Lífsgúrúar, Kristsgervingar og vistkreppa

Nýjasta hefti Ritraðar Guðfræðistofnunar er komið út, en Ritröðin er aðgengileg öllum á netinu. Að þessu sinni eru greinarnar sex að tölu og efnið jafn fjölbreytt og greinarnar eru margar. Meðal annars er fjallað um Jane Austen sem lífsgúrú, leiðbeinanda og dýrling, um guðfræðiþemu í kvikmyndinni The Shawshank Redemption og um Skaftárelda í magnaðri lýsingu Jóns Steingrímssonar.

ritrod_gudfrstofnunarAlda Björk Valdimarsdóttir fjallar um ensku skáldkonuna Jane Austen, en vinsældir hennar hafa aukist jafnt og þétt í gegnum tíðina. Varpað er ljósi á Austen sem lífsgúrú, leiðbeinanda og dýrling, sér í lagi út frá vegasögu Lori Smith, A Walk with Jane Austen, þar sem Smith ferðast á slóðir Austen í þeim tilgangi að styrkja trú sína og leita svara við spurningum um tilgang lífsins.

Guðrún Kvaran skrifar um Odd Gottskálksson og Gissur biskup Einarsson sem voru baráttumenn fyrir siðaskiptum á Íslandi á 16. öld. Oddur þýddi Nýja testamentið á laun og Gissur veitti honum stuðning við útbreiðslu þýðingarinnar á Íslandi. Oddur og Gissur þýddu einnig rit úr Gamla testamentinu sem Guðbrandur Þorláksson nýtti sér í útgáfu sinni árið 1584. Oddur þýddi einnig önnur rit sem nýtt voru í starf kirkjunnar og víst er að þýðing hans á Nýja testamentinu átti stóran þátt í varðveislu íslenskrar tungu.

Gunnlaugur A. Jónsson rýnir í hina vinsælu kvikmynd The Shawshank Redemption frá árinu 1994 út frá tjáningu myndarinnar á trúarlegum stefjum, en slík stef eru rík í myndinni. Gunnlaugur greinir þrjú guðfræðiþemu í myndinni og sýnir fram á mikilvægi þeirra fyrir túlkun hennar. Þessi þemu eru exodus-stefið, vonin og endurlausnin. Auk þessa er fjallað um þá hugmynd að aðalpersóna myndarinnar, Andy, sé Kristsgervingur. Færð eru rök fyrir því að, auk þess að vera slíkur gervingur, svipi Andy ekki síður til persónu Móse.

Hjalti Hugason fjallar um Skaftárelda 1783–1784 út frá magnaðri lýsingu Jóns Steingrímssonar á gosinu. Túlkaði Jón gosið sem réttláta refsingu Guðs vegna rangs lífernis fólks í nágrenni gosstöðvanna. Á sama tíma túlkar Jón gosið þannig að Guð hafi staðið á bak við það að ekki fór verr. Sýnt er hvernig Jón stóð á mörkum tveggja tíma sem endurspeglast annars vegar í áhuga hans á náttúruvísindum og hins vegar í staðfastri trú hans. Þá er sýnt fram á að ræður Jóns í þessu sambandi, þ. á m. hin svokallaða eldmessa, hafi verið markverður félagssálfræðilegur gjörningur.

Sigríður Guðmarsdóttir skrifar um íslenska embættisguðfræði í ljósi fagmennskukenninga og spyr hver embættisskilningur íslensku þjóðkirkjunnar sé á 21. öld. Í því skyni að svara þessari spurningu eru táknmyndirnar ambátt, amtmaður og ambassador notaðar. Færð eru rök fyrir því að embættisskilningur kirkjunnar sé bæði einn og margur, bæði hefðbundinn og breytilegur. Komist er að þeirri niðurstöðu að hugtakið ambassador, „erindreki Krists“ (2Kor 5.20), gagnist vel fyrir það markmið að túlka nýjar áherslur í fagmennsku vígðrar þjónustu.

Sólveig Anna Bóasdóttir tekur fyrir þekkta kenningu Lynns White Jr. sem birtist árið 1967 og færði rök fyrir því að vistkreppan í hinum vestræna heimi eigi sér trúarlegar rætur en margir hafa fylgt White að máli í þessu sambandi. Rætt er um meðhöndlun Elizabeth A. Johnson á arfleifð Whites, en hún leggur áherslu á að guðfræðin vinni með náttúruvísindum í baráttunni við erfið umhverfisvandamál nútímans. Einnig færir Johnson rök fyrir því að allt líf sé mikilvægt og samtengt og að orð Guðs, Jesús Kristur, ljái sköpunarverkinu merkingu og kærleika.

[fblike]

Deila