Akademískir titlar eru virðuleg nafnbót í Þýskalandi. Handhafar taka þá gjarnan alvarlega og ströng viðurlög liggja við því að prýða sig t.d. doktorstitli án þess að hafa til hans unnið. Það er eiginlega öfugt við ástandið á Íslandi þar sem Doktor Gunni er næstum sá eini sem notar doktorstitilinn opinberlega og allir vita að hann hefur aldrei hlotið hann formlega. (Kannski væri ráð fyrir einhvern háskólanna að gera hann að heiðursdoktor svo grínið verði að alvöru).
En hvað sem því líður er það vitanlega fölsun að státa sig af titli sem maður hefur ekki til unnið og þykir í flestum tilfellum ámælisvert eins og gerðist nýlega á Íslandi þegar einn kennara á Hugvísindasviði HÍ reyndist ekki hafa titil sem hann gaf upp og naut reyndar launahækkunar fyrir. Engu breytti að viðkomandi héldi því fram að hann hefði í raun lokið doktorsritgerðinni en ekki unnist ráðrúm til að ljúka formsatriðunum. Það viðurkenndi hann sjálfur þegar hann endurgreiddi mismuninn á launum kennara með doktorsgráðu og meistaragráðu.
Jafn alvarlegt, ef ekki alvarlegra, telst að svindla til sín ósviknum doktorstitli með svikinni doktorsritgerð þar sem ritstuldi er beitt til að ná upp fræðilegri þyngd og kannski fyrst og fremst lengd, a.m.k. í hug- og félagsvísindum. (Falsaðar niðurstöður tilrauna eru fremur notaðar í náttúruvísindum).
Þýskir fjölmiðlar eru einmitt uppfullar af fréttum um slíkt mál núna. Í annað sinn hefur það gerst að ráðherra í ríkisstjórn Angelu Merkel hefur orðið uppvís að ritstuldi í doktorsritgerð sinni; í fyrra sinnið var það þáverandi varnarmálaráðherra og vonarstjarna CSU í Bæjaralandi, Karl Theodor zu Guttenberg, aðalsmaður og löðrandi af kjörþokka að auki. Um hann var fjallað á Hugrás áður.
Til er frægt fréttaskot af því þegar Angela Merkel fékk tíðindin um afsögn zu Guttenbergs á sms eftir að hann hafði varist hetjulega uns mönnum varð eiginlega ljóst að líklega hefði hann sjálfur ekki lesið sína eigin doktorsritgerð. Við hlið hennar stendur menntamálaráðherrann, Annette Schavan, en hún hafði einmitt verið ein fárra í ríkisstjórninni sem ekki hafði „þétt raðirnar“ að baki kolleganum heldur sett fram gagnrýnar spurningar.
En eftir að ritstuldarveiðimenn þeir sem flettu ofan af zu Guttenberg höfðu sigur fjölgaði í þeirra hópi, þótt kunnasta síðan sé kannski hin svokallaða „vroniplag“. Reyndar afneita margir þeirra veiðimannstitlinum og segjast einungis vera að verja heiður sinn og titla fyrir svikahröppum, sem vel kann að vera, þótt óneitanlega hafi allmargir stjórnmálamenn orðið „fyrir“ þessu. Stærri hluti þeirra mun vera af hinum svokallaða hægri væng stjórnmálanna, en getgátur eru uppi um að slíkir titlar séu gagnlegir til að komast áfram í þeirri úlfahjörð stjórnmálanna og þess vegna sé fremur hátt hlutfall hægri sinnaðra stjórnmálamanna með doktorsgráður þótt þeir hafi aldrei haft hug á akademískum ferli. Vinstra megin raupa menn kannski af nánari tengingu við „verkalýðinn“ hvort sem sú var raunin eða ekki.
Nú á dögunum var það hins vegar menntamálaráðherrann Schavan sjálf sem þurfti að segja af sér vegna þess að háskólinn í Düsseldorf svipti hana doktorsnafnbótinni og þótt hún þættist ætla að sitja eins og allir aðrir stjórnmálamenn sem glatað hafa skyni á veruleikann, þá varð hún að segja af sér nokkrum dögum síðar, eftir að fjölmiðlaumræðan gekk frá málinu eins og gerist í ríkjum þar sem fjölmiðlar ná krítískum massa.
Mikil umræða hefur sprottið upp af þessu í Þýskalandi allt frá því að átelja menn fyrir nornaveiðar út af smámunum upp í að velta fyrir sér uppruna á textum og endurritun þeirra frá örófi alda til okkar tíma. Eitt blaðið birti m.a.s. stutta sögu ritstuldar frá upphafi. En fræðin og vísindin standa enn frekar frammi fyrir þeirri spurningu hvernig hægt sé að leita einhvers sannleika þegar æ fleiri slá sér upp með honum sem eigin útgáfu af því sem einhverjir aðrir skrifuðu.
OG HVAÐ MEÐ ÞAÐ?
23. September, 2024Töfrafjallið og snillingurinn
19. September, 2024Ljósbrot í táradalnum
12. September, 2024Deila
Leave a Reply