Tilraun í kennslu – ástæða, forsaga, útfærsla, útkoma

[container]

Um höfundinn
Eiríkur Rögnvaldsson

Eiríkur Rögnvaldsson

Eiríkur Rögnvaldsson er prófessor emeritus í íslenskri málfræði. Undanfarin ár hefur hann einkum fengist við máltækni en hefur einnig stundað rannsóknir í samtímalegri og sögulegri setningafræði, svo og orðhlutafræði og hljóðkerfisfræði. Sjá nánar

1. Ástæðan

1.1

Þegar ég var í háskólanámi fyrir einum mannsaldri sátu stúdentar á lesstofum og lærðu – eða þóttust gera það a.m.k. Við vildum helst hafa sæmilegt næði og það sem helst truflaði mann var þegar einhver fékk hóstakast eða saug óþægilega oft upp í nefið. Ekki þurfti að óttast að síminn hringdi eða menn færu að hlusta á eitthvað í tölvunni.

Það þarf ekki að ganga lengi um háskólasvæðið til að átta sig á að þetta er gerbreytt. Vissulega eru lesstofur enn til, en ég er hræddur um að næði sé þar minna en áður og margvíslegar truflanir af tölvu– og símanotkun algengar. En stór hluti stúdenta situr ekki á lesstofunum heldur í almenningum – Hámu, opnum svæðum á Háskólatorgi, Gimli, Árnagarði, Lögbergi, Odda og yfirleitt hvar sem slík svæði er að finna. Þar situr yfirleitt hópur fólks saman við borð, allir með fartölvur og 5–10 forrit opin í einu, sýnist manni. Fólkið er að tala saman, tala í símann, horfa og hlusta á eitthvað í tölvunni, stundum jafnvel með bækur við hlið tölvunnar. Allt í kring er svo samfellt rennirí af fólki.

Samt þykjast stúdentarnir við borðið vera að læra. Gott og vel – meðan þeir skítfalla ekki er ég tilbúinn að trúa því. En það er þá a.m.k. ljóst að stúdentar 21. aldarinnar læra allt öðruvísi en við gerðum. Fyrir nokkrum árum var mér bent á að meginmunurinn fælist í því að við lærðum línulega – við byrjuðum á byrjuninni og unnum okkur svo áfram. Stúdentar nútímans læra ekki línulega – þeir sanka að sér sundurlausum fróðleiksmolum héðan og þaðan, úr ýmiss konar miðlum, og þurfa síðan að púsla þessu öllu saman í einhverja heild. Það er kannski ekki komin mikil reynsla á það hvernig þetta gefst, en þess konar nám hlýtur að gera annars konar kröfur til stúdenta.

En ef nemendur okkar læra allt öðruvísi en áður – hljótum við kennarar þá ekki að þurfa að kenna einhvern veginn öðruvísi en við gerðum?

1.2

Mér finnst það vera augljóst að við hljótum að þurfa að taka mið af breyttu námsumhverfi í kennslunni. Nú tek ég fram að ég er ekkert að efast um að kennarar geri það. Ég veit ósköp lítið um kennsluhætti í deildinni minni – alltof lítið, finnst mér raunar. En ég veit hvernig ég kenni sjálfur og það hefur í raun lítið breyst frá því ég kenndi fyrst 1981. Vissulega var nokkur breyting þegar ég glæruvæddi kennsluna og dró verulega úr töfluskrifum skömmu fyrir aldamótin. Ég fer líka stundum inn á netið í tímum og sýni eitthvað þar, og það er auðvitað einhver tilbreyting sem getur stundum lífgað upp á tímana.

En í meginatriðum er samt allt í sama farinu – ég stend upp við töflu og mala um það sem nemendur hafa átt að lesa fyrir tímann (og misbrestur vill svo sem verða á), tala út frá dæmum á glærum eða töflu. Nemendur (þeir sem mæta) sitja mestanpart þegjandi þótt ég reyni að hvetja þá til að spyrja um hvaðeina sem tengist efninu. Einstöku nemendur skjóta þó inn spurningu öðru hverju og ég reyni að svara. Svo fara nemendur heim og glíma við verkefni út frá viðfangsefni tímans, skila því og fá hugsanlega einhverja endurgjöf. Ef kennarinn hefur áhuga á efninu, og nemendur finna það, getur þetta alveg virkað (ef nemendur finna að kennarinn hefur ekki áhuga á efninu virkar ekkert hvort eð er). Stundum tekst manni að tala sig upp í einhvern eldmóð og smita nemendur. En þetta er ekki sérlega vel til þess fallið að virkja nemendur og fá þá til að hugsa sjálfstætt og afla sér þekkingar á eigin spýtur.

Ég var í raun fyrir löngu orðinn leiður á sjálfum mér í þessari kennslu (þótt ég reyndi að láta nemendur ekki finna það) og hef oft velt fyrir mér hvernig hægt væri að stokka kennsluna upp – nýta tímana betur og jafnframt virkja nemendur meira og gera þá sjálfstæðari í vinnubrögðum og þekkingaröflun. Síaukinn hraði samfélagsbreytinga sýnir fram á að það er óhjákvæmilegt að leggja meiri áherslu á sjálfstæða hugsun og þekkingaröflun á kostnað staðreynda (eða þess sem nú er flokkað sem staðreyndir).

Ég benti nemendum mínum á það um daginn að þeir yngstu í hópnum yrðu að fara á eftirlaun árið 2064 – nema þá verður örugglega búið að hækka eftirlaunaaldurinn upp í 75 ár þannig að það sem ég er að kenna þeim núna þarf að nýtast þeim á vinnumarkaði til ársins 2069. Það er augljóst að þá verður þeim til lítils gagns að vita hvernig menn töldu rétt árið 2014 að fara með sambandið hvor annan, eða hvernig orðin drottning og tugur áttu að beygjast, eða hvernig orðin buxur og tjald voru borin fram þetta ár, eða eitthvað í þá átt. Þau þurfa að geta hugsað sjálfstætt um eðli tungumáls og málbreytinga, aflað sér heimilda, gert rannsóknir, dregið ályktanir, sett fram tilgátur – læra þau það á því að hlusta á mig mala?

Ég er ekki viss. Hreint ekki viss.

2. Forsagan

2.1

Veturinn 1999–2000 var farið af stað með fjarkennslu í íslensku. Það var lagt þannig upp að við kennarar kæmum í fjarkennslustofu í Odda viku- eða hálfsmánaðarlega og héldum þar sérstaka tíma gegnum fjarfundabúnað fyrir nemendur sem söfnuðust saman á símenntunarmiðstöðvum víðs vegar um land. Þetta var ágætt út af fyrir sig, en þessir nemendur fengu ekki nema helming þess kennslustundafjölda sem staðnemar fengu og mér fannst það ekki nóg. Þess vegna sat ég heima á kvöldin og bjó til það sem þá var kallað „talglærur“ – hljóðskrár tengdar PowerPoint–glærum. Alls var þetta 21 fyrirlestur, rúmur klukkutími hver að meðaltali. Þetta vann ágætlega með fjarfundatímunum – nemendur gátu verið búnir að hlusta og horfa á talglærurnar fyrir tímana og spurt nánar út í einstök atriði þar. En það voru einungis fjarnemar sem höfðu aðgang að þessum upptökum.

Vorið 2009 ætlaði ég svo að gera tilraun með slíkan viðsnúning kennslunnar í staðkennslu – taka fyrirlestrana upp fyrir fram og nýta tímana í umræður og annað gagnlegt. Ég byrjaði á þessu og tók upp þrjá fyrirlestra en síðan ekki söguna meir – tilraunin rann út í sandinn. Ég man ekki almennilega hvers vegna ég guggnaði á þessu en held að það hafi verið vegna þess að ég var ekki búinn að undirbúa mig nógu vel – ætlaði að taka fyrirlestrana upp jafnóðum en það gekk einhvern veginn ekki, líka vegna þess að ég var að nota annað kennsluefni en ég hafði gert áður og hefði því þurft meiri tíma til undirbúnings.

Hins vegar hef ég tekið tíma í fjölmörgum námskeiðum upp – bara ekki fyrir fram. Haustið 2007, þegar flest námskeið í íslensku voru kennd í fjarkennslu, var farið að nota forritið eMission sem tekur upp rödd kennarans og allt sem hann sýnir á skjánum hjá sér. Þetta forrit hef ég og margir aðrir kennarar í íslensku iðulega notað til að taka upp tíma og gera þá aðgengilega á vefnum eftir á. Það kemur sér vel fyrir þá sem eru veikir eða komast ekki í einstaka tíma af öðrum ástæðum, en margir nemendur virðast líta svo á að það sé nóg að hlusta á þessar upptökur og óþarfi að koma í tíma, þannig að oft dró verulega úr tímasókn í námskeiðum þar sem tímar voru teknir upp.

2.2

Á vormisseri 2013 sat ég í starfshópi rektors um vefstudda kennslu og nám. Þar var einkum rætt um opin vefnámskeið (e. Massive Open Online Courses, MOOC) og hugsanlega gerð þeirra og nýtingu í Háskóla Íslands. En einnig var fjallað um önnur form vefstuddrar kennslu, ekki síst vendikennslu (e. flipped teaching) – sem ég heyrði þá fyrst kallaða því nafni og áttaði mig á að var nákvæmlega það sem ég hafði verið að gera með fjarnemum 13 árum áður. Sú umræða vakti upp hjá mér gamlan áhuga á að prófa þetta almennilega. Með vorinu fór ég að tala um þetta á kennarastofunni og víðar, nokkuð uppveðraður.

En þegar ég kom aftur til vinnu að loknu rigningasumri var farið að draga dálítið úr áhuganum og sennilega hefði ekkert orðið úr framkvæmdum ef tvennt hefði ekki komið til. Annars vegar var ég búinn að tala svo mikið um þessi áform að það var erfitt fyrir mig að leggja niður skottið og játa að ég hefði ekki nennt að breyta til þegar á hólminn var komið. Hins vegar átti ég inni heilmikla yfirvinnu sem deildin mín hafði ekki efni á að borga mér, og eina leiðin til að fá eitthvað út úr því var að sleppa því að kenna á haustmisseri.

Þarna hafði ég bæði ágætan fyrirvara og góðan tíma til að undirbúa mig. Aðstæður voru einnig hagstæðar að öðru leyti. Ég átti að kenna á vormisseri nýtt námskeið, Málkerfið – hljóð og orð. Þetta er 10 eininga námskeið um hljóðfræði, hljóðkerfisfræði, beygingarfræði og orðmyndunarfræði – samsteypa tveggja 5 eininga námskeiða sem höfðu verið kennd undanfarin ár. Það vildi svo heppilega til að ég var nýbúinn að kenna þau bæði, annað vorið 2013 og hitt vorið 2012, og í báðum hafði ég endurnýjað kennsluefni og efnistök talsvert – átti t.d. á fjórða hundrað glærur sem ég gat byggt á, auk þess sem ég hafði unnið að endurskoðun kennsluefnis sem ég samdi upphaflega fyrir 30 árum.

3. Útfærslan

3.1

Ég er oft þungt haldinn af verkkvíða og frestunaráráttu en í lok október hafði mér tekist að herða upp hugann til að byrja á verkinu. Á fyrstu þremur vikum nóvember tók ég upp 44 fyrirlestra, tæplega hálftíma hvern að meðaltali (sá stysti er um 21 mínúta en sá lengsti um 37 mínútur). Fyrirlestrana tók ég upp heima hjá mér með eMission-forritinu. Ég skrifaði fyrirlestrana ekki fyrir fram heldur talaði út frá glærum – var með frá einni upp í 14 glærur í hverjum fyrirlestri, að meðaltali 7,5. En einnig sýndi ég virkni forrita  og fór inn á ýmsar síður á netinu og sýndi þar ýmis gagnasöfn, hreyfilíkön, myndbönd og fleira efni. Jafnframt endurskoðaði ég glærurnar mínar og lauk við að endurskoða kennsluefnið.

Seint í nóvember setti ég þessa 44 fyrirlestra inn á Uglu – fjórum bætti ég við síðar þannig að fyrirlestrarnir eru alls 48, rúmlega 23 klukkustundir samtals. Einnig setti ég inn krækjur í alls konar efni á vefnum – hljóðdæmi, kennslumynd­bönd, hreyfilíkön, orðabækur, gagnasöfn, hugbúnað o.fl. Í byrjun desember gekk ég svo frá verkefnum sem lögð voru fyrir nemendur vikulega, og samdi úrlausnarblöð fyrir þessi verkefni. Þetta efni setti ég inn á Uglu en opnaði það ekki fyrir nemendum fyrr en jafnóðum og að því kom í kennslunni. Mánuði áður en kennsla hófst var námskeiðið þannig nær tilbúið, með fyrirlestrum, hliðsjónarefni, verkefnum og öllu.

Þegar rúmur þriðjungur var liðinn af misserinu fékk ég þá hugmynd að bæta við fjölvalsprófi (krossaprófi) úr hverjum fyrirlestri til að nemendur gætu betur glöggvað sig á því hvort þeir hefðu í raun náð tökum á efninu. Hugmyndina fékk ég úr vefnámskeiði sem ég var þá að nýta í öðru námskeiði sem ég kenndi. Ég notaði því forritið QuestionWriter sem Kennslumiðstöð og Reiknistofnun bjóða upp á til að búa til 48 fjölvalspróf, hvert með 10 spurningum og þremur svar­möguleikum í hverri spurningu. Þegar nemandi hefur svarað öllum spurningum fer forritið með hann í gegnum svörin og veitir endurgjöf. Hafi nemandi svarað rangt er honum sýnt rétt svar, og skýrt út hvers vegna svar hans var rangt.

3.2

Ég fækkaði tímum í stofu um helming – kenndi einn tvöfaldan tíma í viku í stað tveggja. Tímana nýtti ég til að fara yfir verkefnið sem nemendur höfðu verið að leysa vikuna á undan, og til að ræða um flókna hluti í viðfangsefni vikunnar. Í seinni hluta tímans lét ég nemendur iðulega skipta sér í hópa og byrja að glíma við verkefnið sem þeir áttu að skila næst. Eitt stór kostur við vendikennsluna, sem ég hafði ekki hugsað út í fyrir fram, var það að tímarnir voru miklu af­slappaðri og stresslausari en áður. Nú þurfti ég ekki að hafa áhyggjur af því að komast yfir efnið – ég var búinn að fara yfir það, í fyrirlestraupptökunum. Þess vegna gat ég tekið allan þann tíma sem ég vildi í að svara spurningum, ræða um flókin atriði, spinna út frá einhverri hugdettu, o.s.frv.

Annað sem kom mér á óvart var það hvað nemendur mættu vel. Ég hafði ímyndað mér að mætingin dytti niður vegna þess að nemendur teldu sig ekki hafa neitt í tímana að sækja – þeir hefðu þetta allt á netinu. En það var þvert á móti. Mætingin var jöfn og góð allan tímann – betri en hún hefur verið hjá mér undanfarin ár. Mér var bent á að skýringin á þessu væri e.t.v. sú að nemendur vissu ekki hvað yrði gert í tímunum. Ég hef alltaf látið nemendur fá kennsluáætlun þar sem sagt er hvað eigi að taka fyrir í hverjum tíma, svo hef ég sett glærur inn á netið fyrir fram, þannig að nemendur vita nokkurn veginn hvað verður gert í tímanum – og komast kannski að þeirri niðurstöðu að þeir þurfi ekki eða nenni ekki að mæta. En núna vita þeir ekkert á hverju þeir eiga von – og taka ekki áhættuna á að eitthvað verði sagt sem ekki sé að finna í fyrirlestrum eða kennsluefni en gæti komið á prófi.

4. Útkoman

4.1

Þó að reynsla mín – og nemendanna, held ég – af vendikennslu sé góð dettur mér ekki í hug að halda því fram að þetta kennsluform leysi allan vanda eða eigi alls staðar við. Langt frá því – það þarf ýmislegt að koma til ef vendikennsla á að henta. Í mínu tilviki vildi svo til að margir þættir komu saman:

  1. Þetta er skyldunámskeið sem er kennt á hverju ári og ég gat gert ráð fyrir að kenna aftur, e.t.v. nokkrum sinnum, þannig að vinnan í upphafi nýttist oftar en einu sinni.
  2. Af því að þetta er grunnnámskeið er efnið nokkuð afmarkað og stöðugt, ákveðin grunnatriði sem þarf að kenna, þannig að ekki þarf að endurnýja mikið á hverju ári.
  3. Ég þekki efnið vel og hef kennt það margoft þannig að ég veit nokkuð hvernig það gengur í nemendur, hvað er snúið og hvað er auðveldara viðfangs.
  4. Ég var nýbúinn að kenna þetta efni og hafði þá endurskoðað kennsluefni og glærur verulega en þurfti ekki að vinna það frá grunni.
  5. Ég hafði góðan tíma til undirbúnings og gat skipulagt námskeiðið í heild og verið með það nokkurn veginn tilbúið áður en það hófst.
  6. Ég var orðinn leiður á þeim kennsluaðferðum sem ég hafði notað og hafði lengi langað til að breyta til og prófa eitthvað nýtt.
  7. Ég hafði tekið þátt í starfshópi um vefstudda kennslu og kynnst ýmsum nýjungum þar og var á sama tíma að nota vefnámskeið þar sem ég lærði ýmislegt.

Auðvitað verður hver kennari að finna þá aðferð sem hentar honum – og nemendum hans, og mér dettur ekki í hug að vera með neitt trúboð í þeim efnum. Mér finnst hins vegar sjálfsagt að vekja athygli á því sem gefst vel, ef einhver gæti nýtt sér þá vitneskju. En ég held hins vegar að allir kennarar þurfi að gera sér grein fyrir því gerbreytta námsumhverfi sem ég fjallaði um í upphafi, og íhuga hvort það gefi tilefni til að þeir breyti kennslu sinni og kennsluaðferðum á einhvern hátt.

4.2

Ég er sem sagt himinsæll með þessa tilraun – og nemendur líka, ef marka má kennslukönnun. Ég hef aldrei fengið jafngóða einkunn fyrir kennslu og námskeið, og flestar umsagnir nemenda um skipulag og kennslufyrirkomulag námskeiðsins voru mjög jákvæðar. Þeir eru ánægðir með þann sveigjanleika sem felst í því að geta hlustað á fyrirlestra þegar þeim hentar og eins oft og þeim hentar, hafa alla fyrirlestrana á vefnum og geta rifjað þá upp fyrir próf, o.s.frv. En tilraunin gekk þó ekki upp að öllu leyti. Mér tókst ekki nógu vel að virkja nemendur í tímum. Í því þarf ég að vinna fyrir næsta vetur. Og sem betur fer hef ég fullt af lausum tíma – nú á ég námskeiðið í heilu lagi, get notað sömu fyrirlestrana, sömu verkefnin, sömu fjölvalsprófin, sama kennsluefnið. Ég er þegar búinn að hugsa upp ýmsar leiðir til að gera tímana fjörugri og frjórri.

Mér skilst að sumir eldri kennarar fyllist svartsýni og vonleysi yfir hugleiðingum af þessu tagi – telji sig alls ófæra um að búa nemendur undir framtíð sem enginn veit hvernig verður, nesta þá með þeirri þekkingu sem þeir þurfa á að halda næstu hálfa öld. En ég held að þetta sé alveg ástæðulaus ótti – þvert á móti held ég að eldri kennarar geti verið ágætlega til þess fallnir að búa nemendur undir þessa óráðnu framtíð. Það þýðir nefnilega ekkert að ætla sér að fylla þá af ein­hverri þekkingu sem verði gagnleg í framtíðinni, því að enginn veit hvað verður gagnlegt árið 2069 – eða árið 2020, þótt við förum ekki lengra fram í tímann. Við þurfum vissulega að sjá nemendum fyrir einhverri undirstöðu, einhverri grunnþekkingu sem nú þykir traust. En fyrst og fremst þurfum við að kenna nemendum vinnubrögð – að byggja ofan á þekkingu sína, vinna úr henni, afla sér meiri þekkingar, og efast um alla hluti.

Þetta getum við alveg – við þurfum ekkert að sjá inn í framtíðina til þess. Við erum hokin af reynslu og þurfum að skila henni áfram. En eins og ég sagði áður – það sem öllu skiptir er að kennarinn hafi áhuga á því sem hann er að gera. Ef hann hefur það, og nemendur skynja það, skipta kennsluaðferðirnar kannski ekki öllu máli. En ef hann hefur það ekki skipta kennsluaðferðirnar alls engu máli – hann mun aldrei ná neinum árangri hvort eð er.

Ef einhverjir vilja skoða námskeiðið þá er það öllum opið á Uglu.

Deila

[/container]

 

 


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *