Um höfundinn
Ingibjörg Þórisdóttir

Ingibjörg Þórisdóttir

Ingibjörg Þórisdóttir er doktorsnemi í þýðingafræðum og starfar á alþjóðasviði Árnastofnunar. Hún hefur einnig sinnt stundakennslu í Deild erlendra tungumála og í Sagnfræði- og heimspekideild við Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Ingibjörg er með meistarapróf í Mennta- og menningarstjórnun og bakkalárpróf í leiklist.

Leikritið Sjöundá er byggt á skáldsögunni Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson, en hún er eitt af höfuðverkum í skáldferli hans. Ég heyrði fyrst Svartfugl þegar ég hlustaði á  endurflutning á lestri höfundar í útvarpinu fyrir allnokkru. Ég heyrði bara einn lestur sem varð þó til þess að ég tók mig til og las söguna, eins og ég hafði raunar lengi ætlað mér. Svartfugl er kyngimögnuð saga og byggir hún á frægu morðmáli frá upphafi 19. aldar þar sem Bjarna Bjarnasyni og Steinunni Sveinsdóttur var gefið að sök að hafa myrt maka sína Guðrúnu Egilsdóttur og Jón Þorgrímsson. Gunnar Gunnarsson skrifaði söguna fyrst á dönsku en síðar var hún þýdd af Magnúsi Ásgeirssyni. Höfundur las söguna í ríkisútvarpið á 6. áratugnum og það var sú upptaka sem knúði mig til  lesturs bókarinnar.

Í sögunni er lýst mannlegum samskiptum, eymd, ástleysi, ofbeldi og tilfinningalegum kulda á afskekktum stað í okkar hrjóstruga landi. Mannlýsingar Gunnars eru magnaðar, mörkin eru óljós milli sektar og sakleysis og lesandinn er aldrei viss í sinni sök og hrollurinn hríslast um mann. Vonleysið er mikið en trúin sterk.

Ég var því nokkuð spennt  þegar Þjóðleikhúsið auglýsti frumsýningu leikhópsins Aldrei óstelandi á verkinu Sjöundá sem byggt er á þessari dulmögnuðu sögu.

Í bók Gunnars er það prestur nokkur, Eyjólfur Kolbeinsson sem rifjar upp þátt sinn í dómsmálinu og er um leið sögumaður verksins. Þessi mikilvæga persóna kemur reyndar ekki fram í leikritinu.  Í leikgerð Aldrei óstelandi eru fjórir leikarar sem fara með hlutverk hjónanna tveggja. Leikgerðin er ekki línuleg frásögn með hæðum og risi eins og í hefðbundinni leikhúsfrásögn. Leikhópurinn hefur afbyggt söguna, ef svo má segja, og er stundum ekki ljóst hver er að yfirheyra hvern. Samskipti fólksins eru í fyrirrúmi og eru ástarsenur áberandi sem eru þannig úr garði gerðar að þær eru meira í ætt við dans.

Leikstjórnarstíll Mörtu Nordal er nýstárlegur. Hún blandar saman gamalli upptöku með áður nefndum upplestri Gunnars Gunnarssonar á sögunni, upptökum, dansi og texta. Senur eru stuttar og ákafar og eru rammaðar inn af litlum eltiljósum. Fjórir sviðsmenn elta hvern leikara og það framandgerir verkið. Fjórði veggurinn, svokallaði, er rofinn, leikarar tala til áhorfenda líkt og þeir séu kviðdómur en þeir eru ekki dregnir inn í verkið.

Verkið er áleitið líkt og sagan. Leikararnir fjórir gera þetta með ágætum. Konurnar tvær eru þó trúverðugri í frásögn sinni og er lokaeintal Eddu Bjargar Eyjólfsdóttur sem sakakonan Steinunn, ákaflega vel flutt.

Leikmyndin er einföld; fjögur rúm á litlu sviði og áður nefnd eltiljós lýsa sýninguna. Í baksýn er myndband sem er kærkomin viðbót við annars fábreytta leikmynd. Í heildina er Sjöundá vel unnið verk. Aðdáendur bókarinnar fá þarna annað sjónarhorn en það ber að hafa í huga að verkið er aðeins lauslega byggt á bók Gunnars, ekki endurgerð á henni.

Leikarar: Edda Björg Eyjólfsdóttir, Harpa Arnardóttir, Stefán Hallur Stefánsson og Sveinn Ólafur Gunnarsson.

Handrit: Aldrei óstelandi
Leikstjórn: Marta Nordal


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *