[container]

Um höfundinn
Einar Sigurmundsson

Einar Sigurmundsson

Einar Sigurmundsson er með M.A. – próf í hagnýtri ritstjórn og útgáfu. Hann hefur áður lokið B.A. – prófi í almennri bókmenntafræði og lagt stund á meistaranám í íslenskum bókmenntum.

 Kvikmyndin Itsi Bitsi  er nýjasta kvikmynd danska leikstjórans Ole Christian Madsen. Hún var frumsýnd í Evrópu á RIFF kvikmyndahátíðinni 26. september, en verður alls sýnd þrisvar sinnum á hátíðinni. Ekki er áætlað að sýna hana í Danmörku fyrr en árið 2015.  Myndin, sem byggð er á sönnum atburðum, lýsir viðburðarríkum árum í lífi Eiks Skaløe en hann svipti sig lífi aðeins 25 ára gamall og er fyrst og fremst þekktur fyrir að hafa stofnað hljómsveitina Steppeulvene. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Ole Christian Madsen gerir sannsögulega mynd og ber þar helst að nefna myndina Flammen og Citronen sem hann gerði árið 2008 og segir frá tveimur mönnum í andspyrnuhreyfingu sem nefndist Holger danski og starfaði í Kaupmannahöfn 1942. Itsi Bitsi gerist hins vegar á árunum 1962 til 1968.

Myndin er nokkuð kaflaskipt og lýsir sá fyrsti samdrætti söguhetjanna, þeirra Eik og Iben, en þau tilheyra hópi sem mótmælir kjarnorkusprengjum. Þau hittast í gæsluvarðhaldi sem þau eru sett í vegna mótmælanna og er það ást við fyrstu sýn. Síðan er varpað ljósi á ferðalögin og eiturlyfjaneysluna, en Eik ferðaðist víða, bæði með Iben og einsamall. Þau nota mikið af eiturlyfjum, allt frá hassi yfir í morfín. Loks er það hljómsveitin. Eik stofnaði Steppeulvene ásamt gítarleikaranum og lagasmiðnum Stig Möller. Þeir fengu til liðs við sig bassaleikara og trommuleikara og gaf hljómsveitin út eina plötu sem heitir Hip. Eik söng þar eigin texta sem margir voru ástarljóð til Iben, meðal annars Itsi Bitsi, en það var gælunafn Eiks yfir Iben. Hljómsveitin, platan og Eik Skaløe eru í dag minnisvarðar um uppreisn unga fólksins á sjöunda áratugnum í Danmörku og má geta þess að verðlaun danskra tónlistargagnrýnenda eru kennd við hljómsveitina og heita Steppeulv. Myndin er römmuð inn með sjálfsmorði Eiks, þ.e.a.s. hún byrjar og endar á þeim atburði. Rauði þráðurinn í gegnum myndina er dramatísk ástarsaga þeirra Iben. Þrátt fyrir gagnkvæma ást þá vill hún stunda kynlíf með öðrum mönnum og verður Eik að sætta sig við það og eru mörg bráðfyndin atriði tengd því.

Handritið er unnið upp úr raunverulegum sögum sem taka í raun öllum skáldskap fram. Hún fjallar um merkilegt tímabil í danskri sögu, en er jafnframt ástarsaga þar sem spilað er á allan tilfinningaskalann. Þar er að finna hamingju, vonbrigði, óléttu, fóstureyðingu, eiturlyf, sjálfsmorð, en líka von. Iben tekst að komast út úr vítahring eiturlyfja og gerist leikkona. Myndin er hátt í tvær klukkustundir en er þó aldrei langdregin. Aðalleikararnir Joachim Fjelstrup og Marie Tourell Søderberg standa sig mjög vel og fer manni fljótt að þykja vænt um persónur þeirra. Ekkert er til sparað hvað leikmynd og tækni varðar og enga hnökra þar að sjá. Myndin er mjög falleg þrátt fyrir ljótleikann sem lýst er og er maður ríkari eftir að hafa kynnst Eik Skaløe. Ole Christian Madsen hefur reist honum  veglegan minnisvarða sem eflaust mun lengi standa.

itsi-bitsi-Iben og Eik 2

Share this Post

[/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *