Út með það nýja, inn með það gamla

Ég elska bíó. Alvöru bíó, með upphrópunarmerkjum, látum og kunnuglegum efnistökum. Þekkt andlit, fagurmótaðir líkamar, grípandi litasamsetning, eldglæringar, sprengingar, hraðar klippingar og hávær tónlist í takt eru aðeins hluti þess flókna samspils mismunandi þátta er mynda agnhald afþreyingarmynda sem ég er löngu búinn að kokgleypa.
 En það eru blikur á lofti, bíó eins og ég þekki það er að taka breytingum og ég er að missa áhugann. Framandi tákn eru farin að tala tungumál sem ég hef ekki fullan skilning á. Ég sit í myrkrinu og horfi í gegnum þunnan söguheiminn sem reynir að réttlæta stríð, nekt kvenna, karlmennsku karla og gildi peninga. Gamanið er að hverfa, það sem eitt sinn var grípandi er orðið fráhrindandi og heimskulegt. Ég held í þá hugmynd að ég sé að verða klárari og sé farinn að sjá í gegnum tilbúning kvikmyndanna, en innst inni veit ég að vandamálið er mín megin. Ég er ekki lengur „inni“ í menningunni. Ég hristi ekki hausinn vegna þess að bíóið er orðið heimskulegra, ég hristi hausinn af því að ég tilheyri ekki lengur markhópnum. Við tölum ekki lengur sama tungumál, gamli vinurinn er breyttur og við skiljum ekki hvor annan lengur. Minn tilvísanabanki er innistæðulaus gagnvart bíóbákninu og ég stari inn í tómið.

Ég vissi af því að þetta myndi gerast, en vildi bara ekki trúa því. Faðir Hómers Simpson, hann gamli góði Abraham Simpson, varaði við þróuninni fyrir löngu, að einhvern tíma yrði það sem var „það” ekki lengur „það” og að einn daginn væri „það” orðið skrítið og framandi fyrir mér. Nú er sá dagur runninn upp að ég þarf að skipta um gír og leita annað eftir skemmtun. Auðvitað er af nógu að taka og heill kvikmyndaheimur til fyrir útbrunnar poppætur á borð við mig. Ég þarf ekki að hafa áhyggjur af því að eiga ekki heimili inni í kvikmyndasalnum lengur. Þótt ég skilji ekki textatengsl og sjái í gegnum klisjur stærstu myndanna þá er kvikmyndamenningin svo margbrotin að ég get bara snúið mér annað. Kvikmyndahátíðir eru haldnar fyrir fólk eins og mig, sérstök kvikmyndahús og sérstakar sýningar í venjulegum bíóhúsum eru sérsniðnar fyrir mig. Nú er bara að hætta að fussa yfir horfinni æsku og einbeita sér frekar að snillingum á borð við Tarkovsky, Ozu og Hitchcock en umfram allt B-liðinu, sögu vondra, ofbeldisfullra og bannaðra mynda sem ýta manni út fyrir alla þægindaramma og leiða mann á áður óþekktar slóðir. Waters, Lewis, Castle, Anger og aðrir B-liðs menn kvikmyndanna eru löngu búnir að segja það sem fáir þora að hafa eftir þeim, jafnvel í dag. Að uppgötva ný mið í gömlum myndum er verkefni sem ég hlakka til að takast á við.

[pullquote type=”left”]Þátttökusýningar á myndum á borð við Rocky Horror Picture Show og miðnætursýningar á myndum á borð við Eraserhead hafa gefið þeim annað líf en þeim var upphaflega ætlað og eru þær fyrir löngu orðnar klassískar í kvikmynda-menningunni.[/pullquote]Þessar uppgötvanir vil ég helst gera í samneyti við aðra, enda fátt sem getur bætt kvikmyndaupplifun jafn mikið og sameiginleg reynsla hóps af fólki sem þekkist ekki neitt, en nýtur sömu upplifunar í einingu. Með því að ýta undir sameiginlega reynslu og virkni geta aðstandendur sett myndir í annað samhengi og betra. Þátttökusýningar á myndum á borð við Rocky Horror Picture Show og miðnætursýningar á myndum á borð við Eraserhead hafa gefið þeim annað líf en þeim var upphaflega ætlað og eru þær fyrir löngu orðnar klassískar í kvikmyndamenningunni. En það hefði ekki gerst nema vegna þess að aðdáendur voru virkir og tóku afstöðu með myndunum. Fyrirbæri á borð við Rocky Horror eru einstök, en það samhengi sem myndin er sett í með virkni áhorfenda á hverri sýningu er vel hægt að nýta sér í öðru og almennara samhengi. Það er því gaman að sjá hve oft er reynt að gera kvikmyndasýningar að meiri upplifun. Það besta sem hinn almenni markaður á Íslandi hefur upp á að bjóða eru reyndar ekki mikið meira en hinar vandræðalegu heimsfrumsýningar og hlé í miðri mynd til að ræða málin, pissa eða fylla á kolvetnabirgðirnar. En búningarsýningar Nexus, maraþonsýningar með ýmsum uppákomum, Svartir Sunnudagar en umfram allt frábært starf RIFF með skemmtilegar hella-, sund-, költ- og tónlistarsýningar gera bíóferðir að einhverju skemmtilegu og áhugaverðu. Áhorfandinn sér kvikmyndina í öðru samhengi og upplifir hana fyrir utan tjaldið á nýjan og spennandi máta.

Þegar út í það er farið er ein viðleitni poppkornshallanna sem kemur í hugann þegar viðburðir eru annars vegar. Þegar ónefnt úthverfakvikmyndahús var sniðið inn í verslunarmiðstöð hér á Íslandi fyrir nokkrum árum þá var, þrátt fyrir áherslu á nýjasta hljóðkerfið og hefðbundnar fjölsalakvikmyndahúsaskreytingar, eins og niðurrifsandi kvikmyndaupplifunarinnar svifi yfir vötnunum og áhorfendur þyrptust að til þess eins að verða fyrir vonbrigðum. Sumir fengu líklega aulahroll í kaupbæti. Fyrir sýningu byrjaði salurinn að fyllast af reyk og leisergeislar skutust um salinn þveran og endilangan í takti við nýjustu raftónlist þess tíma. Þetta var kærkomið flóð hallærisheitanna sem skolaðist yfir ofverndaða áhorfendur og braut niður hið þægilega andrúmsloft sem kvikmyndahús hafa annars upp á að bjóða. Bara ef allar sýningar hæfust á leisersýningu …

[Mynd fyrir ofan grein: Frá sundbíói Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík/RIFF í Sundhöll Reykjavíkur í febrúar 2015, þar sem Psycho var sýnd með lifandi leikflutningi og sviðsmynd í anda kvikmyndarinnarLjósmyndari: Hallveig Kristín Eiríksdóttir]

Um höfundinn
Gunnar Tómas Kristófersson

Gunnar Tómas Kristófersson

Gunnar Tómas Kristófersson er doktorsnemi og stundakennari í kvikmyndafræði við Íslensku­ og menningardeild Háskóla Íslands.

[fblike]

Deila