Á mótum danskrar og íslenskrar menningar

Í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá því að dönskukennsla hófst við Háskóla Íslands efnir námsleið í dönsku til ráðstefnu um danskar bókmenntir og norræn tjáskipti, og verður hún haldin næsta laugardag, þann 9. apríl, í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands. Fjallað verður um birtingarmyndir Íslands í dönskum bókmenntum og nýjar rannsóknir á norrænum málskilningi. Þá verður opnuð ný heimasíða um tengsl Danmerkur og Íslands.

Nikolaj Frederik Severin Grundtvig eftir Constantin Hansen.
Nikolaj Frederik Severin Grundtvig eftir Constantin Hansen.
Ráðstefnan hefst klukkan 13:00 með fyrirlestrum tveggja lektora frá Kaupmannahafnarháskóla um birtingarmyndir Íslands í dönskum bókmenntum. Sune Auken mun þar fjalla um það hversu mikilvægur norrænn bókmenntaarfur, og þá ekki síst goðsögurnar, eru í skáldskap 19. aldar höfundarins Grundtvigs, sem hafi verið sérlega meðvitaður um sérstöðu íslenskra bókmennta og haft ákveðna sýn á Ísland í því samhengi. Erik Skyum-Nielsen mun síðan halda erindi um mýtur og fantasíur um Ísland í dönskum samtímabókmenntum.

Í síðari hluta ráðstefnunnar færist áherslan yfir á nýjar rannsóknir í norrænum málvísindum. Ulla Börestam, prófessor við Uppsalaháskóla, mun fjalla um það hvernig dönskunám í íslenskum skólum hefur reynst Íslendingum sem setjast að í Svíþjóð ákveðin brú yfir í sænskuna. Pernille Folkmann, lektor við Háskóla Íslands, tekur einnig fyrir þá staðreynd að Íslendingar nota gjarnan dönskukunnáttu sína úr skóla sem grunn til að ganga inn í sænskt eða norskt málsamfélag, og Eva Theilgaard Brink, fræðimaður hjá Nordisk Sprogkoordination, beinir athyglinni að samskiptum ungs fólks á Norðurlöndum, hvernig það getur nýtt sér tungumálaskyldleikann, hvaða hindranir verða á vegi þess og hvaða hlutverki enskan gegnir.

Á hinum nýja vef um tengsl Danmerkur og Íslands verður m.a. að finna gögn og upplýsingar um Dani á Íslandi svo sem einkabréf, dagbækur og ljósmyndir ásamt upplýsingum um starfsemi félaga Dana hér á landi. Vefurinn verður opnaður formlega á ráðstefnunni af Mette Kjuel Nielsen, sendiherra Danmerkur á Íslandi, og Auður Hauksdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, flytur erindi um dönsk-íslensk menningartengsl á Netinu.

hugras_donsk_islensk_menning2

Aðgangur er ókeypis og öllum opinn á meðan húsrúm leyfir.

Hér má sjá dagskrá og frekari upplýsingar um ráðstefnuna.

[fblike]

Deila