Um Nýja sögu hugvísinda

[container]

Um höfundinn
Eiríkur Smári Sigurðarson

Eiríkur Smári Sigurðarson

Eiríkur Smári Sigurðarson er rannsóknarstjóri á Hugvísindasviði Háskóla Íslands. Hann kennir forngrísku og heimspeki við Háskóla Íslands og Menntaskólann í Reykjavík. Sjá nánar

Hugvísindasvið er eitt af fimm sviðum Háskóla Íslands. Sviðinu er skipt upp í fjórar deildir sem skiptast aftur upp í námsbrautir. Innan námsbrauta eru kennd mörg fög. Þeir sem nema og starfa innan Hugvísindasviðs kenna sig almennt ekki við sviðið heldur við námsbraut eða deild. Fólk er í sagnfræði, guðfræði, íslensku, norsku eða einhverju öðru fagi en ekki í hugvísindum. Sama gildir um önnur svið háskólans. Fólk er ekki í heilbrigðisvísindum heldur í læknisfræði eða lyfjafræði. Enginn kennir sig við verk- og náttúruvísindi heldur við jarðfræði eða stærðfræði eða eitthað annað fag. Þegar skipulag háskóla annars staðar í heiminum er skoðað verður myndin enn óljósari því það sem telst til hugvísinda á Íslandi gerir það ekki alltaf annars staðar. Fornleifafræði er t.d. alls ekki alltaf hluti af hugvísindum í skipulagi háskóla. Mannfræði og þjóðfræði, sem tilheyra félagsvísindum á Íslandi, eru hins vegar oft hluti hugvísinda og sálfræði, sem við HÍ er innan Heilbrigðisvísindasviðs en var áður hluti af Félagsvísindasviði, er sums staðar meðal hugvísinda. Guðfræði er sjaldnast hluti af hugvísindum, eins og tilfellið er í Háskóla Íslands. Mörkin milli hugvísinda og annarra fagsviða eru því alls ekki augljós eða sjálfgefin. Það er ekki bara í skipulagi háskóla sem „hugvísindi“ eru notuð til afmörkunar heldur líka hjá rannsóknaráðum (Rannsóknasjóður hjá Rannís er t.d. með sérstakt fagráð fyrir hugvísindi) og víða um heim eru  sjálfstæðar rannsóknaáætlanir og stofnanir fyrir hugvísindi. Á Íslandi er Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Þjóðminjasafnið, Reykjavíkurakademían og fleiri. Í Bandaríkjunum National Endowment for the Humanities. Í tengslum við Sjónarrönd 2020 (Horizon 2020), rammaáætlun ESB um rannsóknir og nýsköpun, er rekið rannsóknanet í hugvísindum kallað HERA. Í mörgum löndum eru sérstök rannsóknaráð fyrir hugvísindi. „Hugvísindi“ skipta því talsverðu máli fyrir skipulag rannsókna og kennslu en það er ekki augljóst hver kjarnann í merkingu hugtaksins er eða hvort það eigi sér yfirhöfuð einhvern kjarna. Í nýlegri bók um gildi hugvísinda skilgreinir Helen Small þau svo: „The humanities study the meaning-making practices of human culture, past and present, focusing on interpretation and critical evaluation, primarily in terms of the individual response and with an ineliminable element of subjectivity.“[1] Hún viðurkennir að þetta sé mjög almenn skilgreining en telur allar tilraunir til að skilgreina þau nánar útiloka eina eða fleiri greinar hugvísindanna. Almennari skilgreining, eins og að hugvísindi „rannsaki tjáningu mannshugans“, hleypir hins vegar of miklu inn, t.d. stærðfræði (sem er þekkt umdæmisvandamál fyrir skilgreiningu á hugvísindum).

Í einhverjum skilningi hafa hugvísindi alltaf verið til en „hugvísindi“ sem afmarkað fyrirbæri sem við getum kallað þessu nafni eru nýleg. Elsta skráða notkun orðsins í ritmálssafni Orðabókar Háskólans er frá því upp úr miðri 20. öld. Íslenska orðið virðist tilkomið sem þýðing á humaniora eða humanities, sem höfðu einmitt nýlega verið tekin upp sem nöfn á því sem við í dag flokkum undir hatti hugvísinda í háskólum og rannsóknastofnunum.[2] Á 19. öld var þýska orðið Geisteswissenschaft notað á svipaðan hátt [3] og í Englandi og Skotlandi voru moral sciences og moral philosophy sambærileg safnheiti frá 18. öld og áfram. Það má rekja þessa sögu lengra aftur og skoða skipulag háskóla aftur til miðalda og hvernig þekkingin var flokkuð eftir eðli og aðferðum og jafnvel allt aftur til fornaldar, til Aristótelesar og flokkunaráráttu hans.[4] En það er erfitt að finna hugvísindin í þessari sögu. Heimspeki, guðfræði, sagnfræði, málvísindi og ýmislegt fleira er til en ekki hugvísindi. Um miðja 20. öld eru náttúruvísindi af ýmsu tagi hins vegar að ryðja sér til rúms innan háskóla, eðlisfræðin verður drottning vísindanna og „hugvísindin“ skilgreina sig í vörn og andstöðu við innreið þeirra.[5]

Ef við beinum sjónum að viðfangsefnum hugvísinda þá er ljóst að  þau eiga sér langa sögu. Maðurinn hefur lengi fengist við fortíð sína, bókmenntir, tónlist, tungumál og fleira sem hugvísindin fást við. Það mætti jafnvel halda því fram að hugvísindin væru hin upprunalegu vísindi (þ.e. heimspekin, ein af greinum hugvísindanna) og að öll önnur vísindi og fræði hafi orðið til sem angar hugvísinda sem smám saman öðluðust sjálfstæði. Úr heimspekilegum vangaveltum um uppruna og eðli heimsins varð eðlisfræðin til. Úr sambærilegum pælingum um eðli talna varð stærðfræðin til. O.s.frv. Þessi saga er vissulega falleg en hún hljómar meira eins og ævintýri en alvöru greining. Þegar Þales (eða Hesíodos eða einhver annar) hóf að velta fyrir sér uppruna og eðli heimsins þá var ekkert til sem hét hugvísindi eða heimspeki eða eðlisfræði og því má alveg eins halda því fram að hugvísindin hafi orðið til úr eðlisfræði eins og eðlisfræðin úr heimspeki. Þetta er innihaldslítill leikur að orðum.

Er þá einhver leið að skrifa sögu hugvísinda? Rens Bod gerir tilraun til að segja sögu hugvísinda frá upphafi skrifmenningar út frá skilgreiningu á eðli hugvísinda frekar en þeim hugtökum og skilgreiningum sem fólk hefur notað í gegnum aldirnar.[6] Þetta er hetjuleg tilraun – sagan spannar allan heiminn í næstum 3000 ár. Bod vill ekki nálgast hugvísindin sem huglægt fyrirbæri með skilning mannsins á eigin merkingarbæru verkum sem meginviðfangsefni (sbr. skilgreining Small hér að ofan). Hann nálgast hugvísindin í staðinn á empírískan hátt og lítur á þau sem aðferð til að finna reglu og mynstur í því sem maðurinn gerir. Kjarni hugvísinda er ekki skilningur mannsins heldur verkin sem hann lætur eftir sig. Til að finna reglu og mynstur beita hugvísindin, skv. Bod, ákveðnum aðferðum (eða forsendum). Það sem bindur hugvísindi allra tíma og allra staða saman er leit að aðferðum og mynstrum í því sem maðurinn gerir og hefur gert („ … the quest for principles and patterns in the humanities is a continuous tradition.“ bls. 7). Hann lýsir markmiði bókarinnar svo: „Thus as a whole, this book is about the history of the methodological principles that have been developed and the patterns that have been found in the study of humanistic material (texts, languages, literature, music, art, theatre, and the past) with these principles.“ (bls. 9; sjá líka bls. 353).

Til að skilja hvað Bod á við er ágætt að taka dæmi. Kafli 2.2 fjallar um söguritun í fornöld og þar tekur hann Heródótos og Þúkýdídes fyrir sem upphafsmenn sögunnar. Þeir voru ólíkir en áttu sameiginlegt að beita aðferðum sem sýndu fram á mynstur í viðfangsefninu. Aðferð Heródótosar var að treysta líklegustu heimildinni („ … the most probable source principle“ – bls. 22) en aðferð Þúkýdídesar var að notast bara við sjónarvotta – sig sjálfan eða aðra („ … the eywitness account principle“ – sama síða). Báðir komust að sömu niðurstöðu um mynstur í viðfangsefninu, þ.e. sögunni sjálfri, sem þeir sáu sem endurtekna hringrás („They both believed they had recognized a cyclical pattern in history“ – bls. 23). Aðferðin leyfir Bod vissulega að finna samsvaranir milli staða í heiminum og samfellu í sögunni en kostnaðurinn er mikill. Þessi túlkun á upphafi og eðli sagnaritunar er grótesk einföldun á verkum þessara sagnaritara og einfaldlega ósönn um Þúkýdídes, sem sá reglu í sögunni en enga hringrás. Bókin er þessu marki brennd.

Bod tekur skýra afstöðu gegn annarri nálgun (í neðanmálsgrein 17 á bls. 6) eða þeirri að ganga út frá skilningi iðkendanna sjálfra og þeim hugtökum sem þeir notuðu til að lýsa og skilgreina það sem þeir voru að gera (í anda þess sem hefur verið nefnt „Cambridge hugmyndasaga“). Þetta er aðferð Geoffrey Lloyd í Disciplines in the Making.[7] Hér gerir hann tilraun til að greina hvernig fög eins og heimspeki, læknisfræði, stærðfræði og fleiri urðu til í deilum um yfirráð yfir þekkingu og hvaða áhrif fagvæðing (eða atvinnumennska) fræðanna hafði. Hann fjallar því alls ekki um  almenna flokka eins og hugvísindi í verki sínu enda gengi slík tilraun ekki upp miðað við aðferðina. Hugvísindin urðu fyrst til þegar einhverjum fannst ástæða til að greina þau sem heild frá öðrum stórum sviðum þekkingarleitar. Fyrstu skrefin í þá átt eru tekin á 19. öld og á þeirri 20. eru hugvísindi fest í sessi sem hluti af skipulagi háskóla og rannsóknastofnana. Tilraun eins og sú sem Bod gerir endar á yfirborðslegri greiningu sem bætir engur við það sem við þegar vitum um sögu einstakra greina hugvísindanna og það sem hann bætir við um almenna sögu hugvísinda er því miður of yfirborðskennt til að skipta máli. Tilraunin er djörf og lærdómsrík en hún mistekst.

[1] Small, Helen. (2013). The Value of the Humanities. Oxford: Oxford University Press: 23.

[2] Collini, Stefan. (2012). What Are Universities For? London: Penguin Books: 63. Heimspeki hafði mun almennari merkingu sem líkist merkingu hugvísinda megnið af 20. öld, enda hét Hugvísindadeild HÍ lengst af Heimspekideild.

[3] Sérstaklega hjá Wilhelm Dilthey í Einleitung in die Geisteswissenschaften: Versuch einer Grundlegung für das Studium der Gesellschaft und der Geschichte, 1883, en orðið er þekkt frá seinni hluta 18. aldar.

[4] Sjá yfirlit yfir sögu háskóla hjá Sverri Jakobssyni (2011). „Háskólar. Valdastofnanir eða viðnámsafl?“, Ritið 1/2011: 77-90.

[5] Collini, bls. 63.

[6] Bod, Rens. (2013). A New History of the Humanities. The Search for Principles and Patterns from Antiquity to the Present. Oxford: Oxford University Press.

[7] Lloyd, Geoffrey E. R. (2009). Disciplines in the Making. Cross-Cultural Perspectives on Elites, Learning, and Innovation. Cambridge: Cambridge University Press.

Deila

[/container]