Vantrú um barnaníð

Í Fræði, Trúarbrögð höf. Bjarni Randver Sigurvinsson

 
Um höfundinn
Bjarni Randver Sigurvinsson

Bjarni Randver Sigurvinsson

Bjarni Randver Sigurvinsson er guðfræðingur og trúarbragðafræðingur. Rannsóknarsvið hans eru trúarhreyfingar á Íslandi og trúarstef í kvikmyndum. Hann hefur sem stundakennari kennt fjölda námskeiða á sviði trúarbragðafræða við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ og Háskólann á Bifröst.

Matthías Ásgeirsson, einn helsti forystumaður félagsins Vantrú frá upphafi, gefur í skyn í athugasemd í umræðuþræði undir grein minni „Mikilvæg ákvörðun siðanefndar“ á Hugrás að það sé ofsagt að halda því fram að vantrúarfélagar hafi „ótal sinnum kallað þá barnaníðinga sem miðla trú til barna og unglinga á þeirri forsendu að slíkt sé barnaníð“. Hann spyr: „Hversu oft er “ótal sinnum”?“

Hér fyrir neðan tilgreini ég nokkur dæmi (langt frá því öll) sem varpa ljósi á með hvaða hætti vantrúarfélagar ræða þessi efni. Dæmin eru frá margra ára tímabili og eru sótt til forystumanna Vantrúar eða yfirlýstra félagsmanna og eru þau ýmist af vef félagsins eða bloggvefjum og Facebook veggjum þeirra. Fjórir af fimm stofnendum Vantrúar eru Matthías Ásgeirsson, Birgir Baldursson, „Frelsarinn“ og „Aiwaz“ en Matthías og Birgir hafa jafnframt báðir verið formenn félagsins og gegnt margvíslegum öðrum ábyrgðarstöðum fyrir það. Heimili Matthíasar hefur árum saman verið skráð aðsetur félagsins. Þórður Ingvarsson var ritstjóri vefs Vantrúar og í stjórn félagsins í allmörg ár. Kári Svan Rafnsson og Magnús S. Magnússon rannsóknarprófessor við Háskóla Íslands hafa báðir lýst því yfir að þeir séu félagsmenn í Vantrú og sendi sá síðarnefndi meira að segja bréf á alla starfsmenn háskólans 15. desember 2011 þar sem hann áréttaði þessa félagsaðild sína.

Í grein sinni „Berjum presta“, sem Matthías Ásgeirsson birtir á bloggi sínu Örvitanum 26. júlí 2005, segir hann:

Þegar ég sé skrif eins og þessi, eftir Guðmund Guðmundsson, héraðsprest í Eyjafjarðarprófastsdæmi, sem Hjalti vísaði mér á, langar mig einna mest að hætta öllu þessu rugli og lumbra bara örlítið á prestfíflunum. […] Afsakið meðan ég æli yfir kirkjunnar hyski. […] Þetta finnst þeim sjálfsagt. Bara hið besta mál, jafnvel þó níðingurinn játi að börn séu „hættulega leiðitöm, trúgjörn og grandalaus“. Þá er einmitt rétti tíminn, að mati prestanna, til að ljúga að þeim. […] Það er allt í lagið að ljúga að börnum, því … æi fokkit, því þetta eru barnaníðingar. Hvað annað á að kalla fólk sem herjar á börn meðan þau eru „leiðitöm, hættulega leiðitöm, trúgjörn og grandalaus“? Djöfuls viðbjóður.

Degi síðar bætir Matthías svo þessu við á sama stað:

Ég var […] að reyna að sýna að ég væri brjálaður út í Guðmund og skoðanabræður hans. Þessa siðblindu trúmenn sem sjá ekkert athugavert við að heilaþvo „hættulega leiðitöm, trúgjörn og grandalaus“ börn. Þarna troða þeir inn trúarvírusnum sem langflestir losna aldrei við.

Birgir Baldursson birtir greinarstúf undir heitinu „Barnaklám“ á vef Vantrúar 9. mars 2006 þar sem hann bregst við ljósmyndum úr æskulýðsstarfi þjóðkirkjunnar. Þar segir hann:

Kirkjan sækir stöðugt í sig veðrið við að klæmast á hugum ófullveðja einstaklinga. Ætti þetta ekki að varða við lög?

Birgir bregst síðan við einni athugsemdinni með eftirfarandi orðum:

Prestarnir eru í þessu tilviki að níðast á hugum barnanna og taka svo myndir af öllu saman. Þetta eru því ekkert annað en klámmyndir og ég tek það nærri mér að horfa upp á þetta.

Í umræðum á ytra spjallborði Vantrúar 26. júlí 2006 talar Birgir um „það andlega barnaníð sem felst í að fylla huga saklausra barna af andstyggilegri lygaþvælu til að ánetja þau kennisetningum sem gera þau að viljugum hugsanaþrælum ævina á enda“. Ári síðar, 8. ágúst 2007, skrifar Birgir í umræðum um grein sína „Er nauðsynlegt að skjóta þau?“ á vef Vantrúar:

Í þessu tilliti er kirkjan eins og Hvalur 9, kominn af stað með skutulinn beinstífan í stafni, á leiðinni að skutla saklaus hvalabörn og draga viljalaus upp að skipshlið. Þess vegna spyr ég: „Er nauðsynlegt að skjóta þau?“, því það er nákvæmlega það sem kirkjan gerir, veiðir þessa hvali eins og ekkert sé sjálfsagðara. […] Og hvað er þá að fyrirsögninni, Doddi? Hélstu kannski að ég væri að hóta kirkjunnar fólki því að skjóta það ef það hætti ekki þessu barnaníði? Komm onn, ég er ekki villimaður.

Síðar á árinu, 26. nóvember, skrifar Birgir grein á vef Vantrúar undir heitinu „Fórnarlömb innrætingar“ þar sem m.a. segir:

Hryðjuverkamenn hugans og andlegir barnaníðingar. Þeir eru að sönnu til, en fráleitt eru allir trúmenn undir þá sök seldir. Þessi hugtök leyfði ég mér að nota um þá presta sem finnst verjandi að brengla huga ungra barna og sveigja að þeim kolgeggjuðu ranghugmyndum sem trú þeirra heldur á lofti. […] Hugtökin hryðjuverkamenn hugans og andlegt barnaníð eru auðvitað ekki falleg hugtök, það veit ég vel. En ég tel nauðsynlegt að tefla þeim fram til að varpa ljósi á þá meinsemd sem felur í sér að innræta saklausum börnum glórulausar hugmyndir bronsaldarmanna um heiminn.

Í grein sem „Frelsarinn“ birtir á vef Vantrúar 20. nóvember 2005 undir heitinu „Um barnaníðinga hugans“ segir strax í upphafi:

Með nýrri stefnumótun ríkiskirkjunnar streyma nú þjónar hennar út til að níðast á óhörðnuðum börnum. Engu er eirt í þessari sókn kirkjunnar í barnsálir og allt er lagt undir.

Matthías Ásgeirsson skrifar samdægurs eftirfarandi athugasemd við greinina: „Djöfull er þetta hressandi grein :-)“

Í umræðum á vef Vantrúar hefur „Aiwaz“ t.d. þetta að segja 10. mars 2006:

Auðvitað er þetta barnaklám og ekkert annað! Einhverjir sveittir krípí prestar með eitthvert smeðjutal við börnin, tæla þau í bænastellingar og læðast svo að þeim með myndavél til fá sér mynd í safnið. Kommon ef þetta er ekki barnaníð þá veit ég ekki hvað.

Og 8. nóvember það sama ár skrifar „Aiwaz“:

Við megum alveg sýna okkar tilfinningar þegar á okkur er ráðist því þessu krissaliði er skítsama um okkur og ætlar bara að vaða áfram eins og það kemst og fer svo að kjökra eins og móðgaðir ömmuprestar ef það fær mótstöðu í sínu barnaníði.

Þórði Ingvarssyni hefur sömuleiðis verið tíðrætt um barnaníð í tengslum við presta, einstaka nafngreinda fjölmiðlamenn, nafngreindan upplýsingafulltrúa stórfyrirtækis á Íslandi og jafnvel þá sem standa að einkavæðingu Orkuveitu Reykjavíkur á bloggvef sínum Anarkóbóhedónistinn Þórður Ingvarsson: Vefbók BlogDodd. Í greininni „Ég ætla að vísítera eitthvað helvíti“, sem birtist á bloggvefnum 23. ágúst 2007, spyr Þórður t.d. um Karl Sigurbjörnsson biskup: „Pedófílar hann barnaefni?“ Rúmum tveimur árum síðar, 24. september 2009, birtir Þórður síðan minningargreinina „Sirka 1 ár liðið…“ í tilefni þess að eitt ár var þá liðið frá andláti Sigurbjörns Einarssonar biskups en hluti hennar felst í leikþætti þar sem lýst er í smáatriðum ofbeldiskynlífssambandi hans á andlátsstundinni við son sinn Karl biskup. Þar er því haldið fram að Sigurbjörn hafi misnotað son sinn frá barnæsku.

Kári Svan Rafnsson hefur skrifað töluvert um þessi efni líka. Í umræðum á vef Vantrúar 2. ágúst 2004 segir hann:

Það mætti kalla þessa presta andlega barnaníðinga að mínu mati.

Nokkrum árum síðar, 5. júní 2007, skrifar Kári Svan á ytra spjallborði Vantrúar:

Trú er hrein heimska, þar sem að nota trú til að skilja veruleikan jafngildir að fara í þekkingafræðilegar ógöngur. Ég myndi vilja taka hart á slíkri innrætingu ófullveðja einstaklinga. Trúarinnræting myndi tilheyra sama flokki og barnaníð. Barnavernaryfirvöld gætu tekið barnið af slíkum foreldrum. Alveg eins og það gerir núna við foreldra sem beita barni sínu ofbeldi.

Magnús S. Magnússon notar víða hugtök á borð við „barnaníð“ og „barnaníðingar“ í skrifum sínum gegn trú og trúarbrögðum. Á Facebook síðu sinni 30. nóvember 2014 segir hann t.d.:

Ég kalla þá sem boða börnum hindurvitni og skerða með því þroskamöguleika þeirra og skilning á tilverunni stórkostlega, barnaníðinga, sé það gert sem trúmang.

Í Facebook athugasemd undir frétt hjá DV 19. desember 2013 varar Magnús foreldra við mér á þeirri forsendu að ég sé börnum skaðlegur vegna starfa minna hjá háskólanum og því beri að forða þeim frá mér. Þetta skrifar Magnús sem rannsóknarprófessor í atferlisfræði við HÍ en hann er ósáttur við að ég skuli á grundvelli trúfrelsis og akademískra trúarbragðafræða verja rétt löglegra trúfélaga til að miðla menningarlegri trúarhefð til barna sinna og unglinga. Þessi meiðyrði kærði ég til siðanefndar háskólans (mál nr. 3/2014) en þar var kærunni vísað frá á þeirri forsendu að málið eigi heima hjá dómsstólum. Siðanefndin tók þó um leið fram að hún sæi ekki að Magnús hafi verið að starfa í anda sinna fræða þegar hann lét þau orð falla sem ég kærði hann fyrir.

Má vera að vantrúarfélagar sæki í öllu þessu tíða tali sínu um barnaníð innblástur til þess málflutnings trúarbragðaandstæðingsins Richards Dawkins að miðlun trúar til barna og unglinga sé „child abuse“. Þegar Börkur Gunnarsson blaðamaður Morgunblaðsins spyr út í þetta orðfæri vantrúarfélaga í fréttaskýringu sinni „Heilagt stríð Vantrúar“ 4. desember 2011 svarar Matthías Ásgeirsson að „í fyrsta lagi þurfi að skilja á milli þess hvenær menn eru sagðir kynferðislegir barnaníðingar og barnaníðingar hugans“ og í öðru lagi „hvenær verið er að segja hlutina í hálfkæringi og hvenær í alvöru“. Þegar einn gagnrýnandi Vantrúar sneri hins vegar þessu orðfæri upp á Matthías sjálfan og kallaði hann barnaníðing árið 2005 og „pedófíl“ árið 2006 brugðust vantrúarfélagar skiljanlega sárreiðir við. Svona talsmáti er nefnilega alvarlegur.

Deila