Í skugganum af Harmagedon

Mikael Torfason
Týnd í Paradís — Bók I
Sögur, 2015
Spyrja má hvers konar bók Týnd í Paradís eftir Mikael Torfason sé. Er hún upphaf endurminninga bráðungs manns, bernskusaga, þroskasaga, ættarsaga, fjölskyldusaga, „skáldævisaga“ eða e.t.v. lykilsaga? Þessa er að sjálfsögðu ekki spurt hér vegna þess að nauðsynlegt sé að troða henni í hólf eða kassa heldur til að benda á hversu margræð hún er.

Á bókarkápu segir að í bókinni sé sögð „ótrúleg saga en dagsönn“. Eftir því að dæma ber alla vega ekki að líta á hana sem lykilsögu. Þó má hér spyrja hinnar klassísku spurningar: Hvað er sannleikur? Við sögu koma margar persónur sem enn eru meðal okkar og í bókinni segir frá átökum þeirra og árekstrum og ekki er víst að gróið sé um heilt með þeim öllum. Blasir „sannnleikur“ sögunnar eins við þeim öllum? Er yfir höfuð mögulegt að segja „dagsanna“ sögu af eigin ævi? Líklega ekki. Um hitt er svo engin leið að efast að höfundur ætlar sér að vera heiðarlegur og hreinskilinn, opna sig og hleypa lesendum inn að kviku. Þetta ætlunarverk tekst honum svo sannarlega á sannfærandi máta.

Er yfir höfuð mögulegt að segja „dagsanna“ sögu af eigin ævi?
Bókin er allt í senn bernskuminningar sögumanns, ættar- og fjölskyldusaga hans. Að mörgu leyti er hér sögð hverdagsleg saga ungra Reykvíkinga sem eiga rætur í þjóðardjúpinu, eru illa undir það búin að axla ábyrgð í hjónabandi og fóta sig í foreldrahlutverkinu. Það eykur enn á vanda er þau eignast langveikt barn með öllu því álagi sem slíku fylgir. Í aðra röndina er sagan þó um afar sérstaka fjölskyldu þar sem hún hafnar í menningarfjandsamlegum trúarkima sem boðar að heimsendir sé handan við hornið og krefst afdráttarlausrar hlýðni við öldunga safnaðarins hér á landi og í Bandaríkjunum. Fjölskyldufaðirinn er jafnvel reiðubúinn að fórna syni sínum vegna þeirrar kreddu að sál mannsins búi í blóðinu og því megi ekki gefa eða þiggja blóð þótt líf liggi við. Þetta er sem betur fer heimsmynd sem fæst okkar þekkja en veldur því að fjölskyldan í miðju sögunnar ratar inn á refilstigu sem tortíma henni áður en yfir lýkur. Saga þessa hverdagsfólks verður fyrir vikið ákaflega sérstæð.

Bók Mikaels Torfasonar er þó ýmislegt meira en þetta. Hún er ættarsaga sem spannar a.m.k. fjórar kynslóðir. Þar sem sagt er frá alþýðufólki sem býr við slæm kjör verður hún líka að félagssögu þar sem rakin er sú harða lífsbarátta sem háð var hér á landi langt fram á öldina sem leið. Velferðar- ef ekki allsnægtasamfélagið íslenska er nefnilega mjög ungt. Eins og öll góð félagssaga er saga Mikaels einnig meðvituð og gagnrýnin. Hún afhjúpar til dæmis hvernig skólakerfið viðhélt stéttasamfélaginu ótrúlega lengi.
Týnd í Paradís er líka hrakningasaga. Þar kemur fram hvernig örbirgð, fíkn geðveilur og ofstæki mynda þéttan vef sem fjötrar einstaklinga og fjölskyldur. Þar kemur þó ekki síður fram hve mannleg nánd, væntumþykja og snerting má sín mikils. En bókin er ekki síður uppgjörs- og sáttasaga. Við lestur hennar sjáum við umfram allt hvernig mögulegt er að rjúfa munstur, slíta fjötra og sigrast á vonlausum aðstæðum. Sögumaður er aðeins á fimmta ári þegar þessari „Bók I“ lýkur og á ugglaust margt eftir óreynt. Samt er ljóst að hann er handan brimskaflsins er hann skrifar. Hann skilur því við lesandann með von bæði fyrir hans hönd og sína eigin. Týnd í Paradís er því saga um sigur.

Í aðra röndina er Týnd í Paradís því þerapísk bók.
Aðferð höfundarins er athyglisverð. Hann hefur kafað í eigið hugskot og tilfinningar, hann hefur skoðað myndir og rifjað upp. Umfram allt hefur hann samt talað við fólkið sitt. Þar hefur hann áreiðanlega gengið nærri bæði sér og því en ugglaust uppskorið mikið — ekki aðeins fyrir bókina heldur ekki síður framtíðina, framtíð sína, þeirra og hugsanlega lesendanna! Í aðra röndina er Týnd í Paradís því þerapísk bók. Sú þerapía kann þó bæði að vera forsenda og afrakstur bókarinnar. Um það skal ekki dæmt hér.

Sagan er auðlesin og spennandi en hún er lúmsk, leitar á lesandann löngu eftir að lestri er lokið og fylgir honum eftir eins og ágengur skuggi. Hún gerist svo nærri okkur bæði í tíma og rúmi. Sagan er rituð af öryggi og leikandi fimi. Hún segir leynt og ljóst frá sátt sögumanns við hlutskipti sitt og það fólk sem brást honum þegar hann var veikastur fyrir. Sáttargjörðin kemur þó fram á annan og sterkari hátt í bókinni: Sáttin býr í stílnum og hann lýgur ekki.

Um höfundinn
Hjalti Hugason

Hjalti Hugason

Hjalti Hugason er prófessor í kirkjusögu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hann hefur stundað rannsóknir á ýmsum sviðum íslenskrar kirkjusögu og kirkjuréttar en auk þess ritað um trú, samfélag og menningu á ýmsum vettvangi. Sjá nánar

[fblike]

Deila