Eldflaug og Eldbarn

[container]

Um höfundinn
Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir er prófessor emeríta í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Sjá nánar

Það er mikið framboð á barnasýningum í vetur og  margar eru þær afar góðar og leiða börnin á fallegan hátt inn í töfraheim leikhússins.

Kuggur, Málfríður og mamma hennar

Þegar sýningunni á Kugg og leikhússvélinni lauk hrópaði fimm ára fylgdarmaður minn: Meira! Þegar það virkaði ekki sagði hann lægra í eins konar tilraun til málamiðlunar: Aftur? Hann lifði sig mjög inn í sýninguna og það sama gerðu hin börnin sem féllu fyrir Kuggi, Málfríði og mömmu hennar í Kúlunni, barnasviði Þjóðleikhússins.

kuggurSýningin er stutt og fremur einföld en afar fagmannlega unnin. Á sviðinu er leikhússvél, eins konar turn sem Málfríður hefur fundið upp og er þeirrar náttúru að þeir sem fara inn í hana koma út úr henni í leikhlutverki. Krakkarnir hlógu sig máttlausa þegar Kuggur fór í vélina og kom út sem Lilli klifurmús. Málfríður hallaði  svo turninum og setti sólhlíf framan á hann og þá breyttist hann í eldflaug en þessi og önnur  makalaus ævintýri voru í boði Sigrúnar Eldjárn og glöddu bæði ungar og gamlar sálir. Leikmyndina  gerði Högni Sigurþórsson og búninga  Leila Arge en leikgervi alls konar fígúra, skrímsla og geimvera, voru í höndum Guðrúnar Erlu Sigurbjarnardóttur. Það er meira en að segja það að taka hinar vel þekktu persónur Kuggsbóka Sigrúnar og  gefa þeim nýtt líf á sviðinu.

Kuggur var leikinn af Gunnari Hrafni Kristjánssyni sem lék hann af ótrúlega miklu öryggi og þokka þó ungur sé, framsögn var stórfín og dans sömuleiðis. Mamma Málfríðar var Ragnheiður Steindórsdóttir sem brá sér í allra kvikinda líki, kattliðugt skrímsli og eldri dama á víxl, Málfríði, uppfinningamann og anarkista og besta vin Kuggs, þarf ekki að kynna fyrir gömlum aðdáendum bókanna.  Hana lék Edda Arnbjörnsdóttir af miklu öryggi. Gauti Einarsson sá um tónlistina en enginn er skráður fyrir dansinum sem var skemmtilegur og fékk minn unga leikhússvin til að taka sporið undir lokin, leikurunum til samlætis. Þórhallur Sigurðsson leikstýrir, sýningin var vel skilgreind fyrir yngsta áhorfendahópinn en samt enginn afsláttur gefinn, málið á leikritinu var til dæmis mjög vandað. Þetta var fagmannleg og bráðskemmtileg sýning fyrir yngri börnin.

Eldurinn

Daginn eftir fór ég með eldri aðstoðarleikdómara (Unu, 11 ára) að sjá Eldbarnið hjá Möguleikhúsinu í Tjarnarbíói. Pétur Eggerz skrifaði verkið sem segir frá Skaftáreldum 1783, séð með augum stúlkubarnsins Sólveigar. Verkið lýsir hörmungunum sem yfirféllu Vestur Skaftafellssýslu fyrst og svo landið allt (og heiminn – ef út í það er farið). Þessu hryllilega gosi fylgdi eitrað gas, aska og mengun, horfellir búpenings, sultur og afmennskun örbjarga fólks sem fór um ruplandi og rænandi. Það var ekki öfundsvert að vera til og sannarlega ekki að vera munaðarlaust barn á þessum tímum.
Miklu efni er lýst er í stuttum senum í Eldbarninu og að mati okkar Unu, var það vel gert og grípandi. Sigrún Valbergsdóttir leikstýrir en í söguleikriti sem þessu þarf að kynda mjög  undir sýningunni, ef svo má að orði komast, til að hún nái til ungra áhorfenda, haldi athygli þeirra gegnum mikinn texta og byggi jafnframt upp samlíðan með persónum. Til þess að endurskapa náttúruhamfarir og flótta fólks eru notuð leikhljóð, reykur og fáeinir leikmunir, kassar, sem færðir eru stöðugt til að byggja upp nýjar leikmyndir; brekkur, baðstofur, báta, kot, stórbýli og kirkjur. Það var áhrifaríkt en Guðrún Øyahals gerir leikmynd og búninga og byggir brýr milli samtíma og fortíðar. Skiptingarnar eru hraðar, fullmargar að vísu því  hlutverkaskipti eru líka tíð en þetta rann allt vel.

Andrea Ösp Karlsdóttir lék  Sólveigu, nútímastúlku sem lifir sig inní hlutverk langa, langa, langa, langa, langömmu sinnar Sólveigar. Hún þurfti að spanna mikið tilfinningasvið og dramatíska reynslu og gerði það vel. Pétur Eggerz leikur öll karlhlutverkin frá Jóni Steingrímssyni, hálfdýrlingi, til öldunga, þjófa og betlara og bestur þótti mér hann í hlutverki óþokkans sem rænir barninu til að láta það betla. Alda Ólafsdóttir lék öll kvenhlutverkin, móður Sólveigar, prests-og yfirstéttarfrúr, illþýði og tannlausan betlara.  Það var hvergi dauður punktur í sýningunni nema í bláendinum þar sem lærdómur af eldinum var dreginn saman. Eldbarnið er dramatísk og vel unnin sögustund, skemmtileg og áhrifarík og  hentar vel sem skólasýning að auki.

Deila


[/container]