Íslendingaþættir á ítölsku

L‘islandese che sapeva raccontare storie, e altri racconti medievali. A cura di Silvia Cosimini. Illustrazioni di Marianna Bruno. Milano: Iberborea 2024. ISBN 978-88-7091-794-9. Þýðingin er styrkt af Bókmenntamiðstöð.

Ásdís Egilsdóttir, prófessor emeritus í íslenskum bókmenntum við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, fjallar um bókina L‘islandese che sapeva raccontare storie, e altri racconti medievali.

Silvia Cosimini er ítölsk fræðikona og þýðandi. Hún lauk prófi í germönskum og norrænum fræðum við háskólann í Flórens. Silvía bjó í fjögur ár á Íslandi og lauk þá prófi í íslensku sem öðru máli frá Háskóla Íslands. Þar að auki hefur hún lagt stund á þýðingafræði. Hún hefur verið mikilvirkur þýðandi og þýtt bæði íslenskar miðaldabókmenntir og  höfunda 20. og 21. aldar. Hún fékk virt verðlaun árið 2011 fyrir þýðingar síðar frá ítalska menningarmálaráðuneytinu. Árið 2019 fékk hún heiðursviðurkenninguna Orðstír, sem forseti Íslands veitir annað hvert ár fyrir þýðingar á erlendar tungur.

Í þessari nýútkomnu bók birtast vinsælar og vel kunnar frásagnir, Auðunar þáttr vestfirzka, Brands þáttr örva, Egils þáttr Síðu-Hallssonar, Hreiðars þáttr heimska, Íslendings þáttr sögufróða, Ívars þáttr Ingimundarsonar, Sneglu-Halla þáttr, Þorgríms þáttr Hallasonar ok Bjarna Gullbrárskálds, Þorvalds þáttr tasalda, Ögmundar þáttr dytts ok Gunnars helmings, Þorsteins þáttr forvitna, Óttars þáttr svarta, Þorsteins þáttr skelks. Þýðingin er lipur og skemmtilegar myndskreytingar listakonunnar Mariönnu Bruno eiga sinn þátt í að gera bókina mjög aðlaðandi.

Bókin er ætluð áhugamönnum. Silvia Cosimini ritar stuttan inngang þar sem hún gerir grein fyrir þáttum og einkennum þeirra. Þær frásagnir sem þarna birtast í ítalskri þýðingu hafa oft verið gefnar út stakar, bæði á íslensku og í erlendum þýðingum. En eins og Ármann Jakobsson hefur rækilega rakið í bók sinni Íslendingaþættir: saga hugmyndar (Studia Islandica 63, 2014),  þá er hugmyndin um sjálfstæða Íslendinga ung og verður rakin til útgáfuhefðar. Áhrifamestar voru útgáfur Þórleifs Jónssonar (Fjörutíu Íslendinga-þættir (1904) og Guðna Jónssonar  ( Íslendinga þættir (1935). Þá voru þættirnir gefnir út sem sjálfstæðar einingar í ritröðinni  Íslenzk fornrit. Ekki er hægt að útiloka að frásagnir á borð við þætti hafi upphaflega verið sjálfstæðar, munnlegar sögur. En í miðaldahandritum eru þeir hluti af heild og hafa varðveist þannig í konungasagnahandritunum Morkinskinnu, Huldu-Hrokkinskinnu og Flateyjarbók. Þar gegna þeir einkum því hlutverki að varpa ljósi á konungsvaldið og konunginn, og samband konungs og íslenskra þegna hans. Að kalla þessar frásagnir Íslendingaþætti er villandi og þjóðhverft því konungurinn er jafn mikil aðalpersóna og Íslendingurinn, ef ekki meiri. Þetta hefur Ármann Jakobsson fjallað um í doktorsriti sínu (Staður í nýjum heimi: konungasagan Morkinskinna, 2002) og víðar. En því verður ekki á móti mælt að þættirnir eru vel til þess fallnir að vekja áhuga á íslenskum miðaldabókmenntum og þakkarvert að þeir séu kynntir fyrir lesendum úti í heimi,  eins og Silvia Cosimini gerir. Hún leggur áherslu á mikilvægi þáttanna sem góðrar frásagnarlistar sem því að velja bók sinni titilinn L‘islandese che sapeva raccontare storie, eða Íslendingurinn sem kunni að segja sögur. Titillinn vísar til Íslendingsins sögufróða, sem sagt er frá í samnefndum þætti. Hann skemmti hirð Haralds harðráða með sögum. Með því að velja bókinni þennan dregur  Silvia Cosimini fram sagnaskemmtun og frásagnarlist,og gerir að markmiði bókarinnar.

Ásdís Egilsdóttir, prófessor emeritus í íslenskum bókmenntum við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.