Framandi myndir

Ljósmyndir Katrínar Elvarsdóttur og Ingvars Högna í Gerðarsafni
Í Gerðarsafni í Kópavogi hafa verið settar upp sýningar tveggja listamanna, þeirra Katrínar Elvarsdóttur og Ingvars Högna Ragnarssonar. Á síðustu sýningu sýndi safnið tvo listamenn sem vinna að mestu með skúlptúrskar áherslur og rýmisverk. Núna leggur safnið áherslu á listamenn sem vinna að mestu með ljósmyndun sem framgangsmáta sinn. Þannig heldur safnið áfram að leggja áherslu á vinnu með sértækar aðferðir í myndlist.

Sýningar þeirra Ingvars Högna og Katrínar eiga margt sameiginlegt, þó það sé einnig margt í efnistökum sem aðgreinir þau, nokkuð sem gerir samspil þeirra í Gerðarsafni áhugavert til skoðunar. Báðir listmennirnir sýna í þetta skiptið myndir sem þeir hafa tekið á ferðum sínum erlendis. Myndir Katrínar eru teknar í Kína í endurteknum ferðum sem spanna fimm ár og myndir Ingvars Högna eru einskonar stemma sem sýnir okkur lífið og umhverfið í fátæku úthverfi Búkarest í Rúmeníu.

Katrín Elvarsdóttir

Myndir Katrínar skoða hversdaglegt umhverfi borgarinnar í nærmynd. Borgin sem um er að ræða er hins vegar framandi og fjarlæg, greinilega staðsett í Kína. Við fáum aldrei yfirlit yfir þessa borg, eða borgir. Myndirnar sýna okkur aldrei fjarvídd yfir götur og torg, aldrei turna eða heildarmyndir húsa. Í staðinn fáum við að sjá skorin sjónarhorn, þar sem litir, áferð og efni byggja upp nærsýn á umhverfið. Flest í myndunum ber merki um tímans rás, aldalangra þróun efna og yfirborða, sem í ásýnd myndanna verður allt að því snertanleg. Myndirnar sverja sig í ætt við kyrralífshefðina í þessum áherslum. Í þeim er byggð upp myndheild þar sem form og litir eru í þröngu rými. Það er ávallt lítið sem aðskilur forgrunn og bakgrunn. Innan þessa rýmis er það endurtekningin, formheildin, litirnir og áferðin sem gerir myndina að því sem hún er.

Katrin Elvarsdóttir, Flöskur, 2013. Ljósmynd Hlynur Helgason.
Katrin Elvarsdóttir, Flöskur, 2013. Ljósmynd Hlynur Helgason.

Í bland við ljósmyndirnar eru einnig á sýningu Katrínar nokkrir munir, sem eiga greinilega að tengja áhorfandann beint við þann efnisheim sem myndirnar vísa í. Því miður virka þeir ekki sem skyldi, þeir verða í reynd fáfengilegir í samanburði við marglaga birtingu ljósmyndanna. Annar hluti sýningarinnar er hljóðverk sem gestir geta hlustað á í heyrnartólum. Í því gefur að heyra einskonar hljóðheim kínverskrar borgar. Það verk, afmarkað í heyrnartólum, verður því miður fjarri heildarmyndinni. Það hefði verið áhugavert að leyfa því að hljóma í salnum sjálfum, til að gefa myndunum áhugaverðan undirtón sem það hefur ekki eins og það er framsett.

Séð í austur yfir sýningu Katrínar Elvarsdóttur. Ljósmynd Hlynur Helgason.
Séð í austur yfir sýningu Katrínar Elvarsdóttur. Ljósmynd Hlynur Helgason.

Þótt meginhluti sýningarinnar séu einskonar kyrralífsmyndir, inniheldur sýning Katrínar einnig fjórar myndi af öldruðum kínverskum konum standandi úti á götu. Þrjár kvennanna eru sýndar að baki en ein á hlið þar sem hún styður sig við staf. Þrátt fyrir að skurður þessara mynda sé þröngur, þannig að á þeim birtist ekkert nema veggirnir að baki kvennanna, skera þær sig úr heildinni. Þessar myndir eiga greinilega að rjúfa heildarsvip kyrralífsmyndanna og tengja myndefnið á óyggjandi hátt við kínverskan framandleika. Þær skera sig verulega úr myndheildinni og rofið sem þær skapa í heildarmyndinni virkar nokkuð þvingað. Því má velta því fyrir sér hvort heildarsvipur sýningarinnar hefði ekki verið sterkari án þessarra mynda.

Myndir Katrínar Elvarsdóttur, frá vinstri til hægri: Aklæði, 2014; Kona IV, 2013; Dýna, 2014; Eldhús, 2014. Ljósmynd Hlynur Helgason.
Myndir Katrínar Elvarsdóttur, frá vinstri til hægri: Aklæði, 2014; Kona IV, 2013; Dýna, 2014; Eldhús, 2014. Ljósmynd Hlynur Helgason.

Á ferli sínum hefur Katrín beitt fjölbreyttri nálgun á viðfangsefni sitt. Á stundum hefur hún gert myndraðir sem hafa yfirbragð skyndimynda og sýna viðfangsefni sitt á hráan og að-því-er-virðist órammaðan hátt, eins og í Af þessum heimi frá 2007. Stundum hafa myndirnar verið ljóðrænar frásagnir þar sem viðfangsefnið hefur verið sveipað dulúð, eins og í myndröð hennar Sporlaust, líka frá 2007, þar sem sér á bak börnum ráfandi um slóða í skógi sem virðist ætla að gleypa þau. Og stundum eru þetta nánar skoðanir á blæbrigðum hversdagslegs umhverfis sem samt verður sveipað einhverjum ljóma í meðförum Katrínar, eins og sjá má í verkinu Heimþrá frá 2005.

Myndir Katrínar Elvarsdóttur, frá vinstri til hægri: Skvass, 2014; Maó, 2010; Veitingastaður, 2013; Hótel, 2014. Ljósmynd Hlynur Helgason.
Myndir Katrínar Elvarsdóttur, frá vinstri til hægri: Skvass, 2014; Maó, 2010; Veitingastaður, 2013; Hótel, 2014. Ljósmynd Hlynur Helgason.

Sú myndröð sem Katrín sýnir nú í Gerðarsafni er því í áhugaverðu samspili við fyrri verk hennar, í tilfinningu sinni fyrir efni og áferð umhverfisins. Samt sem áður sker hún sig jafnframt frá þeim, í því að vinna út frá hefðbundnum forsendum nútímaljósmyndunar, þar sem áherslan er, eins og í sýningu Katrínar, á nána skoðun, þröngt rými og skýrt afmarkaða myndbyggingu. Katrín sýnir því hér að hún getur einnig unnið á þeim forsendum á áhugaverðan hátt. Gott dæmi um þetta er sérstaklega sterkt og öflugt samspilið á milli mynda í fjögurra mynda röð á norðurvegg salarins, þar sem blæjur og tjöld leika stórt hlutverk, og grunnlitir eru hlýir, þótt myndirnar séu teknar á ólíkum tímum og á ólíkum stöðum. Stök mynd á vesturveggnum, sem sýnir flöskur með græðlingum í glugga sem áferðarmikið tjald lokar fyrir, er einnig mjög sterk í einfaldleika sýnum og dýpt, þótt atburðarásin eigi sér öll stað í rými sem er ekki í reynd nema spannarbreitt í dýpt. Í þessum myndum verður myndheimurinn sem Katrín birtir okkur sérlega öflugur.

Ingvar Högni Ragnarsson

Sýning Ingvars Högna var unnin á meðan hann var gestur í vinnustofu listamanna í Búkarest í Rúmenínu. Þar tekur hann fyrir aðstæður og umhverfi í úthverfi borgarinnar, svæði þar sem atvinnuleysi og vandamál sem því tengjast eru mikil. Umhverfið hefur verið rofið með groddalegum nýbyggingum og róttækum framkvæmdum sem aldrei hefur verið lokið við, en hafa sett mark sitt á umhverfið og aðstæður fólks. Við vinnslu verksins fór Ingvar Högni um svæðið, skoðaði umhverfið og tók myndir af fólki og aðstæðum þess í stíl heimildarmynda. Hluti sýningarinnar er hugmyndalegs eðlis, þar sem Ingvar tekur og sýnir í röð margar myndir af sama myndefninu, af einhverskonar stíflugarði sem greinilega setur mikið mark á svæðið. Annað verk sem mótar sýninguna er mynd í yfirstærð af tré sem vex upp úr steypunni, mynd sem er einskonar táknmynd fyrir áherslu sýningarinnar — um það hvernig náttúra og íbúar geta haft áhrif á og mildað yfirdrifið og ómannlegt umhverfið.

Séð í austur frá innganginum yfir sýningu Ingvars Högna Ragnarssonar. Á hægri hönd er stóra myndin, Steypa – Tré, 2015. Ljósmynd Hlynur Helgason.
Séð í suður yfir sýningu Ingvars Högna Ragnarssonar. Ljósmynd Hlynur Helgason.

Þegar komið er inn í salinn blasir við röð myndanna af stíflugarðinum og skilgreinir þannig sýninguna. Til beggja hliða eru tvær myndraðir sem sýna bæði mannvirkin og umhverfið, auk nokkurs konar portrettmynda af íbúunum sem þar birtast í umhverfi sínu. Gegnt myndröðinni af stíflugarðinum er myndin af trénu sem vex blómum skrýtt upp úr steypunni. Þessar myndir eru viss rammi um sýninguna, táknmyndir fyrir það hvernig náttúrulegt ferli grípur inn í óbifanlegt skipulag mannsins og rýfur það með gróðri sem smám saman brýtur það niður.

Myndir sem annars vegar sýna fólkið sem býr við þessar aðstæður og dramatískar myndir af hrörlegu umhverfi þess eru á hliðarveggjum salarins. Myndirnar af fólkinu eru hráar uppstillingar, teknar beint af myndefninu sem oftar en ekki er miðjusett. Þær eru blátt áfram og rammaðar hrátt inn, án þess að verið sé að leggja í að byggja upp dramatíska myndbyggingu. Í myndatextum sem fylgja með er vísað í afstöðu fólksins og skoðanir. Þessar myndir gefa umhverfinu mannlegan blæ og tengja áhorfandann við þann raunveruleika sem fólkið býr við. Myndirnar í kring sem sýna umhverfið eru skipulagðari í myndhugsun, þótt myndbyggingin sé afslöppuð og til þess gerð að sýna einungis það sem fyrir augu ber.

Myndir Ingvars Högna Ragnarssonar, frá vinstri til hægri: Armenska hverfið, 2015; Gabriel vonar að hann komist í íbúð fyrir veturinn eftir að útvarpi hans var stolið í Vacaresti, 2015; I miðri Vacaresti býr Róma-fjölskylda sem lifir af náttúrunni, 2015. Ljósmynd Hlynur Helgason.
Myndir Ingvars Högna Ragnarssonar, frá vinstri til hægri: Armenska hverfið, 2015; Gabriel vonar að hann komist í íbúð fyrir veturinn eftir að útvarpi hans var stolið í Vacaresti, 2015; I miðri Vacaresti býr Róma-fjölskylda sem lifir af náttúrunni, 2015. Ljósmynd Hlynur Helgason.

Ljósmyndir Ingvars Högna á þessari sýningu sverja sig óneitanlega í ætt við fyrri verk hans. Hann hefur oft leitast við að finna hlaðið og óstöðugt umhverfi til að mynda, hvort sem það er yfirgefinn tívolígarður eða hálfklárað nýbyggingarhverfi í upphæðum Reykjavíkur. Önnur verk hans hafa verið meira hugmyndalegs eðlis, eins og til dæmis í myndröð sem hann gerði af vegg sem afmarkaði byggingarsvæði í Reykjavík, þar sem myndir voru endurtekið teknar af sama veggnum á löngu tímabili. Myndir sem þessar mynda einhverskonar tengingu — millikafla — á milli raunsæislegra heimildarljósmynda Ingvars Högna og málverka hans, sem eru oftar en ekki tilraunir með gróf myndform og hráar litasamsetningar. Á þessari sýningu eru engin slík verk til staðar, heldur sterk og áhugaverð tilraun til að túlka nöturlegan raunveruleika fólks á táknrænan og raunsæislegan hátt.

[Ljósmynd fyrir ofan grein: Hlynur Helgason. Séð í austur frá innganginum yfir sýningu Ingvars Högna Ragnarssonar. Á hægri hönd er stóra myndin, Steypa – Tré, 2015.]

Um höfundinn
Hlynur Helgason

Hlynur Helgason

Hlynur Helgason er myndlistarmaður og listfræðingur. Hann er lektor í listfræði við Íslensku­ og menningardeild Háskóla Íslands og stundar m.a. rannsóknir á samhengi íslenskrar samtímalistar, áhrifum hennar og stöðu í fjölþjóðlegu samhengi. Sjá nánar

[fblike]

Deila