Andlitið á Saddam Hussein

Uppáhaldsdrykkur Saddam Hussein var Mateus rósavín. Ég las það í blaði árið 2003, um það leyti sem Bandaríkin gerðu innrás í Írak í leit að gjöreyðingarvopnum sem voru aldrei til. Auðvitað veit ég ýmislegt annað um manninn, t.d. að hann réðst inn í Kuwait, hann myrti fullt af Kúrdum og fannst að lokum í pínulítilli holu í jörðinni í einhverjum bakgarðinum. En einhverra hluta vegna kemur Mateus rósavínið alltaf fyrst upp í hugann þegar ég heyri minnst á hann. Kannski af því þetta er svo fáránleg staðreynd. Var hann ekki múslimi? Mátti hann yfirhöfuð drekka áfengi? Og af hverju rósavín? Það heldur engin almennileg manneskja upp á rósavín. Rósavín er eitthvað sem maður pantar sér í einhverju flippi á kaffihúsi í útlöndum og fer strax eftir fyrsta sopann að sjá eftir því að hafa ekki bara annaðhvort fengið sér hvítt eða rautt. Og til að bíta höfuðið af skömminni er Mateus meira að segja ódýrt rósavín. Ef múslimskur einræðisherra drekkur á annað borð áfengi, ætti uppáhaldsdrykkurinn hans ekki að vera eitthvert fokdýrt kampavín? Eitthvað almennilega dekadent?

Eða kannski situr þetta með rósavínið í mér vegna þess að árið 2003 vann ég á litlum veitingastað með skóla. Það eru tíu ár síðan, en ég kann vínlistann enn utan að. Það var bara ein tegund af rósavíni á honum: Mateus.

Eitt kvöldið komu þrír karlar saman að borða. Þeir voru íslenskir, háværir og stórir. Ég man að þeir voru fullir þegar þeir komu og þeir pöntuðu sér tvöfalda gin og tónik fyrir matinn. Þeir sögðu digurbarkalegar sögur og hlógu hátt. Ég fór strax að hafa áhyggjur af því að lætin í þeim myndu trufla hina gestina, sem voru upp til hópa hæglátir Japanir sem höfðu lagt það á sig að villast um Þingholtin til þess að finna staðinn. Þegar mennirnir voru búnir með fordrykkina pöntuðu þeir allir skötusel. Ég spurði hvað þeir vildu drekka með matnum og sá sem var næst mér greip fast um upphandlegginn á mér. Ég brosti kurteislega til hans eins og mér þætti þetta eitthvað fyndið en reyndi um leið að snúa mig lausa. En hann herti bara takið, brosti og bað um rósavín.

Ég reyndi að halda mig frá honum það sem eftir var kvöldsins, en það er erfitt þegar maður þarf að þjóna einhverjum til borðs. Ég man að ég nýtti tækifærið og bætti á vínglösin þeirra þegar hann fór á klósettið. En það kom auðvitað að því að þeir kláruðu matinn sinn og ég þurfti að taka diskana. Um leið og ég var komin í færi greip hann um handlegginn á mér. Hann sagði eitthvað sem átti að vera fyndið. Ég var á launum við að vera kurteis svo ég þóttist hlæja. Hann dró mig nær sér, ég reyndi að streitast á móti en hann var sterkari en ég. Svo hélt hann mér fastri á meðan hann strauk mér um rassinn og sagði að sér hefði þótt fiskurinn alveg hreint afbragðsgóður. Ég man að hann var með giftingarhring. Alltof þröngan, einsog karlinn sem konan hans giftist hefði bara verið helmingurinn af þeim sem þarna sat. Ég man að ég brosti til hans á meðan hann strauk mér því ég vildi ekki styggja hann. Því ég var hrædd um að þá yrði hann reiður og myndi gera eitthvað sem gæti truflað hina gestina. Og ég fékk borgaðar 850 krónur á klukkutímann fyrir að tryggja að kvöldstundin þeirra væri sem ánægjulegust.

Það var ekki fyrr en seinna að ég fór að sjá eftir hlátrinum. Að sjá eftir brosinu, eftir kurteisinni. Ég sá eftir því að hafa ekki sagt honum ákveðin að gjöra svo vel að sleppa mér þegar hann greip um handlegginn á mér. Ég sá eftir því að hafa ekki hækkað röddina þegar hann herti takið. En mest sá ég eftir því að hafa ekki tekið rósavínsglasið hans, um leið og hann byrjaði að strjúka á mér rassinn, og skvett því framan í hann. Beint í andlitið, sem í minningunni er nákvæmlega eins og andlitið á Saddam Hussein.

Hildur Knútsdóttir,
meistaranemi í almennri bókmenntafræði


Comments

One response to “Andlitið á Saddam Hussein”

  1. Andrés Valgarðsson Avatar
    Andrés Valgarðsson

    Já, hann hefði allavega átt það skilið.

    Og það hefðu þurft að vera ansi ömurlegir matargestir (þ.e.a.s. hinir gestirnir) að láta það fara í taugarnar á sér.

    Ég veit allavega að mér liði mjög illa að vita það að einhver léti svona yfir sig ganga af ótta við að trufla matarupplifun mína. Hún hefur visst gildi auðvitað, en bara á ekki heima á sömu plánetu og rétturinn til að láta ekki káfa á sér.

    Matargestir geta verið niðursokknir í sitt og eru almennt ekki að pæla í hvað sé að gerast á næstu borðum, en lang LANG flestir sem ég þekki hefðu annaðhvort ekki kippt sér upp við það eða hreinlega klappað fyrir þér.

    Ég hefði allavega gert það.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *