Almenn stytting framhaldsskóla væri óráð

[container]

Um höfundinn

Jón Axel Harðarson

Jón Axel Harðarson er prófessor við Íslensku- og mennngardeild HÍ. Rannsóknasvið hans eru söguleg málvísindi og íslensk, germönsk og indóevrópsk málfræði.

 Nú hefur verið unnið markvisst að því í menntamálaráðuneytinu að stytta nám í framhaldsskóla úr fjórum árum í þrjú. Þessi kerfisbreyting er rökstudd þannig: Það tekur íslenzka nemendur lengri tíma að ljúka grunn- og framhaldsskóla en nemendur í samanburðarlöndum okkar innan OECD; munurinn er eitt eða tvö ár. Lengri námstími veldur töf á þátttöku í atvinnulífinu. Hér er því um mikilvægt efnahags- og lífskjaramál að ræða.

Í grein sem birtist í Morgunblaðinu 26. okt. 2013 útskýrir Sigríður Hallgrímsdóttir, aðstoðarmaður menntamálaráðherra, þetta nánar. Þar segir hún m.a.: „Íslenska skólakerfið styttir að óþörfu starfsaldur hvers einasta Íslendings og veldur því að bæði ævitekjur og öll verðmætasköpun verða lakari en hjá samanburðarþjóðum okkar.“ Hér gætir aðstoðarmaðurinn ekki að því að starfsaldur er mun lengri á Íslandi en í flestum öðrum löndum. Minni ævitekjur hérlendis þarf því augljóslega að skýra á annan hátt.

Ljóst er að fyrirhuguð stytting framhaldsskóla er ekki til þess fallin að bæta menntun í landinu. Þvert á móti myndi hún leiða til skerðingar námsefnis og þar með minni menntunar. Með því yrði gengisfelling stúdentsprófs enn meiri en hún er þegar orðin.

Á sama tíma og menntamálaráðuneytið skipuleggur það sem kalla má aðför að framhaldsskólum landsins innleiðir hver deild HÍ á fætur annarri inntökupróf. Það er gert vegna þess að stúdentspróf er ekki lengur nein trygging fyrir nægilegum undirbúningi fyrir háskólanám. Hér má nefna að svo rammt hefur kveðið að vankunnáttu íslenzkra stúdenta í móðurmáli sínu að stofnuð hafa verið ritver við bæði mennta- og hugvísindasvið HÍ þar sem tilsögn er veitt í málbeitingu og ritun. Þá er kunnáttu stúdenta í erlendum málum mjög ábótavant. Almenn stytting framhaldsskólanáms myndi leiða til enn verra ástands í þessum efnum.

Þeir sem tala fyrir styttingu framhaldsskóla nefna oft að hún myndi draga úr brottfalli nemenda. Vissulega er brottfall framhaldsskólanema alvarlegt vandamál en vafasamt er að skynsamlegasta leiðin til að draga úr því sé stytting námstíma. Lengd námsins er ekki höfuðástæða brottfalls. Skýringar þess felast miklu fremur í lélegum undirbúningi í grunnskóla, mikilli áherzlu á bóknám og sérstökum lífsstíl íslenzkra ungmenna.

Eins og niðurstöður Pisa-kannana hafa sýnt getur stór hluti þeirra sem ljúka grunnskóla á Íslandi ekki lesið sér til gagns. Þrátt fyrir það fara flestir þeirra í framhaldsskóla. Þá hefur verið á það bent að of mikil áherzla sé lögð á bóknám. Hún leiðir til þess að margir sem ættu frekar að stunda nám í einhverri iðngrein fara í bóknám sem hentar þeim ekki. Hér væri hugarfarsbreyting æskileg. Iðngreinanám nýtur ekki eðlilegrar virðingar og því vilja nemendur (oft reknir áfram af foreldrum sínum) heldur stunda bóknám. Nauðsynlegt er að fjölbreytni sé í skólakerfinu þannig að nemendur geti valið á milli ólíkra framhaldsskóla, þ.e. bóknáms-, listgreina- og verkmenntaskóla. Loks er lífsstíll ungmenna allt öðruvísi á Íslandi en í öðrum löndum. Mörg þeirra breytast snemma í fjárfrekar neyzluvélar. Þau sem eiga ekki vel stæða foreldra þurfa að vinna með námi til að fjármagna neyzluna (t.d. fata-, tækja- og bifreiðakaup). Erlendis þekkist varla að unglingar í framhaldsskólum vinni með námi.

Þessir þættir eru orsök hás brottfalls framhaldsskólanema á Íslandi en ekki leiði vegna of langs náms.

Í umræðunni um styttingu framhaldsskóla er því iðulega haldið fram að hún þurfi ekki að leiða til skerðingar námsefnis. Hvernig má það vera? Svo lengi sem ekki stendur til að lengja kennsludaga og/eða skólaárið allverulega hlýtur fækkun skólaára úr fjórum í þrjú að hafa í för með sér mikla fækkun kennslustunda, þ.e. nemendur munu fá færri kennslutíma á þremur árum en þeir fengu á fjórum árum. Og með minni kennslu verður ekki farið yfir jafnmikið námsefni í tímum og áður. Þetta hlýtur að hafa í för með sér skerðingu námsefnis og þar með minni menntun nemenda. Að sjálfsögðu væri óraunhæft að ætla að samfara styttingu kennslutíma kæmu kröfur um aukið heimanám nemenda.

Í tengslum við fyrirhugaðar breytingar á íslenzkum framhaldsskólum er ekki úr vegi að segja frá reynslu Þjóðverja. Menntakerfi þeirra er um margt ólíkt því íslenzka. Börn sem fædd eru á sama ári byrja ekki öll í skóla á sama tíma. Þau sem fædd eru á fyrri hluta árs hefja skólagöngu sex ára en þau sem eru fædd á seinni hluta árs byrja sjö ára eða á sjöunda ári. Lengi vel tók nám til stúdentsprófs 13 ár þannig að nemendur luku því ýmist á nítjánda eða á tuttugasta aldursári sínu. Af þessum 13 árum var menntaskóli 9 ár. Fyrir um áratug síðan réðust Þjóðverjar í að stytta menntaskólanám úr níu árum í átta – án þess að skerða námsefni. Þetta var gert að kröfu atvinnulífsins en ekki af kennslufræðilegum ástæðum. Því var haldið fram að í alþjóðlegum samanburði útskrifuðust nemendur of seint og það kæmi niður á samkeppnishæfni Þjóðverja. Stjórnamálamenn tóku málið upp og keyrðu í gegn í óþökk nemenda og foreldra. Reyndar höfðu sálfræðingar einnig varað við styttingunni. Sögðu þeir 18 ára nemendur ekki hafa nægilegan þroska til að hefja háskólanám. Stytting námstíma án skerðingar námsefnis hafði auðvitað í för með sér að nemendur þurftu að læra það sama og áður á skemmri tíma. Þar með jókst álag á þá, þeim leið verr og fleiri flosnuðu upp frá námi. Barátta foreldra gegn styttingunni hefur haldið áfram og er nú svo komið að í fjórum sambandsríkjum, Baden-Württemberg, Schleswig-Holstein, Hessen og Nordrhein-Westfalen, býður fjöldi menntaskóla aftur níu ára nám. Og í Bæjaralandi og Hamborg standa fyrir dyrum atkvæðagreiðslur um almenna lengingu menntaskólanáms í níu ár. Búizt er við að hún verði samþykkt. Fleiri lönd munu fylgja þessum fordæmum. Lenging náms í þýzkum menntaskólum er ekki aðeins baráttu foreldra að þakka heldur einnig hugarfarsbreytingu sem orðið hefur á síðustu árum. Í netútgáfu blaðsins Die Welt frá 28. jan. síðastliðnum var þessari hugarfarsbreytingu lýst þannig: Fyrir tíu árum hljóðaði hið viðurkennda einkunnarorð „Skjótar er um leið betra“ (Schneller ist gleich besser) en í dag hljómar aftur hið klassíska „Í rónni felst styrkurinn“ (In der Ruhe liegt die Kraft).

Það sem Íslendingar geta lært af þessari sögu er þetta: Úr því að Þjóðverjum tókst ekki að stytta nám í menntaskóla úr níu árum í átta án þess að aukið álag yrði mörgum nemendum óbærilegt er lítil von til þess að Íslendingum takist að stytta nám í framhaldsskóla úr fjórum árum í þrjú án þess að nemendum líði verr og fleiri flosni upp frá námi – nema því aðeins að slegið verði af kröfum og viðurkennt að nemendur muni almennt læra minna á þremur árum en fjórum.

Þar sem fyrirhuguð stytting framhaldsskóla myndi óneitanlega leiða til minni menntunar hefur sá möguleiki verið nefndur að hluti námsefnis framhaldsskóla verði færður niður í grunnskóla. Þetta getur þó varla talizt raunhæfur kostur. Menntun grunnskólakennara er þannig háttað að þeir læra lítið í þeim greinum sem þeir eiga að kenna. Að langmestu leyti felst nám þeirra í að tileinka sér kenningar í kennslu- og uppeldisfræði sem eru í tízku hverju sinni. Vegna skorts á fagmenntun í grunnskólum kemur varla til greina að þetta skólastig taki við hluta framhaldsskólakennslunnar.

Ef nauðsynlegt þykir að stytta nám til stúdentsprófs um eitt ár ætti miklu fremur að horfa til grunnskólans en framhaldsskólans. Í þessu sambandi má minna á að þegar landspróf var við lýði hófu nemendur nám í menntaskóla að loknu níu ára námi í barna- og miðskóla eða unglingaskóla (6+3). Nám til stúdentsprófs var þá 13 ár eins og nú er stefnt að. Þetta fyrirkomulag gafst vel og telja flestir sem til þekkja að stúdentspróf hafi þá almennt verið mun meira virði en það er nú. Stytting grunnskóla gæti verið liður í almennri uppstokkun þessa skólastigs. Eins og Pisa-kannanir bera vott um væri ekki vanþörf á því.

Loks má nefna að stytting framhaldsskóla myndi leiða til enn meira ójafnvægis milli grunn- og framhaldsskóla en nú er. Sökum þess að fagmenntun kennara er almennt miklu meiri í framhaldsskólum en grunnskólum væru aðgerðir sem leiða til skemmri námstíma í framhaldsskólum óheillavænlegar.

Afar mikilvægt er að framhaldsskólar á Íslandi geti búið nemendur undir akademískt háskólanám og útskrifað nemendur sem standa jafnfætis stúdentum frá öðrum löndum og fá inngöngu í erlenda háskóla eða sérhæfðar háskóladeildir  – ekki bara nemendur sem geta innritazt í HÍ, HR eða HA. Bezta leið til þess er að efla framhaldsskóla á Íslandi fremur en veikja þá með fyrirhugaðri styttingu.

Deila

[/container]


Comments

One response to “Almenn stytting framhaldsskóla væri óráð”

  1. Vel skrifuð grein og úthugsuð en ég leyfi mér að setja spurningarmerki við fjárfrekur neysluvélarnar sem þú telur okkur framhaldsskólanemana vera. Hér á landi er viðhorf til vinnu slíkt að sértu ekki vinnandi maður/kona ertu aumingi og skiptir þá litlu hvort að þú sért í námi eða eigir við aðra örðugleika sem ekki eru sýnilegir að stríða. Svo má líka líta til þess að þótt ótrúlegt sé þá kostar nám í framhaldsskóla sitt, raunar svo mikið að ekki eru allir foreldrar nemenda færir um að borga allann kostnaðinn sjálfir. Nú er ég ekki að segja að þetta sé mikill peningur, ekki nema það sem nemur mánaðarlaunum mínum til dæmis.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *