir sem hafa uppeldi og umönnun barna með höndum skulu sýna þeim virðingu og umhyggju og óheimilt er með öllu að beita börn ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi. Foreldrum ber að sýna börnum sínum umhyggju og nærfærni […].“ Augljóslega er það „vanvirðandi háttsemi“ en ekki virðing, um­hyggja og nærfærni að gefa barni óviðurkvæmilegt nafn. Sérstakt amaákvæði í mannanafnalögum er því óþarft.

e. Ákvæði um millinöfn, hugtakið ekki lengur notað.

Millinöfnum var ekki síst komið á sem eins konar sárabót fyrr þá sem vildu nota fjölskyldunöfn en höfðu ekki heimild til að nota ættarnöfn. Ef bann við upptöku ættarnafna verður fellt úr gildi, svo og reglur um gerð eignnafna, verða sérstök ákvæði um millinöfn óþörf; þau verða þá ýmist eiginnöfn eða kenninöfn eftir ákvörðun hvers og eins.

f. Ákvæði um ættarnöfn, engar takmarkanir verða á notkun ættarnafna og því fellur bæði á brott öll vernd eldri ættarnafna, sem og bann við nýjum.

Það gengur ekki að sumum sé heimilt að bera ættarnöfn og öðrum ekki.
Það ætti ekki að þurfa að rökstyðja að ákvæði mannanafnalaga um ættarnöfn (8. og 9. grein laganna) standast ekki nútíma jafnréttishugmyndir. Það gengur ekki að sumum sé heimilt að bera ættarnöfn og öðrum ekki. Það gengur heldur ekki að ættarnöfn geti gengið til niðja þeirra sem báru ættarnöfn við gildistöku laganna, en ættarnöfn þeirra sem fá íslenskan ríkisborgararétt með lögum megi ekki ganga til niðja þeirra. Í athugasemdum með frumvarpi til gildandi mannanafnalaga kemur fram að nefndin sem samdi lögin gerði sér fulla grein fyrir þessari mismunun og hefði helst viljað leggja til að ættarnöfn gengju framvegis ekki til niðja. Nefndin varð „þess hins vegar áskynja að víða væri hörð andstaða gegn því að nokkuð yrði hróflað við ættarnöfnum“ og taldi sér því ekki fært að halda þeirri hugmynd til streitu. En í ljósi þess að ekki verður betur séð en þessi mismunun sé skýrt brot á 65. grein stjórnarskrár þar sem segir m.a. að allir „skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannrétt­inda án tillits til […] ætternis […]“ getur ekki annað komið til álita en jafna rétt landsmanna hvað þetta varðar.

g. Ákvæði um að maður skuli kenna sig til foreldra sinna ef hann ber ekki ættarnafn.

Oft er bent á að Íslendingar hafi einir germanskra þjóða varðveitt þann sið að kenna sig til föður eða móður, og mikilvægt sé að halda þeim sið áfram. Undir það má vel taka. Stundum er látið að því liggja að bann við upptöku ættarnafna sé liður í vernd íslenskrar tungu. Engin leið er hins vegar að halda því fram. Þessi siður er hluti af íslenskri menningu, en ekki sérstaklega af íslenskri tungu. Ættarnöfn eru í eðli sínu hvorki íslenskulegri né óíslenskulegri en föður- og móður­nöfn. Fjöldi ættarnafna er af alíslenskum rótum og óþarft að taka dæmi um það. Mörg ættar­nöfn eiga sér vissulega erlendan uppruna en sama má segja um eiginnöfn. Erfitt er að sjá að notkun ættarnafna valdi einhverjum sérstökum málspjöllum.

Af umræðunni mætti stundum draga þá ályktun að til stæði að banna mönnum að kenna sig til föður eða móður. Um það er að sjálfsögðu ekki að ræða, en margir virðast gera því skóna að ef upptaka ættarnafna yrði leyfð myndi kenning til föður eða móður hverfa á stuttum tíma. Það er auð­vitað hugsanlegt en fjarri því að vera fullvíst. Stundum er vísað til þess að föðurnöfn hafi horfið í Danmörku og Noregi á stuttum tíma, en slíkar vísanir til ólíkra sam­félaga á öðrum tímum hafa takmarkað gildi. Nútímaviðhorf í jafnréttismálum eru t.d. líkleg til að valda því að konur séu ófúsari en áður að taka upp ættarnafn eiginmannsins. Hér má enn fremur benda á að vegna þess að Íslendingar hafa einir haldið þeim sið að kenna sig til föður eða móður er það ákveðið þjóðareinkenni sem vel má hugsa sér að margir vilji halda í þess vegna, en um slíkt var ekki að ræða í Danmörku og Noregi. Einnig má vísa til þess að í Færeyjum mun hafa færst í vöxt á seinustu árum að kenna sig til föður.

Hvað sem líður áhyggjum af því að föður- og móðurnöfn hyrfu á stuttum tíma, og hversu mikilvægt sem mönnum þykir að halda í þann sið, þá er ljóst að núgildandi lög fela í sér mismunun sem ekki verður við unað í nútímaþjóðfélagi.

h. Ákvæði um takmarkanir á notkun erlendra nafna.

Réttur manns til nafns, og réttur foreldra til að ráða nafni barns síns, er mjög ríkur og verður ekki takmarkaður nema hagsmunir þjóðfélagsins krefji.
Hér má vísa til athugasemda við b-lið. Réttur manns til nafns, og réttur foreldra til að ráða nafni barns síns, er mjög ríkur og verður ekki takmarkaður nema hagsmunir þjóðfélagsins krefji. Í þessu sambandi má nefna að það er alsiða að nefna börn í höfuð skyldmenna, ekki síst afa og ömmu. Þetta þykir bera vott um ræktarsemi við ætt og uppruna og er mörgum mikið tilfinningamál. En stundum er foreldrum beinlínis bannað að nefna börn sín í höfuðið á afa og ömmu þótt vilji standi til þess. Fólk sem fær íslenskan ríkisborgararétt er vissulega ekki lengur þvingað til að breyta nafni sínu, en því er meinað að fá nafna eða nöfnur þegar barnabörnin koma, ef nöfnin sem um er að ræða eru ekki á mannanafnaskrá og fullnægja ekki skilyrðum til að komast á hana. Þetta getur valdið miklum sárindum og hugarangri þeirra sem í hlut eiga, enda augljós mismunun sem stenst ekki nútímahugmyndir um jafnræði.

i. Ákvæði um takmarkanir á fjölda nafnbreytinga.

Engin sérstök ástæða er til að takmarka fjölda nafnbreytinga en sjálfsagt að taka gjald fyrir nafnbreytingar umfram eina. Ólíklegt er að margir fari að stunda það að breyta um nafn hvað eftir annað. Aðalatriðið er að kennitala sé einkvæm skráning.

„Síðast en ekki síst felur frumvarpið í sér að öll ákvæði gildandi laga um mannanafnanefnd og hlutverk hennar eru felld á brott. Þá eru ákvæði um mannanafnaskrá einnig felld niður.“

Þetta leiðir af sjálfu sér. Verði hin nýju frumvarpsdrög að lögum falla verkefni manna­nafna­nefndar niður og mannanafnaskrá myndi ekki hafa neitt gildi.

Um ákvæði frumvarpsdraganna

Í þeim frumvarpsdrögum sem nú liggja fyrir segir:

Við tilkynningu nafns til Þjóðskrár Íslands skal gefa upp fullt nafn einstaklings þar sem tilgreint er að minnsta kosti eitt eiginnafn og eitt kenninafn. Kenninafn skal vera kenning til annars eða beggja foreldra nema tilkynnandi kjósi annað nafn sem kenni­nafn.

Meginkrafan sem nauðsynlegt er að samfélagið geri til skrásetningar einstaklinga er sú að allir séu skrásettir á einkvæman hátt, þannig að til sérhverrar skráningar svari einn einstaklingur og öfugt. Kennitölur fullnægja þessari kröfu. En til viðbótar er eðlilegt að gera þá praktísku kröfu að allir séu skrásettir með nafni sem notað er í daglegu lífi og á ýmsum opinberum skjölum, s.s. vegabréfi, ökuskírteini o.s.frv.

[pullquote type=”left”]En ef Magn­ús Þór Jónsson vildi vera skráður í þjóðskrá sem Megas, eða Björk Guðmundsdóttir sem Björk, eða Örn Elías Guðmundsson sem Mugison, eða Sigrún Hjálmtýsdóttir sem Diddú, þá verður ekki séð hvaða málefnaleg rök mæla gegn því.[/pullquote]Það er hins vegar engin sérstök ástæða til þess að nafnið sé samsett af eiginnafni og kenninafni, þótt það sé vissulega meginreglan víðast hvar. En ef Magn­ús Þór Jónsson vildi vera skráður í þjóðskrá sem Megas, eða Björk Guðmundsdóttir sem Björk, eða Örn Elías Guðmundsson sem Mugison, eða Sigrún Hjálmtýsdóttir sem Diddú, þá verður ekki séð hvaða málefnaleg rök mæla gegn því. Hinn praktíski tilgangur þess að hafa nafn sam­sett úr eiginnafni og kenninafni er fyrst og fremst sá að aðgreina þá sem heita sama eiginnafni. Ef eitt nafn fullnægir þeirri þörf er engin ástæða fyrir samfélagið til að krefjast fleiri nafna. Eftir sem áður má búast við því að flestir noti bæði eiginnafn og kenninafn.

Mikilvægt er einnig að ekki eru settar reglur um hvernig kenning til föður og móður skuli vera, eins og er í gildandi lögum þar sem segir að karlar skuli nota „son“ en konur „dóttir“. Frumvarpsdrögin gefa möguleika á því að þeir sem vilja noti kynlaust form, t.d. „bur“ sem dómnefnd í nýyrðasamkeppni Samtakanna 78 mælti með.

Í frumvarpsdrögunum er gert ráð fyrir nýrri tegund, svonefndu birtingarnafni:

Birtingarnafn skal dregið af fullu nafni og innihalda að minnsta kosti eitt kenninafna og eitt eiginnafna hans. Sé óskað eftir að birtingarnafn sé stytt með tilteknum hætti skal það tekið fram í tilkynningunni.

Ekki er ljóst hvað þetta merkir – hvar umrædd stytting eigi að koma fram. Ef hún birtist í þjóðskrá hlýtur hin stytta mynd þar með að vera orðin birtingarmynd nafnsins. E.t.v. merkir þetta að í birtingarmynd megi nota stytta mynd af eiginnafni og/eða kenninafni. Þetta þyrfti að vera skýrt. En engin sérstök ástæða virðist til að krefjast þess að ákveðin tengsl séu milli fulls nafns og birtingarnafns. Það mætti alveg hugsa sér einstakling sem væri skráður í þjóðskrá sem Magnús Þór Jónsson að fullu nafni en hefði birtingarnafnið Megas, o.s.frv.

Meginregla frumvarpsdraganna um gerð nafna er þessi:

Nöfn skulu rituð með bókstöfum íslenska stafrófsins, þar með töldum viðurkenndum sérstöfum. Eiginnöfn skulu vera nafnorð, auðkennd með stórum upphafsstaf og án greinis. Sé eiginnafn af íslenskum uppruna skal það falla að íslensku beygingarkerfi en það er ekki skilyrði ef um viðurkennt erlent nafn er að ræða.

Það er eðlileg krafa að nöfn skulu rituð með bókstöfum íslenska stafrófsins; Boris og Alexis geta ekki búist við að vera skráðir Борис og Αλέξης í þjóðskrá. Einnig væri eðlilegt að vísa til viðurkenndra umritunarreglna, ef til eru, fyrir nöfn sem upprunin eru í öðru stafrófi. Það þarf hins vegar að skilgreina nánar hvað eru „viðurkenndir sérstafir“; væntanlega c, q, w, z. Ákvæðið um að eiginnöfn skulu vera nafnorð er annars vegar undarlegt og hins vegar eiginlega merkingarlaust. Orð sem notað sem nafn verður sjálfkrafa að nafnorði, í þeirri notkun. Varla er ætlunin að banna að t.d. lýsingarorð séu notuð sem mannanöfn, enda fjölmörg fordæmi fyrir því að svo sé gert; nægir að nefna Bjartur og Björt. Ekki verða heldur séð nein efnisleg rök fyrir því að mannanöfn skulu vera án greinis.

Ekki er ljóst hvað það merkir að nöfn skulu „falla að íslensku beygingakerfi“. Trúlega á þetta að koma í stað ákvæðis núgildandi laga um að nöfn skulu taka íslenska eignarfallsendingu. Hins vegar er óljóst hvernig á að fylgja þessu ákvæði eftir. Ekki kemur fram í frumvarpinu að skrá skuli aðrar myndir nafns en nefnifallsmyndina, og þá reynir ekkert á það hvort nafnið fellur að beygingakerfinu. Þarna kemur líka fram mismunun milli innlendra nafna og viður­kenndra erlendra nafna, sem ekki þurfa að falla að íslensku beygingakerfi.

Svo má spyrja hvað það merki að nöfn séu „af íslenskum uppruna“. Í athugasemdum með frumvarpi til gildandi manna­nafna­laga er tekið dæmi af merkingarlausum strengjum eins og Skjarpur og Skunnar sem „verða því heimil, rétt eins og Garpur og Gunnar“. Spurningin er þá hvort slík nöfn teldust „af íslenskum uppruna“. Þetta þyrfti að skýra nánar.

Niðurstaða

Niðurstaða mín er þessi: Engin ástæða er til að ætla að íslenskri tungu stafi hætta af þeim breytingum sem felast í hinum nýju frumvarpsdrögum. Erlend mannanöfn eiga nú þegar greiða leið inn í málið og ekki hefur verið sýnt fram á að þau hafi valdið málspjöllum. Kenning til föður og móður er vissulega hluti íslensks menningararfs en ættarnöfn eru samt ekkert síður hluti íslenskrar tungu en föður- og móðurnöfn. Ekkert liggur fyrir um það að kenning til föður og móður hverfi á stuttum tíma þótt ættarnöfn verði almennt leyfð.

Hin nýju frumvarpsdrög eru veruleg réttarbót og afnema þá mismunun sem felst í gildandi lögum og er í raun mannréttindabrot. Þó þarf að endurskoða nokkur ákvæði draganna og skýra önnur betur.

Um höfundinn
Eiríkur Rögnvaldsson

Eiríkur Rögnvaldsson

Eiríkur Rögnvaldsson er prófessor emeritus í íslenskri málfræði. Undanfarin ár hefur hann einkum fengist við máltækni en hefur einnig stundað rannsóknir í samtímalegri og sögulegri setningafræði, svo og orðhlutafræði og hljóðkerfisfræði. Sjá nánar

[fblike]

Deila