[container]
Í morgun, miðvikudaginn 1. apríl, birtist í fréttum nokkuð sem flestir hafa trúlega álitið vera aprílgabb. Það að sama frétt birtist hinsvegar í fleirum en einum fjölmiðli bendir þó til þess að svo sé ekki, þótt mörgum þyki hún með því ósennilegra sem birst hefur undanfarin ár. Fréttin fjallar um það að ríkisstjórnin sé að tillögu Sigmundar Davíðssonar með áform um að láta reisa viðbyggingu við Alþingishúsið eftir aldargömlum teikningum Guðjóns Samuelssonar arkítekts, hugmyndum sem ekki tókst að koma í framkvæmd á sínum tíma árið 1918. Þetta er sérkennileg hugmynd sem er verulega úr takt við góðar hefðir í byggingarlist 21. aldar. Segja má að gerð slíkrar byggingar í samtíðinni fæli í sér afar sérkennilega afstöðu til menningarsamhengis fortíðar, nokkuð sem væri helst í ætt við skipulag bygginga í Disneyland eða Las Vegas í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Ef verkið kæmi til framkvæmda mætti í kjölfarið leggja til að Alþingisreiturinn yrði kallaður »Alþingisland«.Teikningar þær sem Guðjón gerði af viðbyggingu við Alþingishúsið voru meðal fyrstu verka hans eftir að hann lauk námi frá listaakademíunni í Kaupmannahöfn. Byggingin er áhugaverð í tengslum við listferil Guðjóns, en það er hins vegar fjarri sönnu að hún sé »eitt fegursta hús« hans eins og lesa má í tilvísun í tillögu forsætisráðherra. Teikningin að viðbyggingunni er þvert á móti áhugaverð vegna þess hversu ófrumleg hún er í samanburði við það sem Guðjón teiknaði síðar. Hún er í heild sinni afar »ó-íslensk« og ber þess greinilega merki að Guðjón var ennþá undir sterkum áhrifum frá lærimeisturum sínum í Kaupmannahöfn; þetta er þungur og svipmikill konunglegur arkítektúr í stíl sem sjá má víða í hinni gömlu höfuðborg íslendinga. Sem slík, ef hún væri byggð nú, yrði hún í táknrænu tilliti sérkennilegur minnisvarði um lokatímabil danskra áhrifa á Íslandi.
Stíll Guðjóns þróaðist hratt eftir að hann lauk námi í Danmörku. Í upphafi gerði hann tilraunir með upphafinn konunglegan stíl, eins og sést í þinghústillögunni og hugmyndum hans um háborg íslenskrar menningar á Skólavörðuholtinu. Fljótlega efldist þó sjálfstæði hans og þróaðist þá stíll hans yfir í það sem hann var þekktastur fyrir síðar á ævinni, yfir í sterkar og svipmiklar byggingar sem byggðu á klassískum mælikvarða en einföldum og sterkum formum. Þennan stíl Guðjóns má sjá greinilega í byggingum eins og aðalbyggingu Háskóla Íslands, Þjóðleikhúsinu, Laugarneskirkju og Reykholtsskóla í Borgarfirði. Þessi stílhreinu verk Guðjóns bera honum best merki; þau lýsa sterkri þekkingu á formáherslum nútímabyggingarlistar en eru jafnframt vel tengd við formhugsun og áherslur klassískra hefða. Í ungæðislegu verki eins og viðbyggingunni við Alþingishúsið gætir þessara persónueinkenna Guðjóns hins vegar ekki enn. Þessvegna yrði það að reisa þessa byggingu eða aðra í hennar stíl síst til þess að halda minningu Guðjóns á lofti. Öllu líklegra væri að hann sneri sér við í gröfinni ef hann frétti af því að ætti að reisa byggingu út frá ófullgerðum og úreltum æskuhugmindum sínum.
Ef forsætisráðherra hefur í raun og veru áhuga á því að sýna Guðjóni og minningu hans virðingu, þá legg ég fremur til að hann birti það í verki með því að láta ljúka við eina af mest áberandi byggingum Guðjóns í borginni, Landakotskirkju. Frá styrjaldarlokum hefur ekki verið hægt að reisa turnspíruna sem Guðjón ætlaði að kóróna það verk vegna þess að hún ógnar aðflugi að Reykjavíkurflugvelli.
En, vonandi eru þessar hugmyndir bara gott aprílgabb.
Ljósbrot í táradalnum
12. September, 2024Íslendingaþættir á ítölsku
14. June, 2024Saga alþýðukonu og ögrandi kvenskörungs
7. June, 2024Deila
[/container]