Móðurarfur: Grískur harmleikur eða amerísk sápuópera

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, prófessor við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, fjallar um nýja bók Elísabetar Jökulsdóttur, Saknaðarilmur.

Elísabet Jökulsdóttir
Saknaðarilmur
JPV, 2022

Þess eru mörg dæmi úr bókmenntunum að höfundar sem missa foreldri reyni að festa minninguna um föður eða móður á blað, reyni að bregðast við sorginni með skrifum, og þetta hefur Elísabet Jökulsdóttir gert í sínum verkum, til dæmis í Aprílsólarkulda (2020) sem fjallaði meðal annars um andlát föður hennar. Í nýjustu bók hennar Saknaðarilmur er tekist á við minninguna um móðurina, sorgina og missinn. Reyndar segir sögumaður að þetta sé þríþætt sorg sem hún kljáist við: „sorg yfir dauða hennar, sorg yfir sambandi okkar, og söknuður“ (75).

Þessi texti tilheyrir því einni undirgrein sjálfsævisagna sem mætti nefna mæðgnabókmenntir sem oftar en ekki einkennast af togstreitu og spennu milli mæðgnanna. Og það er heldur enginn hörgull á togstreitu í sambandi þessara mæðgna, en sögumaður lýsir því ýmist sem grískum harmleik eða amerískri sápuóperu (73). Tilfinningarnar í garð móðurinnar eru sterkar, á stundum allt að því kæfandi, og þær eru mótsagnakenndar og flóknar. Enda voru það orð sögukonu í L‘Amant (1984) eftir Marguerite Duras sem komu upp í hugann við lesturinn, þar sem móðurinni er lýst með þessum orðum: „Ógeðið, móðir mín, ástin  mín“ (31). Viðhorf Elísabetar til móður sinnar eru nefnilega síst einfaldari, en á einum stað segir: „Mér finnst stundum að mamma hafi verið Jesús. Þar fyrir utan Bernharða Alba, Lína Langsokkur og María mey“ (52). Þetta eru nú ekkert smá persónugallerí  – frelsarinn sjálfur, harðstjórinn, sjálfstæða ævintýramanneskjan og hin miskunnsama móðir í einum pakka.

Til að ná utan um þetta flókna samband og þessa margslungnu manneskju nýtir höfundur sér frekar knappan frásagnarmáta. Textinn skiptist í fjölmarga stutta kafla, litlar frásagnir, minningar, myndir – sumir eru eins konar prósaljóð sem gætu vel staðið stakir, aðrir eru lengri og línulegri. Dauðinn er alltaf nálægur, í sínum ógnvænlega endanleika, en líka er lögð áhersla á hvað hann er óskaplega hversdagslegur, eins og þegar þarf að tæma útrunninn mat úr eldhússkápum móðurinnar í stuttu broti sem ber yfirskriftina „Útrunninn matur og pottablóm“ (46). Þrátt fyrir dauða, áföll, dramatík og sterkar tilfinningar er líka húmor í frásögn Elísabetar, enda hefur hún einstakt lag á að birta lesanda óvæntar tengingar og að færa hið dramatíska niður á mjög svo jarðbundið svið. Sem dæmi um árekstur hins hversdagslega og skelfilega, hins dramatíska og hins jarðbundna má taka kaflann um æskuheimilið „Morgunn á Drafnarstíg 3“. Þar rekur hún hversdagslegar minningar úr húsinu, en jafnframt er sagt frá því þegar hún kom þar að móður sinni látinni. Þá kvartar hún yfir að mamma hennar hafi alltaf látið hana fara út með ruslið þegar hún kom í heimsókn, en lýsir því svo að hún sjálf hafi verið ruslafata fyrir móður sína. Hún hafi dembt vandamálum sínum yfir hana: „Eftir að hún dó varð mér ljóst að hún hafði notað mig sem ruslafötu frá því að ég var á barnsaldri. Það er þér að kenna hvernig mér líður. Sjálf notaði ég hana vafalaust sem ruslafötu á fullorðinsaldri, henti í hana þögn og sársauka“ (13).

Elísabet kafar ofan í söknuðinn sem hún upplifir þegar mamma hennar deyr árið 2017 og lýsir því flókna ferli. Í kaflanum „Söknuður“ segir hún frá því hvernig í eitt og hálft ár eftir lát móður hennar hafi hennar viðbragð „verið að raða hlutum, málverkum og húsgögnum“ (16). Seinna brýst söknuðurinn skyndilega fram, allt af því í æðiskasti, eins og segir í brotinu „Söknuðurinn ryðst fram einsog Skaftárhlaup“, en hún gengst honum á vald því annars „heldur þú áfram að raða til dauðadags“ (20). Hér er hugsunin sú, eins og á mörgum öðrum stöðum í textanum, að það sé nauðsynlegt að opna á tilfinningar, ganga á vit þeirra, jafnvel skora þær á hólm. Smám saman má segja að sorgin færist frá andláti móðurinnar til sorgar yfir hvernig sambandi þeirra var háttað. Í kaflanum „Sorg yfir sambandinu“ segir hún frá því að eftir að mamma hennar dó hafi hún byrjað að meiða sig, reka sig á, „rak litla putta í svo fossblæddi“ og þá brýst út vein „veinið ógurlega yfir sambandinu […] Þessi stóri lífsins harmleikur falinn í litla puttanum“ (75). Viðbrögðin við þeim harmi eru á sömu leið og viðbrögðin við dauðanum, því hún segir: „Hvað ætla ég að gera við þessa sorg yfir sambandinu? Ég er að segja þér frá“ (75).

Eitt sem flækist fyrir í mæðgnasamböndum er örðugleikinn við að þær geti viðurkennt hvora aðra sem kynveru. Þessu lýsir til dæmis Nancy Friday í frægri bók sinni My Mother/My Self (1977) sem Elísabet vitnar í (80), reyndar í öðru samhengi, og svo hafa ýmsar skáldkonur tekist á við þessi mál. Þetta er eitt meginþema hjá Duras í L‘Amant og nýbakaður nóbelsverðlaunahafi, Annie Ernaux, lýsir þessu í verki um sína móður, Une femme. Fjölmörg dæmi má finna um þennan núning í Saknaðarilmi, má þar nefna ofsafengin viðbrögð móður hennar þegar dóttirin er með strákum (18, 126) og yfirlýsing móður hennar sem varðveitt er í sjúkraskýrslum: „Þú misstir allt skap þegar þú fórst að vera með karlmönnum“ (121). En einnig segir frá því að mamman hafi verið „að setja okkur inní ástamál sín“ (121). Ástamál og karlmenn eru því eitt af því sem kveikir reiðibálið þeirra á milli og þegar Elísabet rekur svipuð viðbrögð ömmu sinnar við ástarmálum mömmu hennar ungrar, kallar hún það „forneskjuna“ sem greinilega enn eimir eftir af (18, 127).

Undanfarin ár hafa nokkrar erfðafræðilegar rannsóknir gefið til kynna að reynsla af áföllum geti haft áhrif á genin okkar og þar af leiðandi geti þeirri reynslu verið skilað til komandi kynslóða. Hvað sem líður erfðafræðilegum þáttum um áhrif áfalla á komandi kynslóðir þá hafa fjölmargir rithöfundar og fræðimenn ekki verið í nokkrum vafa um að áföll berist niður kynslóðirnar, þungbærar minningar erfist í einhverjum skilningi, börn og barnabörn sitji uppi með byrði minninga sem erfitt getur reynst að ráða við.

Marianne Hirsch sem setti fram hugtakið um eftirminni (e. postmemory) segir það að alast upp við svo yfirþyrmandi minningar, að vera heltekinn af frásögnum sem áttu sér stað áður en maður fæddist eða varð meðvitaður um umhverfið, eykur hættu á að manns eigin sögur séu settar til hliðar, jafnvel afmáðar, af sögum forfeðra okkar. Það þýðir að vera mótaður, jafnvel mjög óbeint, af trámatískum brotum af atburðum sem enn er vonlaust að koma heim og saman og eru handan skilnings.[1]

Fyrir Elísabetu er þetta alveg ljóst, í ættinni liggja fjölmörg áföll sem virðast erfast í beinan kvenlegg. Hún skyrrist heldur ekki við að segja frá því hvernig hennar áföll hafi haft áhrif á hennar afkomendur, þótt hún segi líka að það sé mun auðveldara að ásaka en að viðurkenna (103). Hún þekkir vel áfallaorðræðuna og hvernig áföll eru aldrei grafin fyrir fullt og allt, heldur koma alltaf uppá yfirborðið og verkið er ekki síst tilraun til að lýsa og greina viðbrögðin við og afleiðingarnar af þessum áföllum. Textinn ber þess merki á hátt sem kunnur er úr trámafræðum, þ.e. hann er brotakenndur, með endurtekningum, ákafa, en líka stundum uppgjöf gagnvart áfallinu og gagnvart því verkefni að segja frá því. Skrifin sjálf eru líka mikilvægur hluti af því að öðlast skilning á fortíðinni eins og hún nefnir til dæmis í kaflanum „Verndargripirnir“ (115).

Eins og áður segir er margt í verkinu sem kunnuglegt er úr öðrum mæðgnabókmenntum – togstreitan, mótsagnakenndar tilfinningar, kynlífið sem ógnvaldur, geðraskanir og saga áfalla af ýmsum toga. En hér eru það óvæntu tengingarnar sem lyfta oft á tíðum textanum, óvenjulegt sjónarhorn Elísabetar á hversdaginn og fjölskyldulífið. Þetta sjónarhorn litar margar þær minningar sem hún rekur svo úr verða margslungnar sögur, eins og pælingarnar um verndargripina sem móðir hennar var sífellt að gefa henni, kaflinn um það hvernig mamma hennar tók sér viku í að pakka niður fyrir sín fjölmörgu ferðalög, og hvernig húsgögn, jafnvel gardínur geta borið í sér ættarsögu áfalla og skemmdra sambanda.

Upphafsljóð bókarinnar er lýsandi fyrir þetta sjónarhorn á hversdag og dauða og þessa tilraun til að ná áttum í söknuði og sorg:

Það verður alltaf raunverulegra
og raunverulegra
að mamma sé dáin
í dag tæmdum við matarskápinn hennar
döðlurnar
saffranið
frónkexið
súpupakkana
og kryddið
fórum með lyfin hennar í apótekið
hárspreybrúsana í Sorpu.
Ég veit ekki hvað hún segir þegar hún kemur heim.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, prófessor við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.


[1] Marianne Hirsch, The Generation of Postmemory: Writing and Visual Culture after the Holocaust (New York: Columbia University Press, 2012), bls. 5.