Hið óþekkta EX

Þjóðleikhúsið sýnir þessa dagana leikritið EX  eftir  Marius von Mayenburg, það er annað leikritið í þríleik eftir hann, fluttum af úrvalsleikurum í leikstjórn Benedict Andrews. Sviðsmyndin er nánast sú sama og i Ellen B, fyrsta verkinu, mínímalískt og stílhreint verk Nínu Wetzel. Gísli Galdur Þorgeirsson sá um tónlistina og Bergsteinn Guðmundsson um áhrifamikla lýsingu.

Dagný Kristjánsdóttir fjallar um sýningu Þjóðleikhússins á leikritinu EX.

Við erum stödd á heimili læknisins Sylvíu (Nína Dögg Filippusdóttir), manns hennar, arkitetsins Daníels (Gísla Arnar Garðarssonar og tveggja lítilla barna, drengs og stúlku.

Síðla kvölds hringir fyrrverandi kærasta Daníels, Fransiska, og biður um gistingu, kærastinn hefur kastað henni út þá um kvöldið og hún á ekki í nein hús að venda. Hún biður Daníel að leyfa sér að sofa. Hann segist hafa sagt nei en kannski sagði hann já.

„Strítt samband“ er úrdráttur því frá fyrstu orðaskiptum Sylvíu og Daníel (um heilsu-lassanja) eru samtöl þeirra eins og einvígi.  Sylvía hefur þar miklu betur frá upphafi, snýr út úr öllu af mikilli greind og grimmd og finnur alltaf einhvern flöt á að gera ALLT að ágreiningsefni sem endar (næstum) alltaf á að maður hennar lýtur í lægri haldi og biðst afsökunar/fyrirgefningar. Gísli Arnar skilaði þessu erfiða hlutverki vel. Sumar af orðaskylmingunum í upphafi held ég að hefðu orðið enn fyndnari/íronískari ef Nína Dögg hefði spennt bogann lægra í upphafi.  Skiljanlegt er hins vegar hátt spennustig þegar gamla kærastan, Fransiska (Kristín Þóra Haraldsdóttir) Ex-ið, sem á ekki í önnur hús að venda, birtist um miðja nótt. Hún vill vita hvers vegna Daníel sleit sambandinu við hana, hún er að leita að ímyndinni sem hún hefur búið til af lífi þeirra Daníels í ást og eindrægni – ef til vill í von um nýtt upphaf.

Þá byrja áhorfendur að sjá fyrir alvöru hina miklu bresti í glæsilegri ímynd Sylvíu, afbrýðissemi hennar og undirliggjandi reiði sem gýs upp í lokakaflanum. Sú reiði er samsett en ljótasti hluti hennar er stéttahrokinn sem hún afhjúpar í samtölum við Fransisku. „Fransí“ er afgreiðslukona í dýrabúð og hefur margvíslegar kenningar um fuglasöng og fleira. Hún er ómenntuð: „Þú hefur „ekki einu sinni stúdentspróf“ eins og Sylvía segir við hana. Hún hefur aldrei átt sjens og mun ekki eiga það, þess vegna fór Daníel frá henni. Sylvía gerir það mjög ljóst.    

Ég segi ekki meira til að svifta áhorfendur ekki því lokauppgjöri sem á örugglega eftir að fylgja þeim nokkra hríð.  

Nú bíð ég spennt eftir síðasta hluta þríleiksins.

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands.