Sögurnar í sögunni

Steinunn G. Helgadóttir
Raddir úr húsi loftskeytamannsins 
JPV, 2016
Bókin Raddir úr húsi loftskeytamannsins er fyrsta skáldsaga Steinunnar G. Helgadóttur en áður hefur hún sent frá sér ljóðabækurnar Kafbátakórinn og Skuldunautar. Steinunn er myndlistarkona og má segja að sá bakgrunnur hennar sé sýnilegur í þessu nýja verki.

Verkið er samansafn smásagna sem gerast á ólíkum tíma. Sögusviðið virðist spanna allt frá fortíð, nútíð og inn í framtíð. Bókin byrjar á frásögu af loftskeytamanni sem jafnframt er rithöfundur sem skrifar bækur og segir í upphafi frá honum og hans starfi. Lendir hann í því að í hvert skipti sem hann klárar verk þá er einhver annar búinn að gefa út sömu sögu á undan honum. Í ótta um að hugmyndum hans verði stolið lokar hann sig af og leggst yfir skrif. Í kaflanum stendur „Mér var ætlað að segja sögur …“. Setur sú setning að hluta tóninn fyrir það sem kemur í kjölfarið og tengir verkið saman, en kaflarnir sem síðar koma eru safn sagna af ýmsum toga.

Að lesa bókina er á köflum eins og að losa flækta jólaseríu
Að lesa bókina er á köflum eins og að losa flækta jólaseríu, þegar maður heldur að hlutirnir tengist eða séu að leysast fattar maður að seríurnar eru fleiri en ein og tengjast jafnvel ekki neitt. Þannig koma sömu persónur og smáatriði jafnvel fyrir á nokkrum stöðum. Persónurnar eru fjölmargar og erfitt er að slá á þær tölu. Meðal annars segir frá systrunum Mónu og Maríu, Janusi sem leitar af ellefu hálfsystkinum sínum, Breiðholtsbræðrunum Nonna og Manna og bóksölukonu í sólarlandarferð. Þetta eru eflaust raddirnar sem titillinn gefur til kynna. Raddir sem allar segja sína sérstöku sögu. Sumar þeirra fá meira rými í verkinu en aðrar, birtast oft eða jafnvel á ólíkum stöðum. Jafnvel eru tengingar óljósar, bæði fyrir lesanda og höfundi. Þessar tengingar minna stundum á raunverulegar tengingar okkar við fólkið í kringum okkur. Með sumum á maður mikla samleið en öðrum ekki og til skiptis erum við sjálf auka- og aðalpersónur í lífum annarra.

Það sem  bindur helst þetta smásagnasafn saman er ákveðið yfirbragð sem heldur sér alveg í gegn. Um er að ræða stíl sem helst minnir á sögustund, þar sem texti flæðir saman og beinar ræður falla inn í annað mál. Oft hefur maður það á tilfinningunni að einhver ein og sama persónan sé að segja manni sögurnar. Stíll Steinunnar á það líka til að vera hnyttinn, og það heldur manni við efnið, en eins og góður sögumaður þekkir er tímasetning lykilatriði hvað þetta varðar. Mín tilfinning er sú að sögurnar komi allar frá skáldinu sem fjallað er um í  upphafi og endi bókarinnar. Þær eru hugarfóstur hans og ætlaðar sem tilvonandi bækur sem hann stefnir jafnvel á að gefa út. Hann er að prófa sig áfram, skapa persónur sem hann síðar endurnýtir. Jafnvel leggur hann sumar sögurnar frá sér um stund en skrifar síðan framhald við þær seinna í verkinu. Þetta er því bunki hugmynda sem telja má að loftskeytamaðurinn eigi eftir að vinna úr og gera að sínu nýjasta verki.

Steinunn skrifar hér áhugaverða bók sem minnir stundum á gallerí.
Steinunn skrifar hér áhugaverða bók sem minnir stundum á gallerí. Skemmtilegt getur verið að grípa í bókina og lesa nokkra kafla óháð efni sem á undan kom því kaflarnir lifa sjálfstæðu lífi. Það er oftast eitthvað nýtt sem bíður manns, eins og þegar rölt er um sýningarsal ólíkra málverka. Einhverja kafla verksins mætti jafnvel lesa í óreglulegri röð því óljóst er hvað bindur þá saman. Bókin er auðlesin og þægileg þó svo stundum geti verið ruglingslegt að reyna halda þræði sökum óljósra tenginga og fjölda persóna sem jafnvel koma hver annarri ekkert við. Í raun verður hver og einn að túlka bókina út frá eigin forsendum þótt hún gefi strúktúr sem gott er að styðjast við. Þannig gerir hún lesandann að meiri þátttakanda í verkinu en ef um línulega og heilsteypta frásögn væri að ræða.

 

Grein þessi var unnin sem verkefni í námskeiðinu Gagnrýni og ritdómar við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

Um höfundinn
Kristinn Pálsson

Kristinn Pálsson

Kristinn Pálsson er með BA-gráðu í arkitektúr frá Listaháskóla Íslands. Hann er nú MA-nemi í Hagnýtri ritstjórn og útgáfu við Háskóla Íslands.

[fblike]

Deila