Óvænt innsýn í lestrarmenningu kvenna

Rannsókn Jóhönnu Katrínar Friðriksdóttur á eigendasögu handrita Konungs skuggsjár hér á landi leiddi hana að óvæntum vísbendingum um hlutverk kvenna í bókmenningu og menntun. Þessar uppgötvanir hennar voru efni fyrirlestrar sem hún hélt á vegum Miðaldastofu Háskóla Íslands í dag.

Jóhanna Katrín Friðriksdóttir er Marie Curie styrkþegi á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og stundar þar rannsóknir á bókmenntum og handritamenningu síðmiðalda.
Jóhanna Katrín Friðriksdóttir er Marie Curie styrkþegi á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og stundar þar rannsóknir á bókmenntum og handritamenningu síðmiðalda.
Konungs skuggsjá er norskt rit sem samið var um miðja 13. öld við hirð Hákonar Hákonarsonar konungs. Jóhanna Katrín, sem vinnur að stóru verkefni um síðmiðaldabókmenntir og handrit frá síðmiðöldum, segir að það hafi komið sér á óvart hvað þetta rit virðist hafa verið vinsælt á Íslandi á 15. og 16. öld, eftir fjölda handrita að dæma. „Handritin eru jafn mörg og handrit vinsælustu bókmennta þessa tíma; til dæmis riddarasagna, fornaldarsagna og Grettis sögu. Þessi texti var í raun á topp tíu metsölulista síns tíma. Fræðimenn hafa hingað til fjallað um Konungs skuggsjá sem norskt rit og í norsku samhengi en mér fannst áhugavert að kanna hvers vegna Íslendingar voru nógu áhugasamir um hana til að leggja í heilmikinn kostnað við að láta rita handrit af henni. Það gerir enginn að gamni sínu og það hlýtur að vera rík ástæða fyrir því.“

Eigendasaga handritsins flækir hugmyndir okkar um hvers konar texta konur lásu. Öll þessi pólitík, áhugi á völdum og verslun.
Í ljós kom að sum handritin voru annað hvort pöntuð af konum eða höfðu verið í eigu kvenna, jafnvel gengið í erfðir í kvenlegg allt þar til Árni Magnússon komst yfir þau, sem Jóhönnu Katrínu fannst mjög merkilegt. „Þessi texti fjallar mikið um pólitík og sambandið milli konungs og þegna og ríkis og kirkju. Svo eru í honum alls konar upplýsingar um hvernig á að vera kaupmaður; hvernig skal útbúa skip og skipuleggja sig. Þetta eru allt svið sem við tengjum vanalega ekki konum á miðöldum. Þar að auki er ritið talið skrifað við hirð Noregskonungs, að minnsta kosti undir áhrifum frá hirðinni, þannig að í mínum huga hafði þetta alltaf verið mjög karllægur texti.

GKS 1913 4to, handrit Halldóru Sigurðardóttur. Neðst til hægri á lokasíðu handritsins stendur: „Finis Anno 1571. Halldóra Sigurðardóttir á bókina‟.
GKS 1913 4to, handrit Halldóru Sigurðardóttur. Neðst til hægri á lokasíðu handritsins stendur: „Finis Anno 1571. Halldóra Sigurðardóttir á bókina‟.

Þetta opnaði alveg nýja veröld fyrir mér. Auðvitað voru þetta yfirstéttarkonur þannig að niðurstöðurnar eiga ekki við um allar konur, en eigendasaga handritsins flækir samt sem áður hugmyndir okkar um hvers konar texta konur lásu. Öll þessi pólitík, áhugi á völdum og verslun. Íslendingar versluðu við Englendinga og Þjóðverja á þessum tíma og það getur verið að fólk hafi haft áhuga á þessum verslunarvinkli og stjórnmálaheimspekis bókarinnar. Í Konungs skuggsjá er líka fjallað mikið um það hlutverk konungs að dæma og á miðöldum var til gríðarlegt magn af lögbókum á Íslandi. Í Jónsbók, einu af aðalhandritunum, hefur verið settur inn smá hluti úr Konungs skuggsjá um hlutverk konungs sem dómara og sú útgáfa af Jónsbók er afrituð aftur og aftur.

Mynd: Jónsbókarhandrit: AM 132 4to

Það var því væntanlega margt í Konungs skuggsjá sem fólk taldi skynsamleg og höfðaði til þeirra. Því efni hennar er afar fjölbreytt, þarna er líka alls konar áhugavert efni um náttúruna, til dæmis nokkrir kaflar um Ísland, Grænland og Írland og þar er m.a. minnst á norðurljós, eldfjöll, hvali, jökla og fleira. Það getur verið að hver hafi fundið eitthvað við sitt hæfi og maður getur ímyndað sér að konur hafi sótt sér fróðleik í þetta verk. En þarna eru líka margar sögur úr Biblíunni og í inngangi segir að textinn sé skrifaður til að hjálpa fólki að rata af vegum syndarinnar og inn á beinu brautina. Í einu handritinu sem var í eigu konu var greinilega verið að fylla upp í þrjár öftustu síðurnar með kvæðum af trúarlegum toga og þá má ímynda sér að manneskjan sem átti handritið hafi litið á texta Konungs skuggsjár sem siðferðislegan og trúarlegan. Kvæðin eru annars vegar til dýrðar Maríu mey og „Heimsósómi“; kvæði sem var ort á 15. öld og fjallaði mikið um syndina og mikilvægi þess að lifa dyggðasömu lífi. Þetta handrit virðist hafa verið notað til íhugunar og lærdóms og jafnvel til að kenna börnum því búið er að skrifa á nokkrum stöðum á neðri spássíuna erindi úr kvæði sem heitir Hugsvinnsmál. Þetta er norræn þýðing á latnesku heilræðakvæði sem var notað til að kenna skólakrökkum latínu. Það er svipað Hávamálum, segir þér hvernig þú átt að vera og hvers konar dyggðum þú átt að fylgja. Á einum stað fann ég skrifað út á spássíuna: „Bækur nem þú blíðlega.“ Sem merkir að þær eigi að læra vel og með góðum hug og með því að leggja sig fram. Sá sem þetta skrifar tengir þannig þessa tvo texta, Konungs skuggsjá og Hugsvinnsmál og hefur fundist tilefni til að minna á síðarnefnda verkið.

hugras_baekr_nem_tu_blidlegaSvo er í handritinu líka mikið af kroti sem bendir til að börn hafi verið að æfa sig að skrifa. Ég get ímyndað mér að handritið hafi jafnvel verið notað af konum til að kenna börnum, enda eru þekktar hliðstæður í Evrópu, að konur hafi átt handrit og kennt börnum.“

hugras_barnaspassiukrot

Þannig má draga ályktanir um notkun handritanna út frá frágangi þeirra og innihaldi, en þau eru frekar fjölbreytileg og gefur það til kynna að þau hafi haft margvíslegum hlutverkum að gegna. „Það má í raun setja fram margs konar kenningar. Ein er sú að Margrét Vigfúsdóttir, sem var nokkurs konar matríark á Möðruvöllum í Eyjafirði og átti eitt stærsta og flottasta handrit Konungs skuggsjár – sem hún lét örugglega skrifa fyrir sig – hafi rakið ættir sínar til Hákonar Hákonarsonar konungs og því haft sérstakan áhuga á þessum texta. hugras_konungsskuggsja_am243-a-islandHandrit Margrétar er stórt og veglegt, í tveimur dálkum og mjög þykkt, eitthvað sem hægt er að nota sem stofustáss og til að sýna fólki. Margrét setur sig þannig í ákveðna stöðu þess valdið hefur, og það vald er réttmætt m.a. vegna ætternis hennar. Annað handrit Konungs skuggsjár sem ég fann, og hafði verið í eigu konu að nafni Halldóra Sigurðardóttir, var hins vegar lítil bók sem hægt er að sjá fyrir sér að hún hafi lesið í einrúmi, hafi verið ætlað til einkanota. Þegar ég rakti svo ættir Halldóru reyndist hún skyld sama fólki og Margrét, og sama sagan var með eigendur handritsins með Hugsvinnsmálum. Svo virðist því sem þessi fjölskylda umfram aðrar ættir á Íslandi hafi haft áhuga á þessu handriti. Eigendasaga handrita getur því gefið ýmsar vísbendingar, þótt auðvitað segi hún ekki allt og sé stundum hulin þoku. En þegar maður getur fundið eitthvað um hana er mjög gaman að rekja sig í gegnum ættfræðina og kanna til dæmis hvort maður getur tengt fólkið sem lét Árna Magnússon hafa handrit við sameiginlega forfeður 200 árum fyrr.“

[fblike]

Deila