Gömlu Bessastaðir

Það voru miklar væntingar bundnar við nýja sýningu leikhópsins Sokkabandsins sem sló síðast í gegn í leikriti Kristínar Eiríksdóttur Hystory í leikstjórn Ólafs Egils Egilssonar. Í þetta sinn hefur leikhópurinn fengið Sölku Guðmundsdóttur til að skrifa verkið fyrir sig og Mörtu Nordal til að leikstýra.

Dystópía

Old Bessastaðir er sérkennilegt og strítt leikverk. Það er bæði absúrd og pólitískt í senn. Konurnar þrjár sem við kynnumst í upphafi verksins eru að undirbúa eitthvað, en við vitum ekki hvað og ekki heldur hvar þær eru. Þær þekkjast ekki, hlusta ekki hver á aðra, tala í klisjum og tilvitnunum í orðræðu samtímans um skilvirkni og árangur, markmið og grunngildi, einstaklingsbundnar og sértækar lausnir, eignarrétt, yfirgang, okkur og hina. En fyrst og síðast hafa þær fengið nóg. Nú skal blóð renna.

hugras_OldBessastadir2

Tungumálið

Stundum hefur verið sagt að málshættir og orðskviðir geymi visku kynslóðanna en í leiktexta Old Bessastaða er sýnt hvernig einn málsháttur gengur þvert á þann næsta, hvernig frosin tjáning geymir enga visku heldur er merkingarlaus með öllu. Verkið er í raun vefur af tilvitnunum, maður þekkir öðru hvoru pólitískar umsagnir og persónuleg viðtöl við áberandi stjórnmálamenn og fjálglegar staðhæfingar þeirra um framúrskarandi ágæti íslenskrar þjóðarinnar og nauðsyn þess að gjalda varhug við útlendingum og menningu Hinna. Að sumu leyti má segja að þetta sé verk um tungumálið og orðræðu sem er hol að innan. Orðræðu lýðskrums, skrifræðis, efnishyggju, útlendingahaturs, neyslusamfélags og mannfyrirlitningar.

hugras_OldBessastadir1

Manneskjur

Konurnar þrjár eru að búa til stefnuskrá samtakanna Við. Þær skylmast og slást með orðunum. Mismunandi bandalög myndast milli tveggja gegn einni, oftast Dagrúnu sem Elma Lísa Gunnarsdóttir leikur. Áróra, leikin af Arndísi Hrönn Egilsdóttur, er tvöföld í roðinu. Hún er flóknasta persónan, heldur fast við reglur og tilskipanir, vill vera góð en er ill. Þorbjörg, leikin af Maríu Hebu Þorkelsdóttur, er hentistefnumanneskja, geðhvarfasjúk og öfgakennd en fyrst og fremst mjög reið.

Verkið er í raun vefur af tilvitnunum …
Þær þrjár gefa áhorfendum innsýn í líf sitt í eintölum sem maður gleymir ekki auðveldlega. Og nú ætla konurnar að breyta samfélaginu og snúast gegn utanaðkomandi ógn en hún býr ekki í flóttamönnunum heldur í þeim sjálfum. Dagrún sem er kölluð „vor minnsta systir“, barin og misnotuð og fyrirlitin, reynist nógu klók til að sjá veikleika hinna tveggja og nota sér þá og hún verður hinn nýi leiðtogi þjóðarinnar á leiðinni til alræðis. Umbreyting hennar úr því að vera neðst í goggunarröðinni til þess að verða foringi var um margt sannfærandi en of brött.

hugras_OldBessastadir4

Leikmynd Finns Arnar Arnarssonar er frábær. Rýmið er órætt, gæti verið félagsheimili, sem þarf að skúra, sótthreinsa og búa undir eitthvað, ljóskösturum er rennt niður á gólf og mjög einfölduð en nákvæm ofanlýsing Arnars Ingvarssonar kemur í stað þeirra. Kastararnir atvinnulausu mynda eins konar varnarvegg á baksviði. Lokasviðsmyndin þegar komið er að fundi samtakanna er óhugnanlega flott römmuð inn í skreytilist þriðja ríkisins. Tónlist Högna Egilssonar var ísmeygileg og hrollvekjandi á köflum og eftirminnilegu trommusóló varpað upp á vegg.

hugras_OldBessastadir3

Dauðans alvara

Leikverk Sölku Guðmundsdóttur er mjög vel skrifað og það er dauðans alvara – en Þórbergur Þórðarson hefði sagt að væru „skallar“ í því, þ.e. það vantar upplýsingar. Í fróðlegum umræðum eftir sýninguna á föstudaginn 7. febrúar kom fram að konurnar þrjár eru að undirbúa stóran fund til að kynna stjórnmálasamtök sem þær kalla „V-I-Г – íslenska útgáfu af þjóðernissinnuðum hægri-öfgaflokki eins og nú spretta fram á ógnarhraða í Evrópu allri. Í umræðunum kom líka fram að kynningarfundurinn á að fara fram á Bessastöðum en ég gat hvergi séð þá tengingu við titil verksins í sýningunni.

Leikverk Sölku Guðmundsdóttur er mjög vel skrifað og það er dauðans alvara – en Þórbergur Þórðarson hefði sagt að væru „skallar“ í því …
Ég hef séð þessa sýningu tvisvar. Ég sá frumsýningu og fannst hún bæði sterk og veik, mér fannst margt vel gert en sýningin of hæg og óörugg og maður spurði sig hvort verkið væri fullæft? Þriðja sýningin var umtalsvert öðru vísi og betri, öll hlutverkin voru betur mótuð, sérstaklega fór María Heba á kostum í hlutverki Þorbjargar, skiptingar voru hraðari og leikstjórnarstíll Mörtu Nordal skýrari.

Æfingatími sýninga í þeim leikhúsum erlendis sem ég hef spurnir af er enn styttri en hér en samt finnst mér ég æ oftar sjá þess merki að leikarar kunni ekki hlutverkin á frumsýningu. Og ég er ekki bara að tala um sjálfstæðu leikhópana heldur líka atvinnuleikhúsin. Þá má aftur spyrja: Á frumsýningin að vera lokapunktur eða upphafspunktur á lifandi lífi leiksýningar? Ætti fólk sem hefur gleði af leikhúsinu að fá að kaupa miða sem gilda tvisvar á sýningu? En þetta er trúlega önnur umræða.

Leikstjóri: Marta Nordal.
Leikmyndahönnun: Finnur Arnar Arnarsson.
Búningahönnun: Helga Stefánsdóttir.
Tónlist: Högni Egilsson.
Ljósahönnun: Arnar Ingvarsson.
Leikendur: Arndís Hrönn Egilsdóttir, Elma Lísa Gunnarsdóttir og María Heba Þorkelsdóttir.
Hljóðsmiður: Marteinn Hjartarson.

[Ljósmyndir: Þorbjörn Þorgeirsson]

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

[fblike]

Deila