Valdimar Briem og Johann Sebastian Bach

Í Bækur, Rýni, Tónlist, Umfjöllun höf. Einar SigurbjörnssonLeave a Comment

 

slahjartanshorpustrengi

Blaðið sem dr. Róbert felldi texta Valdimars Briem að lagi J.S. Bachs.

Um höfundinn

Einar Sigurbjörnsson

Einar Sigurbjörnsson er prófessor emeritus við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild. Sjá nánar

 Með þekktari verkum Bachs er á íslensku nefnt „Slá þú hjartans hörpustrengi“. Kórar hafa það á efnisskrá tónleika, það heyrist sungið við brúðkaup og við jarðarfarir. Verkið er til í hljómsveitarbúningi, í útsetningu fyrir píanó og fyrir orgel og eins hefur það heyrst í jassaðri útsetningu. Höfundur lagsins er Johann Sebastian Bach (1685-1750) og höfundur textans Valdimar Briem 1848-1930). Hver eru tengslin milli þýska tónskáldsins fræga og íslenska sálmaskáldsins?

Kantata Bachs

Lagið „Slá þú hjartans hörpustrengi“ er lokakaflinn í kantötu Bachs nr. 147 „Herz und Mund und Tat und Leben“ (hjarta, munnur, athöfn, líf). Hún var samin árið 1723. Stofninn í þessari kantötu Bachs er raunar eldri eða frá árinu 1716 meðan hann enn starfaði í Weimar og hefur skráningarnúmerið BWV 147a. Árið 1723 fluttist hann til Leipzig þar sem var mikið tónlistarlíf og miklar kröfur gerðar til hans sem organista og söngstjóra við Tómasarkirkjuna. Alls samdi Bach um 200 kantötur og er hver kantata ætluð til flutnings á ákveðnum sunnu- eða hátíðisdegi og byggist á því stefi sem er til íhugunar á viðkomandi degi, venjulega út frá guðspjalli dagsins. Höfundar textanna eru sumir þekktir en aðrir óþekktir. Bach notast í kantötum sínum gjarnan við sálma sem heyra til helgidögunum og tók hann sálmana ásamt lögunum úr sálmabókum. Bach samdi fæst þeirra sálmalaga sem hann notast við en hann útsetti þau og samdi út frá þeim ýmsar hugleiðingar og tilbrigði bæði fyrir einsöngvara, kóra og hljóðfæri. Margar af útfærslum hans á eldri sálmalögum slógu í gegn og hafa verið notaðar umfram uppruna útgáfuna og því er Bach talinn höfundur sumra sálmalaga sem hann notar í kantötum sínum.

Kantatan sem skráð er 147a var ætluð til flutnings á fjórða sunnudag í aðventu. Þá er guðspjallið vitnisburður Jóhannesar skírara um Krist. Miðvikudag og föstudag í vikunni fyrir 4. sunnudag í aðventu eru svokallaðir imbrudagar aðventu og þá er íhugunarefnið annars vegar boðun Maríu og hins vegar heimsókn eða vitjun Maríu til Elísabetar frændkonu sinnar, móður Jóhannesar skírara. Í Leipzig giltu aftur á móti ströng fyrirmæli um jólaföstuna og þar var tónlistarflutningur bannaður frá 2. sunnudegi í aðventu til jóla. Því gat Bach ekki notað kantötu sína fyrir fjórða sunnudag í aðventu og umsamdi hana og ætlaði til flutnings á vitjunarhátíð Maríu 2. júlí. Meðal þess sem kom nýtt til miðað við eldri útgáfuna var lokakórinn sem á íslensku nefnist „Slá þú hjartans hörpustrengi“ og hlaut endurskoðuð útgáfa kantötunnar skrásetningarmerkið BWV 147.

Uppruni lags og texta

Þessi frægi lokakór er vers úr sálmi. Tónskáldið sem samdi lagið við þann sálm hét Johann Schop (um 1590-1667). Hann var fiðluleikari og hljómsveitarstjóri á Norður-Þýskalandi og í Kaupmannahöfn. Hann hafði sérstakt dálæti á tilteknu sálmaskáldi sem hét Johann Rist (1607-1667) og samdi lög við marga sálma hans. Þar á meðal var sálmurinn „Werde munter mein Gemüte“ (fagna þú, hugur minn). Lag Schops náði fljótt miklum vinsældum og mörg skáld ortu sálma við lagið. Meðal skálda sem ortu sálma við lag Schops var Martin Jahn (um 1620-1682). Sálmur hans nefnist „Jesu meiner Seelen Wonne“ (Jesús, fögnuður sálar minnar). Það er einmitt sálmurinn sem Bach notaði í kantötu 147. Sálmur Jahns er alls 19 vers og notar Bach 6. og 17. vers sálmsins í 6. og 10. kafla kantötunnar. Hvorki Rist né Jahn hafa verið þýddir á íslensku. Nokkrir sálmar Rists voru hins vegar þýddir á dönsku og á hann enn sálma í dönsku sálmabókinni m.a. sálminn sem Schop samdi lag sitt við, „Nu velan, vær frisk til mode“ og er í dönsku sálmabókinni nr. 758.

Valdimar Briem

Hvernig tengist Valdimar Briem kantötu Bachs? Valdimar Briem tók árið 1878 sæti í nefnd sem vinna skyldi nýja sálmabók fyrir íslensku þjóðkirkjuna og kom nýja sálmabókin út árið 1886. Í henni átti hann marga sálma eða alls 106 af 650 sálmum í bókinni. Þeirra á meðal var sálmur ætlaður til söngs fyrsta sunnudag í aðventu og byggist hann á guðspjallinu um innreið Jesú í Jerúsalem. Sálmur Valdimars er ekki þurr endursögn guðspjallsins heldur íhugun á merkingu þess. Sem lagboða nefnir Valdimar „Hjartað, þankar, hugur, sinni“ og lagið sem samsvarar þeim lagboða er einmitt sálmalag Johanns Schops.

Sálmurinn „Hjartað, þankar, hugur, sinni“  á ekkert skylt við kantötu Bachs. Hann er þýðing séra Stefáns Ólafssonar (um 1619-1688) á morgunsálmi eftir danska skáldið Thomas Kingo (1634-1703) „Sjæl og hjerte, sind og sandser“ og er ortur undir bragarhætti sem passar við sálmalag Johanns Schops. Kingo hafði dálæti á þeim bragarhætti og orti marga sálma undir honum, m.a. passíusálma sína. Hann ætlaði þá raunar til söngs undir öðru lagi (ísl. lagboði „Jesú, þínar opnu undir“) en orti páskasálma við lag Schops. Þýðingar Stefáns á sálmum hans náðu ekki mikilli útbreiðslu en lagboðinn „Hjartað, þankar, hugur, sinni“ varð vinsæll og voru margir sálmar ortir undir honum á 18. og 19. öld. Þó að ég viti ekki hversu vel Valdimar Briem þekkti til Bachs og verka hans, held ég ég geti fullyrt að hann hafði ekki kantötu hans nr. 147 í huga þegar hann orti sálm sinn heldur hafi fyrst og fremst hugsað um lag Schops sem hafði verið vinsælt í íslenskum sálmasöng lengi. Hann var ekki einn um að halda upp á lagið heldur líka Helgi Hálfdánarson sem orti sálma við þennan lagboða og þýddi m.a. páskasálm Kingos „Som den gyldne sol frembryder“, á íslensku „Sem í gegnum sortann skýja“ í Sálmabók 1886 nr. 173 við lag Schops. Lagið er enn notað við nokkra sálma í Sálmabók þjóðkirkjunnar.

Bach tengdur við Briem

Ekki er fullljóst hvenær farið var að tengja sálm Valdimars Briem við kantötu Bachs en sennilega var það dr. Róbert A. Ottósson sem fyrstur gerði það upp úr 1960. Þó að bæði Páll Ísólfsson og Viktor Urbancis hafi látið kóra flytja stór verk tónbókmenntanna á fyrri hluta 20. aldar og oft við íslenska texta hafa ekki fundist neinar heimildir fyrir því að þeir hafi flutt kantötu 147 við texta Valdimars Briems. Það var í kringum 1960 að það blómaskeið kórastarfs í landinu sem enn stendur hófst. Polýfónkórinn var stofnaður 1958 af Ingólfi Guðbrandssyni og Söngsveitin Fílharmónía árið 1960 af dr. Róbert A. Ottóssyni og fleiri kórar hafa siglt í kjölfarið og allir haft stórverk kirkjutónbókmenntanna á efnisskrám sínum, m.a. lokakafla Kantötu 147 við íslenska textann. Dr. Árni Heimir Ingólfsson tónlistarfræðingur og Þorgerður Ingólfsdóttir kórstjóri nefna bæði að dr. Róbert hafi verið fyrstur til að setja texta Valdimars við lag Bachs og hefur Þorgerður sýnt mér nótnablað sem dr. Róbert hefur skrifað og fært texta Valdimars inn á. Haukur Guðlaugsson eignaðist líka eins blað frá Róbert og hugsanlega fleiri kórstjórar.

Deila

Leave a Comment