Þegar líkaminn tekur völdin

Auður Jónsdóttir
Stóri skjálfti
Mál og menning, 2015
Stóri skjálfti eftir Auði Jónsdóttur er einn af stóru titlunum þessi jólin; bók sem er búin að fá glimrandi góða umsögn í flestum ef ekki öllum þeim miðlum sem á annað borð dæma bækur, tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og hefur verið valin besta skáldsagan af starfsfólki bókaverslana. Þegar rýna skal í slíka bók rétt fyrir jól vandast hins vegar málið, því er ekki búið að segja allt sem þarf að segja um hana, í bili að minnsta kosti? Í stuttu máli sagt verðskuldar skáldsaga Auðar það lof sem hún hefur fengið en slík staðhæfing dugir víst ekki – hér verður rýnirinn að hrista af sér smákökuvímuna og gera heiðarlega tilraun til að tala af alvöru.

Flog og eftirköst þeirra eru ógnvekjandi en um leið flókinn og margslunginn veruleiki sem fæstir þekkja mikið til – kannski sem betur fer. Í upphafi Stóra skjálfta er lesandinn hins vegar leiddur inn í hugarheim flogaveikrar konu, Sögu, sem fær alvarlegt krampaflog og ekki bara eitt heldur þrjú í röð. Sagan sem fylgir í kjölfarið fjallar um afleiðingar floganna fyrir Sögu, sem reynast fyrst og fremst vera hvimleitt og býsna umfangsmikið minnisleysi og enn fremur er henni ekki treystandi til að sjá um þriggja ára gamlan son sinn þar sem hún á á hættu að fá fleiri flog. Einnig hellast yfir hana dularfullar höfuðkvalir þegar sérlega tilfinningaríkar minningar tengdar fjölskyldu og fyrrverandi maka rifjast upp. Spurningarnar sem herja bæði á Sögu og lesandann snúast síðan um ástæður alls þessa: Af hverju komu flogin? Af hverju gleymir Saga? Af hverju fær hún þessar höfuðkvalir? Og hvað er það sem hún man ekki?

Hún hefur ekki aðeins gleymt því hvað hún gerði morguninn fyrir flogin heldur einnig mikilvægari atriðum eins og hver sendi henni hvítu rósirnar sem eru í vasa á símaskenknum, af hverju hún og barnsfaðir hennar skildu og endurtekinni dularfullri hegðun móður hennar.
Eins og bent hefur verið á í fyrri dómum og viðtölum er frásögnin byggð upp nánast eins og spennusaga þar sem spennuvaldurinn er ekki glæpur heldur minnisleysi. Sjónarhornið fylgir Sögu, sem segir söguna, en hún hefur ekki aðeins gleymt því hvað hún gerði morguninn fyrir flogin heldur einnig mikilvægari atriðum eins og hver sendi henni hvítu rósirnar sem eru í vasa á símaskenknum, af hverju hún og barnsfaðir hennar skildu og endurtekinni dularfullri hegðun móður hennar. Smám saman rifjast þetta upp og lesandinn fylgir Sögu eins og spæjara sem finnur sífellt fleiri vísbendingar uns ráðgátan hefur verið leyst. Eins og oft vill verða kemur ýmislegt fleira í ljós en það sem tengist beinlínis glæpnum sjálfum og Saga kemst að ýmsu um sjálfa sig og fjölskylduna sem snýr ekki að flogaveikinni heldur trámatískum atburðum í fortíðinni sem hafa sett mark sitt á þau öll. Gleymska og upprifjun er fyrirtaks aðferð við að knýja áfram grípandi frásögn og hér tekst Auði afar vel upp; Stóri skjálfti er spennandi og fyllir lesandann flettifýsn, eins og aðrar þær bækur sem á ensku eru kallaðar „page-turners“.

Gleymska og upprifjun er fyrirtaks aðferð við að knýja áfram grípandi frásögn og hér tekst Auði afar vel upp; Stóri skjálfti er spennandi og fyllir lesandann flettifýsn.
Persónusköpunin er vönduð; Saga og allir í kringum hana eru breyskt fólk sem hefur rekið sig á og átt við sína erfiðleika að glíma og það gerir þau mannleg. Ég fékk ekki óþol fyrir Sögu eins og gerst hefur við lestur sumra af fyrri bókum Auðar, þar sem aðalkvenpersónunum hefur hætt til að verða þreytandi í framtaksleysi sínu og sjálfhverfu. Þar er þó sjálfri persónusköpuninni nokkuð örugglega ekki um að kenna, því Auður kann að skapa sannfærandi persónur þótt þær séu ekki alltaf skemmtilegar. Þarna er fremur að verki sú staðreynd að ólíkir lesendur tengja misjafnlega við þessar skálduðu konur líkt og fólk í raunheimum – sem betur fer.

Í raun má segja að mannslíkaminn, að huganum og minninu meðtöldu, sé hin sanna aðalpersóna Stóra skjálfta, því það er hann sem tekur völdin og knýr atburðarásina áfram. Þótt flogaveikin fái vissulega sitt rými er þetta fyrst og fremst bók um fjölskyldudrama, ákafa hræðslu móður við að að eitthvað komi fyrir barn hennar og síðast en ekki síst hvernig líkaminn tekur af skarið og hvers kyns meðvitaðar ákvarðanir og viljastýring þurfa að lúta í lægra haldi fyrir afleiðingum streitu og áfalla. Þessum þemum, sem við fyrstu sýn virðast afar ólík, er fléttað haglega saman og hverju þeirra er sinnt nægilega til að þau nái að snerta lesandann, enda tengjast þau öll á mikilvægan hátt þegar upp er staðið. Það er kannski einmitt stærsti kostur Stóra skjálfta og það sem gerir það að verkum að bókin á skilið að sigla ofan á jólabókaflóðinu þetta árið; henni tekst að fjalla um mörg djúpstæð, flókin og áhugaverð svið mannlegrar tilveru – líkamleg jafnt sem tilfinningaleg – án þess að nokkurt þeirra líði fyrir hin víðfeðmu efnistök.

Um höfundinn
Ásta Kristín Benediktsdóttir

Ásta Kristín Benediktsdóttir

Ásta Kristín Benediktsdóttir er íslenskufræðingur og doktorsnemi í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands og University College Dublin. Hún sinnir einnig stundakennslu og landvörslu þegar svo ber undir. Doktorsverkefni hennar fjallar um samkynja ástir í verkum eftir Elías Mar. Sjá nánar

[fblike]

Deila