Hver fær að blása á kertin? Frá Jónasi til Jóns

Um höfundinn
Jón Karl Helgason

Jón Karl Helgason

Jón Karl Helgason er prófessor í Íslensku sem öðru máli við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Hann hefur skrifað fræðibækur og -greinar, fengist við þýðingar og komið að ritstjórn tímarita, bóka og vefja á Netinu. Sjá nánar

Við safn Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri

Á undanförnum árum hefur verið haldið upp á tvö stórafmæli íslenskra þjóðardýrlinga; 200 ára afmælis Jónasar Hallgrímssonar var minnst árið 2007 og 200 ára afmælis Jóns Sigurðssonar var minnst á liðnu ári. Að flestu leyti áttu þessi afmæli fleira sameiginlegt með Schiller-hátíðinni í Þýskalandi 2005 en Andersen-afmælinu í Danmörku sama ár. Íslensku hátíðarnefndirnar lögðu takmarkaða áherslu á að ögra hugmyndum okkar um afmælisbörnin eða afmælisveislur af þessu tagi. Þegar litið er yfir dagskrá afmælisáranna eru flestir viðburðirnir fremur hefðbundnir; frímerkjaútgáfa, sýningar, málþing, útgáfa bóka, ritgerðasamkeppni og tónleikar. Í báðum tilvikum var auglýst opinberlega eftir hugmyndum og styrkir veittir til ólíkra verkefna. Svo virðist sem að minni fjármunum hafi verið varið í afmæli Jónasar árið 2007 eða um 50 milljónum króna.[1] Eitt óvenjulegasta verkefnið var þriggja daga Jónasarhátíð í Danmörku, þar sem meðal annars var farið í pílagrímaferð á slóðir skáldsins í Sorø og haldið málþing á Norðurbryggju.[2] Stærsta og um leið umdeildasta verkefnið árið 2011 var hins vegar viðamikil endurnýjun safns Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri. Áætlaðar voru fyrirfram 60-70 milljónir króna bara í þann lið en sumum Vestfirðingum þótti sem að þeim peningum væri betur varið í sjúkrahússrekstur í kjördæminu, sem var undir niðurskurðarhnífnum.[3]

Ein veigamikil afurð hvors afmælisárs um sig var opinber vefur um afmælisbarnið: Jónasar er minnst á slóðinni www.jonashallgrimsson.is og Jóns á slóðinni www.jonsigurdsson.is. Það er forvitnilegt að bera þessa vefi saman við líkneskin af þeim félögum sem Einar Jónsson myndhöggvari vann fyrir aldarafmæli þeirra 1907 og 1911. Í vissum skilningi eru vefirnir nútímalegir minnisvarðar um þjóðardýrlingana tvo í netheimum ‒ því opinbera rými sem stór hluti þjóðarinnar ver drjúgum hluta tíma síns á degi hverjum.  Munurinn er hins vegar sá að um og eftir aldamótin 1900 átti Stúdentafélagið mestan þátt í því að hefja Jónas Hallgrímsson áþreifanlega á stall með því að efna til almennra samskota meðal Íslendinga fyrir gerð styttunnar af honum.[4] Félagið átti einnig hlut að máli þegar hliðstæð söfnun hófst fyrir styttu af Jóni Sigurðssyni en í framhaldi af afhjúpun hennar var farið að gera afmælisdag hans að árlegum hátíðisdegi. Þarna komu ýmis fleiri félagasamtök einnig við sögu, svo sem Ungmennafélagshreyfingin.[5] Nú á dögum eru hins vegar stjórnvöld og opinberar stofnanir í lykilhlutverki. Alþingi ákvað formlega að verja hluta af skattpeningum almennings til hátíðarhaldanna árin 2007 og 2011 og fulltrúar þess mótuðu eða völdu þau verkefni sem voru talin þjóna best minningu afmælisbarnsins. Vefirnir tveir eru þeirra á meðal.

Vefurinn um Jón Sigurðsson er vistaður undir merkjum forsætisráðuneytisins enda var hann unninn að beiðni afmælisnefndar Jóns sem forsætisráðherra, Geir Haarde, skipaði árið 2007.  Í nefndinni sátu fulltrúar þeirra stjórnmálaflokka sem sæti áttu á Alþingi, þau Ásthildur Sturludóttir, Finnbogi Hermannsson, Kristinn H. Gunnarsson, Sigrún Magnúsdóttir og Sigurður Pétursson, en einnig Karl M. Kristjánsson starfmannastjóri Alþingis, Eiríkur Finnur Greipsson fulltrúi Hrafnseyrarnefndar og svo formaðurinn, Sólveig Pétursdóttur, sem verið hafði forseti Alþingis undanfarin tvö ár.[6] Vefurinn um Jónas Hallgrímsson var aftur á móti unninn á vegum Landsbókasafns – Háskólasafns og er vistaður á vegum þess en frumkvæðið kom þó frá sérstakri afmælisnefnd Jónasar sem skipuð var af menntamálaráðherra. Hugmyndin að nefndinni virðist hafa komið fram árið 2005  í samræðum menntamálaráðherra, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, og Halldórs Blöndal sem verið hafði forseti Alþingis undanfarin sex ár.[7] Var Halldór skipaður formaður nefndarinnar en aðrir í henni voru Margrét Eggertsdóttir, Páll Valsson, Sigrún Björk Jakobsdóttir, Jón G. Friðjónsson og Sveinn Einarsson. Vefurinn um Jón hefur að geyma margháttaðar upplýsingar um afmælisbarnið, lífshlaup þess, vísindastörf og stjórnmálaþátttöku, auk ítarlegrar skrár yfir prentuð ritverk, handrit og skjöl Jóns. Tilkomumesta efnið á vefnum er svokallaður Tímaás sem er margmiðlunarefni unnið í kringum myndir sem tengjast lífshlaupi og störfum Jóns, en hvort tveggja er sett í samband við ýmislegt annað efni úr samtíma hans.[8] Vefurinn um Jónas er ekki eins tilkomumikill og vefurinn um Jón en þó líklega efnismeiri, enda er þar að finna mikinn hluta þess ‒ skáldskap og önnur skrif ‒ sem Jónas skildi eftir sig í lausu og bundnu máli, sem og margvíslegar heimildaskrár. Vefurinn hefur þríþætt markmið: (1) „Að heiðra minningu Jónasar Hallgrímssonar skálds á 200 ára afmælisári hans.“ (2) „Að kynna verk Jónasar og gera þau aðgengileg á vefnum.“ (3) „Að vekja athygli á vísindamanninum Jónasi Hallgrímssyni.“[9] Báðir þessir vefir hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einstaka viðburði og verkefni sem tengdust viðkomandi afmælisári. Þeir eru því í raun ekki bara minnisvarðar um mennina tvo heldur einnig um afmælisveislurnar sem haldnar voru þeim til heiðurs. Að því leyti eru vefirnir sambærilegir við leikritiðThe Jubilee sem David Garrick samdi um fyrstu Shakespeare-hátiðina sem hann sjálfur skipulagði í Stratford-upon-Avon árið 1769.

Athyglisvert er að annar vefur helgaður Jónasi Hallgrímssyni,www.jonas.ms.is, var opnaður í tilefni af 200 ára afmæli skáldsins árið 2007. Um var að ræða samstarfsverkefni Mjólkursamsölunnar og auglýsingastofunnar Hvíta hússins. Vefurinn hefur að geyma 443 náttúruljóð eftir 119 íslensk ljóðskáld og var unninn í tengslum við veggspjald sem sömu aðilar létu hanna en það „samanstendur af 816 ljósmyndum úr íslenskri náttúru sem mynda í sameiningu andlit Jónasar“. Áður hafði fyrirtækið látið vinna samskonar veggspjöld með myndum af Jóni Sigurðssyni og Halldóri Laxness en þeim er lýst svo á vefnum: „Hið fyrsta kom út árið 1996, þar sem andlit Jóns Sigurðssonar var sett saman úr ljósmyndum af Íslendingum. Árið 2002, þegar 100 ár voru liðin frá fæðingu Halldórs Laxness, kom annað veggspjaldið út þar sem andlit Halldórs birtist gegnum tilvitnanir í íslensk bókmenntaverk. Með þessu þriðja veggspjaldi hefur MS dregið fram hina sönnu þrenningu íslenskrar menningar: land, þjóð og tungu.“ Þarna kemur einnig fram að öll veggspjöldin séu unnin í tengslum við slagorðið Íslenska er okkar mál en það er eins konar ávöxtur af áralöngu samstarfi Mjólkursamsölunnar við Íslenska málstöð. Við þróun Jónasarvefsins voru fyrirtækið og auglýsingastofan jafnframt í sérstöku samstarfi við Námsgagnastofnun, „sem dreifir veggspjaldinu í alla grunnskóla landsins. Á vef Námsgagnastofnunar, www.nams.is, er aðgangur inn á ljóðavefinn og þar er einnig að finna hugmyndir um hvernig nýta má vefinn í kennslu.“[10]

Í grein minni um 200 ára afmæli H.C. Andersen lét ég að því liggja að bæjaryfirvöld í Odense ættu einna stærstan hlut í minningu danska skáldsins. Aftur á móti virðist sem að forsætisráðuneytið fari, í umboði Alþingis, með ráðandi hlut í minningu Jóns Sigurðssonar á meðan menntamálaráðherra er í samskonar hlutverki gagnvart minningu Jónasar Hallgrímssonar. Sú rækt sem Mjólkursamsalan sýndi minningu Jónasar árið 2007, sem og minningu þeirra Jóns Sigurðssonar og Halldórs Laxness nokkrum árum fyrr, má aftur á móti tengja hugtakinu „co-branding“ („vörumerkjapúkki“) sem var fyrirferðamikið í umræðu þeirra sem stóðu að Andersen-árinu í Danmörku 2005. Munurinn felst þó í því að ytra lagði afmælisnefndin sig fram um að laða þekkta skemmtikrafta til að taka þátt í afmælishátíðinni á Parken, í og með til að auka líkurnar á sölu á sjónvarpsrétti frá henni til annarra landa. Hér heima virðist frumkvæðið fremur koma frá Mjólkursamsölunni, væntanlega í þeim tvíþætta tilgangi að auka veg Jónasar og neyslu mjólkurafurða meðal íslenskra skólabarna.

Þátttaka fyrirtækisins í Jónasarafmælinu minnir á að hverjum sem lystir er í sjálfu sér frjálst að fagna stórafmælum skálda og annarra genginna stórmenna á sínum eigin forsendum – baka afmælisköku, kveikja á kertum og blása á þau. Jafnframt vekja ummælin um veggspjöldin með þeim Jóni, Halldóri og Jónasi athygli á því að sem þjóðardýrlingar eru þeir í og með holdgervingar tiltekinna hugmynda eða hugmyndafræði; fulltrúar lands, þjóðar og tungu. Eiginlegt afmælisbarn áranna 2007 og 2011, rétt eins og áranna 1974 og 1994, er hugsanlega hin heilaga kýr íslenska þjóðríkisins.

Hver fær að blása á kertin? Frá Shakespeare 1769 til Schillers 2005.

Hver fær að blása á kertin? 200 ára afmæli H.C. Andersen 2005.


[1] Ingveldur Geirsdóttir. „Jónas er einu sinni Jónas,“ Morgunblaðið 16. nóvember 2007, bls. 29, vefslóð:http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=4175505, skoðað 29. febrúar 2012.
[2] Sjá „Jónasarhátíð í Kaupmannahöfn,“ Jónas Hallgrímsson 16. nóvember 1807 ‒ 26. maí 1845, vefslóð: http://jonashallgrimsson.is/index.php?page=jonasarhatid-i-kaupmannahoefn, skoðað 29. febrúar 2012.
[3] Hallgrímur Sveinsson Brekku í Dýrafirði og Hreinn Þórðarson Auðkúlu í Arnarfirði, „Byggja nýja heimreið og loka sjúkrahúsi,“ Pressan 30. október 2010, vefslóð:  http://www.pressan.is/pressupennar/Lesagrein/byggja-nyja-heimreid-og-loka-sjukrahusi, skoðað 29. febrúar 2012.
[4] Sjá nánar Jón Karl Helgason, „Manntafl sjálfstæðisbaráttunnar: hvernig rataði líkneski Jóns Sigurðssonar á Austurvöll?“ Andvari 136 (2011):, bls. 141-58 .
[5] Sjá nánar Páll Björnsson, Jón forseti allur? Táknmyndir þjóðhetju frá andláti til samtíðar, Reykjavík: Sögufélag, 2011.
[6] Sjá „Um verkefnið,“ Afmælisár Jóns Sigurðssonar 1811-2011, vefslóð:http://jonsigurdsson.is/um_verkefnid, skoðað 29. febrúar 2012.
[7] Ingveldur Geirsdóttir. „Jónas er einu sinni Jónas,“ Morgunblaðið 16. nóvember 2007, bls. 28, vefslóð:http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=4175505, skoðað 29. febrúar 2012.
[8] Tímaásinn var jafnframt hluti sýningarinnar Líf í þágu þjóðar sem var opnuð á Hrafnseyri 17. júní 2011. Sjá „Miðlun og útgáfa,“ Afmælisár Jóns Sigurðssonar 1811-2011, vefslóð:http://jonsigurdsson.is/midlun_og_utgafa/, skoðað 29. febrúar 2012.
[9] Sjá „Um vefinn,“ Jónas Hallgrímsson 16. nóvember 1807 ‒ 26. maí 1845, vefslóð:http://jonashallgrimsson.is/index.php?page=um-vefinn,  skoðað 29. febrúar 2012.
[10] Sjá „Íslensk náttúra í ljóðum,“ Íslenska er okkar mál, vefslóð: http://jonas.ms.is/umverkid.aspx, skoðað 29. febrúar 2012.

Deildu


Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *