Dansað eins og vindurinn

[container]

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

 Billy Elliot var afskaplega fagleg og glæsileg sýning! Ég held ég hafi sjaldan eða aldrei orðið vitni að öðrum eins fagnaðarlátum á sýningu. Þakið ætlaði af Borgarhúsinu á föstudagskvöld.

Billy Elliot

Mjög margir, kannski flestir, hafa séð bíómyndina um Billy Elliot sem Stephen Daldry leikstýrði.  Upphaflega var sagan af Billy leikrit, svo saga, svo bíómynd árið 2000 og loks söngleikur árið 2005, líka í leikstjórn Stephen Daldry í London. Hvað er svona ómótstæðilegt við þessa sögu?

Hún segir frá ellefu ára dreng, Billy. Hann er sonur námuverkamannsins Jackie (Jóhann Sigurðarson), móðir hans er dáin (Jóhanna Vigíds Arnardóttir) en á heimilinu býr eldri bróðirinn Tony (Hilmir Jensson) og amma Billy (Sigrún Edda Björnsdóttir).  Það er aðeins ár frá dauða móðurinnar svo allir eru í sárum, mest kannski faðirinn sem nær ekki áttum og Billy sem er á mjög viðkvæmum aldri og sker sig úr hópi annarra barna á ýmsa vegu. Þegar hann byrjar að dansa ballett hjá frú Wilkinson (Halldóru Geirharðsdóttur) verður það áfall aldarinnar fyrir námuverkamennina, föður hans og bróður, og þeir óttast mjög að hann verði grunaður um að vera hommi. Þeir reyna með ráðum og dáð að stoppa ósköpin. Frú Wilkinson sem hefur kennt Billy af óbilandi trú á hæfileika hans heldur áfram að styðja hann og þjálfa. Fyrir hennar tilstilli fer hann í inntökupróf í Konunglega ballettskólanum í London og kemst inn.

Sagan af Billy Elliot er þannig sigursaga um móðurlausan dreng sem rís uppúr lægstu lágstétt upp í ríki fegurðar og sköpunar. Þess vegna er hún ómótstæðileg en ekki bara þess vegna.

Margaret Thatcher – milk snatcher!

Samfélag námuverkamannanna er mjög hreinræktað karlmannasamfélag. Karlarnir sækja kolin niður í iður jarðar, starfið er hættulegt, ekki nema á hraustra manna færi og verkalýðshetjurnar eru jafnframt framfærendur fjölskyldna sinna. Staða kvenna er undirskipuð körlum og ekki orð um það meir. Þeir fara á krárnar, þær passa börnin. Karlveldi af þessu tagi óttast ekkert meira en kvengervingu og allt slíkt er bælt og/eða gert brottrækt. Sá sem er grunaður um að vera hommi má búast við félagslegri fordæmingu. Besti vinur Billys er greinilega fyrir stráka og í ljósi hörkunnar í samfélagi hans var klæðskiptingasena þeirra Billys í ótrúlegri kantinum enda raunsæisrammi sýningarinnar rofinn  í sýningunni og ævintýrið tekur við í hinsegin skrautsýningu og gleðigöngu.  Viðbrögð föðurins við dansdraumum Billy mótast bæði af óttanum um (karl)mannorð stráksins en kannski ekki síður af óttanum við eigin eymd og getuleysi til að lifa án konu sinnar.

Verkfallið mikla, sem byrjar svo vel, tapast. Margaret Thatcher, fékk viðurnefnið „mjólkurþjófur“ þegar hún tók ókeypis mjólk af grunnskólabörnum árið 1971. Hún og ríkisstjórn hennar létu hart mæta hörðu og átök lögreglu og verkamanna urðu afar ofbeldisfull og kostuðu þrjú mannslíf. Þarna urðu dramtísk hvörf í sögu Bretlands. Ríkisvæðing verkamannaflokksins á mikilvægum rekstri eins og námarekstrinum og félagslegri þjónustu var grundvöllur breska velferðarkerfisins. Verkalýðshreyfingin hafði orðið æ sterkari en 1985 laut  hún í gras  fyrir nýfrjálshyggju Thatcher og gróðastefnu íhaldsflokksins. Gríðarlegur fjöldi manna missti vinnuna þegar fjölda náma var lokað. Verkfallið stóð  yfir í ár og á því ári misstu menn trúna á að baráttan væri til einhvers og það skipti sköpum að almenningsálitið var hvorki með verkalýðshreyfingunni né verkfallinu. Þetta er bakgrunnur sögunnar af Billy Elliot.

Vonleysi og mannvonska gróðahyggjunnar ætlar að setjast í sálina og það er þess vegna sem verkamennirnar slá saman í ferð Billys til London í von um að hann komist áfram og upp. Þessu er mjög vel til haga haldið í sýningu Borgarleikhússins; karnivalisminn í baráttusenum fyrri hlutans víkur fyrir drunga undanhaldsins í seinni hlutanum en þá skapast líka þörfin fyrir Billy Elliot og þess vegna skjóta verkamennirnir saman til að fjármagna ferð hans í inntökuprófið. Klisja eða klassík? Sögulokin koma manni allavega í gott skap.

Fagmennska og leikgleði

billy2
Frú Wilkenson kennir danshópnum.

Sýningin er mikið sjónarspil, glæsileg, skemmtileg og í henni eru gullfallegar senur eins og senan þar sem Billy dansar við fullorðinn dansara sem speglar hann, hann er sá dansari sem Billy dreymir um að verða, og lyftir honum á flug í orðsins fyllstu merkingu. Það var mjög fallegt. Á frumsýningunni  dansaði Sölvi Viggósson Dýrfjörð hlutverk Billys og gerði það af öryggi og innlifun. Hlutverkið krefst þess að hinn ungi leikari geti leikið, sungið og dansað í ólíkum stíltegunum, stepp, búggí og ballett. Sölvi stóð sig mjög vel. Auk hans munu Hjörtur Viðar Sigurðarson og Baldvin Alan Thorarensen dansa hlutverk Billys og satt að segja gæti ég vel hugsað mér að sjá þá alla!

Halldóra Geirharðsdóttir er hætt að koma manni á óvart með líkamlegri tjáningu, næmi í leik og glæsibrag og hún dansaði búggí eins og hún væri sautján ára. Í stórum hópsenum var teflt saman og/eða blandað ógnandi lögreglumönnum með skildi og kylfur, baráttuglöðum námuverkamönnum  og ballettdanshópnum hennar Wilkinson. Hópsenurnar voru afar vel útfærðar hjá stórum hópi dansara og skiptingar voru faglegar og öruggar en það er þríeyki Lee Proud, Chantelle Carey og Elizabeth Greasley sem heldur utan um dansinn en í þjálfunarhóp strákanna þriggja, Billyskólanum, voru níu manns!

Það er ekki hægt annað en nefna senuþjófinn Sigrúnu Eddu Björnsdóttur í hlutverki ömmunnar þar sem Sigrún sýndi hvílík gamanleikjaleikkona hún er auk verulega fallegra sena með Billy. Jóhann Sigurðarson var bæði harkalegur og blíður sem Jackie og átökin á milli hans og Tony, eldri sonarins og eftirmyndar, voru sterk og áhrifamikil.  Svo margir koma að þessari sýningu, tugir listamanna, að það er ekki hægt að hæla öðrum leikurum, dönsurum og tónlistarmönnum sem vert væri. Ekki heldur frábærum búningum, forkunnar fínni ljósahönnun, leikmynd og myndbandavinnslu Petr Hloušek o.s.frv. Þetta var bara í alla staði flott sýning!

Blautir vasaklútar….

Stundum spyr maður sig hvort ekki sé komið upp úr einhvers konar þaki af tilfinningasemi í söngleikjaforminu. Þetta er eins og draugalega tónlistin í hryllingsmyndum, maður veit að nú er ekki von á neinu góðu, og sama gildir um sírópstónana sem boða að nú sé það upp með vasaklútinn. Ég var orðin ansi hrjáð undir senum sem tengdust hinni dánu móður í söngleiknum. Tónlist Elton John bætti umtalsvert við raunir mínar.

En þegar upp er staðið skiptir það ekki máli því að leikhússupplifunin var góð. Sagan sem sögð er snýst um hugrekki, baráttu og þrá eftir betra lífi, en fyrst og fremst um það að halda voninni lifandi.  Takk fyrir það.

Deila

[/container]