Fundin ljóð og ljóðmyndir

[x_text]Í ljóðinu „Á votri gangstétt“ úr þrettánda ljóðasafni Óskars Árna Óskarssonar finnur ljóðmælandi engil sem bókin ber nafn sitt af:

Ég var á gangi eftir Meistaravöllum
eitt rigningarsíðdegi í haust
þegar ég sá glitta í eitthvað á gangstéttinni.
Þetta var lítill engill úr silfurlitum málmi.
Lítill blýengill. Ég vóg hann í lófanum.
Hann var örsmár. Greinilega steyptur í mót
eins og tindátarnir sem ég átti þegar ég var strákur.
Hafði hann fallið niður af himninum,
of þungur til að vængirnir bæru hann uppi?
Ekki veit ég hvort fundur engilsins
hefur einhverja dýpri merkingu.
En allar götur síðar hefur hann búið í vasa mínum.

Þannig er með mörg ljóðanna í bókinni, þeim er lýst eins og þau hafi fundist úti á götu (það sem fyrir augu og eyru ber á göngu, í strætó o.s.frv.) og rétt eins og blýengillinn búa þau nú í vasa (bók) höfundar. Þessi smái gripur er einhvers konar verndarengill ljóðsins, enda búinn til úr blýi.

Bókin skiptist í tvo hluta, ljóð „með“ orðum og „án“. Já, við erum í landi konkretljóðanna í seinni hlutanum, en þó bregður þar fyrir orðum, t.d. í titlum, og ljóð án orða koma fyrir í fyrri hlutanum, því þar er að finna (eða ekki) ósýnilega hæku. Eins og þess lýsing ber með sér er þessi bók full af glettni og léttleika, tekur sig ekki of hátíðlega nema síður sé, enda varla við öðru að búast af höfundi. Að vanda eru ljóðin knöpp, sum ekki nema 2/3 úr hæku, eins og undirtitillinn fræðir okkur um, önnur stutt prósaljóð sem segja sögu, yfirleitt úr hversdeginum. Oft hefur einmitt verið sagt um ljóð Óskars Árna að þau séu ljóð hversdagsins og það má til sanns vegar færa, að því leyti að hér er ekki fjallað um háleit efni. Ekki er þó heldur rétt að segja að hversdagurinn sé upphafinn í ljóðunum, frekar að þetta séu í raun „fundin ljóð“ því oft er eins og ljóðmælandi vappi um götur eða sitji í strætó og næli sér í ljóð á leið sinni um borgina. Hinu háleita er oftar en ekki gefið, kannski ekki á kjaftinn, þá að minnsta kosti selbiti eins og hér er gert:

Á Degi ljóðsins

Ég sit á bekk við Tjörnina
og góni á ský sem er í laginu
eins og reykjarpípa

allt í einu hefur
álft sig til flugs
með gulan plastpoka
flæktan um aðra löppina

Hugras_blyengillinn_ljodmyndKonkretljóð eiga sér sögu nátengda framúrstefnum síðustu aldar (þótt vissulega séu ýmis eldri dæmi). Það er skemmtilegt að hér erum við í miklum tengslum við þá sögu, því ekki einungis eru þau að svipaðri gerð og mörg eldri konkretljóð – smámyndir sem mynda form þess sem titillinn segir fyrir um, heldur eru þau þar að auki unnar með „gamalli“ tækni, ef svo má segja eða á Silver reed ritvél eins og Óskar Árni lýsir í viðtali í Fréttablaðinu (19. 9. 2015). Yfirbragð þeirra er því kunnuglegt, væri jafnvel hægt að segja að þau minni á „gamaldags“ framúrstefnu, og eru þar að auki í bráðri útrýmingarhættu því ekki fást lengur borðar í svona græjur og dagar konkretljóðanna sem úr henni koma því taldir. Efni ljóðmyndanna eru margvísleg, götumyndir, regnhlífar, blöðrusalar, kettir og jarðarför og öllu komið til skila með smáum táknum ritvélarinnar. Lokaljóðið sker sig að nokkru leyti úr, þar sem hér er endurort með ákaflega snjallri ljóðmynd einn af hápunktum íslensku rómantíkurinnar.

Í fyrri hluta bókarinnar, ljóðum með orðum, koma fyrir fjölmargir nafngreindir menn, flestir ljóðskáld, svo úr verður einhvers konar samræða eða jafnvel samkvæmi skálda. Jón Hallur Stefánsson fær ósýnilega hæku, Geirlaugur Magnússon ljóðaþjónustu og svona mætti áfram telja. Svo eru söfn í bókinni, gleraugnasafn sem þjónar hlutverki tímavélar, lyklasafn sem ekki gengur að neinu og svo er það bóndinn í Meðallandinu sem safnaði engu: „Á gamalsaldri og í samráði við börn sín ákvað hann að ánafna Þjóðminjasafninu þetta einstæða safn eftir sinn dag.“ Þrátt fyrir áðurnefndan léttleika og húmor þá gerir dauðinn einnig vart við sig, sum skáldanna sem rætt er við eru látin, svo samkvæmið fær yfir sig melankólískan blæ og dauðinn kemur við sögu á stöku stað.

Blýengillinn er skemmtilega samansett ljóðabók – hlutarnir tveir, þótt ólíkir séu, kallast fallega á og báðir fara lesandann með sér í ferðalag um kunnuglega borg, sem í sýn Óskars Árna er ljóðum stráð.[/x_text]

Um höfundinn
Gunnþórunn Guðmundsdóttir

Gunnþórunn Guðmundsdóttir

Gunnþórunn Guðmundsdóttir er prófessor í almennri bókmenntafræði. Rannsóknasvið hennar eru sjálfsævisögur á síðari hluta 20. aldar og 21. öld, minnis- og trámafræði í bókmenntum, ljósmyndir í skáldskap og æviskrifum, samtímabókmenntir, spænskar og franskar bókmenntir. Sjá nánar

[x_text][fblike][/x_text]

Deila