Eins og skugginn

Ragnheiður Eyjólfsdóttir
Skuggasaga: Arftakinn
Vaka-Helgafell, 2015
Íslensku barnabókaverðlaunin voru fyrst veitt árið 1986 og féllu þá í skaut Guðmundar Ólafssonar fyrir raunsæisdramað Emil og Skunda. Næst var það hin elskaða Kristín Steinsdóttir með Franskbrauð með sultu, fyrstu bók af tveimur um krullhausinn Lillu og félaga hennar. Fugl í búri, fyrsta skáldsaga Kristínar Loftsdóttur, prófessors í mannfræði, var síðan þriðja bókin til að hljóta náð fyrir augum dómefndar og ungir lesendur felldu tár er þeir fylgdumst hinum afskiptu Kittu og Elíasi sem fundu þó, sem betur fer, huggun hvort hjá öðru. Íslensku barnabókaverðlaunin litu þannig út fyrir að ætla að verða mikil verðlaun raunsæislegra barnabóka en svo gerðist það árið 1989 að Heiður Baldursdóttir fékk verðlaunin fyrir fantasíuna Álagadalinn. Þá voru álögin rofin og fantasían hefur síðan þá með jöfnu millibili brotist inn fyrir varnir dómnefndar. Fantasían Arftakinn eftir Ragnheiði Eyjólfsdóttur er skýrt dæmi þess og er 29. bókin til að hljóta Íslensku barnabókaverðlaunin.

Þrátt fyrir að vera fantasía hefst Arftakinn ósköp hversdagslega: Aðalsöguhetjan, 12 ára stúlka að nafni Saga, er vansæl og einmana og er raunar svo skolhærð, föl, litlaus og líflaus að varla nokkur maður tekur eftir henni. Hún er nánast eins og skuggi. Pabbi hennar, hinn matgráðugi kapítalisti og bílasali, man varla eftir tilvist hennar og ofsafrekur eldir bróðirinn virðir hana varla viðlist nema til að skipa henni fyrir. Fyrir Guðs mildi er á heimilinu húshjálpin Hildigunnur sem ávallt man eftir Sögu. Hildigunnur hverfur hins vegar í upphafi sögu og enginn, nema Saga, man að hún hafi verið til. Þá fer ýmislegt einkennilegt að gerast og meðal annars birtist í húsinu rauðeygt og loðið skrímsli – talandi skuggabaldur að nafni Baldur sem kveðst hafa það hlutverk að fylgja Sögu í Álfheima, þaðan sem hún á ættir að rekja. Saga er furðu róleg yfir þessum fregnum en ákveður að láta slag standa. Hún tekur bakpokann sinn og heldur af stað með Baldri.

Það er alvanalegur appelsínugulur strætó sem ferjar Sögu og Baldur til Álfheima og hann er troðfullur af ungum álfum sem, eins og Saga, segja skilið við mennska fósturforeldra sína og hyggjast setjast á skólabekk í Álfheimum. Eftir strætóferð og háskalega ferð í gegnum fjall komast Saga og Baldur loks til Elfaborgar, sem er ein borg af nokkrum í samfélagi álfa, og eftir nokkurt japl, jaml og fuður er hún komin til síns herbegis, klædd í viðeigandi kufl og tilbúin að takast á við lærdóminn og það hættulega og flókna hlutverk sem hennar og Baldurs bíður í Álfheimum. Fyrir utan allt þetta kemst hún einnig að ýmsu um móður sína. Þetta er afskaplega mikið að innbyrða – bara það að komast klakklaust í kuflinn reynist ansi erfitt – en Saga er merkilega róleg yfir öllum þessum umsnúningi á lífi hennar, tilvist og heimssýn. Sem er eins gott því nú hefst ævintýrið fyrir alvöru!

Á meðan Saga hamast frá morgni til kvölds að læra að skyggja, rekja spor, þekkja jurtir, skylmast og margt, margt fleira hriktir í stoðum stjórnkerfisins í Álfheimum því einhverra hluta vegna ógnar koma Sögu samfélaginu öllu. Góð öfl og ill takast á og oftast er ekki fullljóst hvoru liðinu menn og dýr tilheyra. Saga dregst óviljandi inn í baráttuna – sem snýst að einhverju leyti um hana sjálfa – og neyðist til að flýja borgina. Hún veit ekki hverjum hún getur treyst og lesendur eru alveg jafn ringlaðir og hún og naga handarbökin af spenningi.

Alls kyns skepnur, álfar, bergrisar, berserkir og fleira sem við könnumst við héðan og þaðan – hvort sem er úr fornum sögnum eða einhverri úrvinnslu þeirra – er að finna í Arftakanum og er skemmtilega blandað saman við nútímaleg fantasíuþemu og minni.
Ragnheiður er ekki fyrsti og ekki síðasti barnabókahöfundurinn til að nýta sér þjóðsagnaarfinn sér til innblásturs og sagnagerðar, enda af nógu að taka. Alls kyns skepnur, álfar, bergrisar, berserkir og fleira sem við könnumst við héðan og þaðan – hvort sem er úr fornum sögnum eða einhverri úrvinnslu þeirra – er að finna í Arftakanum og er skemmtilega blandað saman við nútímaleg fantasíuþemu og minni. Sem dæmi um þetta má nefna að þrautreyndir fantasíulesendur kannast vel við það að aðalsöguhetjan ferðist í nýjan heim sem hún tengist sterkum böndum án þess að hafa nokkurn tíma grunað það sem og að hún búi yfir ákveðnum töfrum eða sé ætlað ákveðið hlutverk sem er nátengt foreldrum hennar. Eins og margar aðrar fantasíuhetjur þarf Saga að sækja skóla þar sem fram fer ákveðin flokkunarathöfn og hverjum og einum er úthlutað ákveðnu hlutverki. Vísir en misgóðir kennarar leiðbeina og kenna svo álfunum ungu.

Arftakinn ber þess merki að höfundur þekkir bæði þjóðsagnaarfinn og fantasíubókmenntir vel og einnig er heimurinn sem Ragnheiður skapar mjög vel gerður og honum er lýst ákaflega fallega. Saga furðar sig á ýmsu sem hún sér og ber það saman við hlutina eins og þeir eru í mannheimum og er þannig oft brugðið upp skondnu ljósi af því sem við mennirnir teljum alvanalegt. Það er athyglisvert að það sem er ótrúverðugast við Arftakann og um leið helsti löstur hennar er sá hluti sögunnar sem gerist í mannheimum – raunheimum. Persónurnar þar eru fyrst og fremst ýkjukenndar týpur og mér reyndist erfitt að ná takti sögunnar í mannheimum. Það hefur hins vegar verið nostrað við Álfheima og sömuleiðis persónurnar sem þar er að finna; sumar kannast lesendur við úr öðrum sögum – gömlum sem nýjum – en aðrar skrifast algjörlega á ímyndunarafl höfundar. Sérstaklega er síðasti þriðjungur bókarinnar grípandi og það má með sanni segja að Ragnheiði takist að fá hjartað til að slá örar. Þegar sögu lýkur er varla eitt kurl til grafar komið og kötturinn (skuggabaldurinn) sannarlega ekki kominn út í mýri. Vonandi verður framhaldið jafn spennandi og þessi flotta verðlaunabók.

Um höfundinn
Helga Birgisdóttir

Helga Birgisdóttir

Helga Birgisdóttir er doktorsnemi í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands en doktorsverkefni hennar fjallar um barnabókmenntir. Helga hefur skrifað greinar, haldið fyrirlestra og kennt námskeið á sviði nútímabókmennta, einkum þó á sviði barnabókmennta og afþreyingarbókmennta.

[fblike]

Deila