Óskarsverðlaunatónlist Hildar Guðnadóttur í Hörpu

Þann 10. október fóru fram kvikmyndatónleikar í Eldborgarsal í Hörpu þar sem Sinfóníuhljómsveit Norðurlands lék tónlist Hildar Guðnadóttur undir myndinni Joker. Mikil spenna var í loftinu enda uppselt á tónleikana og eftirvæntingin mikil eftir langa bið. Upphaflega fóru miðar í sölu í mars 2020 eftir að samþykki frá Senbla og WarnerBros fékkst í febrúar sama ár. Það leið hins vegar ekki nema um sólarhringur frá því að miðarnir voru settir í sölu uns tilkynnt var um samkomubann, samkvæmt Þorvaldi Bjarna Þorvaldssyni framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands.

Sigurför kvikmyndarinnar Joker hefur varla farið fram hjá nokkrum Íslendingi enda var myndin með Íslending í fararbroddi. Hildur Guðnadóttir hlaut fjölda verðlauna fyrir tónlist sína, þar á meðal Óskars-, BAFTA- og Golden Globe-verðlaun. Hún var jafnframt fyrsti Íslendingurinn til að hljóta Óskarsverðlaun og fyrsta konan til að hljóta Golden Globe- og BAFTA-verðlaun ein síns liðs fyrir tónlist.

Á bak við brosið

Myndin fjallar um Arthur Fleck, þrítugan karlmann sem býr heima hjá móður sinni. Hann reynir að falla inn í hópinn en stendur alltaf utangarðs. Gotham-borg einkennist af sundrung en verkföll, efnahagskreppa og óeirðir eiga sér stað í borginni. Móðir Arthurs kallar hann ætíð „Happy“ eða Kátan sem gerir það að verkum að hann hefur komið sér upp brosi til að fela sársaukann. Arthur er föðurlaus og er móðir hans jafnframt eini vinur hans. Mynd Todd Phillips, leikstjóra, framleiðanda og meðhöfundar myndarinnar, af Arthur Fleck sýnir mann sem á erfitt með að fóta sig í brotakenndu samfélagi Gotham-borgar. Hann þráir athygli og reynir því fyrir sér sem uppistandari en einhvern veginn verður hann sjálfur alltaf skotmark grínsins. Hann situr fastur í hringrás sinnuleysis, grimmdar og, að lokum, svika sem verður til þess að röð slæmra ákvarðana kemur af stað stigmagnandi keðjuverkun.

Joaquin Pheonix fer óaðfinnanlega með hlutverk Arthurs Fleck í myndinni og hlaut hann Óskarsverðlaun fyrir besta leik í aðalhlutverki. Joaquin tekst að miðla mikilli reiði, vonleysi og hatri en jafnframt skorti á tilfinningum þegar við á. Arthur Fleck er sjálfselskur og siðblindur maður sem hikar ekki við að grípa til ofbeldis eftir því sem líður á myndina. Í upphafi er hann kúgaður í starfi sínu sem trúður en hann á það sameiginlegt með samfélaginu að líta niður á starfið. Joaquin nær að sýna breytingar á persónuleika Arthurs sem fer úr því að vera undiroki yfir í að vera samviskulaus og ofbeldisfullur.

Sellóið í forgrunni

Sellóið er eins konar rauður þráður í tónlist Hildar við Joker, en það leikur síendurtekið stef sem tengir lögin saman og myndar sömu stemningu á mismunandi stigum myndarinnar. Hljóðfærið spilar stórt hlutverk í samspili við brass-hljóðfærin, pákur og önnur strengjahljóðfæri en fær einnig sínar einleikslínur. Selló, kontrabassi, horn, básúna, túba og pákur eiga það sameiginlegt að vera frekar djúpradda hljóðfæri, í sameiningu framkalla þessi hljóðfæri drungalega stemningu og mynda mikla spennu. Hildi tekst ótrúlega vel að miðla tilfinningum með tónlist sinni og ýkja það sem gerist á skjánum. Tilfinningarnar skila sér vel þrátt fyrir að hlustað sé eingöngu á tónlistina og ekki tekið tillit til myndefnisins. Tónlistin hefur einnig slegið í gegn sjálfstætt en öll lögin eru með yfir milljón spilanir á Spotify og trónir „The bathroom dance“ þar efst með rúmlega 19 milljónir spilanir.

Kvikmyndatónleikarnir í Hörpu

Faðir Hildar, Guðni Franzson, stjórnaði hljómsveitinni listilega á meðan tónleikunum stóð. Það er margt sem þarf að hafa í huga þegar hljómsveit er stjórnað og þá sérstaklega þar sem hljóð þarf að fara saman með mynd. Innkoman þarf að vera hárrétt og tónlistin má ekki yfirgnæfa talið. Guðna og hljómsveitinni tókst mjög vel til að magna upp þessa stórkostlegu tónlist Hildar og ýta þannig enn meira undir áhrif tónlistarinnar og samspilið við myndina. Reiðin, vonleysið, þunglyndið og hatrið skilar sér betur til áhorfandans í gegnum tónlistina og enn meira þegar hún er flutt hljómsveit þar sem hún fær að njóta sín betur og verður því margfalt áhrifameiri. Hrafnhildur Marta Guðmundsdóttir fór fyrir sellóunum og var einnig einleikari í þeim lögum þar sem sellóið er í forgrunni. Hrafnhildi, sem og hinum sellóleikurunum, tókst mjög vel að koma djúpstæðum og fjölbreyttum tilfinningum til skila. Í raun tókst allri hljómsveitinni frábærlega til í gegnum alla tónleikana.

Tæknimálin voru virkilega vel unnin, tónlistin og hljóð myndarinnar voru fullkomlega samstillt og fengu bæði að njóta sín. Uppáhaldið mitt var þó þegar atriði í myndinni leyfðu tónlistinni að stigmagnast og yfirtaka allt þar sem ekkert tal átti sér stað, til að mynda þegar síðasti hluti lagsins „Call me Joker“ var leikinn sem er undir lok myndarinnar. Krafturinn frá hljómsveitinni og hljómburðurinn í salnum var svo magnaður að ég fékk gæsahúð sem var alveg ótengd atburðum sem áttu sér stað á skjánum. Í heildina var þetta frábær upplifun sem lét mér líða eins og ég væri stödd inn í myndinni og, að hluta til, í huga Arthurs Fleck.

Um höfundinn
Selma Dís Hauksdóttir

Selma Dís Hauksdóttir

Selma Dís Hauksdóttir er meistaranemi í þýðingafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands og hefur lokið BA gráðu í þýsku frá Mála- og menningardeild.

[fblike]

Deila