Kynfræðsla fellur konum í skaut

[container] Konur, frekar en karlmenn, sinna kynfræðslu á íslenskum heimilum, að sögn kynfræðingsins Sigríðar Daggar Arnardóttur, eða Siggu Daggar, eins og hún er iðulega kölluð. Konur eru einnig í meirihluta þeirra sem sækja fyrirlestra og kynningar á hennar vegum. „Mér finnst þetta vera hálfgerð valdefling. Konur voru lengi mjög kúgaðar þegar kemur að kynlífi og nú er eins og þær ætli að gera þetta að sínu sviði,“ segir Sigga Dögg. „Mæður sjá líka oftar um kynfræðsluna, bæði fyrir dætur sínar og syni. Það er hins vegar með þetta eins og allt annað, sama hvort það varðar næringu, heilsu eða kynlíf, að það er gott að fá fræðslu og upplýsingar frá fleiri en einum aðila. Báðum foreldrum og jafnvel fleirum. Sjónarmið fólks eru svo ólík, við komum hlutunum frá okkur á ólíkan hátt og það er svo misjafnt hvernig þeir skila sér til hvers og eins.“

Kynfræðsla er Siggu Dögg hjartans mál, en hún hefur sinnt henni af miklu kappi á undanförnum árum. Fyrsta bók hennar, Kjaftað um kynlíf, kom á dögunum út hjá Iðnú útgáfu, en þar er á ferðinni handbók til þess ætluð að auðvelda fullorðnum að ræða kynlíf við börn og unglinga. Þó að löngu vinnuferli sé lokið með útkomu bókarinnar er þó enn mikil vinna fyrir höndum, að hennar sögn. „Það þarf að gera fólki grein fyrir því hversu mikilvægt það er að taka þessa umræðu. Ég held að fólki líði voðalega vel með að þessi bók sé til, en það dugar ekki að hún liggi ólesin. Það þarf að tala um þessi mál inni á heimilunum.“

Lykilinn að vel heppnuðum samræðum um kynlíf og allt sem því tengist segir Sigga Dögg vera hreinskilni, hispursleysi og húmor. „Það þarf líka að leyfa krökkunum að hlæja, þá slaka allir á. Þetta á að vera díalógur sem er stöðugt í gangi og ekki einstakt samtal. „Já, eru smokkarnir þínir búnir? Mamma þín er í búðinni, ég bið hana að kaupa fleiri.“ Svona. Fólk þarf að slaka á og gera þetta aðgengilegra, svo þetta verði ekki svona mikið feimnismál,“ segir Sigga Dögg. Þá má ekki gleyma því að kynfræðsla hefst í raun löngu fyrir unglingsárin. „Það kemur fólki á óvart fyrst, en það er af því að það áttar sig ekki á því að umræða um líkamann og snertingu er kynfræðsla. Við fæðumst öll kynverur.“

Sunna Dís Másdóttir,
meistaranemi í ritlist

[/container]


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *